05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (1839)

56. mál, launamál o.fl.

Sigurvin Einarason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls s.1. nótt beindi ég spurningum til hæstv. viðskmrh., sem hann svaraði mjög greiðlega. Það, sem ég spurði um, var þetta, hvernig hann rökstyddi það, að lífskjör almennings hefðu farið batnandi á undanförnum árum, síðan viðreisnarstefnan kom til. Og ég spurði um það, hvort hann teldi, að sú fjárhæð, sem nú er í útreikningi vísitölu framfærslukostnaðar til húsnæðiskostnaðar, væri rétt eða sanngjörn. En þessi upphæð er um 920 kr. á mánuði. Tilefnið til þess, að ég spurði hæstv. ráðh. um þessi atriði, var það, að hæstv. ráðh. virðist hafa haft það hlutverk í hæstv. ríkisstj. frá upphafi að túlka það fyrir þjóðinni, að lífskjörin hafi farið sífellt batnandi, síðan viðreisnarstefnan kom til. Þetta hefur hæstv. ráðh. gert í öllum sínum ræðum og skrifum um margra ára skeið. En það mega þeir eiga, hæstv. ráðh. hinir, að um þetta hafa þeir sagt alveg sitt á hvað. Þeir hafa ýmist sagt, að lífskjörin færu batnandi, eða þeir hafa sagt, að það hafi verið óhjákvæmilegt að leggja byrðar á almenning í bili og skerða með því lífskjör hans. Ég er ekki að segja, að það sé neitt virðingarverður málflutningur að segja sitt á hvað, en ég held nærri því, að það sé betra en hjá hæstv. viðskmrh. að halda hinu fram.

En hæstv. ráðh. hefur alla tíð staðið fast á þessari skoðun sinni og hvergi hikað. Það er því um hann líkt og Galílei forðum, sem hvíslaði á úrslitastund : „Og samt snýst hún“ Ég er ekki þar með að leggja að jöfnu þessa tvo vísindamenn, Galilei og núv. hæstv. viðskmrh., því að annar hafði rétt fyrir sér, en hinn rangt. Ég hafði í rauninni í nótt sýnt fram á nokkur atriði, sem að mínum dómi sanna það, að lífskjör almennings hafi farið versnandi. Ég benti m.a. á, að á undanförnum sjö árum hefur vísitala neyzluvöruvarnings hækkað um 80%, og þessu hefur aldrei verið mótmælt, að af þessum 80% var hækkunin 101/2 % fyrstu þrjú árin, þ.e. frá 1. okt. 1956 til 1. okt. 1959, en fjögur síðustu árin, frá 1. okt. 1959 til 1. okt. 1963, hefur hækkunin orðið 691/2%. Hæstv. ráðh. bar ekki við að mótmæla þessu. Ég nefndi einnig, að vísitala tímakaups Dagsbrúnarverkamanns hefði hækkað á þessum 7 árum um 53%, þegar vísitala neyzluvöruverðlagsins hefði hækkað um 80%. Hann mótmælti þessu ekki heldur. Ég sýndi í þriðja lagi fram á það, að kaupmáttur tímakaups væri lægstur núna í október 1963, sem hann hefði verið frá því í janúar 1958, en nú er hann 82 stig á móti 100 1945 og móti 104 í des. 1958. Á þessu tímabili hefur vísitala kaupmáttarins aldrei orðið lægri en hún er nú.

Og hver voru svo svör hæstv. ráðh. við þessu, til sönnunar því, að samt hefðu lífskjörin farið batnandi? Ég heyrði þau ekki, og hafi hann komið með þau, þá skildi ég þau ekki. En hæstv. ráðh. svaraði, jafnvel þótt hann væri orðinn ákaflega syfjaður, sem von var, þegar klukkan var hér um bil fjögur, en hann svaraði, og það er háttur hans og það er virðingarvert að reyna þó að svara, þótt erfitt sé að svara, — hann byrjaði reyndar dálítið út í hött, hann fór að tala um kosningar í Barðastrandarsýslu 1956, þegar hann átti að svara því, hvort lífskjör almennings hefðu batnað á síðustu árum. Það getur stundum verið gott ráð að fara að tala um eitthvað annað en maður á að tala um, þegar hann er í vandræðum. Nú hef ég ekkert á móti því að ræða við hæstv. ráðh. um kosningar í Barðastrandarsýslu 1956. Hann sagðist þá hafa verið þar á ferð me,ð mér og hv. 1. þm. Vestf., og hann hældi mér á hvert reipi, ég hefði staðið mig alveg ágætlega. (Forsrh.: Þá hefur hann verið orðinn mikið syfjaður.) Þá var hann vakandi. Það var í nótt, sem hann var syfjaður. Hann var vakandi þarna um vorið. Það getur dugað í einstökum tilfellum að nota skjall, en það dugir ekkert á mig. En hitt skal ég játa hreinskilnislega, að þarna hitti ráðherrann á veikasta punktinn hvað mig snertir, því að það verð ég að segja alveg eins og er, að ég get varla komizt hjá að roðna, þegar minnt er á það, að ég hafi verið í pólitískum félagsskap með Alþfl., jafnvel eins og hann var þá, hvað þá heldur eins og hann er nú. Árangurinn af því að hafa hæstv. núv. viðskmrh. í ferðalagi með sér 1956 varð sá, að þá fékk ég 41% af greiddum atkv. í Barðastrandarsýslu, og var þá talið, að allur Alþfl. væri með mér, enda hefði hæstv. núv. viðskmrh. gengið svo frá, að þar bilaði enginn. En það var kosið þremur árum seinna, vorið 1959. Þá hafði ég engan Alþfl. til stuðnings og enga Gylfaginningu til stuðnings, og hvernig urðu úrslitin þá? Þá fékk ég 43%. Ég græddi á því að vera laus við Alþfl., og ég held, að allir græði alltaf á því að vera lausir við hann.

Hæstv. viðskmrh. endurtók í nótt fyrri staðhæfingu sina um vísitölu framfærslukostnaðar, þá staðhæfingu, að þessi vísitala hafi aldrei sýnt og hafi aldrei átt að sýna raunveruleg útgjöld meðalfjölskyldu í landinu. Ég sagði það þá, að ég hefði ekki heyrt þessa staðhæfingu fyrr, og ég efast um, að nokkur maður hafi heyrt hana, fyrr en hann kom með hana í ræðu við 1. umr. þessa múls: Ég las upp úr Hagtíðindum frá því í apríl 1959, þar sem gerð er grein fyrir, hvernig vísitalan er reiknuð út og hvaða rannsókn hafi farið fram, áður en hún var upp tekin, áður en var tekin upp sú regla að reikna hana á þennan hátt. Þetta er allt frá 1939, og ég get gjarnan endurtekið þessi fáu orð, þau standa í Hagtíðindum, í aprílhefti 1959, þar sem segir, að 50 launþegar hafi verið fengnir til að halda búreikninga eitt ár frá júlíbyrjun 1939 til júníloka 1940. Og loks segir: „Þessi grundvöllur var reiknaður miðað við verðlag á fyrsta ársfjórðungi 1939, og var heildarútgjaldaupphæð hans látin jafngilda frumtölu 100.“ En hæstv. ráðh. segir, að það sé miðað við tekjurnar, en alls ekki útgjöldin, þegar lagður var grundvöllur að vísitölunni. Þó stendur þarna skýrum stöfum, að heildarútgjaldaupphæðin hafi verið lögð til grundvallar. Og enn segir í sama hefti Hagtíðinda um rannsóknina á vísitölugrundvellinum 1953—1954, að hún hafi verið byggð á rannsókn á neyzluvali almennings, grundvöllurinn hafi verið byggður á búreikningum launþegafjölskyldu, og niðurstaðan er þessi orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Lokaniðurstaðan varð sú, að frá 80 fjölskyldum fengust nothæfar skýrslur um ársútgjöld þeirra.“ Samt kemur hæstv. ráðh, hér og segir, að þetta sé allt saman vitleysa og blekking, það hafi aldrei verið miðað við útgjöld fjölskyldunnar, heldur tekjurnar. (Menntmrh.: Heldur þú, að fólkið hafi engar tekjur haft?) Það var ekki miðað við þær fyrir það. Það sér hver einasti maður, að þarna er reiknað út það magn, sem fjölskyldan notar, með því verði, sem þá er, og þetta er grundvöllurinn. Þetta á allt að vera markleysa, ekkert að marka Hagtíðindin!

Hver er svo tilgangur hæstv. ráðh. með að halda þessari kenningu fram, halda þeirri kenningu fram, að útgjaldaupphæðin, sem stendur í Hagtíðindunum í októberhefti núna, 95 500 kr. yfir árið, reiknað með rúmlega 900 kr. húsnæðiskostnaði á mánuði, sé markleysa? Á þá hæstv. ráðh. við það, að útgjöldin séu kannske miklu minni, þetta sé allt vitlaust hjá hagstofunni, það sé ekkert að marka þetta? Ég vil spyrja hæstv. ráðh. Meinar hann það, að útgjöldin séu miklu minni? Eða meinar hann kannske, að þau séu miklu meiri? Hvað meinar hann? Það getur enginn tilgangur verið í þessari kenningu hans, ef hann á við það, að útgjöldin séu meiri, því að þeim mun meiri nauðsyn er á því að hækka kaup þeirra láglaunamanna, sem geta ekki staðizt þessi útgjöld. Nei, hann meinar það áreiðanlega ekki. Hann hlýtur að meina hitt, að útgjöldin séu miklu minni. En ef þessi útgjöld eru minni, þá er ekki hægt að lækka þau með öðru móti en minnka það magn af hverri einustu vörutegund, sem hagstofan reiknar með. Það er ekki hægt að fá þessa upphæð niður með öðru móti en minnka magnið, sem reiknað er með í grundvelli vísitölunnar, því að verðlaginu verður ekki breytt, þó að hæstv. ráðh. kannske vildi það nú, þá hefur hann a.m.k. ekki gert það. Og hvað á þá að minnka? Er talin of mikil mjólk, sem fjölskyldunni er ætlað að neyta? Er talið of mikið kjöt? Er talinn of mikill fatnaður? Er talið of mikið brauð? Hvað er það, sem á að minnka? Eitthvað verður það að vera, ef þessi tala á að lækka. Ég verð að segja, að það sé með öllu vonlaust fyrir hæstv. ráðh. að halda þessu fram, að vísitala framfærslukostnaðar sé út í loftið, hún sé ekki byggð á útgjöldum, sem fundin eru með ýtarlegri rannsókn. Hitt er aftur á móti rétt, sem ég skýrði frá í nótt, að vísitölu framfærslukostnaðar, eins og henni er núna hagrætt af stjórnarvöldunum, er ekkert að marka, miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, sem var fyrir 1. marz 1959, því að það er búið að gerbreyta henni. En vísitala neyzluvöruverðsins er reiknuð út með sama hætti og alltaf hefur verið gert, og sú vísitala væri nú 331 stig, ef henni hefði ekki verið breytt, hvorki verið breytt í 100 1. marz 1959 og ekki heldur breytt útreikningnum með því að taka inn fjölskyldubætur og beina skatta. En þetta er staðreynd, og ég veit, að hæstv. ráðh. neitar þessu ekki. Hún væri 331 stig núna, ef hún væri reiknuð með sama hætti og áður.

En vísitölugrundvellinum er ekki hægt að mótmæla. Það er ekki hægt að segja hagstofuna fara með blekkingar. Hún skýrir rækilega frá þessu, og það hef ég lesið upp. Og ég vil heita á hæstv. ráðh. að reyna að fá eitthvert vitni með sér til þess að staðfesta kenningu hans, ef hann getur fengið það hér innan þings. Ég bíð eftir því, að einhverjir komi, einn eða tveir. Ég býst við, að það verði aldrei fleiri, sem fást til þess að staðfesta þessa kenningu hæstv. ráðherra.