05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (1840)

56. mál, launamál o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað hér á mál manna síðan við upphaf 1. umr. þessa máls, og ég álft eðlilegt að leggja nú nokkur orð í belg við þessa síðustu umr. málsins hér í hv. d. og þá einnig meðfram til þess að svara sumu af því, sem til mín hefur verið beint af ýmsum í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið af hendi hæstv. ríkisstj.

En áður en ég kem að því, vil ég biðja menn að beina huganum að því, rifja það upp fyrir sér í huganum, að hverju þessar umr. hafa beinzt af hendi hæstv. ráðh., sem einir að undanskildum frsm. meiri hl. fjhn. hafa talað hér fyrir þessu máli stjórnarflokkanna. Hafa þessar umr, af hendi þeirra yfirleitt beinzt að því að sýna fram á, að þetta frv. sé réttmætt eða sanngjarnt? Hafa þeir gert tilraunir til þess að sýna fram á, að það væri sanngjarnt að lögbinda verkamannakaup núna 67 þús. kr. og banna með lögum að hækka það frá því, svo að ég nefni dæmi? Nei, þeir hafa ekki treyst sér til að verja þetta með því, að þetta væri sanngjarnt og eðlilegt, ef undan er skilin einhver lítils háttar tilraun í þessa átt af hendi hæstv. viðskmrh., og var mér þó ekki vel ljóst, hvort átti að skilja ummæli hans beinlínis þannig, að hann leyfði sér að bera sér það í munn, að þetta væri sanngjarnt. En í kringum það var hann þó að tala. Það er þá líka aleina tilraunin, sem gerð hefur verið úr stjórnarherbúðunum til þess að sýna fram á, að það nálgist nokkuð að geta heitið réttlæti eða yfirleitt að það gæti staðizt að lögfesta verkamannakaup 67 þús. kr. á ári.

Hafa menn orðið varir við það, að hæstv. ráðh. hafi reynt að færa rök fyrir því, að það væri sanngjarnt og eðlilegt að banna með lögum að samræma kaupgjald skrifstofufólks og verzlunarfólks við kaupgjald sams konar fólks, sem vinnur í þjónustu ríkisins? Hafa hæstv. ráðh. reynt að færa rök fyrir því, að þetta sé sanngjarnt eða þetta geti yfirleitt staðizt? Hvaða rök ættu að vera fyrir því að banna einkafyrirtækjum og félagsfyrirtækjum í landinu með lögum að greiða sama kaup og ríkisvaldið ákveður sjálft að greiða því fólki, sem vinnur fyrir það nákvæmlega sams konar störf, því að um það er að ræða í mörgum dæmum? Væri nú ekki rétt fyrir hæstv. ráðh. að reyna að lofa mönnum að heyra einhver frambærileg rök fyrir þessu, áður en þeir berja þetta mál hér í gegnum þessa hv. d.? Það hefur sem sé ekki vottað fyrir því enn þá, að hæstv. ráðh. hafi reynt að sýna fram á, að í þessu væri nokkurt réttlæti eða nokkur sanngirni eða yfirleitt, að þetta gæti staðizt, enda býst ég við því, að þetta sé algert einsdæmi, að svona sé farið að í nokkru landi. Ég geri tæpast ráð fyrir því, að það geti nokkurs staðar verið til, að ríkisvaldið sé notað til þess að banna, að aðrar kaupgreiðslur í landinu séu í samræmi við kaupgreiðslur þess fyrir sams konar störf. En í staðinn fyrir að reyna að færa rök að þessu er bara hamrað á því, að það sé komið þannig með framleiðsluatvinnuvegi landsins, að þeir geti ekki borgað hærra kaup, og það enda þótt nýbúið sé, ýmist með beinu samþykki hæstv. ríkisstj. eða a.m.k. hún hefur horft á það algerlega afskiptalaust, að hækka svo að segja allt hærra kaupgjald í landinu, eins og hér hefur verið rækilega sýnt fram á í þessum umr.

En þegar kemur að því að fá fram leiðréttingar á þessu kaupgjaldi, sem ekki fær með nokkru móti staðizt, þá tekur ríkisstj. síg til og heimtar, að kaupgjald sé fastbundið með lögum, og segir: Það er ekki hægt að borga hærra kaup. — Og það er dálítið gott dæmi um það, sem þá er gripið til í sambandi við röksemdafærsluna, að hæstv. viðskmrh, var sendur út af örkinni til þess að sanna þetta í gær. Menn yrðu að sjá það, að stjórnin hefði ekki átt annan kost en að lögfesta kaupið, og rökin voru þessi: Það eru greiddar út 1800 millj. í vinnulaun á vegum sjávarútvegsins, sagði hæstv. viðskmrh. og leggur þar, að því er manni skilst, ef þá nokkuð er að marka þessa tölu, í einn bunka öll laun, sem greidd eru beint eða óbeint á vegum sjávarútvegsins, ekki aðeins laun eða hlutagreiðslur á öllum bátaflotanum og laun allra þeirra, sem koma nærri öllum fyrirtækjum, sem vinna beint í þágu sjávarútvegsins, heldur jafnvel einnig laun annarra, sem vinna óbeint í þágu sjávarútvegsins. Síðan segir hæstv. ráðh., og það eru rökin: Verkamenn hafa heimtað 40% kauphækkun, og þess vegna er ekki nema um tvennt að ræða, að hækka allt þetta kaup, eins og það leggur sig, um þessa kröfu, 40%, eða setja löggjöf um, að ekki megi hækka neitt kaup í landinu um einn einasta eyri. — Þetta eru rökin.

Þetta eru rök hæstv: ráðh. Hann segir: Þið sjáið, að það er ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort verður að hækka allt kaupgjaldið um þessi 40%, sem verkamenn hafa óskað eftir, það hæsta jafnt sem annað kaup, og það kostar 700 millj., segir ráðh., eða banna allar hækkanir. Krafa verkamanna um lagfæringu á þeirra kaupi, segir ráðh., að kosti 700 millj., og því sé ekki annað að gera en gripa til þess að lögfesta kaupið. Svo segjast þessir hæstv, ráðh. endilega vilja samninga, en menn hljóti að sjá, að jafnvel þótt þeir séu uppfullir af samningsvilja, þá hljóti þeir að gera þetta, þegar verkamenn óski nú eftir kauphækkun, þeim sé nauðugur einn kostur. Og vegna hvers? Vegna þess að það séu borgaðar alls út 1800 millj. á vegum sjávarútvegsins og 40% hækkun á því öllu saman mundi verða óviðráðanlega há fjárhæð. En samninga segjast þeir samt vilja við verkamenn umfram allt.

Ætli það hefði ekki verið ofur litið nær lagi og raunsærra fyrir hæstv. viðskmrh. að greina frá því, að vandamálið, sem fyrir lá, voru óskir um hækkun á kaupi landverkafólksins, fyrst og fremst landverkafólksins og þess fólks, sem hefur lægst launin? Ætli það hefði ekki verið heiðarlegra fyrir hæstv. viðskmrh., ef hann vildi ræða þetta vandamál eins og það raunverulega liggur fyrir, að upplýsa, að allt kaupgjald í öllum hraðfrystihúsunum samanlagt er langt undir 200 milljónum króna. Ætli það gefi ekki ögn sannari mynd af því vandamáli, sem hér er nú við að fást?

Síðan fór hæstv. ráðh. að segja frá, hvað það væri fjarri lagi, að hægt væri að ráða við svona viðfangsefni, eins og menn sæju á þessum risatölum, sem hann hefði nefnt, og hefðu þá ýmsir verið að spreyta sig á því að leggja til ýmis úrræði, en það var allt svo smávægilegt, sem til var tint, að bað væri eins og dropi á móti þessum hafsjó, sem annars vegar væri við að glíma. Ætli það hefði þá ekki einnig verið nær því að upplýsa þetta vandamál að gera grein fyrir því, að hraðfrystihúsin munu borga um 60—70 millj. kr. í útflutningsgjaldið eitt? Samanlögð laun allra harðfrystihúsa, þar með talin öll laun, ekki þeirra lægst launuðu aðeins, öll laun í hraðfrystihúsum, líka þeirra hæst launuðu, allra, eru talsvert mikið innan við 200 millj., en þau verða að skila útflutningsgjaldi upp á 60—70 millj. Og hefði það ekki líka verið ögn heiðarlegra fyrir hæstv. ráðh. að upplýsa einnig, í staðinn fyrir að vera með þessar blekkingar, sem hann kom með í sambandi við vextina í þessu sambandi, að það getur ekki farið hjá því, að vextirnir í hraðfrystihúsunum eru upp undir álíka fjárhæð og útflutningsgjaldið, og byggi ég það á upplýsingum, sem ég hef fengið um verðreikninga í hraðfrystihúsunum, bæði fyrr og síðar, og raunar skýrslum, sem ég veit að eru til frá þeim um þessi efni. M.ö.o.: verkefnið, sem hér lá fyrir, var að leysa úr sanngjörnum óskum þeirra lægst launuðu í landinu fyrst og fremst, verkafólksins, og þá liggur dæmið svona fyrir, eins og ég hef verið að lýsa, en ekki á þá lund, sem hæstv. ráðh. var að skrumskæla þetta mál í gær til afsökunar fyrir því fáheyrða frumhlaupi, sem hér er verið að framkvæma.

Til viðbótar þessu koma svo aðrir liðir, sem til greina getur komið að slaka til á til þess að leysa þennan vanda, og ég hef það fyrir satt, að t.d. varðandi saltfiskverkun og skreiðarverkun sé kaupgjaldið þó enn minni hluti tiltölulega af heildarframleiðsluverðinu en í frystihúsunum. Sannleikurinn er sá, og það vitum við, að það eru hraðfrystihúsin, sem fyrst og fremst eiga við erfiðleikana að etja í sambandi við lausn á þessu vandamáli, þau fyrst og fremst. Aðrar stofnanir við sjávarsiðuna, sem taka á móti fiskafla, eiga alls ekki við sams konar erfiðleika að stríða. En hjá hraðfrystihúsunum lítur dæmið út eins og ég hef sagt.

Síðan kemur hæstv. viðskmrh. og aðrir talsmenn ríkisstj. og segja, að það sé ábyrgðarleysi og lýðskrum og jafnvel þaðan af verra að leyfa sér að benda á, að hægt sé að leysa þetta mál öðruvísi en með því að lögbinda það kaup, sem nú er greitt. Þá vil ég segja, að ef til þarf að gripa, ef t.d. útflutningsgjaldið væri lækkað verulega og aðrar álögur á fiskiðnaðinn, þá hefur ríkið yfir nægilegu fjármagni að ráða til þess að leysa það vandamál. Ríkistekjurnar fara mörg hundruð millj. fram úr áætlun á þessu ári, þannig að það, sem þyrfti að nota af ríkisfé til þess að leysa þetta vandamál, yrði ekki nema litið af þeim gífurlegu umframtekjum, sem sópað er nú í ríkissjóðinn með þeim álögum, sem hafa verið lagðar á landsmenn og meiningin er að láta standa áfram.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir berja hæstv. ráðh. höfðinu við steininn og segja: Það er engin önnur leið til út úr ógöngunum. — Þeir treysta sér auðvitað ekki til að halda því fram, að það sé nokkur sanngirni til í þessu eða neitt réttlæti. Þeir þora ekki að ræða þá hlið málsins hreinlega, þora það ekki, treysta sér ekki til þess, tönglast sífellt á því, að vandamálið sé óleysanlegt. Það á að telja þjóðinni trú um, að það sé óleysanlegt að ganga nokkuð til móts við kröfur þeirra lægst launuðu, þótt það sé metár í allri framleiðslu og fyrir liggi, þannig að ekki verður um deilt, að það er ómögulegt fyrir fjölskyldumenn að lifa á því kaupi, sem borgað er fyrir venjulegan vinnudag. Hafa menn svo athugað, hvílíkur vitnisburður það er um árangur viðreisnarinnar, sem þessir hæstv. ráðh. eru að flytja hér dag eftir dag, þegar þeir segja: Framleiðslan þolir ekki að hækka verkamannakaupið frá því, sem það er í dag? — Framleiðslan þolir það ekki. Það er sama og að slá því algerlega föstu, að íslenzk framleiðsla geti ekki með nokkru móti staðið undir mannsæmandi launum handa því fólki, sem við hana vinnur, nema því aðeins að það vinni miklu lengri vinnutíma en tíðkast nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli.

Og hverjir hafa þá leikið framleiðsluna í landinu á þessa lund, ef svona er komið? Ekki var svona ástatt fyrir örfáum árum. Hverjir hafa þá leikið hana svona? Ekki hafa orðið áföll af náttúrunnar hendi, aflinn er betri en nokkru sinni áður, verðlagið ágætt. Geta hæstv. ráðh. ekki séð, að það er eitthvað bogið við þetta? Geta þeir ekki séð, að það hlýtur eitthvað að vera bogið við þetta? Það þarf að reikna þetta dæmi allt upp aftur. Þeir mega ekki bíta sig í þessa fá sinnu og snúast alltaf í þeim hring, sem þeir virðast hrærast í. Þeir verða að reyna í alvöru, ef þeir ætla ekki að fara frá, verða í alvöru að reyna að finna leiðir til að koma fram á þessu raunverulegum lagfæringum, því að reyni þeir að fara þessa leið í bili, að halda niðri kaupi verkamanna og bænda með svona ráðstöfunum, þá stendur það ekki stundinni lengur. Þeir leysa ekkert með því. Þeir auka aðeins stórkostlega vandann, vegna þess að það verða alls konar framleiðslutruflanir og stórfelld vandkvæði, sem fylgja í kjölfar þess að fara svona fruntalega að. Ég er alveg hissa á því, að hæstv. viðskmrh. skuli halda, að svona röksemdafærsla, ef því nafni skyldi kalla það, eins og hann leyfði sér að viðhafa, hafi nokkra þýðingu til að upplýsa þetta mál.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að framsóknarmenn væru ábyrgðarlausir, og hann talaði nm pólitíska spekúlanta, það áttu vist að vera við. En ég hef nú bent á málflutning þessa hæstv. ráðh., og ég segi: Það er fullkomlega ískyggilegt, þegar þeir, sem settir eru fyrir málefni þjóðarinnar, æsa sig upp á þessa lund og flytja mál sitt á þann hátt, sem hæstv. viðskmrh. gerir, og það ástand er beinlínis hættulegt, þegar slíkir menn eiga að taka ákvarðanir nm hin vandasömustu mál. Það er auðvitað ákaflega þýðingarmikið, að stjórnarandstaðan sé ábyrg og reyni af fremsta megni að vera það og benda á skynsamlegar leiðir, þó að hún eigi að mörgu leyti mjög erfitt með að benda á úrræði í einstökum atriðum, vegna þess að það er haldið fyrir henni þýðingarmiklum upplýsingum, því að það er nú síður hér. En það er a.m.k. ekki þýðingarminna, að stjórnin sjálf, sem falið hefur verið forræði landsmálanna, sé ábyrg, ekki aðeins í þeim till., sem hún gerir, heldur einnig í málflutningi sínum.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að við hefðum ekki bent á neinar leiðir í þessu sambandi. Það er vitaskuld algerlega rangt. Hann sagði, að það væru aðrir, sem væru þó ábyrgari en við, en mundu vera hlynntir framsóknarmönnum, og það væru forráðamenn frystihúsanna á vegum samvinnufélaganna, sem nýlega hefðu komið saman til fundar. Og hann sagði: Þeir bentu á úrræði, sagði hæstv. viðskmrh. Og svo taldi hann upp, hver væru úrræðin: Að vextir væru lækkaðir. Höfum við ekki bent á það? Að útflutningsgjald yrði lækkað. Höfum við ekki bent á það? Að tollar á nauðsynjum til útgerðarinnar og sér í lagi til fiskvinaslunnar yrðu lækkaðir. Höfum við ekki bent á það? Að það yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að afla lánsfjár, svo að t.d. frystihúsin settu auðveldara með að fá sér nýtízku vélar og vélbúa sig og koma við allri eðlilegri tækni. Höfum við ekki einmitt bent á það, sem eitt aðalúrræði í þessum málum?

M.ö.o.: hæstv. ráðh. telur það ábyrgðarleysi, þegar við bendum á þessi úrræði, en þegar aðrir gera það, þá sýnist þetta vera góð og gild vara. Hitt er svo annað mál, að hæstv. ráðh. tók sér síðan fyrir hendur að gera lítið úr þeim árangri, sem af þessum úrræðum gæti leitt, ef til þeirra væri gripið. En þar greip hann til þess að snúa staðreyndunum algerlega við, því að þá kom hann inn á þetta dæmalausa, sem ég var að lýsa áðan, að vandamálið væri þannig vaxið, að það yrði að hækka um 40% allt kaupgjald allra, sem kæmu nálægt sjávarútvegi. Það væri ekki nema um tvennt að ræða, annars vegar það eða að lögbinda allt kaupgjald í landinu. Það er auðvitað ekkert annað en fölsun á staðreyndum að halda þessu fram, að málin liggi fyrir á þessa lund, eins og ég hef hér rækilega rakið.

Ég verð að segja, að ég harma það, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa gripið til þess óyndisúrræðis, sem þessi löggjöf er, í stað þess að fara hina leiðina, sem við höfum bent á og rökstutt á þann hátt, að það er ómögulegt að komast fram hjá því. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn, þessi leið er til og hún mundi vera líkleg til þess að leiða til sátta í þessum málum og koma á eðlilegu samstarfi um þau.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að það væri til marks um óvandaðan málflutning framsóknarmanna og minn sérstaklega, að ég væri alltaf að hamra á því, að meðalfjölskylda þyrfti 95 þús. kr. til að geta lifað og þó meira, vegna þess að þá væri aðeins reiknað með 922 kr. í húsaleign, og því þyrfti meðalfjölskylda eftir vísitölugrundvellinum í raun og veru talsvert mikið yfir 100 þús. kr. til þess að geta lifað. Hann sagði, að það væri ósvífni að nota þessa tölu í samanburði við það kanpgjald, sem þyrfti að greiða í landinu, eða kaupið, sem nú ætti að lögfesta, vegna þess að vísitalan sýndi alls ekki, hvað menn þyrftu á að halda til þess að geta lifað.

Hv. 3. þm. Vestf. (SE) hefur nú svarað þessu svo rækilega, að það þarf ekki við það að bæta, því að þessi tala í Hagtíðindunum er byggð á því, sem skýrslur sýna að ákveðin tala af fjölskyldum hefur þurft til að geta lifað. En mér grömdust þessar blekkingar hæstv. ráðh., og ég kallaði fram í fyrir honum og spurði hann að því, hvort hann vildi þá ekki gera málið einfalt með því að gera bara arein fyrir því, hvernig ætti að lifa af 67 þús. kr. á ári. Það vildi ráðh. ekki gera, hann skaut sér undan því og hélt áfram að tala um lýðskrum annarra.

En nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Vill hann ekki gera þetta? Hann er sjálfur að leggja það til að lögfesta þetta kaup sem greiðslu fyrir 8 stunda vinnudag, 67 þús. kr. Er það lýðskrum eða ósvífni að fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann geri tilraun til að gera mönnum grein fyrir því, hvort hægt er fyrir fjölskyldu að lifa af þessu eða ekki? Og ég spyr hæstv. ráðh. enn, ég sé, að hann er ekki við. (Menntmrh.: Jú, hann er hér.) Og ég spyr hæstv. ráðh. enn: Vill hann ekki gera tilraun til þess arna? Veit hæstv. ráðh,., hvað húsaleigan er orðin? Hefur hann hugmynd um það? Hvað heldur hann, að fjölskylda þurfi að borga nú mörg þús. kr. á mánuði í húsaleign, og hvað heldur hann, að muni vera mikið eftir af þessu kaupi á mánuði, þegar búið er að greiða viðreisnarhúsaleiguna, að ég nú ekki tali um, hvað unga fólkið muni þurfa að borga í húsnæðiskostnað, sem .er að. reyna .að koma sér upp íbúðum núna með nýja verðinu, sem viðreisnin hefur lagt grundvöllinn að?

Ég held, að það sé engin ósvífni að krefjast þess af hæstv. ráðh., að hann geri grein fyrir því, hvernig hann hugsar sér, að þetta sé hægt. Það er ekki hægt að sleppa frá þessu með einhverju fimbulfambi um tölur, sem enga stoð eiga í veruleikanum, eða fimbulfambi fram og aftur um vísitölugrundvöllinn. Við skulum bara sleppa því að ræða nokkuð um vísitölugrundvöllinn. Við skulum halda okkur að þessu, fyrst ráðh. vill það. Við skulum alveg hætta að hugsa nokkuð um þessa vísitölu eða hvað sett er á hagskýrslur og yfirleitt hætta að hugsa um þessa talnaþvælu, sem hæstv. ráðh. er hér sífellt með. Við skulum þess í stað velta fyrir okkur staðreyndunum einföldum. Ég fer fram á, að ráðh. velti fyrir sér staðreyndunum og reyni að gera mönnum grein fyrir því, hvernig á að fara að því að lifa á verkamannakaupinu. Sömuleiðis, hvernig bændur eiga að geta lifað af þeim tekjum, sem þeim eru ætlaðar. Er það mögulegt, að hæstv. ráðh., sem er hagfræðingur, sjái ekki, hvað þeir eru búnir að gera, þegar hann athugar þessa staðreynd um kaupgjaldið í landinu og kostnaðinn við húsnæðið og kostnaðinn við að lifa, og svo hins vegar aftur fullyrðingarnar, sem þeir eru með um afkomu framleiðslunnar? Hvað eru þeir búnir að gera við íslenzkan þjóðarbúskap? Finnst þeim þetta ekki glæsilegur árangur af viðreisninni, sem þeir eru sjálfir að lýsa? Finnst þeim hann ekkí glæsilegur? Ef hann er glæsilegur, þá vantar eitthvað inn í lýsinguna hjá þeim sjálfum. Þá vantar t.d. þetta, sem ég var að fara fram á áðan, að gerð sé grein fyrir því, hvernig menn eiga að lifa á kaupinu.

Ég get alveg eins búizt við því, að hæstv. ráðh. svari þessu, ef hann þá svarar því, á þá lund, að hann segi: Byrjaður er hann enn með lýðskrumið. Hann miðar við 8 stunda vinnudag. Hverjum dettur í hug að miða við 8 stunda vinnudag? Það á að miða við miklu lengri vinnudag, segir ráðh. Menn hafa miklu meiri tekjur en þetta. Menn vinna á nóttunni, menn vinna fram eftir öllum kvöldum, og menn hafa meiri tekjur, menn geta vel lifað. Það er allt í lagi með að lögfesta þetta kaup.

En hvert er þá hæstv. ráðh. kominn? Hann telur sig vera einn af leiðtogum Alþfl. Hann segir, að það sé hneyksli og lýðskrum, — ég bið menn að taka eftir því, það eru engar getsakir, — hann segir, að það sé hneyksli og lýðskrum að gera ráð fyrir því, að menn geti dregið fram lífið af 8 stunda vinnu á dag hvern virkan dag ársins. Þannig er komið fyrir leiðtogum Alþfl. Þeir telja það hneyksli og lýðskrum að gera ráð fyrir slíku. Og þeir frábiðja sér allar spurningar byggðar á slíku, eins og nokkrum detti annað eins í hug, og telja þær fyrir utan efnið, það komi málinu ekkert við, það geti enginn til þess ætlazt, að menn geti lifað af því, sem þeir fá fyrir 8 stunda vinnu.

En samt sem áður er nú við margar ákvarðanir í launum miðað jafnvel við miklu minni vinnu en 8 stunda vinnu á dag, og þau laun hafa verið stórkostlega hækkuð. En þegar kemur að því fólki, sem starfar að framleiðslumátunum, þá er hneyksli að gera ráð fyrir því, að menn geti dregið fram lífið af 8 stunda vinnu á dag. Ég veit, að hæstv. ráðh. sér, hversu hörmulega þessi mál eru komin, og það er einmitt af því, sem hann er svona viðskotaillur, hæstv. ráðh. En það leysir engan vanda, þó að hann hreyti hér einhverju, það leysir engan vanda, því miður. Það væri ósköp einfalt, ef þetta væri allt saman tóm fjarstæða, sem við erum að halda fram, þá væri þetta ákaflega einfalt. Það væri betur, að svo væri. Sannarlega væri betur, að svo væri. En því er nú verr, að þetta eru blákaldar staðreyndirnar, sem við erum að benda á, og fram hjá þeim kemst hæstv. ríkisst,j. ekki, þó að hún sé að reyna það í bili með þessum aðferðum, því að það er náttúrlega alveg gersamlega óhugsandi, að til lengdar sé hægt að halda mönnum svo niðri sem að er stefnt með þessu frv.

Svo segir hæstv, forsrh., og hæstv. viðskmrh. tók það eftir honum líka, að í raun og veru væri þetta allt gert fyrir þá lægst launuðu, þetta væri gert fyrir þá, þeir ættu að hafa mestan áhuga fyrir þessu máli, þetta væri gert til að tryggja þá. Þetta er einkennilegur málflutningur, ég verð að segja það, ég fæ ekki skilið þetta, að hækka fyrst öll eða mestöll hærri laun í landinu, rjúka síðan til og krefjast lögbindingar á öllu öðru kaupi, þegar kemur að hinum, og segja svo, að það sé gert til hagsbóta fyrir þá, sem á að binda á höndum og fótum, eftir að hinir hafa fengið úrlausn sinna mála.

Það er sagt, eins og ég tók fram áðan, að framleiðslan geti ekki borgað og þess vegna verði að fara þessa leið. Ég hef rætt það atriði nokkuð. Þann vanda er hægt að leysa með því að breyta um stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum. Þá er hægt að leysa þann vanda. En þá er líka sagt, að það sé ofþensla og hún stafi, segja ráðh., af of miklum einkaframkvæmdum, þeir hafa tekið það upp hver eftir annan, of mikilli einkaeyðslu, einkaneyzlu, of miklum einkaframkvæmdum. Og þetta vandamál á að lækna, takið eftir því, þetta vandamál, ofþensluna, sem er fyrir of miklar einkaframkvæmdir og of mikla neyzlu í landinu, á að lækna með því að láta fyrst hækka laun allra þeirra hærra launuðu, en binda síðan laun hinna. Ætli það mundi vera nokkur stórkostleg hætta á gífurlega auknum einkaframkvæmdum, þó að verkamenn og þeir, sem lægstu launin hefðu í landinu, fengju nokkuð bætt kjör sin frá því, sem nú er? Ætli það sé frá þessum heimilum, sem helzt er að vænta þeirrar eyðslu og þeirra stórfelldu einkaframkvæmda, sem stjórnin telur sér svo mikið í mun að minnka? Ætli það sé frá þessum heimilum, sem slíkrar eyðslu er að vænta, eða á vegum þessara fjölskyldna, sem hægt er að gera ráð fyrir stórframkvæmdum? Þetta eru harla nýstárlegar aðferðir til þess að lækna ofþenslu. En aðferðirnar eru sem sagt þær að halda niðri neyzlu almennings, til þess að þeir, sem hafa meira fjármagn, geti leikið lausum hala með sinar framkvæmdir, það er meginstefnan, til þess að þeir geti komið sínu fram og haldið áfram að leika lausum hala.

Nú finnst mér sannast að segja, að það hefði verið ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj., eins og ég hef þegar tekið fram, að færa betur rök fyrir þessu máli en hún hefur gert. En hún hefur lítið að því gert. Í þess stað hefur verið talað nokkuð um það, sem gerzt hafi áður hér í landinu. Og sumt af því, sem rætt hefur verið um í því sambandi, gerðist fyrir meira en 20 árum. Ætli það væri ekki nær fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að átta sig á því verkefni, sem liggur fyrir í dag, heldur en að ræða þau úrræði, sem gripið var til fyrir meira en 20 árum? Því hefur verið haldið fram, að það hafi oft áður verið lögbundið kaupgjald og samningsrétturinn tekinn af verkalýðsfélögunum. En sannleikurinn er sá, að síðustu 20 árin hefur kaupgjald aldrei verið bundið með lögum. Það hafa verið lögfest einstök lagaákvæði varðandi vísitöluna og til þess að koma í veg fyrir, að hún hækkaði verðlag og kaupgjald vélrænt á víxl, en grunnkaup hefur ekki verið bundið með lögum síðustu 20 árin. Það hefur ekki verið bundið með lögum síðustu 20 árin. Það hefur ekki þótt fært eða réttmætt að leggja út í slíkt.

Í sambandi við þetta hefur gerðardómslöggjöfin frá 1942 verið nefnd, og þó að það hafi harla litla þýðingu í sambandi við þetta mál að vera að ræða um það, sem gerðist fyrir rúmum 20 árum, vil ég þó fara nokkrum orðum um það efni, vegna þess að það hefur verið nefnt.

Það var á styrjaldarárunum, sem gerðardómslöggjöfin var sett. Og það er alveg óhætt að fullyrða, að þá hafði ekki, áður en hún var sett, farið fram almenn hækkun á öllu hæsta kaupi í landinu. Það er alveg öruggt. Hún var ekki sett við slík skilyrði. Gerðardómslöggjöfin var ekki heldur eins og þetta frv., sem nú á að reyna að lögfesta. Og ég vil í því sambandi gripa til þess að láta núv. hæstv. forsrh. lýsa því, hvað í gerðardómslöggjöfinni fólst. Hann sagði þá um gerðardómslöggjöfina:

„Í þessari löggjöf er ekki fyrirskipuð kauplækkun, eins og gert hafði verið 1939 með atkvæðum og einlægu fylgi Alþfl.“ Síðan segir hann: „Ekki einu sinni er fyrirskipað óbreytt grunnkaup. Nei, heimilt er að hækka grunnkaup til lagfæringar og samræmingar,“ segir hæstv. ráðh. um gerðardómslöggjöfina. „En síðan skal goldin alveg full og ótakmörkuð uppbót, eftir því sem vísitala verðlagsnefndar segir til um.“

M.ö.o.: eftir eigin lýsingu núv. hæstv. forsrh. á gerðardómslöggjöfinni var ekki í henni fyrirskipað óbreytt grunnkaup. En með þessari löggjöf er alveg skilyrðislaust fyrirskipað óbreytt grunnkaup. Og forsrh, segir meira: „Heimilt er að hækka grunnkaup til lagfæringar og samræmingar.“ En hér er verið að lögbjóða kaup og algerlega bannað að breyta því nokkuð til lagfæringar eða samræmingar. Enn fremur segir ráðh. réttilega þá, að síðan eigi að gjalda alveg fulla, ótakmarkaða uppbót, eftir því sem vísitala verðlagsnefndar segir til um, sem sé, hækka kaupið samkv. því, segir ráðh. En nú á að banna algerlega að hækka nokkurt kaup, hvað sem liður dýrtíðinni. Svo eru hæstv. ráðh. eitthvað að tala um, að þarna sé um hliðstæða löggjöf að ræða. En við sjáum nú, að það var hún náttúrlega alls ekki. En látum það nú vera. Það er kannske ekki aðalatriðið í sambandi við þetta mál, því að það er annað enn veigameira atriði, sem þarf að hafa í huga, og það er, að það tókst ekki að framkvæma gerðardómslöggjöfina, ekki einu sinni á styrjaldarárunum, og það jafnvel þó að hún væri svona. Jafnvel þó að hún gerði ráð fyrir því, að heimilt væri að bæta upp kaup eftir vísitölu, jafnvel þó að það væri heimilt að hækka kaup til samræmingar og lagfæringar, jafnvel þó að um styrjaldartíma væri að ræða, þá tókst ekki samt að framkvæma löggjöfina, vegna þess að menn vildu ekki una löggjöfinni í framkvæmd, af því að hún var skerðing á samningafrelsinu. Ég lærði a.m.k. mikið af þessu, og ég segi það án þess að skammast mín. En það lítur út fyrir, að hæstv. forsrh. hafi ekkert lært og minna en ekki neitt, því að nú er ekki aðeins, að hann komi með löggjöf, sem gerir ráð fyrir því að afnema alveg samningsréttinn, eins og gert var náttúrlega óneitanlega 1942 og ég var að skýra, heldur gerir hann einnig ráð fyrir því að setja miklu harðari og ósanngjarnari löggjöf á allar lundir, eins og enginn maður efast um, sem ber saman ummæli hæstv. ráðh. um gerðardómslöggjöfina þá við það, sem nú er að gerast, og það frv., sem hér liggur fyrir. Og það er engin tilviljun, að í 20 ár, síðan gerðardómslöggjöfin var samþ. og reyndist óframkvæmanleg, hefur ekki verið tekinn samningsrétturinn af verkalýðsfélögunum með löggjöf. Það er engin tilviljun. Það er m.a. vegna þess, að Framsfl. hefur aldrei léð máls á því síðan að gera það.

Svo halda þessir hæstv. ráðh., að við þurfum að taka þegjandi við ákúrum frá þeim um þessi efni og að það séu rök í þessu máli að vísa til þess, sem gerðist fyrir rúmum 20 árum og reyndist á þá lund, sem ég hef verið að lýsa.

Minn tilgangur var áreiðanlega góður með því að beita mér fyrir gerðardómslöggjöfinni. En ég er ekki blindur fyrir þeirri reynslu, sem þá fékkst, og hef ekki verið, og ég skil það kannske betur en nokkru sinni áður, hvers virði samningsrétturinn raunverulega er fyrir verkalýðsfélögin. Eins og ég segi, og ég endurtek það enn: Það er engin tilviljun, að það hefur ekki síðan verið samþykkt á Alþingi að svipta launasamtökin samningsréttinum. Það, sem gert hefur verið síðan hér á Alþingi, hefur yfirleitt ekki verið á þá lund. Það hefur verið miðað við að draga úr áhrifum vísitölunnar og fjallað um einstaka þætti þeirra mála, án þess að taka samningsréttinn af. Ég ætla ekki að fara að tala hér um þá löggjöf, sem vinstri stjórnin setti í því sambandi, vegna þess að það hefur verið svo rækilega gert af öðrum. En það sýnir, hvaða fjarstæða hað er að vera að vitna til ýmissa fordæma í þessu sambandi, að sú löggjöf, sem þá var sett, er talin hliðstæð við þessa, enda þótt þá væri algerlega frjálst að breyta grunnkaupinu og ekkert haggað samningsrétti verkalýðsfélaganna í þeirri löggjöf. Hún fjallaði nm að stöðva vísitöluspóluna, sem sumir kölluðu stundum, um stundarsakir.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að ræða miklu meira um þessa eldri löggjöf. En get þó ekki stillt mig um að minnast á aðra í því sambandi. Það eru gengislækkunarlögin frá 1950, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, en hann tók aðallega að sér að sýna fram á, að það, sem væri verið að gera núna, væri nánast eins og daglegt brauð. Það hefði verið gert alltaf af og til undanfarið og sérstaklega áttu þeir, sem hefðu staðið að gerðardómslöggjöfinni 1942, ekki að setja mikið fyrir sig að setja svona löggjöf núna o.s.frv., o.s.frv. Og hæstv. dómsmrh. talaði í því sambandi dálitið um löggjöfina frá 1950. Ég held, að ég fari ekki rangt með, að hann tók þannig til orða, að það hefði verið í því frv, ákvæði, þegar það kom fram, að það skyldi lækka gengið, ef almenn kauphækkun ætti sér stað í landinu. Ég þori ekki að fullyrða, að hæstv. ráðh. hafi orðað þetta alveg svona, en þetta var sá blær, sem hann vildi gefa þessu, og inni á þessu hefðum við verið þá, að þetta skyldi lögleiða.

Ég hef nú skoðað þetta ákvæði. Ákvæðið er um það, eins og það er í frv., að ef almenn kauphækkun yrði í landinu, skyldi Seðlabankanum skylt að gefa skýrslu til ríkisstj. um það, hvort hann áliti, að kauphækkunin gæfi tilefni til breytinga á gengisskráningu eða ekki. Það er nokkuð langt milli þessa og hins, sem hæstv. ráðh. vildi gefa í skyn. Það átti að gefa skýrslu um þetta, ríkisstj. átti svo að úrskurða um, hvort ástæða væri til að gera nokkrar breytingar á gengi út af þeim kauphækkunum, sem orðið hefðu. En ráðh. vildi helzt láta líta svo út, að þetta hefði átt að vera vélrænt, að það hefði átt að lækka gengið, ef almenn kauphækkun yrði.

En hvað gerðist svo? Það gerðist það, að við tókum þetta ákvæði út úr frv., vegna þess að verkalýðssamtökin sögðu, að þeim væri sérstaklega illa við þetta ákvæði, því að það benti til skilnings á þessum málum, sem launþegasamtökin og verkalýðssamtökin vildu alls ekki viðurkenna. Og þá var núv. hæstv. viðskmrh. einn af þeim, sem töluðu á móti þessu ákvæði. Það var bent á það af hálfu verkalýðsfélaganna, að þeim fyndist þetta benda allt of einhliða í þá átt, að ekkert hefði áhrif á gengisskráninguna annað en kaupið, en það væri svo margt annað, og þeim væri sérlega illa við þetta ákvæði.

Þá var nú það tillit tekið til þess, sem launþegasamtökin í landinu vildu og álitu, að þetta ákvæði var hreinlega tekið burt úr frv. eftir sérstökum bendingum þaðan. Menn beri það svo saman við þau sérstöku vinnubrögð, sem á að hafa núna. Það voru engir fjöldafundir haldnir út af þessu ákvæði eða neitt þess konar, en það komu hógværar bendingar um það, sem mönnum fannst alveg ástæða til að taka til greina, að það væri rétt að taka þetta ákvæði út úr frv. og taka þannig tillit til þessara óska.

Ég veit ekki, hvað ég á að fara mikið út í að svara því, sem einstakir ráðh. hafa sagt nm þetta efni eða beint til mín sérstaklega. Hæstv. dómsmrh. sagði, að ef menn vildu sitja á strák sínum, þá væri hægt að finna heppilegustu ráðin. Ég held, að það hefði verið æskilegt, að stjórnin hefði uppgötvað þetta fyrr og helzt áður en hún lagði út í þetta. En sannleikurinn er sá, að ef farið hefði verið nú að með gætni og góðvild og varúð, þá hefði áreiðanlega verið hægt að komast ákaflega langt í því að leysa þessi mál farsællega, og það er því enn sorglegra en ella, að hæstv. ríkisstj. skyldi grípa til þess að kasta stríðshanzkanum á þann hátt, sem hún gerir með þessu frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hægt að finna leiðir, ef góðvild og skynsemi fengi að ráða. Þetta vil ég taka undir. En mér finnst bara því miður þetta of seint fram komið. Eða hver vill t.d. halda því fram, að málflutningur hæstv. viðskmrh. í gær hafi mótazt af góðvild og skynsemi, þegar hann var að lýsa vandamálunum fyrir þingheimi á þá lund, sem ég rakti hér áðan? Nei, því miður, það er mikil veila í þessum málatilbúnaði öllum saman, sem á eftir að verða, því miður, býsna hættulegur. Hæstv. forsrh. sagði í einni ræðunni: Ef allir halda fast við kröfur sínar, þá fellur krónan. — Og það er haft að skálkaskjóli fyrir þessum aðförum, að það hefði verið þannig ástatt, að allir hefðu viljað fá allt fram upp í topp, sem þeir hefðu nefnt. Auðvitað segja ráðherrar þetta gegn betri vitund, því að þeir vita það ákaflega vel, að það var ekkert síður nú en oft endranær hægt að semja um þessi mál. Þeim er það algerlega ljóst. Þeir virðast ekki hafa viljað semja. Það er því miður þannig. Það hefur líklega áður oft og tíðum mátt segja, að ef allir heimtuðu allar sínar kröfur upp í topp, væri ærinn vandi fyrir hendi. En hvenær er það í samningum, að þeir, sem vilja semja, líti svona á og segi við þann, sem þeir eiga að semja við: Þetta, sem þú nefnir, er ekki hægt að fallast á, og þess vegna skulum við hætta að tala saman. — Eru það samningar? Er þetta samningstónn? Nei, það er eitthvað skrýtið við þetta.

Ég bað hæstv. forsrh. um að lýsa því yfir skýrt og skorinort við 1. umr., að þetta væri til bráðabirgða, og taka af allan vafa og segja: Það kemur ekki til mála, að ríkisstj. haldi uppi lögbindingu á kaupgjaldi og afurðaverði eftir 31. des. Þá verður samningsfrelsið aftur innleitt, og þá tekur stjórnin aftur upp þá stefnu, sem hún sagðist hafa allt síðasta kjörtímabil og hún var kosin til að framfylgja í vor, því að hún var ekki kosin í vor til þess að framfylgja lögbindingu á kaupi, heldur var hún kosin til þess að framfylgja frjálsri stefan í samningum um kjaramál. Það var eitt aðalstefnumál stjórnarflokkanna í vor.

En hæstv. forsrh. var alveg ófáanlegur til þess að lýsa því yfir, að stjórnin ætlaði eftir 31. des. að taka upp aftur þá stefnu, sem hún er kosin til þess að framkvæma, heldur þvert á móti gaf með mörgum orðum í skyn, að það mætti gera ráð fyrir því, að haldið verði áfram lögbindingunni. Og því miður, hverjum dettur í hug, að hæstv, ríkisstj. hefði lagt út í þessa styrjöld, ef hún ætlaði sér ekki að fara inn á þá braut að lögbinda kaupgjald og afurðaverð til bænda?

Hv. frsm. fjhn. Nd. flutti hér ekki langa ræðu, en hún var að ýmsu leyti talsvert eftirtektarverð. Hann sagði t.d., og ég skrifaði það orðrétt eftir honum, að það, sem nú lægi fyrir, væri að setja gengið í hættu með ótímabærum kaupkröfum. Já, þessi hv. þm. og þá sjálfsagt stjórnarliðið, því að hann talaði fyrir það, telur það alveg ótímabært, að verzlunarfólk og skrifstofufólk fari fram á að fá sin laun samræmd launum ríkisstarfsmanna. Þetta er ótímabær kaupkrafa að dómi stjórnarflokkanna. En hvað var sagt um þessi mál t.d. s.l. vor, eins og ég minntist á hér við 1. umr.? Þá voru beinlínis sendir út menn á vegum Sjálfstfl., sem jafnframt voru forustumenn í samtökum skrifstofu- og verzlunarfólks, og þeir sögðu mönnum alveg afdráttarlaust í samtölum, að menn gætu verið vissir um, að það mundi ekki standa á því, að skrifstofufólk og verzlunarfólk fengi sín kjör samræmd, þegar kjaradómurinn væri kominn. Það voru ekki kallaðar þá ótímabærar kaupkröfur, að verzlunar- og skrifstofufólk ætti að fá samræmingu við hliðstæð laun hjá ríkinu, ekki alveg. Og fram eftir öllu sumri og fram á haust stóð þetta fólk í þeirri meiningu, að það ætti að standa við eitthvað af þessu. En það var nú ekki meiningin, eins og við sjáum á því frv., sem hér liggur fyrir. Og þessi hv. talsmaður stjórnarflokkanna telur það ótímabæra kaupkröfu; að verkamenn fari fram á að fá kauphækkun núna, en hafa þessar 67 þús. kr., en lítil íbúð kostar núna 550 þús. kr., og kostnaðurinn við að standa undir henni er aldrei minni en 50 þús. kr. á ári. Húsaleigan, ef við horfum á þá hliðina, er orðin meira en helmingur af þessu kaupi fyrir ómerkilega íbúð, ekki fyrir nýja íbúð, heldur gamla, jafnvel þótt hún sé smá. Þetta er viðreisnin og ástandið eins og það er núna, og við þessi skilyrði er það sagt, að ótímabært sé að fara fram á, að kaupgjaldið sé endurskoðað, og lýðskrum að taka undir þetta, og sumir segja jafnvel, að það stafi af illvilja, ef menn taka undir það. Þó að þessi hv. þm. hafi ekki sagt það bert, þá eru þeir smátt og smátt að færa sig upp á skaftið, þannig að sumir eru farnir að tala um, að það hljóti jafnvel að stafa af illvilja, — ja, ekki veit ég illvilja við hvern, að taka undir það, að lífsnauðsynlegt sé að endurskoða þetta kaup, og það jafnvel þó að menn láti fylg,ja, eins og ég hef nú gert og við framsóknarmenn, að okkur sé það algerlega ljóst, að það sé ekki hægt að leiðrétta þessa skekkju alla, sem orðin er, í einu kasti. Það verði að gera í áföngum og fara gætilega. Jafnvel þótt þetta fylgi undirtektum undir þessar sanngjörnu kröfur, þá eru þær kallaðar lýðskrum.

Þessi hv. þm. flutti laglega ádrepu um, hvað það væri þýðingarmikið að hafa ábyrga stjórnarandstöðu. Ekki skal ég draga úr því, hvað það er þýðingarmikið. Hann taldi okkur ekki upp á marga fiska í því tilliti, t.d. þá, sem standa fyrir málum framsóknarmanna. En ég held, að það hjálpi ákaflega lítið til þess að auka nauðsynlegan skilning manna á hlutverki stjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar að æpa um ábyrgðarleysi og lýðskrum, ef stjórnarandstæðingum þóknast ekki að ganga inn á hvaða fjarstæðu og hvaða óhæfu sem stjórnarflokkunum dettur í hug að stinga upp á. En þetta er orðin tízka. Ef ekki er gengið umyrðalaust inn á hvaða fjarstæðu sem er, og þó að það sé bent á aðrar leiðir, þá er bara sagt: Það eru ekki aðrar leiðir til, þetta er lýðskrum og stafar af illvilja og sýnir, að stjórnarandstaðan er óábyrg.

En ég leyfi mér að spyrja: Hefur stjórnin engar skyldur í því að vera ábyrg? Og hvorir voru ábyrgari 1960 ríkisstj. eða stjórnarandstaðan? Ríkisstj. skellti þá yfir viðreisninni, og blasa nú við allra augum afleiðingarnar af því, og þeir eru sjálfir að greina frá því, hvað illa hafi farið á alla lund. Var þetta að vera ábyrgur? En hverjir vöruðu við þessu? Stjórnarandstæðingarnir vöruðu við þessu og sögðu í höfuðdráttum, að fara mundi eins og farið hefur, eins og sjá má og allir geta séð, sem kynna sér þessi efni. Hverjir voru þá ábyrgir og hverjir voru óábyrgir? Hvort var meiri ábyrgð í því að vara við því, sem fyrirsjáanlegt var að hlaut að takast illa, eða í því að berja fram slíkar ráðstafanir eins og hæstv. ríkisstj. gerði? Og hvorir voru ábyrgari 1961, stjórnin eða stjórnarandstæðingarnir? Þá var gerður samningur um kjaramálin, og þó að hann væri náttúrlega langt í frá gerður á vegum nokkurra flokka, þá var það þannig, að margir af þeim mönnum, sem fjölluðu um þau efni, voru stjórnarandstæðingar. En þeir leystu kjaramálin þannig, að það sjá allir núna á eftir, að það var hinn æskilegasti grundvöllur fyrir stjórnina til þess að starfa á, þeir samningar, sem þá voru gerðir. Þeir voru ekki gerðir til að spilla fyrir neinu, þeir samningar, það dettur engum í hug, þó að það væri æpt á þá, sem gerðu samningana þá, og því haldið fram. Nú sjá allir, að þeir voru ekki gerðir til að spilla neinu, voru ekki til þess fallnir að spilla neinu. Þvert á móti, það var eins hóflega farið í sakirnar og hugsanlegt var og hægt að laga þannig til auðveldlega, mjög auðveldlega, að þeir hefðu orðið grundvöllur að því að bæta úr verstu ágöllum viðreisnarinnar.

En hvað gerði ríkisstj.? Hún kastaði í höfuð mönnum 18% nýrri gengislækkun, sem verkaði auðvitað eins og benzín á bál, og síðan hefur ríkisstj. ekki ráðið við nokkurn skapaðan hlut, en hangir samt. Það var sýnt fram á það þá, að kaupmismunurinn, sem um var deilt, svaraði til 2% verðbreytingar á útflutningsverði afurðanna. Það var allt og sumt. Það voru margar leiðir til þess að jafna þann skoðanamun, sem kom fram um þetta, og ótal leiðir hægt að finna. En út af þessum áareiningi, sem var um þessi efni, skelltu þeir á 13% gengislækkun.

Ég skal fara að láta þessu máli mínu lokið, enda er ég búinn að drepa á flest af því, sem mér þykir máli skipta í því, sem hv. andstæðingar hafa að mér beint í þessu. En að lokum vil ég aðeins segja þetta:

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það hefði verið þjóðin sjálf, sem hefði ákveðið, að stjórnin skyldi sitja, og þjóðin hefði vottað stefnu stjórnarinnar traust í kosningunum s.1. vor. Það hefur áður verið rækilega flett ofan af því, hvernig hæstv. ráðh. og þeirra fylgismenn reyndu með mörgu móti að koma við blekkingum um ástandið í síðustu kosningum. En ég ætla ekki að ræða það núna, það er búið að sýna svo oft fram á það, en ég ætla bara að spyrja: Var það sú stefna, sem þeir eru að framkvæma núna, sem þeir lögðu fyrir þjóðina í kosningunum í vor? Og ég spyr hæstv. forsrh. sérstaklega að þessu, og ég vona, að hann svari: Var það þessi stefna, sem þeir eru að framkvæma núna, sem þeir lögðu fyrir þjóðina í vor? Sögðu þeir ekki í vor, að þeir ætluðu að halda viðreisninni áfram, og var ekki einn þáttur í viðreisninni sá, að það skyldi ríkja algert samningsfrelsi um k,jaramálin? Stjórnin ætlaði sér ekki að skipta sér af þeim málum, þau mál ættu atvinnurekendur og almannasamtökin í landinu að leysa. Var þetta ekki einn af grundvallarþáttum víðreisnarinnar? Það þarf ekkert að spyrja. Það var svo. Og hæstv. ríkisstj. hélt þessu sama fram í kosningunum í vor, og hún var kosin til að framfylgja þessari stefnu. Þeir sögðu það ekki í vor, hæstv. ráðh., að ef þeir merðu meiri hl., ætluðu þeir að nota hann til þess að banna með lögum að hækka kaupgjald í landinu og taka samningsfrelsið af launþegasamtökunum. Þeir sögðu það ekki í vor. Þeir sögðu hreinlega alveg þveröfugt. Svo segja þeir: Þjóðin kaus okkur til þess að stjórna. Þjóðin ákvað það, að stjórnin skyldi sitja áfram. Það var þjóðin, sem ákvað það.

En til hvers áttu þeir að sitja? Auðvitað til þess að framkvæma það, sem þeir lýstu yfir bæði fyrr og síðar. Nei, það finnst þeim ekki.

Og að lokum vil ég minna á þetta: Halda menn, að þessir menn hefðu setið þarna í ráðherrastólunum núna, ef þeir hefðu sagt þjóðinni satt fyrir kosningarnar, að þeirra fyrsta verk ætti að verða að lögbjóða kaupgjald óbreytt? Dettur nokkrum manni í hug, að þessir menn hefðu setið þarna þá? Nei, alls ekki. Það er alveg ljóst, að þeir hefðu ekki setið þarna. M.ö.o.: þeir hafa svikizt aftan að þjóðinni, það er ósköp einfalt, og hafa því engan rétt til þess að sitja þarna, enda eiga þeir að fara úr þessum stólum strax. Ef það væri nokkur manndómur í þeim, þá ættu þeir að fara strax og láta svo þjóðina dæma um framkomu sína, eins og hún er orðin öll samanlögð, í staðinn fyrir að sitja hér hnakkakerrtir á Alþingi og segja: Þjóðin vottaði okkur traust, við sitjum hérna, af því að hún vildi það.

En hvað sögðu þeir þjóðinni? Hverju lofuðu þeir henni? Og hvað eru þeir nú að gera? Það vantaði svo sem ekki yfirlýsingarnar. T.d. sagði Birgir Kjartan: Okkar markmið er frelsi. Fylgið okkur, við erum menn frelsisins. — Og upp á þetta var kosið: Markmið okkar er frelsi. Hinir vilja ríkisafskipti. En hvað eru þeir að gera núna? Er þetta frelsi? Er það frelsi að festa með lögum allt kaupgjald í landinu? Er það frelsi? Og hverjir eru frjálsir, eftir að búið er að fara að á þessa lund?

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en ég álít, að hér hafi mikið óhapp orðið, með því að hæstv. ríkisstj. hefur tekið þennan kost, sem hún hefur gert. Og hún hefur engan rétt til þess að berja þetta mál í gegnum þingið með meiri hl., sem er fenginn með svikum.