05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (1841)

56. mál, launamál o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur nú verið rætt allýtarlega um þetta þrælalagafrv., sem hér liggur fyrir. Það hefur verið sagt í þeim umr., að það væri vegna sjávarútvegsins, að það væri verið að bera þetta fram. Það var búið að sanna í þessum umr., að sjávarútvegurinn getur borið meira að segja fullt það kaup, sem verkamenn hafa farið fram á, svo fremi sem létt sé af honum vissum gjöldum, sem ýmist ríkisvaldið eða aðrir aðilar í íslenzkri auðmannastétt hafa á hann lagt. Það er enginn vandi fyrir þann sjávarútveg, sem ber uppi allt þjóðfélagið, að bera miklu hærra kaupgjald en nú er greitt, og sjávarútvegurinn í Noregi, eins og hér hefur verið sýnt fram á, sem stendur á mun lægra stigi en okkar, ber næstum því tvöfalt hærra kaupgjald en hér er greitt, þannig að allt tal um það, að íslenzkur sjávarútvegur væri ekki samkeppnisfær, þó að hann borgaði tvöfalt hærra kaupgjald en hann borgar núna, það er hrein vitleysa.

Það er ekki til neins að vera með neina hræsni um, að það sé líf sjávarútvegsins, sem sé í veði. Sannleikurinn er, að líf og framtið sjávarútvegsins er í veði, að svona lög séu ekki samþykkt, því að eftir að búið væri að samþykkja svona lög, þá væri raunverulega verið að drepa sjávarútveginn, þá er verið að svipta hann megininu af vinnukraftinum, hann fær ekki vinnukraft með því að borga svona lág laun, miklu lægri en greidd eru annars staðar í þjóðfélaginu. Það er alveg vitanlegt, að hér í frystihúsunum við höfnina er greitt lægra kaup en greitt er t.d. hér við byggingarvinnu. Það er þess vegna hrein hræsni eða skammsýni, þegar menn eru að bera því við, að þetta sé gert vegna sjávarútvegsins. Ég ætla nú ekki að tala um hitt, þegar sumir, meira að segja hæstv. ráðh, dirfast að láta þá skoðun í ljós, að það sé verið að bera þetta fram fyrir láglaunamennina, — fyrir láglaunamennina. Ég ætla nú helzt að biðja menn um að vera ekki að gera grín að sjálfum sér með því að koma með þess háttar.

Ég vil gera það að nokkru umtalsefni, hvernig þessi afstaða er viðvíkjandi sjávarútveginum. Mín skoðun er sú, að það séu ekki menn sjávarútvegsins, ekki fyrst og fremst a.m.k. þeir, útgerðarmennirnir, hraðfrystihúsin eða aðrir slikir, sem standi á bak við þau þrælalög, sem hér eru borin fram. Ég held, að það, sem ræður því, að farið er inn á þessa óhappaleið, sé, að verzlunarauðvaldið í landinu, braskaravaldið í landinu, það heimtar að fá að halda öllu sínu, það vill ekki láta neitt af því, sem það hefur klófest, það vill ekki sleppa neinu af þeim gróða, sem það hefur núna af sjávarútveginum. En þetta verzlunarauðvald, þetta braskaravald á Íslandi heimtar, að öll vandamál séu leyst á kostnað verkalýðsins og verkalýðsins eins, allar afæturnar fái að hafa sitt, allir gammarnir fái að halda áfram að rífa til sín, en verkalýðurinn fái að borga, lægst launuðu mennirnir, erfiðismennirnir, þeir, sem halda þessu öllu saman uppi, skulu fá að borga. Braskaravaldið í landinu heimtar, að það sé verkalýðurinn, sem eigi að bjarga sjávarútveginum með því að vinna fyrir helmingi lægra kaup en menn vinna hjá norska sjávarútveginum, þar sem öll afköst eru samt miklu minni. Og þetta á allt saman að gera, til þess að þetta braskaravald, þetta verzlunarauðvald, geti haldið öllu sínu. M.ö.o.: þetta frv. til þessara þrælalaga er tilraun til að leysa hagsmunamótsetningarnar innan íslenzku auðmannastéttarinnar á kostnað verkalýðsins, þannig að allir braskarar og allt verzlunarauðvald á að halda sínu og hvergi sér neitt lát á gróðanum, sem þar er skapaður,.

Það hefur verið sýnt hér fram á það með tölum, hvernig gera megi sjávarútveginum fært að hækka kaup, og ég ætla ekki að ítreka það. Það hefur verið sýnt fram á, að vinnulaunin t.d. hjá hraðfrystihúsunum eru aðeins 200 millj. kr. Útflutningsgjöldin ein eru um 60 millj. kr., vextirnir eru um 60 millj. kr., og það hefur ekki verið minnzt á, hvað olíugróðinn, vátryggingagróðinn og allt annað slíkt er. Það er enginn vandi að laga öll vandamál sjávarútvegsins, og það á að vera hægt að borga 40% hærra kaup með því að strika þetta burt. Íslenzkur sjávarútvegur getur ósköp vel fengið hér 1—2% vexti. Það er hægt að láta hann fá olíu, án þess að það sé nokkuð grætt á henni. Hvaða ástæða er til þess, að einhver græði á henni? Það er hægt að þjóðnýta vátryggingafélögin. Hvaða ástæða er til þess, að þau verði eins og forríkir bankar í landinu? Það er enginn vandi að sjá um, að sjávarútvegurinn geti greitt tvöfalt hærra kaup. Það, sem þarf bara að sjá um, er, að hann sé ekki lengur sú horareka, sem hann er hjá öðrum hlutum auðmannastéttarinnar á Íslandi. Og eftir að hér hefur verið rakið nokkuð, hvernig ástandið er í dag, hvernig hlutfallið er í dag milli sjávarútvegsins annars vegar og annarra hluta auðmannastéttarinnar hins vegar, þá vil ég nú reyna að skilgreina þessar mótsetningar nokkuð þjóðfélagslega og sögulega, því að mér sýnist við vera að öllu leyti á slíkum sögulegum tímamótum, þegar við erum að ræða þetta mál hér, þetta einstaka mál, að það sé nauðsynlegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir, um hvað er verið að berjast.

Það er sagt, að þetta sé allt gert fyrir sjávarútveginn. Hvernig hefur það nú verið með sjávarútveginn í okkar þjóðfélagi lengst af, það sem af er þessari öld? Flestir framsýnustu menn okkar hafa gert sér gildi hans ljóst, hvað atvinnuvegi Íslands snertir, allt frá aldamótum, allt frá því að Einar Benediktsson orti um það að sækja fram á hafinu, ef svo mætti segja, og að við þyrftum að reyna að brjótast í því að koma hér upp sjávarútvegi,sem væri nýtízkulegur og voldugur. Við vorum nokkuð fátækir í byrjun, þegar var verið að eiga við þetta. Margir af brautryðjendunum á þessu sviði urðu að kaupa gamla togara frá Englandi til að byrja með rekstur hér heima. Bankarnir voru jafnvel ekki alltaf skilningsríkir í þessu. Og það bættist svo við, að þegar búið var að koma nokkrum togaraflota upp hér á Íslandi fyrir fyrra stríð, var auðvaldið í bandamannalöndunum það vingjarnlegt við okkur að taka meginið af þeim togaraflota 1916. Það var reynt að rétta við aftur eftir stríð. Það voru aftur keyptir gamlir togarar frá Englandi, þótt einstaka væru nýir, og 1928 var svo komið, að til voru 47 togarar á Íslandi. Þá fékk sjávarútvegurinn að kenna á heimskreppunni. Við fengum að kenna á, hvernig það var að lifa í heimi, þar sem kapítalisminn réð einn, þar sem hans heimskreppur skullu á litlum löndum eins og okkar sem holskeflur, sem ætluðu að kaffæra allt. Togaraflotanum okkar hnignaði ár frá ári, 1935 voru þeir, held ég, orðnir 37, og hæstv. núv. forsrh. gaf stundum lýsingar á því, hvernig þeir væru, fúaduggur og manndrápsbollar. (Gripið fram í: Og ryðkláfar.) Og ryðkláfar, alveg rétt.

Hvað hafði gerzt þjóðfélagslega séð á Íslandi á þessum árum? Það var verið að reyna að þróa hér kapítalisma í sjávarútveginum með togaraútgerðinni, stórútgerð, stórrekstur. Þetta gekk um tíma sína eðlilega þróun, vald safnaðist á fáar hendur. Ef ég man rétt, höfðu Kveldúlfur og Alliance, þegar bezt lét, þannig um helminginn af íslenzka eða a.m.k. af reykvíska togaraflotanum í sínum höndum og réðu mestöllum saltfisksútflutningum til annarra landa. Það er gefið, að hefði íslenzkur kapítalismi þróazt þá á eðlilegan máta, hefði hann þróazt á þann hátt, að sá fiskhringur, sem þá var að myndast á Íslandi, hefði tekið meira og meira undir sig aðra þætti í Íslenzku verzlunarlífi og framleiðslulífi. Hann hefði lagt undir sig t.d. innkaupin á olíunni, hann hefði reynt að skapa sér aðstöðu gagnvart bönkunum, hann hefði skapað sér vátryggingarfélag, hann hefði jafnvel byrjað og byrjaði að nokkru á því að leggja undir sig heildverzlun. Það hefði verið myndað það, sem kallað er í hagfræðinni láréttur hringur. Heimskreppan kippti grundvellinum undan þessu öllu saman. Og það, sem gerist eftir heimskreppuna, er raunverulega, að það er verzlunarauðvaldið í landinu, sem tekur við forustunni. Það er verzlunarauðvaldið í landinu, sem með heimskreppunni ákveður að þjóðnýta allan gjaldeyri sjávarútvegsins, gera s,jávarútveginn að sinni þernu, sem eigi að útvega sér gjaldeyrinn, til þess að verzlunarauðvaldið geti verið frjálst, geti keypt inn, og var það þó líka takmarkað á ýmsan máta. M.ö.o.: í hverju kapítalistísku þjóðfélagi er það svo, að verzlunarauðvaldið er úreltasta og venjulega lélegasta og afturhaldssamasta formið, sem auðvaldsskipulagið á til, afturhaldssamasti og lélegasti þátturinn í einu auðvaldsskipulagi. Sá þáttur, sem visar til framfara, er sá iðnaður eða hjá okkur sá sjávarútvegur og iðnaður, sem upp kemur. Og eigi að reyna að þróa eitt þjóðfélag, eigi að láta það verða aðnjótandi tæknilegra framfara nútímans, lá þess vegna fyrst og fremst fyrir að reyna að þróa sjávarútveginn á Íslandi. En verzlunarauðvaldið beygir þennan s,jávarútveg undir sinn mátt, undir sitt vald og gerir hann að sinni þernu. Í því felst strax afturhaldið í íslenzku atvinnulífi, eins og það sérstaklega skipuleggur sig, eftir að heimskreppan brauzt út.

Allan þennan tíma er sjávarútvegurinn undirorpinn öllu því arðráni, sem þá er framkvæmt gagavart Íslandi: Hann er undirorpinn arðráni olíuhringanna, hann er undirorpinn þeim háu vöxtum, sem þá eru greiddir, og menn muna kannske eftir því, að það var ekki neitt smáræði, sem Íslendingar urðu að greiða þá í vexti til útlanda, fyrst og fremst til ensku bankanna. Það var á þeim tímum. t.d. miðað við árið 1935, sem samsvaraði 200 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu, það sem við urðum þá að greiða í vexti út úr landinu, og á þeim tímum lifði þorri af fjölskyldum verkamanna í Reykjavík af 1500 kr. á ári, svo að menn geta nokkurn veginn séð, hvaða blóðskattur það var, sem Ísland varð að borga í vexti þá til útlends auðvalds. Á þessum tíma er sjávarútvegurinn látinn tapa allan tímann. Hann er látinn greiða þá háu vexti, sem eru milli 9 og 10%, til bankanna, og bankarnir voru raunverulega innheimtustofnanir fyrir Hambros og Barklays Bank. Og ég hef það fyrir satt, og því hefur ekki verið hnekkt, að sú skuldasöfnun, sem tvö af stórfyrirtækjum landsins söfnuðu á þeim tíma í bönkunum, Kveldúlfur annars vegar og Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hins vegar, hafi nokkurn veginn samsvarað því um 1940 að vera það sama og átti að greiða í vexti af skuldum. Vaxtaokrið, sem er einkennandi fyrir nýlendur eða þjóðfélög, sem lifa við nýlenduskilyrði, kom þá þegar fram þannig gagnvart sjávarútveginum á Íslandi, að hann var svo að segja látinn fara á hausinn, þegar verzlunarauðvaldið var látið græða allan tímann. Og fyrsta skilgreiningin, þjóðfélagslega skilgreiningin, sem gerð er á íslenzku auðvaldsskipulagi, sem gerð var af skipulagsnefnd atvinnumála, Rauðku svonefndri, sló því föstu, að það væri algerlega rangt, hvernig skipt væri í íslenzku þjóðfélagi milli verzlunarinnar annars vegar og útgerðarinnar hins vegar. Ég bið ykkur að óttast ekki, þó að ég nefni lágar tölur. Ef ég man rétt, þá var allt fjármagn í íslenzkum sjávarútvegi 1934 22 millj. Ísl. kr. Þá var allt kapítalið í Íslenzkri verzlun 100 millj. kr. M.ö.o.: fjármagnið á Íslandi streymdi í verzlunina, í heildverzlunina, í braskið. Af hverju? Af því að þá var alltaf tryggt, að þar yrði gróði, vegna þess að verslunarauðvaldið réð þjóðfélaginu, skammtaði verkalýðnum atvinnuleysi og kaupkúgun, atvinnuleysingjunum svipurnar og kylfurnar, en verzlunarauðvaldið græddi, og þangað streymir fjármagnið, sem gróðamöguleikarnir eru. Þess vegna sótti fjármagnið í verzlunina og forðaðist sjávarútveginn, og Íslandi hnignaði og atvinnuleysið svarf að.

Ég rek þetta hérna vegna þess, að það er hart að þurfa að lifa það sama áratug eftir áratug, án þess að þeir menn, sem stjórna Íslandi, læri nokkurn skapaðan hlut af því. Það er engin þörf að láta Íslenzkan sjávarútveg vera í vandræðum, þann sjávarútveg, sem heldur öllu þjóðfélaginu uppi, einhvern blómlegasta sjávarútveg veraldarinnar með einhverja beztu sjómenn, sem til eru. En þetta verður gert, á meðan þessu efnahagslega alræði verzlunarauðvaldsins og braskaranna er ekki sópað burt eða a.m.k. sett í slík höft, að það þjarmi ekki að þjóðfélaginu, þannig að það ætli að kyrkja það.

Menn munu kannske spyr,ja: Hvernig stendur á því, að verzlunarauðvaldið er svona sterkt á Íslandi ? Hvernig stendur á því, að í okkar þjóðfélagi, sem hefur nú upp á síðkastið tekið miklum framförum, skuli verzlunarauðvald, úreltasta og elzta stig auðvaldsins, vera svona sterkt, sérstaklega svona sterkt pólitískt enn þá? Ég skal reyna að svara því, og ég geri greinarmun á verzlunarauðvaldi, útgerðarauðvaldi og iðnaðarauðvaldi. Styrkleiki verzlunarauðvaldsins stafar í fyrsta lagi af því, að við vorum nýlenda í 8 aldir. Meðan við vorum nýlenda, var grætt á verzluninni við okkur. Við vorum húðflettir, við vorum féflettir af verzlunarauðvaldi, og það komst inn sú hugmynd hjá þeim mönnum á Íslandi, sem langar til að græða, að öruggasta ráðið til að græða væri að fást við verzlun. Þannig var það búið að vera gegnum aldirnar, að það var kaupmannavaldið, það var verzlunarauðvaldið, sem var öruggt til að græða. Þess vegna loddi það við til að byrja með hér heima sem leifar frá nýlendutímabilinu, að menn skyldu reyna að græða á verzlun, hitt væri allt of mikil áhætta að hætta sér út í framleiðslu; t.d. útgerð, og það eimir eftir af því enn þá. En það var annað, sem gerðist og gerist snemma. Heildsalastéttin á Íslandi varð einna fyrst af yfirstéttinni Íslenzku til þess að öðlast virkilega stéttarvitund. Heildsalastéttin virtist vera sá hluti yfirstéttarinnar, þegar hún kom upp hér á Íslandi, sem var fljótastur að taka við sér og skilja, að það var nauðsynlegt að ná tökum bæði á pólitískum flokkum og voldugum blöðum til þess að geta komið sinni ár fyrir borð, til þess m.a. að geta komið ár sinni þannig fyrir borð, að það væri verzlunarauðvaldið, sem réði yfir sjávarútveginum og héldi iðnaði niðri, hindraði þróun iðnaðar í viðkomandi landi, eins og hún gerði löngum. Og verzlunarauðvaldið skapaði sér þessa aðstöðu á stríðsárunum fyrri, aðstöðu, sem það hefur haft síðan, ekki aðeins þá aðstöðu, sem það hefur enn þá í Sjálfstfl., sem þá var ekki til, en fyrirrennarar hans, íhaldsflokkur, Borgaraflokkur, Sparnaðarbandalag og allt slíkt, sem það hét þá í Reykjavík, heldur er það fyrst og fremst eitt, sem skapar heildsalastéttinni sína sterku aðstöðu þá, það eru þau tök, sem heildsalastéttin nær á fyrsta volduga dagblaðinu, sem var að rísa upp í Reykjavík, Morgunblaðinu. Og það er saga, sem er vert að rifja upp, ekki kannski beint í tilefni af 60 ára afmæli blaðsins, heldur hins vegar í tilefni af því, að verzlunarauðvaldið sýnir sinn mátt í gegnum þá áróðursaðstöðu, sem það hefur fengið með því.

Það var, eins og nú hefur verið rifjað upp fyrir landsmönnum, gerð glæsileg tilraun af sjálfstæðum brautryðjendum í íslenzkri blaðamennsku, merkilegum brautryðjendum, til að skapa óháð, voldugt íslenzkt dagblað. Það voru Vilhjálmur Finsen og Ólafur Björnsson, eins og mönnum er kunnugt, sem gerðu þetta. Það, sem gerist svo nokkru á eftir, er, að heildsalastéttin í Reykjavík kemur fram og segir: Þetta blað ætla ég að leggja undir mig. Hér skal ekki rísa upp óháð dagblað undir forustu góðra ritstjóra, þetta blað ætla ég að eignast. — Vilhjálmur Finsen, fyrsti ristjóri Morgunblaðsins, segir frá þessu í endurminningabók sinni: „Alltaf á heimleið“, sem kom út árið 1953, þar sem segir m.a. frá því, þegar hann var 1919 í Kanpmannahöfn og Ólafur Björnsson kemur til fundar við hann, og síðan segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en hann“, þ.e. Ólafur, „fór að heiman, kvaðst hann hafa selt Ísafold félagi kaupmanna og annarra í Reykjavík. Hann hafði umboð til þess að semja við mig um kaup á Morgunblaðinu, ef ég vildi selja minn hluta. Sjálfur var hann fastákveðinn í að selja sinn hluta í Morgunblaðinu, og ef ég vildi ekki selja þessu nýja félagi minn hluta, væri ekki um annað að ræða en ég keypti hans hluta. Ólafur tjáði mér, að í félaginu væru flestir kaupmenn, sem kvæði að í Reykjavík, og þannig mestu auglýsendurnir. Þeir byðu svo og svo mikið í blaðið. Þeir væru búnir að kaupa vikublaðið Ísafold og ætluðu að stofna dagblað með Morgunblaðssniði, ef ég vildi ekki selja, og gefa þannig út bæði dagblað og vikublað. Bæði blöðin áttu að vera pólitísk.“

Og Vilhjálmur Finsen var hugsandi út af þessu, honum þótti þetta hart og vildi gjarnan reyna að fresta; en segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„En svo bar við dálítið, sem gerði það að verkum, að ég gat ekki frestað að taka ákvörðun mína, þangað til ég kæmi heim til Reykjavíkur aftur og gæti athugað allar aðstæður þar. Ólafur fékk nefnilega símskeyti frá Reykjavík, undirritað af Jes Zimsen í umboði kaupenda heima. Zimsen símaði eitthvað á þá leið, að vildi Finsen ekki selja fyrir það verð, sem boðið hefði verið, væru kaupmennirnir staðráðnir í að stofna annað dagblað. Mér fór ekki að litast á blikuna. Ef margir kaupmenn í Reykjavík væru í þessu nýja félagi, yrði erfitt fyrir mig að fá auglýsendur fyrir mitt blað. Ég átti ekki neitt, og ég komst að þeirri niðurstöðu, að þetta gæti orðið mér að falli. Ekki hvarflaði þó að mér, að dagblað kaupmanna gæti orðið betra en það blað, sem ég gæfi út, en auglýsingar kaupmanna væru mér þó nauðsynlegar. Auðvitað mundu kaupmennirnir heldur auglýsa í sínu eigin blaði. Ég ráðfærði mig gaumgæfilega við konu mína, og okkur kom saman um, að líklega væri hyggilegast að selja blaðið. Og þannig komst hjartans barn mitt í hendurnar á kaupmönnunum í Reykjavík. Ég var eina og halaklipptur hundur, þegar búið var að ganga formlega frá þessu. Nokkrum dögum seinna kom greiðslan fyrir blaðið. Hún kom í sterlingspundum, og það var brezki fiskkaupmaðurinn George Copeland, sem greiddi beint frá London. Hinn 1. júlí tók hið nýstofnaða félag við blaðinu. Félagið hlaut nafnið Árvakur, og á það Morgunblaðið enn þá:

Svona lögðu kaupmennirnir eða réttara sagt verzlunarauðvaldið í Reykjavík undir sig blaðið. Svo segir hann áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Þannig atvikaðist það, að ég varð einn ritstjóri og ábyrgðarmaður dagblaðsins Morgunblaðsins og vikublaðsins Ísafoldar um leið. Hverjir voru það svo, sem blöðin höfðu keypt? Það kom í ljós, að það voru ekki nema örfáir kaupmenn í Reykjavík, sem voru hluthafar í útgáfufélaginu, og meðal þeirra erlendu kaupmennirnir George Copeland, Carl Olsen, John Fenger, Jensen Bjerg, og enn fremur voru hluthafar þeir Th. Thorsteinsson, Jes Zimsen, O. Johnson & Kaaber, Hallgrímur Benediktsson, Magnús Einarsson dýralæknir og einhverjir fleiri smákarlar. Liðið var þannig hið fríðasta með þessum mönnum, og fyrir þá átti ég að vinna:

Þannig gekk það til, að verzlunarauðvaldið í Reykjavík náði Morgunblaðinu til sín, og á bls. 283 í þessari bók segir svo Vilhjálmur Finsen, með leyfi hæstv. forseta:

„Það leið ekki á löngu, unz Ísafold og Morgunblaðið fengu stjórnmálaritstjóra, því að hinir erlendu kaupmenn vildu ekki aðeins selja landsmönnum vörur og ýmiss konar varning, þeir vildu einnig ráða landinu stjórnmálalega.“

Það var alveg greinilegt, að verzlunarauðvaldið — (Forseti: Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. ræðumann, hvort hann sé kominn að því að ljúka ræðu sinni?) Nei, ég er rétt að byrja. (Forseti: Ef svo er ekki, verður fundi frestað þar til að loknum fundi í Sþ., sem hefst kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði þar komið minni ræðu, að ég lauk við að lesa upp tilvitnun hjá Vilhjálmi Finsen í bók hans, þar sem hann endaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það leið ekki á löngu, unz Ísafold og Morgunblaðið fengu stjórnmálaritstjóra, því að hinir erlendu kaupmenn vildu ekki aðeins selja landsmönnum vörur og ýmiss konar varning, þeir vildu einnig ráða landinu stjórnmálalega: M.ö.o.: strax og þetta nýja tæki, áhrifatæki, var þarna í uppsiglingu, Morgunblaðið, þá notar verzlunarauðvaldið í Reykjavík, heildsalavaldið, sér sína aðstöðu, yfirráðin yfir auglýsingunum, sem eru um allan þann borgaralega heim undirstaða undir útgáfu stórdagblaða, þá notar verzlunarauðvaldið sér þetta til að hrifsa til sín blað, sem brautryðjendur þess höfðu hugsað sér að yrði óháð, og gera það blað að pólitísku málgagni fyrir sig. Það voru danskir, Íslenzkir og jafnvel enskir kaupmenn, heildsalar, sem þarna stóðu að, örfáir menn, og þetta blað, sem smám saman varð áhrifaríkasta og voldugasta blaðið á Íslandi, það lenti þannig frá upphafi í því að vera pólitískt málgagn verzlunarauðvaldsins íslenzka. Og það er engum efa bundið, að í þessi 45 ár — ef ég reikna frá þessari yfirtöku heildsalanna í Reykjavík á þessu blaði — sem Morgunblaðið nú hefur komið út, þá hefur það haft úrslitaáhrif í íslenzkri pólitík, það er engum efa bundið, og það held ég líka að þeir, sem því hafa stjórnað og að því standa, samþykki. Þess vegna gerist það þarna í upphafi vega, einmitt þegar stéttaskiptingin er að fá á sig þann pólitíska blæ á Íslandi, þegar hinar nýju stéttir eru að mótast, nýju stéttaflokkarnir eru að myndast, verkamannaflokkurinn, bændaflokkurinn og annað slíkt, þá er það fyrsti raunverulegi yfirstéttarflokkur, sem fær þetta blað að sínu höfuðmálgagni, og þetta blað er í höndum verzlunarauðvaldsins. Ég held, að að miklu leyti megi rekja þau gífurlegu áhrif, sem verzlunarauðvaldið hefur haft í íslenzku þjóðfélagi, einmitt til þess, að það hefur frá upphafi ráðið yfir þessu blaði.

Í þriðja lagi er rétt að svara þeirri spurningu, hvers vegna verzlunarauðvaldið á Íslandi sé svona sterkt, með því að taka fram, að það útlenda auðvald, sem eðlilega alltaf er nokkuð sterkt gagnvart eins litlu landi og okkar, eins tiltölulega frumstæðu landi og okkar land var í upphafi aldarinnar, og landi, sem um svo langt skeið hafði verið nýlenda, — þá er gefið, að útlent auðvald, og það þýðir í þessu tilfelli venjulega útient verzlunarauðvald, kemur til með að hafa rík áhrif. Við þurfum ekki nema rekja sögu t.d. olíuhringanna á Íslandi og áhrifa þeirra dönsku, ensku, amerísku olíuhringa hér til þess að sjá, hve sterk áhrif erlent verzlunarauðvald hefur, eða svo að við tökum aftur dæmi núna af bilunum og þeim stóru bilaframleiðendum og þeim, sem selja hingað bíla og annað slíkt. Það er alltaf viðbúið, að svo og svo mikið af verzlunarauðmönnum eða heildsölum verði umboðsmenn fyrir erlenda aðila, þannig að verzlunarauðvald á Íslandi hefur þess vegna notið stuðnings af erlendu verzlunarauðvaldi og verið á vissan máta eins konar erindreki þess. Þetta tvennt hefur hvað eftir annað hnýtzt svo sterkum böndum, að það var oft og tíðum ekki hægt að greina á milli, hvar útlenda auðmagnið hætti og hvar það innlenda byrjaði. Við skulum bara taka sem dæmi eins og í olíunni.

Ég held, að þetta þrennt, sem ég hef nú rakið, sé hin sögulegu, þjóðfélagslegu drög til þess, að verzlunarauðvaldið hefur verið svona sterkt í íslenzkri pólitík eins og það hefur verið.

Menn þekkja það af reynslunni, að Íslenzkir framleiðendur, þeir sem voru í sjávarútvegi eða þeir sem voru að byrja í ofur litlum iðnaði, þeir voru yfirleitt mjög veikir, það voru veikir aðilar, íslenzkt sjávarútvegsauðvald var mjög veikt og varð að þola kreppurnar og annað slíkt, íslenzkur iðnaður byrjaði fyrst raunverulega að vaxa dálítið í skjóli haftanna eftir 1930 og er enn þá tiltölulega veikur, samt óx hann stórum núna eftir síðasta stríð, en heildsala- eða verzlunarauðvaldið hefur allan tímann haft yfirhöndina, haft undirtökin gagnvart þessum tveim öðrum aðilum.

Það má líka geta þess, að það hefur valdið sjávarútveginum þó nokkrum erfiðleikum, að löngum var bændavaldið á Íslandi honum fjandsamlegt. Sérstaklega meðan Jónas Jónsson frá Hriflu var höfuðleiðtogi bændavaldsins íslenzka, þá voru hans sterku og miklu persónulegu áhrif ákaflega mikið í þá átt að reyna raunverulega að hindra uppkomu stórútgerðar á Íslandi. Hans mikla andstaða á sínum tíma, meðan hann var manna voldugastur í íslenzkri pólitík, beindist ekki hvað sízt að því að hindra þá þróun, að raunverulegur kapítalismi gæti komið hér upp á grundvelli stórrekstrar við sjávarútveginn, og allur hans áróður um Grímsbýlýðinn og allt annað slíkt miðaðist raunverulega fyrst og fremst við þetta. En það er mál, sem ég fer ekki út í hér.

Það er fyrst raunverulega 1944, sem verður gerbreyting í þessum efnum, fyrsta stóra breytingin, sem verður á aðstöðu sjávarútvegsins í íslenzku þjóðfélagi, og það er vegna þess, að þá kemur verkalýðshreyfingin sjávarútveginum til hjálpar. Íslenzk verkalýðshreyfing reynir að gera sér grein fyrir, hvernig þurfi að þróa þetta þjóðfélag, hverjar séu þær auðlindir, sem gætu gefið alþýðunni og þjóðinni í heild sem mest í aðra hönd, og hvernig þurfi tæknilega að þróa þetta þjóðfélag. Og verkalýðshreyfingin kemur þá raunverulega sjávarútveginum til hjálpar, og það er samstarf þeirra úr verkalýðshreyfingunni annars vegar, sem þetta skilja, og hins vegar þess hluta af atvinnurekendastéttinni á Íslandi, sem fyrst og fremst hafði hagsmuni af sjávarútveginum og fiskiðnaðinum, sem veldur þeirri gerbreytingu, sem þá verður. Og það er rétt fyrir menn að muna það, þegar þeir eru að ræðð núna um, hvernig þurfi að búa betur að sjávarútveginum, og ekki sízt stjórnarandstaðan er að flytja þar rökin fyrir því alveg réttilega, — að muna eftir, hvað gert var þá fyrir sjávarútveginn til þess að rétta hans hag á móti m.a. verzlunarauðvaldinu og öðru því afturhaldi, sem gegn mönnum reis. Hvaða lánskjör eru það, sem útgerðin á Íslandi og fiskiðnaðurinn fær þá? Þeir fá lán með 21/2 % vöxtum, lán, sem eru jafnvel upp í 75—85% af andvirði þeirra framleiðslutækja, sem þeir eignast, og það er til 20 ára með sérstaklega rúmum skattaskilmálum hvað snertir afskriftir.

Við vitum ósköp vel, að þetta gekk ekki baráttulaust fyrir sig. Þetta kostaði vægðarlausan slag í meira en heilt ár, þó að ríkisstj. sjálf stæði að þessu, við bankavaldið á Íslandi, við afturhaldssamt embættismannavald, sem var eins og þursar og skildi ekki nokkurn skapaðan hlut í, hvernig þurfti að þróa Íslenzkt þjóðfélag. Ég nefni þetta vegna þess, að menn eiga enn þá við þetta sama að stríða. Alþingi þarf ekki að láta bjóða sér að láta einhverja og einhverja menn úti í bæ ákveða vextina handa sjávarútveginum, það erum við hér, sem ráðum því, og það er eingöngu eftir lögum hér frá okkur, sem þetta er ákveðið. Við getum sett þá niður í 2% á morgun, ef við viljum. Og allra barnalegast er það, ef við látum einhverja og einhverja skólapilta fara að ráða því, gera einhverjar tilraunir með okkur og fara að setja vextina hjá sjávarútveginum upp í 8 og 9%, eins og nú er gert, menn, sem hafa ekki hundsvit á íslenzku þjóðfélagi, þess þróunarmöguleikum og þess þróunarskilyrðum.

Auðvitað verður að segja þessu bankavaldi, að það eigi að haga sér svona og svona, og ég segi þetta vegna þess, að alþýðan þarf að taka í taumana. Við eigum ekki að afhenda þetta vald burt úr þessum sölum og til einhverra embættismanna, ábyrgðarlausra embættismanna úti í bæ. Hér eru mennirnir, sem bera ábyrgð á því, hvernig þjóðfélaginu er stjórnað.

Á þessum sama tíma var séð um næga markaði fyrir sjávarútveginn, sem oft hafði á áratugunum áður orðið að vera í vandræðum með markaði, og þeir hafa dugað síðan. Það var séð um stóreflingu allra framleiðslutækja, og það hefur til allrar hamingju orðið nokkurt áframhald, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, í því. Og það var sköpuð sú trygging fyrir sjávarútveginn, að hann gat verið öruggur með að gera út,. Alþingi tók ábyrgð á að sjá um slíkt, bara út frá þeirri einföldu forsendu, að allt Íslenzkt þjóðlíf byggist á sjávarútveginum. Og það þýðir ekkert, þó að verzlunarauðvaldið vilji stjórna hér öðru hverju, það stjórnar öllu út í vitleysu og öngþveiti, eins og þeir eru komnir í núna. Af hverju gerir það það? Af því að það tekur ekki tillit til jarðarinnar, sem það stendur á. Það er sjávarútvegurinn, sem við stöndum á. Það er frá honum, sem við fáum allan okkar gjaldeyri, og ef á að fara að stjórna og rusla með þann gjaldeyri eins og asnar og kaupa tóma bíla, þá náttúrlega kemst þjóðfélagið í þrot. Þess vegna er það, að það er hægt að leika sér með allt mögulegt og gera allar mögulegar vitleysur og koma þjóðfélaginu í öngþveiti eins og gert er núna, en ef menn væru með einhverju viti í þessum efnum, þá stjórna menn út frá þessu, að á sjávarútveginum byggjum við og hann verðum við að efla og hann verður að ganga fyrir.

En það er þessi mótsögn, sem er í öllu Íslenzku þjóðfélagi núna: sjávarútvegurinn er höfuðframleiðsluaflið fyrir okkur og þeir, sem í honum vinna, þeir, sem við hann eru, en heildsalavaldið er sterkasta pólitíska valdið í landinu, og allar þessar kreppur, sem við stöndum í, eru vegna þess, að þessi framleiðsluöfl gera uppreisn á móti þessum vitlausu drottnum, verzlunarauðvaldinu, og það er það, sem þið standið í núna.

Það hefur vissulega oft þurft að grípa til ýmislegs til þess að vernda íslenzkan sjávarútveg, vegna þess að þótt verzlunarauðvaldið hafi stjórnað illa og vitlaust oft og tíðum, hefur það alltaf að lokum komizt að þeirri niðurstöðu, að á sjávarútveginum lifði það, og þess vegna hefur það orðið að halda lífi í honum, þó að það hafi hins vegar stundum verið allt að því búið að kyrkja hann, næstum því drepa hann, og löngum heft alla hans þróun. Er þá nokkuð undarlegt, þó að við íslendingar þurfum öðru hverju að gera ráðstafanir til að vernda okkar sjávarútveg? Nei, það er ekkert undarlegt. Hver einasta þjóð, sem er að skapa sér sjálfstæðan iðnað, — eða hjá okkur sjálfstæða útgerð, — hún verður að grípa til slíks á ókunnu þróunarskeiði í sínu lífi. Hvað gera Þjóðverjar á 19. öld? Englendingar eru þeir, sem eru komnir á undan sem iðnaðarþjóð, ein í heiminum, svo að segja. Þjóðverjar vilja fara að vinna sig upp. Á hvern hátt gera þeir það? Þeir gera það með því að setja vægðarlausa verndartolla til þess að geta skapað sinn eigin iðnað. Hver einasta þ,jóð, stór eða litil, sem ætlar að vinna sig upp til þess að verða sjálfstæð og nota sínar eigin auðlindir, hún verður á þeim tíma, sem hún gerir þetta, að vernda sína eigin atvinnulegu undirstöðu.

Því miður gekk ekki sleitulaust með það samstarf, sem verkalýðshreyfingin skapaði sér við sjávarútveginn á Íslandi. Það kom önnur ráðstöfun þarna inn í, og það er réttast að rifja það upp núna, vegna þess að við búum við eftirhreyturnar af því.

1947, þegar amerísku áhrifanna fer að gæta hér, hvað gerist þá? Þá byrjar aftur nýlendustefnan. Áhugi amerísku auðhringanna er að selja hingað. ESSO hefur mikinn áhuga, Standard Oil vill gjarnan fá hér góða fulltrúa og aðrir slíkir. Þeir styðja hér verzlunarauðvaldið, þeir ýta undir það. En hvernig taka þeir á sama tíma á eflingu sjávarútvegsins? Menn muna kannske eftir því, að það var stjórn þriggja flokka þá við völd undir forsæti Stefáns Jóh. Stefánssonar. Emil Jónsson var, held ég, sjútvmrh., og Marshallhjálpin var rétt byrjuð. Og þessi stjórn ákvað, þegar nýsköpunartogararnir tóku að streyma inn í landið og mikil hrifning fólks var af þeim, að bæta við 10 togurum. Hún keypti 10 togara, þóttist viss um að fá Marshalllán fyrir það. Hvað gerðist svo? Hún fékk ekki Marshalllán. Af hverju fékk hún ekki Marshalllán fyrir 10 togara, þessi stórvirku framleiðslutæki? Vegna þess að ameríska auðvaldið vildi ekki láta efla sjávarútveg á Íslandi. Ameríska auðvaldið og allir þess sérfræðingar voru á móti því að efla sjávarútveg á Íslandi. Þess vegna neituðu þeir að láta nokkuð af Marshallláninu til togarakaupa, og það varð að taka lán í Englandi fyrir alla upphæðina og borga það af okkar útflutningi. Hvaða erlent auðvald sem hefur áhrif á Íslandi reynir að halda okkar sjávarútvegi niðri, vegna þess að sjávarútvegurinn er tryggingin fyrir okkar efnahagslega sjálfstæði. Og á árunum 1950–1956, þegar verzlunarauðvaldið sat eitt við völd hér í 6 ár og heildsalarnir í Reykjavík og SÍS skiptu til helminga á milli sín öllum innflutningi og fleiru, Keflavíkurgróða og öðru slíku, þá sýndi sig hvernig fór, eins og alltaf þegar verzlunarauðvaldið ræður hér. Það var enginn nýr togari keyptur, bátunum var varla haldið við, það var ekki keypt meira en svo, að það rétt dugði fyrir það, sem gekk úr skaftinu, en bílarnir náttúrlega streymdu inn. Þannig sýndi það sig, strax og verzlunarauðvaldið fékk aftur að ráða, að þá var byrjað að þrengja að sjávarútveginum og skapa þar afturför.

1956 tók vinstri stjórn við völdum. Þá hafði verkalýðshreyfingin aftur völd og áhrif, og verkalýðshreyfingin tók aftur sjávarútveginn upp á sína arma. Henni var ljóst, að það var það, sem Ísland þurfti að þróa og efla til þess að verða efnahagslega sjálfstætt. Og verkalýðshreyfingin sá um í fyrsta lagi að kaupa ný tæki, hleypa inn nýjum tækjum, ýta undir útgerðarmenn að kaupa tæki. Og þið munið kannske eftir, hvernig blöð verzlunarauðvaldsinna hömuðust. Munið þið nokkuð eftir, að það höfðu verið keyptir t.d. 12 litlir togarar frá Austur-Þýzkalandi? Aldeilis voðaleg synd í Morgunblaðið var dag eftir dag og ár eftir ár að skrifa um þessa voðalegu togara, austur-þýzku togara, það væri meira glappaskotið ott vitleysan. Og ef Morgunblaðið í dag spyrði t.d., við skulum segja Einar Guðfinnsson í Bolungarvík eða hans syni, hvernig þeim líkaði við þessa togara, — ætli þeir séu ekki búnir að kaupa eina þrjá af þeim, — og spyrði sjómennina að því, hvernig það væri núna í síldarhrotunum tvö síðustu ár, — ég býst ekki við, að Morgunblaðið mundi birta þau viðtöl, það mundi líklega sýna allt of greinilega, að þessir litlu togarar væru búnir að gefa nokkuð mikið í aðra hönd. En hatrið á móti þessum veslings litlu togurum, sem voru keyptir, frá Morgunblaðinu, það var dæmigerð afstaða verzlunarauðvaldsins til sjávarútvegsins,

Kjörin, sem vinstri stjórnin tryggði líka sjávarútveginum á þessum tíma, miðuðu aftur í rétta átt og hjálpuðu til að efla hann stórum. Og ég minnist svo ekki hvað sízt á sjálfa landhelgina, landhelgisbaráttuna. Það sýndi sig sem sé strax og verkalýðshreyfingin hafði aftur áhrif, þá var tekið til óspilltra málanna með að efla sjávarútveginn, leggja grundvöll að stórkostlegri eflingu hans, — minni á bara sem dæmi, að á þessum árum óx t.d. freðfiskútflutningurinn úr 20 þús. tonnum árið 1952 upp í 75—80 þús. tonn 1958, held ég það hafi verið, þannig að verkalýðshreyfingin varð sem sé í annað skipti á þessari öld að taka sjávarútveginn upp á sína arma til þess að hrinda Íslandi fram á við, til þess að gera Ísland aftur efnahagslega sjálfstæðara og til þess að vinna upp það tjón, sem verzlunarauðvaldið hafði valdið með sínum afskiptum af pólitík.

Hins vegar hefur verzlunarauðvaldið alltaf verið mjög sterkt í ríkisvaldinu og er því miður enn. Verzlunarauðvaldið og allt það brask, sem tvinnast við það, allt það fjármálabrask, sem á sér stað, ekki sízt í Reykjavík, það hefur valdið því, að þessi hluti auðvaldsins, verzlunar- og braskauðvaldið, hefur haft mikla hagsmuni af einu sérstöku fyrirbrigði, sem er fjandsamlegast sjávarútveginum og verkalýðnum, og það er verðbólgan. Verzlunarauðvaldið og braskauðvaldið, mennirnir, sem ganga hér í bankana til að taka lánin og setja þau hérna í fasteignirnar, það eru þeir menn, sem síðan skrúfa verðbólguna áfram, vegna þess að þeir hafa pólitíska hagsmuni af því. Það eru þeir, sem fella gengið, um leið og þeir komast að völdum. Það eru þeir, sem sjá um að hækka verðlagið fram úr öllu hófi, vegna þess að þeir vilja, ef þeir skyldu nokkurn tíma borga sínar skuldir til baka, borga þær með miklu verðminni krónum en þeir fengu. Þannig hefur braskauðvaldið Íslenzka alltaf staðið á móti þeim raunverulegu hagsmunum sjávarútvegsins, því að hann þolir ekki þessa verðbólgu, og hagsmunum verkalýðsins.

Það fyrir utan hefur svo verið borin fram sú kenning, oft studd af sérfræðingum, sem Ameríkanarnir hafa sent hingað til akkar, að þetta braskauðvald ætti allt að vera sem allra frjálsast í þjóðfélaginu, það ættu allir að fá að græða á öllum, sem hefði þýtt, að sem allra stærst auðmannastétt ætti að fá að græða á verkalýðnum.

En það var fundið út strax á Sturlungaöld, að það væri nokkuð takmarkað, hvað þetta land gæti borið stóra yfirstétt, og hún er satt að segja orðin allt of stór núna til þess að landið beri hana. Það var borin fram sú kenning, að allir þyrftu að græða. Ef til vill munið þið eftir því, 1952 held ég það hafi verið, sem húsaleigulögin voru afnumin út frá þeim forsendum, að það ætti endilega að mega koma öllum húsum í braskverð. Slík lög hafa ekki enn þá verið afnumin einu sinni t.d. í Kaupmannahöfn. Þeim mönnum, sem stóðu að því að afnema þau lög þá og margfalda það fjármagn, sem nú er í gömlum húsum í Reykjavík, þeir hlutu að gera sér það ljóst, ef þeir hugsuðu nokkurn skapaðan hlut, að það þýddi að hækka kaup seinna meir. Ef húsabraskarar eiga að fá að græða taumlaust, þá verður sjávarútvegurinn að borga það, og þeir, sem standa með því að innleiða það skipulag, að menn geti braskað von úr viti, t.d. með hús, þeir eru þar með að segja: Sjávarútvegurinn á að borga þetta. Þeir kunna að segja í millibilinu: Jú, við skulum bara láta verkamennina borga. — En þeir komast ekki upp með það. Þess vegna þurfa menn að gera sér ljóst, að það eru lélegir hagfræðingar, sem ríkisstj. hefur í sinni þjónustu, ef þeir gera henni það ekki ljóst, að það verður að takmarka gróðann á vissum sviðum í þjóðfélaginu, svo framarlega sem sjávarútvegurinn á að borga sig.

Í dag getur sá maður, sem fær lóð hér í Reykjavík, — og venjulega er lóðunum úthlutað fyrir heilar blokkir, af því að það á að styðja einkaframtakið, — sá maður eða menn, sem hafa félag kannske sín á milli að byggja þar 20 íbúðir, 40 íbúðir, þeir taka sem hreinan gróða 100 þús. á hverja íbúð, 40 íbúðir á 4 millj. Það þekkist, að menn hafi jafnvel grætt upp í 200—300 þús. kr. á íbúð. Meðan svona gróði viðgengst í þjóðfélaginu, sem sjávarútvegurinn verður að borga fyrir, þegar öllu er á botninn hvolft, þá er ekki til neins að koma og segja við verkamenn: Þú átt að borga þetta. — Ef menn stjórna þjóðfélaginu þannig, að húsaleiga sé eins lág og hægt er, að mönnum sé hjálpað til að byggja með lágum vöxtum og skynsamlegum lánum og mönnum gert ómögulegt að braska, þá þýðir það, að sjávarútvegurinn sleppur líka billega með vinnukaupið. Þetta er það, sem hver einasta auðmannastétt í Evrópu skilur, nema auðmannastéttin hér á Íslandi.

Þegar Danir, sem lifa mikið af útflutningi, vilja vera samkeppnisfærir við aðrar þjóðir, — hvaða ráðstafanir gera þeir þá? Þeir setja hámarkshúsaleigu í hlutfalli við, hvenær húsin voru byggð, öll hús í Danmörku. Það er haldið niðri þannig húsaleigunni, vegna þess að þeir vita ósköp vel, að ef húsaleigan hækkar, þýðir það, að verkakaupið hækkar, og ef verkakaupið hækkar, þá þýðir það, að það verða erfiðleikar fyrir útflutninginn. Og meðan íslenzk ríkisstjórn, sem er að fást við að stjórna efnahag landsins og skipta sér af honum með ríkisafskiptum, hefur sérfræðinga í sinni þjónustu, sem segja henni ekki þetta, leiða hana ekki í allan sannleikann með þetta, þá hefur hún slæma sérfræðinga í sinni þjónustu. Og það er ekki hægt í svona litlu þjóðfélagi eins og okkar að halda uppi, hlynna að undirstöðunni í þjóðfélaginu, sem er sjávarútvegurinn okkar, og efla hann, margfalda okkar fiskiðnað og annað slíkt, öðruvísi en að beina fjármagninu þangað, og það þýðir að reka það út með harðri hendi af öðrum sviðum. Ef það væri frjáls áfengissala á Íslandi í dag, þá væri það eitt svið, sem fjármagnið mundi vafalaust verða rekið út úr og áfengiseinkasalan gerð að einkasölu fyrir ríkið, eins og það er nú. Ef það væri frjálst með tóbak, mundi það verða hið sama. Það er frjálst með vátryggingar. Það er engin þörf á, að þetta sé svo. Það er engin þörf á, að Íslenzkt fjármagn fari í neitt af þessu, ríkið gæti haft þetta allt saman. Það er engin ástæða til þess, að það skapist gróði á þessum sviðum, vegna þess að við höfum ekki nema takmarkaðan gróða, sem hægt er að skapa, og við þurfum að einbeita þeirri gróðamyndun, meðan við höfum hér kapítalístískt þjóðfélag, að þeim sviðum, sem þjóðfélaginu er nauðsynlegt, til þess að það lifi og dafni, og það er sjávarútvegurinn fyrst og fremst og sá iðnaður, sem stendur í sambandi við hann.

Sá gróði, sem verkalýðurinn á Íslandi skapar, er ákveðin upphæð. Þessi ákveðna upphæð skiptist á milli sjávarútvegsins, heildsalavaldsins, iðnaðarins, bankavaldsins, húsabraskaranna, allra mögulegra annarra aðila, og það skiptir öllu máli, hvernig þessi gróði skiptist. Og þegar verkalýðurinn þrengir á og vill fá meira fyrir sína vinnu, þá verður að ganga á þennan gróða, og það þýðir, að sá hluti af auðmannastéttinni, sem nytsamastur er í þessu tilfelli, sá, sem er við sjávarútveginn, hann verður að gera svo vel að þurrka burt eitthvað af hinu, annaðhvort draga úr því eða þurrka það burt, t.d. með þjóðnýtingu. Þetta eru einföld hagfræðileg lögmál, sem menn þurfa að skilja, ef þeir ætla að stjórna íslenzku þjóðfélagi.

Það er engin tilviljun, að einmitt hér á Íslandi hafa afskipti ríkisins verið meiri en hjá flestum nágrannaþjóðum okkar. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að okkar land var það fátækt og rúið í upphafi þessarar aldar, að ríkið varð sjálft að hlaupa undir bagga. Það var eini aðilinn, sem hafði þá tiltrú, það gat stofnað banka, fengið lán og annað slíkt, og það hjálpaði þannig til þess að mynda auðvaldið á Íslandi með því að útvega því þannig fjármagn. Hins vegar er ekki laust við, að einmitt í sambandi við okkar rekstur, t.d. á bönkunum, þá var það orðið svo, að einkakapítalískur hugsunarháttur hafði sett þar allt of mikið sinn svip á. Þegar ríkið á bankana í einu landi, þá er ekki þörf á að reka þá fyrst og fremst með gróðasjónarmið fyrir augum. Ríkisbankar eiga ekki út af fyrir sig að vera einhver stórkostleg gróðafyrirtæki. Það er eðlilegt, ef bankar eru í höndum einkaauðvalds, að það einkaauðvald liti á þá sem gróðafyrirtæki og hagnýti þá þannig. Það er ekki

nema lögmál þess þjóðfélags. En ef ríkið rekur bankana, þá á að skoða það sem þjónustustarfsemi við atvinnulífið í þjóðfélaginu, það þýðir m.ö.o., að þeir bankastjórar, sem stjórna ríkisbönkunum, eiga að miða reksturinn við það, sem þjóðfélaginu sem heild er hentugast, ekki við hitt, hvernig bankarnir geti sölsað til sín sem mestan gróða.

Það hefur stundum orðið vart við, að það hefur jafnvel verið alveg öfug hugmynd uppi hjá bönkunum. Útgerðarmenn, sem jafnvel hafa aflað vel, en út af því, hvernig verzlunarauðvaldið fláir þá, þá hafa þeir kannske stundum ekki átt neitt. Þeir hafa komið í bankana og verið að biðja um lán til þess að gera út, það hefur komið fyrir, að bankastjórarnir hafa sagt við þá: Hvern fjandann ertu að fást við þessa útgerð? — Þetta hefur verið skilningurinn hjá þeim mönnum, sem eru oft voldugustu menn í Íslenzku atvinnulífi, á undirstöðu Íslenzks atvinnulífs. Og mörgum hefur jafnvel stundum þótt það einna hentast að reyna að hafa sig út úr þessu.

Ein af spurningunum, sem liggur fyrir okkur í dag, einmitt í sambandi við þessi lög og í sambandi við lausnina á vandamálum sjávarútvegsins, er spurningin um vextina. Það er reynt að telja okkur trú um, að það sé eitthvert náttúrulögmál, að vextirnir á Íslandi eigi að vera 7—9% núna og sjávarútvegurinn eigi að borga þessa vexti. Hver sá hagfræðingur, sem heldur slíku fram, er að tala tóma vitleysu. íslenzku þjóðfélagi er þörf á allt, allt öðru í þessum efnum, og það verður að haga þessari pólitík, bankapólitíkinni og vaxtapólitíkinni, frá sjónarmiði Íslenzks atvinnulífs, en ekki eftir einhverjum amerískum kreddum, ég tala nú ekki um amerískum fyrirmælum. Það þýðir, að vextirnir af sjávarútveginum yrðu settir niður í 2% eða 1%, það má alveg eins hafa þá það. Ef um það er að ræða, þá eru þeir búnir að leysa helminginn af öllu því vandamáli, sem vesalings hæstv. ríkisstj. hefur lagt út í glapstigu á í sambandi við þetta frv.

Ég vil minna á það, að ríkið kaupir alla olíuna inn nú sem stendur. Hvaða þörf er á, að ríkið sé að láta 3 félög í landinu vera að deila þessari olíu? Því ekki að hafa þetta sjálft áfram og reka það? Ég vil minna á, að ríkið er jafnvel að borga, held ég, vátrygginguna fyrir fiskiskipin núna, er það ekki? Það hefur a.m.k. komið fyrir öðru hverju upp á síðkastið. Hví í ósköpunum er ríkið að borga þetta til einhverra vátryggingarfélaga? Hví hefur það ekki eitt ríkisvátryggingafélag og borgar þetta þangað? Er nokkur sérstök þörf á því að hafa hér önnur vátryggingarfélög? Eða er það bara vegna þess, að hinir og þessir fésýslumenn vilja sitja að þessari aðstöðu eins lengi og þeir geta? Ef við leggjum áherzlu á að efla sjávarútveginn, og við getum margfaldað hann enn þá, sérstaklega að verðmæti, sem flutt er út, með fullkomnum fiskiðnaði, þá getur vel verið, til þess að vinna upp okkar markaði erlendis, hagnýta þá, að við þurfum að taka innflutninginn meira og meira í okkar hendur, innflutninginn á bílum, innflutninginn á byggingarefni, innflutninginn á vélum og skipum og öðru slíku, til þess að sjá um, að við höfum nóg af mörkuðum. Auðvitað á innflutningurinn að þjóna útflutningnum. Það er útflutningurinn, sem er undirstaðan að þessu. En þá er komið við hjartað í verzlunarauðvaldinu.

Ég rek þetta hér vegna þess, að það er greinilegt, að það, sem bak við þessi lög er, er þetta: Það á að reyna að leysa hagsmunamótsetningarnar innan íslenzkrar auðmannastéttar á kostnað verkalýðsins og með því að hneppa verkalýðinn í þrældóm, og það er það, sem íslenzkri auðmannastétt er nauðsynlegt að gera sér ljóst strax, að verði ekki gert. Það verður ekki gert. Og það er bezt, að hún átti sig á því í tíma, hvar hún vill skera niður í sinum eigin herbúðum. Það er óhjákvæmilegt fyrir Íslenzkt þjóðfélag, fyrir íslenzkt atvinnulif og fyrir íslenzkan sjávarútveg, að brask- og heildsalavaldið í landinu sé brotið á bak aftur, að þjóðnýting fari fram á vissum sviðum. Ég skal bara minna á: Hvernig mundi ganga með sjávarútveginn núna, ef svona þrælalög væru sett í gang? Hann mundi steindrepast hérna að heita má núna? Hvernig mundi fara með síldarsöltunina hérna núna? Það er vitanlegt, að fólkið kemur þangað ekki. Samningarnir, sem menn eru að gera út á við, verða meira og minna ónýtir, markaðirnir eyðileggjast, keppinautarnir taka þetta. Stundum er sjávarútvegurinn núna að kvarta yfir því, t.d. hraðfrystihúsaiðnaðurinn, að hann hafi ekki vinnuafl. Þeir ættu í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna að telja saman t.d. brjóstsykurs- og súkkulaðigerðirnar í Reykjavík, hvað þær séu margar, hvort það muni ekki vera einhver gróði á þeim, hvort það mundi ekki mega í einni tiltölulega lítilli verksmiðju, sem ríkið ætti, framleiða allan þann brjóstsykur, súkkulaði, karamellur og annað slíkt, sem þarf að borða á Íslandi. Er nokkur ástæða til þess, að 10-20 menn séu að fást við þetta, einkaatvinnurekendur í þessu? Ísland lifir ekki á karamellum, Ísland lifir á fiski. Meðan svona er stjórnað, allt er látið vera í öngþveiti og vitleysu í öllu þjóðlífinu, er komið til okkar og kvartað: Sjávarútvegurinn er alveg að drepast, hann drepst nú, svo framarlega sem verkalýðurinn verður ekki þrælkaður. — Og hvað á maður að segja við slíku? Ég held, að þeim mönnum, sem svona standa, sé nær að athuga í tíma, áður en allt er komið í öngþveiti og vitleysu.

Sjávarútvegurinn hefur núna meiri möguleika hjá okkur en nokkurn tíma fyrr á þessari öld. Í fyrsta lagi er að gerast stórkostleg tæknibylting hjá okkur, fyrst og fremst í síldinni, bæði hvað snertir veiðitækni, skip og annað slíkt. Og samt erum við enn þá eins og skrælingjar í því, hvernig við förum með þessa vöru. Við erum enn þá á nýlendustigi, flytjum þetta út sem hráefni handa sænskum niðurlagningarhring til þess að vinna úr og til þess að margfalda verðmætið í þessu. Við gætum lagt niður sjálfir 100-200 þús. tunnur af síld í gaffalbita og annað og selt þetta út um allan heim. Við gætum skapað allmikla örugga markaði, eins og ég hef lýst hér áður, að við gerðum við hraðfrysta fiskinn í þeim sósialistísku löndum, til þess að geta barizt því heiftúðugar fyrir okkar mörkuðum í kapítalistískum löndum. Við getum gerbylt okkar sjávarútvegi núna, reist á grundvelli hans stórkostlegan fisk- og síldariðnað. En þetta er ekki gert. Af hverju ekki? Af því að fjármagninu er ekki beint inn á þessar brautir. Það á að reka fjármagnið út úr karamelluframleiðslunni og öllu slíku og inn í að auka þetta. Það verður að stjórna því, hvert fjármagnið fer, og það er listin við að kunna að stjórna þjóðfélagi efnahagslega, ef maður á á annað borð að skipta sér eitthvað af því. Sjávarútvegurinn hefur nú áreiðanlega meiri markaðsmöguleika en nokkru sinni fyrr. Stór hluti af heiminum í kringum okkur sveltur. Matvælaframleiðslan er áreiðanlega sú framleiðsla, sem á lang-langmesta framtíð fyrir sér. Og við þurfum bara að leggja okkur í líma um að gera hana nógu vel úr garði, og við höfum einhver beztu gæði hvað vöru snertir, sem nokkur þjóð hefur.

En hvað þarf til þess, að sjávarútvegurinn geti tekið svona framförum, til þess að það geti orðið iðnbylting í matvælaframleiðslunni íslenzku, til þess að við getum margfaldað verðmæti sjávarútvegsins? Hvað þarf til þess? Það þarf í fyrsta lagi þannig þjóðfélagslegan aðbúnað að honum, að hann vaxi. Verzlunarauðvaldið er ræktað bókstaflega eins og það væri jurt í sérstökum hitunarreit að heita má, en sjávarútvegurinn er látinn vera úti í kuldanum. Við gætum með því að búa almennilega að sjávarútveginum hvað snertir vexti, fjármagn og annað slíkt, með því að reka fjármagnið út úr svo og svo mörgum öðrum sviðum þjóðfélagsins, þar sem það hefur ekkert í raun og veru nema illt að gera, þá getum við margfaldað sjávarútveginn á Íslandi og fiskiðnaðinn.

Einhver mun spyrja: En vinnuaflið? Hvert er fyrsta skilyrðið til þess, að sjávarútvegurinn geti valið úr um vinnuafi? Það er, að hann borgi betra kaup en aðrir, a.m.k. jafnt og helzt betra. Þá velur hann úr um vinnuafl, og sjávarútvegurinn getur það, hann er færastur um af öllum að borga gott kaup, vegna þess að hann er sá, sem getur beygt alla aðra hluta auðmannastéttarinnar á Íslandi fyrir sér, af því að hann er undirstaðan undir öllu saman. Þess vegna er þetta frv., sem miðar að því að láta sjávarútveginn raunverulega borga verst kaup af öllum, það er fjandsamlegast sjávarútveginum af öllu Íslenzku atvinnulífi. Það er enginn efi á því. Og við Íslendingar þurfum að aðgæta það mjög vel, að við þurfum að fara mjög skynsamlega með okkar vinnuafl. Við höfum ekki of mikið af því, þegar við rekum okkar þjóðfélag rétt. Við höfum engin efni á að dreifa því til svona og svona margra atvinnurekenda, sem eru að braska í hinu og þessu. Við verðum að fara ákaflega skynsamlega með þetta vinnuafl. Það þýðir, að við verðum að reikna sem allra mest út fyrir fram, hvernig við ætlum að verja því. Þess vegna þarf verkalýðshreyfingin, sem hér er ráðizt á, að rísa upp, og það er hún þegar búin að gera og heldur áfram að gera, hún mun ekki liggja undir þessu. En sannleikurinn er, að sjávarútvegurinn og þeir, sem bera hann fyrir brjósti, hvort sem hann er stór eða smár, hvort það eru bátar, togarar, fiskiðnaður eða annað, þeir eiga ekki heldur að risa undir slíku. Það er alger misskilningur af þeim mönnum, hvar í flokki sem þeir standa, sem vilja eflingu íslenzks sjávarútvegs, að standa með frv. eins og þessu. Þetta frv. er fjandsamlegt Íslenzkum sjávarútvegi. Þetta frv. er ekki aðeins þrælafjötrar á íslenzkan verkalýð, og það er það versta og það svívirðilegasta við það, það mundi líka vera höft á þróun Íslenzks sjávarútvegs, og því mundu menn fá að finna fyrir undireins, ef þetta frv. verður að lögum. Þessi leið, sem hæstv. ríkisstj. er að reyna að fara, þessi þrælaleið, er um leið drep fyrir sjávarútveginn Íslenzka. Og það er ekkert nýtt, að það gerist, þegar verzlunarauðvaldið er við völd á Íslandi.

Hæstv. viðskmrh. man máske eftir lýsingunni, sem hann gaf — 1951 held ég það hafi verið í útvarpsumr., þegar hann var að lýsa stjórninni, sem þá sat við völd, sem var einmitt þessi týpíska heildsalastjórn íhaldsins og Framsóknar, og þegar hann lýsti því, hvernig allar aðrar stéttir þjóðfélagsins þjáðust undir þessari stjórn, en það var ein stétt, sem hún var góð við, sem gat verið ánægð með hana, og það var heildsalastéttin í Reykjavík. Og við erum aftur að koma á slíku ástandi, og það er raunverulega ákaflega hart, að svo skuli komið. Það er sérstaklega hart fyrir Alþfl. Alþfl. hugsaði einu sinni dálitið hátt í þeim efnum, hvernig farið væri með stjórn á Íslandi. Það var sú tíð einu sinni, að Alþfl. var ekki eins hrifinn af einkaatvinnurekstrinum og hann virðist vera núna, þegar hann situr í stjórn þessa svokallaða einkaframtaks. Þá sá hann hætturnar á því, hvað auðvald gat þýtt í einu þjóðfélagi. Þá voru dregnar upp myndir, sem ég býst við að komi núv. foringjum Alþfl. næstum því ókunnuglega fyrir sjónir. Það var um það leyti, sem auðvaldið var að brjótast til valda í ýmsum löndum Evrópu með fasistískum hætti, og verkalýðsflokkarnir stóðu frammi fyrir því að skilgreina það, hvernig á því hefði staðið, að slíkt hefði gerzt. Þá sló Alþfl. því föstu í sinni ályktun, það var á 12. sambandsþingi hans 1934, hvað hefði valdið því, að einræðisstefna auðvaldsins hefði getað orðið svona sterk, og svarið var þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Hún var sú, að þeim lýðræðis- og jafnaðarmannastjórnum láðist, meðan þær sátu að völdum, að neyta valdsins, sem hinar vinnandi stéttir höfðu með atkv. sínu fengið þeim í hendur, til þess að koma á fullkomnu lýðræði, einnig í atvinnulífi þjóðanna, létu undir höfuð leggjast að taka að sér stjórn atvinnumálanna, framkvæma skipulagningu þeirra með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum og brjóta þannig á bak aftur einræði auðvaldsins yfir framleiðslutækjunum:

Þetta var fyrir 30 árum. Þá setti Alþfl. sér það sem markmið, sem hann vildi stefna að, að afnema einræði auðmanna í atvinnulífinu. Núna er að vísu ekki um það að ræða, að það sé gert í heild, en það, sem um er að ræða, er, hvort það séu nokkur svið þjóðfélagsins, þar sem Alþfl. í dag þyrði að framkvæma þessa stefnu. Það, sem Ísland þarf með í dag, er, að vissir hlutir í íslenzku þjóðfélagi væru þjóðnýttir. Það þyrfti að þjóðnýta, við skulum segja olíuna, það þyrfti að þjóðnýta vátryggingarnar, það þyrfti að þjóðnýta svo og svo mikið af innflutningsverzluninni. Alþfl. ætti samkv. allri sinni stefnuskrá að vera reiðubúinn til slíks, og það liggur fyrir og er tölulega sannað þegar í þessum umr., að með slíkum afskiptum ríkisins í þá átt að taka gróða af vissum einkaaðilum núna, afnema einræði auðmanna á vissum sviðum í þjóðfélaginu, þá er leikur, ekki aðeins að hækka kaup verkamanna stórum, heldur líka að stórefla sjávarútveginn í þjóðfélaginu. Ég held, að Alþfl, ætti að fara að rifja ofur litið upp af sínum barnalærdómi, rifja ofur litið upp af sinum ákvörðunum frá því, meðan hann var og hét. Þessi ályktun hans og ávarp hans til alþýðu frá þinginu 1934, áður en hann vann stærstu kosningasigra, sem hann nokkru sinni hefur unnið í sínu pólitíska lifi, sýnir honum, inn á hvaða leið slíkur flokkur á að fara, ef hann vill, að honum sé lífs auðið. Alþfl. þarf að gera sér ljóst, að það er óhugsanlegt að ætla að viðhalda á Íslandi einhverjum ótakmörkuðum yfirráðum einkarekstrar og einkaauðvalds, og einu sinni rámaði Alþfl. í þetta og hélt meira að segja, að að þessu tímabili væri komið. Þá var hann að gera upp gjaldþrot sjávarútvegsins 1933 og sló því föstu í þessu ávarpi sínu, sem ég hef minnzt á, með svo hljóðandi orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„En forráðamena einkarekstrarins á atvinnuvegum þjóðarinnar hafa fyrirgert réttinum til að veita atvinnulífinu forsjá og forstöðu. Þá á ekki að spyrja ráða né til þeirra að leita um bjargráð. Tímabil hins ótakmarkaða einkarekstrar og einkaauðvalds á Íslandi á að vera á enda.“

Það var bætt við meira að segja þá: „Fyrir tilstyrk hinna vinnandi stétta, alþýðunnar til sjávar og sveita, hafa völdin verið tekin af herrum auðvaldsskipulagsins íslenzka, og hún vill, að völdunum sé beitt gegn þeim. Henni er orðið það ljóst, að hún á nú fyrir höndum úrslitabaráttu fyrir atvinnu sinni, frelsi og lífi, og vill berjast til þrautar undir forustu Alþfl“

Þetta var einu sinni samþykkt í Alþfl., fyrir tæpum 30 árum. Þá hugsaði þessi flokkur enn þá hátt. Þá stílaði hann á að breyta þjóðfélaginu. Og enn sem komið er er það svo, að í þeirri pólitísku kreppu, sem við stöndum í í dag, er nauðsynlegt, að tímabil þessa ótakmarkaða einkarekstrar og einkaauðvalds sé á enda. Það er nauðsyn, að á vissum sviðum þjóðfélagsins komist hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar að með að ráða, að það sé framkvæmd miklu meiri þjóðnýting og ríkisrekstur en nú er gert, m.a. til þess, að einkareksturinn geti fengið að lifa áfram á vissum sviðum.

Ég rifja þetta aðeins upp hérna vegna þess, að nú er það Alþfl., sem stendur að því frv., sem hér er lagt fram, hatrammasta þrælafrv., sem lagt hefur verið fyrir Alþingi Íslendinga nokkru sinni. Og því er borið við, að vandkvæði sjávarútvegsins séu svo mikil, að þau verði ekki leyst með öðru en þessu og það á tíma, þegar íslenzk auðmannastétt er ríkari, er fjölmennari, stærri en nokkru sinni fyrr í sögu landsins. Það er óhjákvæmilegt, að á svona tíma sé þjóðfélagið sjálft grandskoðað og gegnumlýst til þess að sjá, hvar breyta megi til, og ég hef veríð að reyna að gera það að nokkru leyti, og ég vildi aðeins lesa þetta upp til þess að hressa ofur litið við minni Alþfl: forustumannanna, ef þeim mætti renna ofur lítið blóð til skyldunnar frá þeim tíma, þegar flokkur þeirra var og hét, þegar þeirra flokkur var jafnsterkur Framsfl. í Íslenzku þjóðlífi, þegar hann setti sér að hafa forustu fyrir vinstri öflum í íslenzku þjóðlífi og lét ekki nota sig til þess að flytja annað eins frv, fram og það, sem nú liggur fyrir.

Ég segi þetta vegna þess, að það eru síðustu forvöð fyrir Alþfl. að átta sig á, hvert hann er að fara. Ef Alþfl. heldur áfram á þessari braut, sem hann hefur gengið með þessu þrælafrv., þá bíður hann sitt endanlega skipbrot. Ég lýsti því hér í gær, hvernig á því stæði. Það stæði þannig a því, að mennirnir, sem veita honum forustu nú, séu lausir úr öllum tengslum við verkalýðshreyfinguna, við verkalýðsfélögin, hafi aldrei í þeim verið sumir hverjir, hafi ekki verið aldir upp við það að berjast með verkamönnun í verkföllum, stjórna með þeim verkföllum og heyja þeirra lífsbaráttu með þeim, og þeir skilja þá þess vegna ekki og vita ekki, hvert þeir eru að fara, þegar þeir koma með annað eins lagafrv. og þetta. Ég vil þess vegna alveg sérstaklega skora á Alþfl, að átta sig í tíma.

Það er engum efa bundið, að vissar hugmyndir hefur Alþfl, og m.a. hæstv. viðskmrh. haft um, að hitt og þetta gott gæti máske gerzt í þeirri samvinnu, sem þeir hafa verið i. Þetta hefur komið fyrir áður. Ég man eftir 1947, þegar formaður Alþfl., Stefán Jóhann, myndaði sína stjórn þá með tveimur öðrum flokkum og það var sett inn í lögin um fjárhagsráð, að vera skyldi áætlunarbúskapur á Íslandi, og forsrh. lýsti því alveg sérstaklega yfir, hve stórt stig þetta væri fram á við að láta hugsjónir Alþfl. rætast. En hæstv. núv. dómsmrh. stóð þá upp, hann var þá, held ég, utanrrh., og hrelldi hann með því, að það mundi nú líklega ekki verða mikið úr þessum áætlunarbúskap, enda reyndist það orð að sönnu. Fjárhagsráð varð sú argasta skrípamynd af slíku, sem hægt er að hugsa sér. Og ég man eftir í fyrra, þegar frv, mitt um áætlunarráð var til umr. hérna, hvað hæstv. viðskmrh. var hátt uppi þá, hvað hann hélt hjartnæmar ræður um, að þetta verkalýðsfrv., sem ég væri alltaf að berjast þarna fyrir, væri nú raunverulega komið í framkvæmd, hann væri búinn að semja við Sjálfstfl., raunverulega að beygja Sjálfstfl. undir sig og sjá um, að Sjálfstfl. yrði nú að framkvæma þjóðhagsáætlun, og áætlunin var gefin út fyrir kosningarnar — og hver hefur heyrt um hana síðan?

En hvernig er sjálfur áætlunarbúskapurinn í þjóðfélaginu samkv. þessu Það er það argasta öngþveiti, svo að notuð séu orð hæstv. forsrh., sem hugsazt getur, allt komið í strand. Sú hugsjón, .sem Alþfl. lagði þarna til, vafalaust í góðri meiningu, er sem sé umhverfð í sína ranghverfu. Hún kemur fram í því argasta öngþveiti, sem við höfum búið við um langt, langt skeið í íslenzku þjóðfélagi. Þess vegna held ég, að Alþfl. lifi núna sína örlagastund. Við höfum aðvarað hann áður, þegar hann hefur gert hluti, sem Alþfl. áður lét vera að gera. Við höfum aðvarað hann, Alþfl., þegar hann fór inn á gerðardóma, sem Haraldur Guðmundsson gerði að fráfararatriði 1938. Við höfum aðvarað hann, þegar hann var með í gengislækkun, sem Stefán Jóh. Stefánsson og Alþfl. neitaði að vera með í 1949. En ég vil af öllum alvöruþunga aðvara Alþfl. nú um að halda ekki áfram á þessarf braut. Það er sjálfsmorð að gera slíkt.

E.t.v. mundi hæstv. viðskmrh. spyrja mig, hvað ég sé að bera áhyggjur fyrir Alþfl. Við höfum löngum deilt, þeir tveir flokkar, sem ég er fulltrúi fyrir, og hann. En ég vil segja það við hann, að ég lít enn á Alþfl. sem verkalýðsflokk, og Alþfl. er í samtökum íslenzks verkalýðs í Alþýðusambandi Íslands næst á eftir Sósfl. og Alþb, sterkasti flokkurinn. Og við sjáum ósköp vel, hvernig þeir tveir stóru borgaraflokkar, þeir tveir stóru fésýsluflokkar, sem hér hafa voldug fyrirtæki á bak við sig í allri sinni baráttu, standa vel að vígi með sín blöð og annað slíkt, við sjáum ósköp vel, hvernig þeir stefna hér að tvíflokkakerfi í okkar þjóðfélagi. Við í Alþb. vildum, þegar Alþb. var stofnað, fá Alþfl. með í það og buðum honum það. Við höfum alltaf viljað hafa samstarf við Alþfl, um öll góð mál, og okkur er alveg Ijóst, að eigi verkalýðshreyfingin á Íslandi í þeirri mynd, sem hún hefur verið, að verða eins sterk og hún þarf að verða, þá þurfa Alþfl, og Alþb. að geta unnið saman. Þess vegna viljum við gera allt, sem við getum, til þess að fá Alþfl. burt af þeirri braut, sem hann er á. Við vitum, að það fylgir honum ákaflega mikið af heiðarlegu og góðu alþýðufólki. Það var engin tilviljun, að fjölmennasti fundur, sem haldinn hefur verið í Hlíf í Hafnarfirði, þessu gamla, fyrsta brautryðjendavígi Alþfl. og verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, allt fólkið af þeim Hlífarfundi fór heim til Emils Jónssonar til þess að mótmæla þessu frv., til þess að aðvara sinn gamla foringja um, að svona mætti ekki halda áfram.

Okkur er alveg ljóst, að Alþfl. lifir örlagastund í þessum efnum, og svo fremi sem hann ekki áttar sig í tíma, þá brýtur hann sjálfan sig niður, og íslenzk verkalýðshreyfing hefur ekki hag af því. Hún hefur ekki hag af því, að allur sá fjöldi fólks, sem fylgt hefur Alþfl. af trúmennsku fyrir það, sem hann einu sinni var, fari að tvístrast út um allt. Það þarf sem heild að geta staðið saman, en um sinn flokk endurskapaðan, um sinn flokk á réttri leið, um sinn flokk ekki á leið til þrælafrv. og annars slíks, heldur á leið til aukins frelsis og bættra kjara fyrir Íslenzka alþýðu. Þess vegna vil ég aðvara Alþfl. alveg sérstaklega í þessum efnum að athuga sinn gang, áður en hann steypist fram af hengifluginu.

Í Noregi höfum við stjórn að völdum, sem er skyld Alþfl. hér heima og verkalýðshreyfingunni, stjórn, sem hefur verkalýðinn á bak við sig. Í því landi er borgað tvöfalt hærra kaup en borgað er hjá okkur, í því landi eru vextirnir miklu lægri, sem útvegurinn þarf að borga. í því landi hafa menn verið óhræddir að fara inn á þjóðnýtingu á vissum sviðum. Það er engum efa bundið, að það er hægt að gerbreyta afstöðunni hér á Íslandi, ef Alþfl. hverfur burt frá þessari villu síns vegar, að standa með svona þrælalögum, og tekur að vinna með verkamönnum í verkalýðshreyfingunni og verkalýðsflokkunum. Meðalkaup lágt launaðra verkamanna í Noregi, sem er tæpar 50 kr. á tímann, er nú á ári fyrir rúma 2000 vinnutíma 100 þús. ísl. kr. — 2015 vinnutíma, það er minna en 8 tíma vinnudagur, 100 þús. kr. Hér fær verkamaður með því að vinna 2400 vinnutíma 67 þús. kr. Og ég hef áður rætt, hvað íslenzkur sjávarútvegur raunverulega getur borið miklu, miklu meira en þetta.

Það er ekkert spursmál um það, að allir efnahagslegir möguleikar eru fyrir hendi til þess að ráða fram úr þeim vandkvæðum, sem fyrir hendi eru í þjóðfélaginu núna. Þetta eru raunverulega engin vandkvæði, miðað við þau vandkvæði, sem þjóðin stundum hefur orðið að horfast í augu við áður á Íslandi, þegar við áttum lítil sem engin framleiðslutæki, þegar við bjuggum við atvinnuleysi, þegar markaðirnir voru hrundir og annað slíkt, þá voru vandkvæði. Stjórn Framsóknar og Alþfl. 1934 átti við vandkvæði að etja. Þetta, sem við höfum núna, er barnaleikur. Við erum með yfirdrifið af framleiðslutækjum og getum leyft okkur að kaupa meira af þeim. Við höfum markaði fyrir allt, sem við framleiðum, og þó að það væri miklu meira. Við höfum forríka og allt of stóra auðmannastétt í þjóðfélaginn. Okkar þjóð er rík þjóð í dag: Eins og við þurfum þá að tala um vandkvæði ! Það, sem þarf að gera, er að stokka ofur lítið upp, að gefa á ný. Það þarf að úthluta betur til þeirra, sem vinna, og kippa dálitlu burt af rangfengnum auði, sem hefur lent í illa staði, og það er ekki mikill vandi fyrir Alþingi að gera. Og þótt eitthvað yrði þjóðnýtt á einhverjum stöðum þannig, þá fá þeir menn, sem þar eru, alls staðar nóg að gera. Það er nóg eftirspurn eftir vinnuaflinu hjá okkur. Nei, sá Alþfl., sem þorði þó að leggja út í stóra hluti og reyna við stóra hluti, þó að ýmislegt mistekist á eftir, hann horfði djarfur fram í framtíðina 1934, á krepputímum, sem þá voru. En að Alþfl. skuli lyppast niður, taka þátt í þrælalagafrv. eins og þessu nú á því ríka Íslandi, sem við búum í í dag, það er til skammar og það er það, sem hann þarf að átta sig á í tíma og hverfa burt af villu sins vegar, áður en það er orðið of seint.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og hefur í sér fólgið að koma þrælafjötrum á Íslenzkan verkalýð, stefnir að harðvítugustu misnotkun á ríkisvaldinu, sem beitt hefur verið. Það hefur verið stolt okkar íslendinga að vera frjálsari en flestar aðrar þjóðir. Einstaklingsfrelsið hefur verið meira hjá okkur og ríkisvaldið hefur verið veikara hjá okkur, til allrar hamingju, og þegar ríkisvaldið var sterkt hjá okkur, þá var það útlent, útlendra yfirstétta, og við hötuðum það allan tímann, því að það var ekki notað til annars en arðræna okkur. Og þess vegna lifir enn þá í okkur þrjózkan gagnvart því kúgunarvaldi, sem ríkisvaldið er. Íslenzk borgarastétt, íslenzk auðmannastétt ætlaði sér að skapa hér sterkt ríkisvald, þegar hún var að taka hér við völdum, eftir að við höfðum fengið okkar fullveldi frá Dönum. Það kom greinilegaat fram í sambandi við fyrstu átökin, sterkustu átökin, sem urðu í stríðinu og eftir stríðið, við þann hluta íslenzkrar verkalýðsstéttar, sem þá var svo að segja brautryðjendastéttin, sjómannastéttina. Þá lagði íslenzk auðmannastétt til að skapa hér ríkíslögreglu. Þá átti að vopna svo og svo mikinn hluta af fólkinu og gera það að skyldu að taka sér vopn í hönd til þess að geta barið niður verkföllin, ef þeir vondu bolsar, eins og við vorum kallaðir þá, væru að gangast fyrir svo ljótum hlut sem verkföllum.

Alþfl. barðist á móti ríkislögreglunni, barðist á móti henni allan tímann, og ríkislögreglan varð aldrei vopn í hendi auðmannastéttarinnar á Íslandi, því var hnekkt allan tímann. Ríkisvaldið á Íslandi sem kúgunarvald varð aldrei fullkomið. Það var aldrei skapaður hér vopnaður her. Það var aldrei sköpuð hér vopnuð ríkislögregla til að beita gegn verkamönnum. Það þýðir, að við treystum á í okkar þjóðfélagi meiri réttlætistilfinningu, meiri virðingu fyrir lögum heldur en aðrar þjóðir, virðingu hjá hverjum manni. Það þýðir um leið, að valdhafar Íslands þurfa alltaf að gera sér ljóst, að þeir mega ekki misbjáða þessari réttlætistilfinningu. Alþfl. gerði sér það löngum ljóst, þegar hann lagði til sinna Kosninga 1934, glæsilegustu kosninganna, sem hann hefur háð, með 4 ára áætlunina þá að vopni. Þá var seinasta atriðið í stefnuskránni svo hljóðandi, með leyfi hæstv. foraeta: „Að afnema ríkislögregluna í vísu trausti þess, að unnt sé að stjórna þessari friðsömu þjóð með þeirri mannúð og því réttlæti, að úr engum deilum þurfi að skera með hernaði og ofbeldi: Þetta var trú Alþfl. þá, og honum varð að þeirri trú.

Nú stendur Alþfl., að því með Sjálfstfl. að leggja til að framkvæma það ofbeldi gagnvart Íslenzkum verkalýð að svipta hann verkfallsrétti og samningsrétti, gera íslenzka verkamenn að þrælum. Einu sinni hafði hann von um, að íslenzku þjóðfélagi yrði stjórnað með þeirri mannúð og réttlætistilfinningu, að ekki þyrfti að beita ofbeldi. Nú, vegna þess að þarna er hann að yfirgefa braut mannúðar og braut réttlætis, þá leggur hann til að stjórna með ofbeldi. Hvernig hugsa menn sér að koma svona lögum fram, sem þeir vita nú þegar í dag, að allur verkalýður rís upp á móti? Ætla menn að koma með nýja ríkislögreglu? Ætla menn að fara í óskaplegar málsóknir? Hvað hugsa þeir? Það eru til lög, sem eru svo andstæð réttarmeðvitund almennings, að menn einskisvirða þau, þó að þau verði samþykkt á Alþingi. Við skulum segja, ef Alþingi samþykkti á morgun, að það væri skylda allra fullorðinna manna að misþyrma börnum daglega, hvað haldið þið, að það mundu verða margir, sem hlýddu slíkum lögum? Það er ekki til neins að tala um löghlýðni, nema menn vinni sjálfir í samræmi við réttlætistilfinningu og mannúð. Og það er orðið svo tæpt núna, að það liggur við, að börnum sé misþyrmt í sambandi við vinnuþrældóminn, sem nú er á Íslandi. Þess vegna á ekki að samþykkja svona frv. Þm. eiga í tíma að átta sig á, hvað þeir eru að gera.

Ég hef þá hugmynd, að allur þorri af þm. Alþfl. og Sjálfstfl. hafi alls ekki gert sér ljóst, hvað þeir voru að gera, þegar farið var fram á þetta. Ég hef þá hugmynd, eins og einmitt hv. 6. landsk. orðaði það, að þeir hafi hugsað sér að biðja um frest, stjórnin væri að biðja um 2 mánaða frest. En það er bara ekki það, sem hún er að gera. Hún er að fjötra alla verkamenn, til að byrja með í 2 mánuði, og það er kannske ekki óhugsandi, að verkamenn hugsi sem svo: Ef ég læt fjötra mig í 2 mánuði, hver leysir mig þá aftur? Ég held, að hv. þm. Alþfl. og Sjálfstfl. eigi þess vegna að átta sig í tíma. Ég get vei trúað, að þeir hafi ekki búizt við því, að verkamenn tækju svona í þetta frv., eins og þeir gerðu. En það er þá vegna þess, að þeir hafa ekki reiknað með, að það er íslenzkur verkalýður, sem þeir eiga við. Það má vel vera, að ýmis annar verkalýður mundi hafa sætt sig við þetta, en íslenzkur verkalýður mundi ekki gera það, vegna þess að Íslenzkur verkalýður hefur næmari hugmynd í þessum efnum fyrir frelsi einstaklingsins, líka gagnvart lögum, gagnvart ríkinu, gagnvart ríkisvaldinu. Þess vegna eiga menn, og það nú þegar á þinginu, í fyrsta lagi að fresta þessu og siðan að taka til baka þetta frv. Það getur ekkert nema illt hlotizt af því. Ég hef að vísu orðið var við hér, að menn hafa sagt: Ef þeir vilja ekki þetta frv., þá fá þeir gengislækkun. — Það er verið að láta menn velja á milli tvenns konar harðstjórnar, annars vegar efnahagslegrar með gengislækkununum samkv. formúlunni, sem Ameríkanarnir sendu okkur í 2. gr. í l. 1950 um gengislækkunina þá, sem Benjamín kom með, og hins vegar pólitískrar harðstjórnar, þrælalaga.

Það er hvorugt af þessu nauðsynlegt. Ef menn vilja festa Íslenzkan gjaldeyri, þá er það vel hægt. Íslenzkur gjaldeyrir var felldur það mikið um árið, að hann stendur alveg fyllilega í sínu gagnvart gjaldeyri annarra þjóða upp á kaupmátt og annað slíkt. En til þess þarf að taka í yfirstjórn ríkisins og haga skynsamlega allri okkar utanríkisverzlun. En þá getum við líka vel sloppið við allt, sem heitir gengislækkun. En við getum náttúrlega ekki gefið bílabröskurum leyfi til þess að flytja inn, þótt þeir vildu, þúsundir bíla á ári. Við getum ekki leyft okkur hvaða andskotans vitleysu sem er, rétt eins og við gætum ekki leyft okkur það, að gullið í Landsbankanum eða seðlarnir yrðu teknir einn góðan veðurdag og hent fram af hafnarbakkanum. Það er álíka efnahagslegt tjón, sem framkvæmt er með því að kaupa inn bílana og láta þá ryðga alls staðar hér í kringum okkur. Annars er engin hætta á gengislækkun, vegna þess að heildsalarnir eru dálítið áhrifaríkir og þeir vilja ekki gengislækkun, þeir færu svo margir á hausinn. Það er sem sé ekkert spursmál um það. Við gætum komizt hjá allri harðstjórn í þessum efnum. Það er vel hægt. Ef þjóðfélaginu, okkar litla þjóðfélagi, er stjórnað með mannúð og réttlæti, þá er vel hægt að ná samkomulagi og samstarfi um þá hluti, sem þarf að gera á Íslandi.

Ég veit, að við höfum oft staðið frammi fyrir þessum spursmálum áður. Ég veít jafnvel, að þeir ólíkustu, sem standa þó ákaflega vel með okkur núna, hafa eggjað jafnvel til baráttunnar. Ég man eftir því, þegar við vorum sumarið 1944 að berjast fyrir því þá, þegar kauphækkanir fóru fram og það miklar, að það gengi allt friðsamlega með þessar kauphækkanir, þá var jafnvel Framsfl. voðalega smeykur við það að hækka kaupgjald. Tíminn skrifaði þá 21. júlí 1944 í ritstjórnargrein.

„Ef til andstöðu atvinnurekenda kæmi, mundu líklegast skapast verkföll og aukinn ófriður í þjóðfélaginu, sem er atvinnulífinu til mikils trafala. Þó er vafalaust, að slíkur ófriður væri þjóðfélaginu ekki skaðlegri en þetta algera undanhald atvinnurekenda í kaupgjaldsmálunum:

Svona söng nú í þeim tálknunum þá. Og sannleikurinn er, að það; sem þarf að gerast, er, að atvinnurekendur láti undan á þann hátt, að þeir séu knúðir til þess að hagræða sínu atvinnulífi skynsamlegar.

Ég veit, að Framsfl. á dálítið erfitt stundum með að skilja þetta, vegna þess að hann er stilltur á, að það séu ákaflega margir smáir atvinnurekendur. Og vissulega er það pólitískt ákaflega heppilegt fyrirkomulag í þjóðfélaginu. Það er ákaflega skemmtilegt þjóðfélag að vissu leyti, þar sem eru margir smáir atvinnurekendur. En í þeim hluta þjóðfélags, sem útheimtir stórrekstur, til þess að reksturinn sé praktískur, þá er þetta ekki heppilegasta fyrirkomulagið efnahagslega. Þess vegna er það í okkar litla þjóðfélagi, þó að það geti verið ósköp gaman að því að hafa t.d. 10 súkkulaðigerðir, þá borgar það sig ekki efnahagslega séð fyrir þjóðfélagið, þó að það borgi sig fyrir þá, sem eiga súkkulaðigerðirnar. Og þannig mætti telja ótal svið. Það getur verið gaman að þessum litlu, sjálfstæðu smáatvinnurekendum, en þeir eru þjóðfélaginu til trafala á þessu sviði. Þeir eru þjóðfélaginu nýtir á ýmsum öðrum sviðum, slíkir atvinnurekendur, ekki sízt á því sviði, sem okkur ríður mest á, útveginum. Þess vegna er það, að það þurfa að fara saman hjá okkur pólitísk hyggindi í þessum efnum og rétt efnahagsleg skipulagning, og nútíma auðvaldsþjóðfélagið heimtar, því miður, liggur mér oft við að segja, meiri og meiri stórrekstur á vissum sviðum, þó að sjálfsagt sé hins vegar að halda smárekstrinum við á þeim sviðum, þar sem það á við, ekki sízt í landbúnaðinum og í fiskveiðunum.

Ég hef orðið var við, að það hafa komið — mér liggur við að segja úr ólíklegustu áttum árásir á verkamenn í sambandi við þetta frv., sem nú er svona mikið deilt um, — m.a. af því að talað hefur verið dálítið um bankastjóra undanfarið, þá hafði einn bankastjóri verið að tala í útvarpið í gærkvöld. Ég verð að segja, að mér þykir það ákaflega leitt, ef það fer að bera á því hjá sumum íslenzkum menntamönnum, að það fari að koma upp einhver menntahroki gagnvart íslenzkum erfiðismönnum. Það eru illa menntaðir menn, sem falla í þá gryfju. Og mér þykir hart að heyra menn, sem maður telur menntaða, vera að segja, að erfiðismennirnir í þjóðfélaginu verði að gera svo vei að sætta sig við þetta, sem þeim nú sé skammtað. Hins vegar sé mjög nauðsynlegt, að hinir menntuðu menn geti fengið há og góð laun. Jú, vissulega, það

er mikil nauðsyn í okkar þjóðfélagi, að við höfum marga góða sérfræðinga. En því aðeins höfum við gagn af þeirra menntun, að þeir menn með sinni sérfræði hafi eitthvert vit á því, sem þeir eru að gera. Það er ekki nóg að tala um það í útvarpi, að þessir finu menntamenn eigi að gera afrakstur verkamannanna svo mikinn með sínu viti, að þess vegna eigi verkamenn að biða og sætta sig við það, sem er, þangað til menntamennirnir hafi fengið sitt fram. Íslenzkir verkamenn hafa nú ekki notið mikils afraksturs af glerhöllunum eða andabúinu. Það hefur ekki hjálpað íslenzkum erfiðismönnum mikið í þeirra baráttu, vitið í honum Benjamín, og það er bezt fyrir þá menn, sem eru að hreykja sér upp yfir erfiðismennina og segja þeim að una við sitt, að sýna fyrst árangur sinna mennta af verkunum.

Mér þykir leitt, ef það á að koma upp á Íslandi aftur einhvers konar embættismannahroki. Við héldum satt að segja, að hann hafi verið kveðinn svo rækilega niður um aldamótin af okkar skáldum og rithöfundum, að það væri ekki neinn möguleiki á, að þeim draug skyti upp á ný. Ég held nú jafnvel, að togaraeigendastéttin og heildsalarnir hafi hálfgert út af við okkar gömlu embættismannastétt, sem hafði verið allrík og voldug stétt á 19. öldinni. A.m.k. man ég alltaf eftir sögunni, sem Jónas frá Hriflu sagði forðum daga um það eða ritaði, þegar sú stéttaskipting var að verða hér heima, að togaraútgerðarmennirnir voru að verða þeir ríku hér um tíma í Reykjavík og embættismennnirnir að missa sitt vald og sinn auð og sín háu laun. Jónas lýsti því þá, hvernig það hefði verið haldið eitt fínt boð. Reykvíska yfirstéttin virðist hafa haft þann sið þá, eins og vaxið hefur allmikið núna, að keppast hverjir við aðra í boðunum, hvað þau væru fín. Það hafði verið haldið fínt boð hjá einum togaraeiganda og m.a. boðnir háembættismenn í Reykjavík og þeirra konur, og þegar kona eins æðsta embættismannsins kom heim um kvöldið, þá kastaði hún sér í rúmið sitt og grét og sagði: Nú getum við embættismennirnir ekki lengur keppt við þetta.

Þá voru nú þeir hlutir að gerast, að verið var að setja embættisstéttina niður fyrir því auðvaldi, sem þá var að risa upp. Ég veit ekki, hvort auðvaldið hérna á Íslandi hefur hugsað sér að taka embættisstéttina á hnén núna og bjarga henni burt frá verkalýðnum í landinu og allri snertingu við hann. En þá þykir mér litið leggjast fyrir kappann, ef íslenzkir menntamenn fara að láta gera sig að einhverjum þjónum eða hálfgerðum glerhundum hjá íslenzka auðvaldinu.

Vissulega hefur snobbið vaxið ákaflega mikið í Reykjavík á síðustu 10 árum. Það riður ekki við einteyming, hvernig ástandið er orðið í yfirstéttinni reykvísku. Það virðist bókstaflega vera orðið þannig, að það sé orðin samkeppni um það, hver geti byggt sem fínastar og vitlausastar íbúðir til þess að halda þar veizlur. Og það er sannarlega tími til kominn, að það sé farið að draga þessa yfirstétt sundur í logandi háði fyrir, hvað lítt menntuð og lítilsigld hún er að gerast og hve smáa hluti hún lítur á og hefur upp til skýjanna, en reynist ekki fær um að halda uppi því, sem væri raunverulega íslenzk menning.

Mér þykir það ósköp leitt, ef menntamenn úr embættisstéttinni fara að lalla á eftir því tiltölulega menningarsnauða auðvaldi, sem við höfum hérna. Það er vissulega rétt, að við þurfum að eignast mikið af sérfræðingum, við Íslendingar. En það er eitt ráð fyrst og fremst til þess, sem ríkisstj. á Íslandi á að taka upp, og það er að kosta efnilega menn til náms, láta menn fá slíka námsstyrki frá ríkinu, að menn geti án þess að borga einn eyri sjálfir numið við alla þá háskóla, sem þeir þurfa að nema við til þess að öðlast þá þekkingu, sem íslenzkt þjóðfélag þarf á að halda. Þetta er okkur nauðsynlegt, til þess að við getum alltaf valið úr þá menn, sem eru gáfaðastir og efnilegastir, og sett þá til mennta, en ekki einhverja menn, sem bara ofmetnast á eftir og gera tómar vitleysur, hvað sem þeir gera.

Vissulega veit ég, að eftir nokkra áratugi verða allir þeir verkamenn, sem starfa í okkar þjóðfélagi, vísindalega menntaðir menn. Og mörg þau verk, sem erfiðust eru nú, verða unnin meira eða minna með sjálfkrafa vélum. En meðan sá tími er ekki kominn, þá eru það samt sem áður erfiðismennirnir, sem vinna erfiðustu verkin, sem leggja sig í hættuna, það eru þeir, sem halda uppi þjóðfélaginu, og meira að segja þeir finu og oft dýru sérfræðingar eiga að hafa sem bezt samband við þá menn. Mér hefur oft mislíkað það, að meira að segja okkar verkfræðingar, sem eiga að leggja hafnir hér á Íslandi og annað slíkt, hafa skeytt litt um það að tala við mennina á viðkomandi stöðum, þar sem átt hefur að gera þessa hluti, til þess að heyra þeirra ráð um, hvernig hafnargarðarnir ættu helzt að liggja, og þá hefðu þeir losnað við mörg vandkvæðin og tjónið í sambandi við margt, sem gert hefur verið á Íslandi, bæði á þessum sviðum og öðrum, ef okkar sérfræðingar vendu sig á það að taka tillit til þeirrar vizku, sem alþýðan býr yfir.

En um leið og það er nauðsynlegt fyrir okkur að eiga sérfræðinga, — og guð forði okkur um leið frá sérfræðingunum á efnahagssviðinu, sem við höfum búið við undanfarið, — þá skulum við muna það, að í öllu embættismannakerfi er viss tilhneiging til þess, ekki aðeins að sitja fast, þar sem menn eru komnir, heldur hrúga líka í kringum sig meir og meir. Það er Parkinsonslögmálið, sem er að verki, og ég vil bara taka eitt sem dæmi í því sambandi, og það er Framkvæmdabankinn. Það er bókstaflega þannig, að Framkvæmdabankinn er orðinn í bankakerfinu íslenzka eins og botnlangi og það stórskemmdur botnlangi, sem hefði átt að vera búið að skera burt fyrir langalöngu. Það er ekki til neins fyrir þá, sem sitja í gersamlega óþörfum embættum, að vera að prédika neitt yfir íslenzkum erfiðismönnum. Það er ekki fyrir þá. Það, sem þarf að gera, er að skera svo og svo mikið niður í svona ríkisapparati. Það er ekki hægt að varpa því endalaust á herðar Íslenzka verkalýðsins. Ef það verður gert, þá kemur að þeirri stundu, að hann fleygir því öllu saman af sér.

Það reynir venjulega á skynsemi einnar yfirstéttar um, hvort hún kann að stanza í tíma. Það er ein yfirstétt í heiminum, sem hefur kunnað þetta mjög vel, það er brezka yfirstéttin.

Hún er líka gömul, búin að vera lengi við völd. Hún hefur lagt sig eftir því að þjálfa syni sína og dætur, kynslóð fram af kynslóð, í því að kunna að stjórna. Brezka yfirstéttin hefur venjulega vitað í tíma, þegar hún átti að láta undan. Þess vegna hafa Bretar t.d. gefið það mörgum af sínum nýlendum, — þeir áttu fjórða hluta heimsins í byrjun þessarar aldar, — gefið það mörgum af sínum nýlendum frelsi, að þeir fundu hvenær sá tími var kominn, að þeir gátu ekki lengur haldið þeim í þrælafjötrum, og þeir sluppu venjulega miklu billegar, þegar þeir gáfu þeim frelsi. Þeir létu þær hafa pólitískt frelsi, en héldu fyrirtækjunum, eignarréttinum á fyrirtækjunum í landinu, og það liðu venjulega a.m.k. ár, máske sums staðar áratugir, þangað til sú nýja, frjálsa þjóð tók fyrirtækin líka og þjóðnýtti þau. Aðrar yfirstéttir hafa ekki kunnað þetta. Franska yfirstéttin hefur sérstaklega verið slæm með það að leggja í hverri nýlendunni á fætur annarri í 7 ára styrjaldir og fórna blóði og tárum, áður en þeir áttuðu sig á því, að það var fyrir löngu kominn tími til að láta undan.

Íslenzka yfirstéttin þarf að átta sig á því, og það er skynsamlegast fyrir hana sjálfa að átta sig á því, að nú á hún að láta undan, ef hún vill ekki kollkeyra sig. Nú á hún að láta undan. Hún á að hafa það pólitíska vit, að hún láti undan og það í tíma. Íslenzkir erfiðismenn, þeir sem í dag bera þetta þjóðfélag á sínum herðum með sinni vinnu, skapa allan þann auð, sem hálaunamennirnir, sem auðmannastéttin hefur yfir að ráða. Þessir erfiðismenn láta ekki bjóða sér það frv., sem hérna liggur fyrir. Og þeir munu brjóta það á bak aftur, svo framarlega sem þetta er gert að lögum.

Hví á að vera að stefna okkar þjóðfélagi út í slíkt? Hví eigum við ekki að læra af reynslunni, að slíkt sé ekki bara rangt, heldur óviturlegt? Almenningur í landinu hefur nú þegar sýnt sinn vilja í þessum efnum. Hann hefur sýnt hann áþreifanlegar en gerzt hefur um langt tímabil í okkar þjóðfélagi. Og það var vegna þess, að honum hefur verið meira misboðið af þessu frv. en nokkru öðru, sem hér hefur komið fram. Ég vil þess vegna leyfa mér að vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn sjái að sér í tíma, þeir efni ekki til þess ófriðar, tendri ekki það ófriðarbál, sem yrði í okkar þjóðfélagi með því að misbjóða þannig mönnum og réttlæti, svo að ég noti orð Alþfl. frá því í gamla daga, að gera slíkt frv. eins og þetta að lögum.