05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (1843)

56. mál, launamál o.fl.

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt hér fram fyrir Alþingi frv. um launamál o. fi., og þetta frv. er í því fólgið, að hæstv. ríkisstj. hyggst banna kjarasamninga, launasamninga, nokkra hækkun kaups, en jafnframt er hún með vissa tilburði til þess að láta líta út eins og verðhækkanir séu jafnframt stöðvaðar.

Aðalatriði þessa frv. er auðvitað það, að verkalýðsfélögin eru svipt samningafrelsi sinu, sem þau hafa haft um áratugi, Félagafrelsið er fótum troðið og verkfallsrétturinn er afnuminn. Ég vil leggja á það sérstaka áherzlu hér, að þetta er einstæður atburður í sögu verkalýðsbaráttunnar á Íslandi. Þetta hefur aldrei gerzt áður, ekkert þessu líkt. Þjóðin hefur auðvitað kynnzt ýmsum hörðum og hörkulegum lögum, og verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfingin sem heild hefur kynnzt ýmsu, sem ríkisvaldið hefur viljað beita hana, en þetta er tvímælalaust einstæður atburður. Verkalýðsfélögin hafa aldrei mætt neinu þessu líku.

Fyrir tveimur áratugum var launamálum þannig fyrir komið, að settur var gerðardómur, eins og menn muna, sem dæma átti mönnum kaup og kjör. En ég vil minna á í því sambandi, að þessi lög voru miklu saklausari en þau lög, sem nú á að setja, sem eru margfalt svívirðilegri, því að með gerðardómsl. var unnt að hækka kaup, ef dómarar komust að þeirri niðurstöðu, að það væri sanngjörn lausn mála. En með þessum 1. er verkalýðurinn sviptur einföldustu lýðréttindum, sem hvarvetna tíðkast, þar sem lýðræði er í heiðri haft, enda er tæpast hægt að segja, að slík l. séu nokkurs staðar sett nema í forhertustu einræðisríkjum.

Hæstv. ríkisstj. fullyrðir, að þessi l. eigi aðeins að gilda í 2 mánuði, þetta sé aðeins bráðabirgðaúrræði og það sé ætlunin, að hún fái þarna frest til að ráða fram úr mestu vandræðum efnahagsmálanna. Því er auðvitað ekki að leyna, og það hefur heyrzt nú að undanförnu, einmitt úr herbúðum stjórnarsinna, að þetta sé aðeins fyrsta skrefið, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að stiga í þeirri baráttu gegn verkalýðshreyfingunni, sem nú er hafin fyrir alvöru af hendi hæstv. ríkisstj. Það hefur heyrzt, að það sé ætlunin að banna alla kauphækkun og alla nýja kjarasamninga í tvö ár frá áramótum og að hæstv. ríkisstj. ætli sér hreinlega að taka í sínar hendur allan þann rétt, sem verkalýðsfélögin hafa hingað til haft. Hæstv. ríkisstj. hefur verið að því spurð í þessum umr. og ég held hvað eftir annað, hvort hún vilji gefa þá yfirlýsingu hér á hv. Alþin i, að verkalýðsfélögin fái þennan rétt aftur. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að hæstv. ráðh. hafa ekki viljað gefa slíka yfirlýsingu, þeir hafa neitað að lýsa því yfir, að verkalýðsfélögin fengju sinn rétt aftur, þegar þessi 2 mánaða

frestur er liðinn. Þetta er vissulega þungamiðja málsins, og ég spyr, hvort nokkur hafi heyrt stika yfirlýsingu af hendi hæstv. ráðherra.

Hæstv.. ríkisstj. hefur fengið næg tækifæri til að gefa slíkar yfirlýsingar, og vissulega er tilefnið ærið, en við höfum ekki heyrt þær, og við hljótum að álykta, að þögnin sé sama og samþykki. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að í grg. fyrir frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að undanförnu hefur skapazt misræmi í efnahagslífinu vegna launakapphlaups milli starfshópa og víxlhækkana kaupgjalds og verðtags. Ríkisstj. telur, að vinna megi bug á þessum vandamálum með samræmdum ráðstöfunum í launamálum, fjármálum og peningamálum, sem m. a fela í sér kjarabætur þeim til handa, sem verst eru settir. Mun ríkisstj. leggja fyrir Alþingi till, um slíkar ráðstafanir eins fljótt og aðstæður leyfa“

Þetta er eina setningin í þessu frv., sem hægt er að ráða nokkuð af, hvað ríkisstj. hyggst gera að þessum tveimur mánuðum liðnum, og ef við athugum þessa setningu, þá sjáum við, að í henni er ekki fólgið nokkurt fyrirheit um það, að verkalýðsfélögin hljóti þann rétt, sem verið er að svipta þau nú með þessum lögum. Það er aðeins talað um, að ríkisstj. hyggist gera þessar svokölluðu samræmdu ráðstafanir í launamálum og peningamálum, en ekkert vilyrði gefið fyrir því, að réttinum verði skilað aftur. Ég held því, að það sé alveg ljóst, að þegar hv. Alþingi fjallar um þetta mál, þá verður það að fjalla um það út frá því sjónarmiði, að hér sé um að ræða að svipta verkalýðsfélögin samningarétti og frelsi til að ráða og skipa sinum málum sjálf með samningum og með því að fara í verkföll, það sé verið að taka réttinn af verkalýðsfélögunum fyrir fullt og allt, eða í öllu falli fyrir næstu 2-3 árin.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú setið að völdum í 4 ár. Hún tók sér nafnið viðreisnarstjórn í upphafi. Allt það tímabil, sem þessi ríkisstj. hefur setið að völdum, virðist sú skoðun hafa ríkt í stjórnarherbúðunum, að mikilvægasta stefnumið stjórnarinnar ætti hiklaust að vera það, að verkalýðurinn hefði eins lág laun og hæ t væri að láta hann sætta sig við.

Í 4 ár hefur ríkisstj. átt í látlausri styrjöld við verkalýðshreyfinguna. Launþegar hafa neitað að fallast á það lífskjaramark, sem ríkisstj. hefur viljað setja verkamönnum og öðrum launþegum. Þeir hafa vitað það, launþegar, að ríkisstj. er ekki óhlutdrægur dómari, og það s,jónarmið að halda launum og lífskjörum niðri er falskt sjónarmið, ósanngjarnt og ekki rétt.

Gengislækkunin 1960 var fyrsta stórárásin á verkalýðshreyfinguna. Þá var kaupmáttur launa lækkaður stórlega. En þrátt fyrir þessa árás hélt verkalýðshreyfingin áfram og beið þolinmóð þess að hljóta betri lífskjör. Það var í rauninni ekki fyrr en um vorið 1961, að verkalýðshreyfingin leitaðist við að ná rétti sínum og hækka laun sín. Þá var háð verkfall, eins og menn hljóta að muna, í einar 4 eða 5 vikur, og að þessum tíma loknum, eftir þetta harða og tvisýna verkfall í 4–5 vikur, voru gerðir samningar um nokkra kauphækkun. En verkamenn voru ekki fyrr búnir að sigra í þessu verkfalli og hljóta sína kauphækkun en ríkisstj. skellti á nýju gengisfalli. Þetta var tvímælalaust fyrsta árásin á réttindi verkalýðshreyfingarinnar. Áður hafði þessi ríkisstj. beint spjótum sínum að launum og lífskjörum, en í þetta sinn var beinlínis vegið að réttindum verkalýðshreyfingarinnar. Og þá var vissulega sýnt, að hverju stefndi hjá hæstv. ríkisstj. Þetta var vissulega einstæður atburður á sinum tíma. Þá var gengisskráningu ísl. krónunnar beitt í baráttu ríkisstj, gegn verkalýðshreyfingunni. Ríkisstj. beið alls ekki eftir því, að áhrif kauphækkananna kæmu fram í efnahagslífinu, þannig að hún gæti sýnt fram á, að þessi kauphækkun ylli erfiðleikum hjá útflutningsatvinnuvegunum. Nei, hún kom með þessa gengislækkun alveg strax, eftir að kauphækkunin hafði fengizt í gegn, og þetta var vissulega eins og svipuhögg í andlit verkalýðshreyfingarinnar, sem var búin að berjast fyrir kauphækkun í margra vikna verkfalli.

Nú væri eðlilegt að spyrja: Hvers vegna fengu verkamenn ekki kauphækkun strax? Hvers vegna lét ríkisstj. ekki undan kröfum verkamanna tiltölulega snemma í þessu verkfalli og skellti siðan þessari fyrirhuguðu gengislækkun yfir verkalýðshreyfinguna, í stað þess, eins og hún gerði, að láta verkamenn biða eftir því í 5 vikur, að þessi atburður skeði? Þannig hlýtur að liggja ljóst fyrir, að með því að láta verkalýðshreyfinguna biða í 5 vikur eftir þessu hnefahöggi, þá var ríkisstj. ekki aðeins að valda verkamönnum mjög miklu fjárhagslegu tjóni, heldur einnig þjóðarbúinu öllu miklum og alvarlegum skaða.

En hvers vegna var beðið? Hvers vegna var beðið í 4–5 vikur? Þessi framkoma ríkisstj. var auðvitað í samræmi við aðrar aðgerðir hennar gegn verkalýðshreyfingunni. Hún var að þreyta verkalýðinn, hún beitti ríkisvaldinu á þennan máta til þess að skapa sem mest vonleysi í röðum launþega. Hún ætlaði sér með þessum ráðum að telja úr þeim k,jarkinn, með því að gera. þessa stórárás á verkalýðshreyfinguna eftir mjög langt og þreytandi verkfall og kjarabaráttu. En með þessari gengislækkun var verkalýðurinn sviptur aftur öllu því, sem hafði áunnizt í þessu verkfalli, og hæstv. ríkisstj. svipti launþegana í einu vetfangi öllu því, sem hafði áunnizt í þrotlausri baráttu fátækra verkamanna um 5 vikna skeið. Með þessu vildi ríkisstj. greinilega sanna, að það væri í rauninni alveg sama; hvað verkamenn gerðu, hvort þeir færu í langt verkfall eða stutt verkfall eða yfirleitt til hvaða ráða þeir gripu, þeir gætu ekki með neinum ráðum fengið bætt lífskjör. Þetta var því alveg tvímælalaust fyrsta árásin á sjálfan verkfallsréttinn, á samningafrelsið, þó að um óbeina árás væri að ræða. Hún var fyrst og fremst ætluð, þessi árás, til þess að telja almenningi trú um, að í þjóðfélagi okkar þýddi alls ekkert fyrir launþega að reyna að bæta lífskjör sin, það hlyti að enda með gengisfellingu.

Og þá erum við komin að þeirri kenningu hæstv. ríkisstj., að það sé í efnahagslífi landsins eitthvert dularfullt orsakasamband milli gengiskráningar íslenzku krónunnar annars vegar og hins vegar þeirra launa, sem launþegar fá í sinn hlut. Þetta er vissulega eins fráleit kenning og verða má. Ég er sannfærður um það, að við getum leitað um víða veröld að þeim hagfræðingum erlendum, sem telja, að það sé til eitthvert órjúfanlegt orsakasamband á milli launa og gengisskráningar gjaldmiðils þjóðanna. En ríkisstj. hefur reynt að telja fólki trú um þetta, og það var einmitt það, sem skeði í gengisfallinu 1961, að þá vildi hún sýna fram á, að ef kaup hækkaði um 13%, eins og það gerði, þá hlyti gengið að falla um 13%, eins og ríkisstj. lét það líka gera. Hún vill halda því fram, að verkalýðshreyfingin hafi náð því stigi í kjarabaráttunni, að héðan í frá hljóti að vera alveg órjúfanlegt og beint orsakasamband milli þessara tveggja óskyldu afla í efnahagsmálalífi þjóðanna.

En þessi kenning hlýtur auðvitað að vera og var á sínum tíma aðeins svívirðileg falskenning. Þessi kenning var eingöngu fundin upp til að blekkja almenning og, eins og ég sagði, telja honum trú um, að það væri alveg sama, hvað hann stritaði í kjarabaráttunni og hvað hann héldi út í löngum verkföllum, það væri aldeilis ómögulegt að bæta lífskjörin hér á Íslandi. Og ríkisstj. hefur þótzt hafa skammtað launþegum í landinu í eitt skipti fyrir öll þau lífskjör, sem menn geti leyft sér að vonast eftir að fá, og meira geti verkalýðurinn alls ekki fengið. Kauphækkun, það þýðir gengislækkun.

Nei, auðvitað vita flestir þeir menn, sem eitthvað hafa skyggnzt í efnahagsmál, að laun eru aðeins einn liður af fjöldamörgum öðrum, sem hafa áhrif í efnahagskerfi þjóðarinnar. Ríkisstj, hefur sjálf gert margar og miklar ráð stafanir, sem hafa haft miklu meiri áhrif á dýrtíðina og þar af leiðandi á þörf fyrir nýja gengisskráningu, miklu meiri og sterkari áhrif en nokkurn tíma kauphækkanirnar. Ríkisstj. hefur t.d. hækkað vexti, og hún hefur lagt toll á útflutninginn og gert ýmsar fleiri ráðstafanir, sem einmitt verka í þessa átt. Barátta ríkisstj. gegn verkalýðshreyfingunni hefur einmitt verið háð á þessum grundvelli, að halda baráttunni þannig, að orsakasambandið milli gengisskráningar krónunnar og launanna væri órjúfanlegt, og á því yrðum við stöðugt að byggja. Verkalýðshreyfingin hefur á hinn bóginn harðneitað að gangast undir þetta boðorð, þessa svívirðilegu hagfræðikenningu, og um það hafa staðið deilurnar.

Ég hef nú gerzt svo langorður um þetta atriði vegna þess, að þetta er ákaflega mikilvægt atriði, þegar við ræðum um þetta frv. hér um bann við kauphækkunum, sem nú er til umr., því að þetta frv., sem ríkisstj. hefur lagt hér fram, er vissulega í beinu framhaldi af árás ríkisstj. á verkalýðshreyfinguna árið 196l. Þá sögðust þeir sem sagt verða að lækka gengið um 13%, vegna þess að launin hefðu hækkað um 13%. Og það er það sama, sem þeir segja núna. Þeir segja það hins vegar á annan máta, þeir segjast verða að banna 30% kauphækkun, vegna þess að þeir séu að reyna að koma í veg fyrir 30% gengisfellingu. Ég álít, að það sé mjög mikilvægt, að menn skilji, að þessi kenning er falskenning, og til þess að skýra mál mitt betur, þá held ég, að það væri rétt að vitna til orða hæstv. viðsk.- og menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, sem hann mælti í ræðu hér í þinginu 15. marz 1950, en þá var einmitt til umr. frv. um nýja gengisskráningu Íslenzku krónunnar. Þá mælti hæstv. viðskmrh. á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr. frv., að Alþingi afsali sér þýðingarmiklu valdi, sem það hefur haft allt frá 1924, til að ráða gengi krónunnar og Landsbankanum fengið það í hendur. Ég álít, að það komi ekki til mála, að Alþingi afsali sér þessum rétti. Sérstök ástæða er og til að gagnrýna, hvernig komizt er að orði í niðurlagi þessarar greinar, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu ísl. krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi önnur en sú, sem kveðið er á um í lögum þessum.“ Nú er hagfræðingum þeim, sem undirbjuggu þetta frv., auðvitað ljóst, að kaupgjald getur haft áhrif á gengi; en þeim hlýtur líka að vera ljóst, að þar er aðeins um að ræða einn þátt af mörgum, sem áhrif hafa á gengið, og alls ekki hinn mikilvægasta, heldur eru það markaðsskilyrði og framleiðslugeta þjóðarinnar í heild. En hvað á það að þýða að nefna kaupgjaldið eitt? Með þessu er verið að hóta launþegasamtökunum í landinu. Það er ekki verið að tala um að breyta genginu, ef verðlag breytist erlendis, en því er hótað, að gengisbreyting skuli verða framkvæmd, ef kaupgjald hækkar. Það hafa engin samráð verið höfð við launþegasamtökin í sambandi við þetta frv., og er það illt. Eitt er þó enn verra, að í því skuli vera slíkar hótanir í garð launþegasamtakanna. Ég hef af þessum ástæðum leyft mér að bera fram á þskj. 429 brtt. um, að þessi grein skuli felld niður.“

Þetta voru orð hæstv. núv. viðsk.- og menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar. Það, sem vekur athygli við lestur þessarar stuttu klausu, er auðvitað í fyrsta lagi, að þar er hæstv. viðskmrh. að gagnrýna þá ráðstöfun, að Landsbanka Íslands skuli heimilt að skrá gengi krónunnar samkv. því, sem hann telur sjálfsagt og eðlilegt. Það, sem vekur fyrst og fremst athygli í sambandi við þetta, er, að þetta er einmitt það, sem hann sjálfur hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu siðasta, að fá Landsbankanum þetta vald í hendur. Í öðru lagi er mjög athyglisvert í þessari stutt klausu, að hæstv. núv. viðskmrh. og þáv. prófessor í hagfræði kvartar mjög yfir því, að ríkisstj. skuli ekki hafa samráð við launþegasamtökin í landinu. Það er nákvæmlega það sama, sem nú er kvartað um við hann. En þó er þriðja atriðið langsamlega merkilegast, og það var einmitt þess vegna, sem ég vitnaði til þessarar klausu. Það var það, þegar Gylfi Þ. Gíslason leggur í þessari ræðu sérstaka áherzlu á það, að kaupgjald sé aðeins einn liður af mörgum og ekki sá mikilvægasti, eins og hann komst að orði, sem hafi áhrif á gengisskráningu íslenzku krónunnar. Nei, vissulega er þetta þannig, að ef ekki væri 13 ára tímamismunur og annað þingmál á dagskrá, þá gæti maður vissulega haldið, að prófessor Gylfi Þ. Gíslason væri að svara í þessum orðum lokleysum og fáránlegum fullyrðingum hæstv. núv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, um hið dularfulla orsakasamband gengis og launa.

Síðan þessi stórárás var gerð á launþegasamtökin í landinu sumarið 1961, hefur verkalýðshreyfingin verið að reyna að kría út smálaunabætur sér til handa. En þær hafa bara því miður jafnóðum verið teknar aftur í flóði verðbólgunnar. í sumar var þolinmæði verkalýðshreyfingarinnar að þrotum komin. Verkalýðsfélögin bjuggu sig undir stórátök. En rétt áður en verkföll skyldu almennt hefjast, kom hæstv. ríkisstj. til verkalýðshreyfingarinnar, og þá fyrst og fremst til A.S.Í., og spurði ósköp bljúg að því, hvort ekki væri rétt og skynsamlegt að rannsaka í nokkra mánuði, hver væri greiðslugeta atvinnuveganna, og að þeim niðurstöðum fengnum væri hægt að láta verkalýðshreyfinguna fá nokkrar bætur fyrir það, sem hefði verið skert af lífskjörum hennar. Verkalýðshreyfingin og A.S.Í. vildu að sjálfsögðu sýna sem allra mesta samningalipurð og þolinmæði, og verkalýðshreyfingin hafði að sjálfsögðu ekkert á móti því að láta rannsaka þessi mát niður í kjölinn. Verkalýðshreyfingin vissi, að hún hafði réttinn sín megin, en það var aðeins eitt, sem vantaði. Hana grunaði sannarlega ekki, hvað undir bjó hjá hæstv. ríkisstj. Hana grunaði ekki, að bak við þessa beiðni um frest lægi ótrúleg undirhyggja og fals og lævísi.

Fresturinn var veittur og verkalýðsfélögin biðu þolinmóð. Þau höfðu lofað að biða, og þau gerðu engar ráðstafanir á þessum tíma til þess að fá kjör sín bætt. Dýrtíðin og óðaverðbótgan, sem ætt hefur í þessu þjóðfélagi, hélt áfram að æða áfram í allt sumar, og eins og menn vita, skall núna yfir í haust ægilegra verðbólguflóð en nokkru sinni hefur sézt eða gerzt með þjóðinni seinustu áratugina. Á þessum tíma gerðist það einnig, að kjaradómur dæmdi starfsmönnum ríkisins verulega kauphækkun, þ.e.a.s. um það bil 45% að meðaltall. Sá dómari, sem var í oddaaðstöðu, eða dómarar í þessum dómi, sem réðu þessum málum í raun og veru, voru skipaðir af ríkisvaldinu, og það er því sannarlega ástæða til að ætla, að sá dómur, sem felldur var, hafi verið í nokkru samræmi við vilja og álit ríkisstj. á því, hvað væri sanngjarnt og eðlilegt, að launin væru. Þessi sanngjarni dómur var að sjálfsögðu miðaður við það dýrtíðarflóð, sem hafði að undanförnu skollið yfir, og með þessum dómi kom það í ljós, að þær kröfur, sem verkamenn höfðu gert um kauphækkun, voru fyllilega í samræmi við þau laun, sem kjaradómur skammtaði þeim mönnum hjá ríki og bæ, sem vinna hliðstæð störf og verkamenn. Það sýndi sig sem sagt, þegar þessi dómur féll, að kröfur verkamanna voru í fullu samræmi við það, sem hlutlausir dómarar töldu sanngjarnt og eðlilegt. En eins og ég sagði áðan, á meðan verkalýðshreyfingin beið og stöðugt var samið um nýjar og nýjar kauphækkanir, hélt verðbólguhjólið áfram að snúast og fjöldamargir hálaunamenn fengu nýja kauphækkun í samræmi við þann dóm, sem þá var nýlega fallinn. En þegar þessi gefni frestur, þessi umsamdi frestur var úti og verkalýðshreyfingin ætlaði að láta til skarar skríða, þá réðst ríkisstj. aftan að verkalýðshreyfingunni, hreinlega sagt, með rýtinginn á lofti og lagði það frv. fram, sem hér er til umr.

Það er svo auðvitað saga út af fyrir sig, sem aldrei verður nægilega oft sögð, hvað gerðist seinustu dagana, áður en þetta frv. var lag,t hér fram fyrir Alþingi. Hvað gerðist í hinum ýmsu stofnunum þjóðfélagsins þessa seinustu daga? Jú, menn sáu, að dýrtíðarvagninn kom æðandi, menn sáu, að hann rann á fleygiferð, og menn sáu, að verðlagið hækkaði stöðugt. Það var ekki lengur í samræmi við fyrri laun þeirra, jafnvel þó að þau hefðu verið nokkuð há og kaup ýmissa stétta hefði þá hækkað. Menn sáu það, að opinberir starfsmenn voru komnir upp í þennan æðandi dýrtíðarvagn, bæði hæstv. ráðh. og allir sérfræðingar þeirra á stórum og miklum launum, og svo fréttu menn, að það væri rétt í þennan mund verið að loka hurðinni á verðbólguvagninum, sem æddi þarna áfram, og þá hófst þetta gífurlega og um leið svolítið broslega kapphlaup. Allir vildu reyna að komast upp í dýrtíðarvagninn, allir vildu sleppa upp í, áður en hurðinni yrði skellt aftur, og það var vissulega talsverður handagangur í öskjunni á seinustu klukkutímunum, þegar bankastjórar og bankaráðsmenn og forstjórar og aðrir hálaunamenn voru að keppast við að fá laun, sem yfirleitt voru ekki lægri en eins og 20—25 þús. kr. á mánuði. Svo var hurðinni skellt aftur og læst, en verkalýðurinn sat eftir og láglaunafólk með þessa sömu hungurlús og áður, þ.e.a.s. fyrir 8 tíma vinnu 5700 kr. á mánuði.

Nei, það er vissulega ekki nema von, að þessi vinnubrögð hafi vakið mjög almenna reiði og hafi átt sinn þátt í því, að nú hefur risið magnaðri mótmælaalda en dæmi eru til, a.m.k. seinustu árin. Staðan er þannig í þessu þjóðfélagi, að ríkisstj. stendur alein og einangruð gegn öllum launþegastéttum landsins. Ég efast um, að nokkur ríkisstj. hafi nokkurn tíma staðið jafnalgerlega einangruð og sú ríkisstj., sem nú er við völd í dag, og ég efast um, að nokkur ríkisstj. hafi mætt svo almennri samstöðu samhentrar verkalýðshreyfingar og nú er að skapast í dag, Næstum því hvert einasta meiri háttar verkalýðsfélag á þéttbýlli stöðum í landinu hefur boðað vinnustöðvun 11. nóv., þrátt fyrir það að flestum virðist ljóst, að þetta frv., sem hér er á ferðinni, verði þá sennilega orðið að lögum. Það má heita, að næstum hvert einasta verkalýðsfélag hafi mótmælt þessu framferði harðlega, og ég vil vekja athygli á því hér á hv. Alþingi, að þau félög, sem mótmæla, eru ekki eingöngu þau félög, sem kennd eru við landráðamenn og kommúnista. Það eru líka félög þessara svokölluðu lýðræðissinna. Það eru félög, sem stuðningsmenn ríkisstj. hafa öli völd í. Líka þeir, sem stutt hafa ríkisstj. og kosið og stutt opinberlega Alþfl. og Sjálfstfl., mótmæla nú hver af öðrum og standa einhuga gegn ríkisstj. Ég vil spyrja menn, hvað hafi í rauninni gerzt, þegar slíkt skeður, að t.d. stjórnin í Iðju í Reykjavík samþykkir með aðeins einu mótatkv., atkv. formannsins, að mótmæla framkomnum till. ríkisstj. harðlega. Þetta félag hefur verið eitt traustasta vígi núv. ríkisstj. Þannig mætti nefna fjöldamörg önnur félög launþega, þar sem stuðningsmenn ríkisstj. eru í algerum meiri hl. og hafa haft öll ráð í sinni hendi, en nú hafa þessir sömu aðilar snúizt gegn yfirboðurum sinum, og er þá nokkuð langt gengið, þegar handjárnin bresta.

Eins og ég segi, verkalýðshreyfingin stendur núna algerlega einhuga gegn hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. vill leysa þann vanda, sem hún hefur sjálf komið þjóðinni í, á kostnað launþega í landinu, á kostnað vinnustéttanna. En verkalýðshreyfingin svarar á hinn bóginn og segir: Við viljum í fyrsta lagi halda einföldustu lýðréttindum. Við viljum halda þeim réttindum, sem við höfum öðlazt með áratugabaráttu í verkalýðsfélögum okkar, og við viljum halda samningaréttinum, félagsfrelsinu, verkfallsréttinum. — En í öðru lagi segja þeir: Við viljum ekki, að vandamál efnahagslífsins séu leyst á okkar kostnað. Það er hægt að gera aðrar efnahagsráðstafanir. Það er t.d. hægt að lækka vexti, eins og margoft hefur verið bent á, og það er hægt að fella niður tolla af útflutningsframleiðslunni. Það er sem sagt hægt að leysa vandann á margan máta og t.d. með því að leysa hann á kostnað auðmanna og milliliða.

En nú má spyrja: Hvers vegna velur hæstv. ríkisstj. þessa leið, sem hún hefur nú fetað með því að leggja þetta frv. hér fram á Alþingi? Við vitum, að í öllum þeim kringumstæðum svipuðum, sem áður hafa skapazt, hefur ríkisstj. beitt gengislækkunum. Og það er vissulega sú efnahagsaðgerð, sem núv. ríkisstj. er kunnust að. En hvers vegna beitir hún ekki þessu gamalreynda og ágæta ráði? Já, hvers vegna er það, sem hæstv. ráðh. tala um það í ræðum, að við verðum að hætta þessum leiða gengislækkunarleik? Ég held, að svarið sé fólgið í leiðara Alþýðublaðsins 13. okt. s.l. Alþýðublaðið er þá að ræða um það, af hvaða ástæðum telja verði harla ólíklegt, að gengislækkun skelli á. Og Alþýðublaðið er samtímis að bera það af yfirboðara sinum, hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, að hann hafi fengið skipun um það, eins og marga hafði grunað, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að ekki mætti verða gengislækkun á Íslandi. Þetta var sem sagt í orðaskiptum milli Alþýðublaðsins og Þjóðviljans, sem þessi mjög svo merkilega aths. kom fram, og ég vil lesa hana, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Hins vegar hefði Þjóðviljinn mátt líta til hinna miklu skulda íslenzkra innflytjenda erlendis til að finna sterkar líkur fyrir því, að borgaraflokkarnir hér á landi hafi ekki áhuga á gengislækkun, eins og sakir standa:

Þarna höfum við sem sagt skýringuna á því, hvers vegna hæstv. ríkisstj. velur þessa leið núna, en ekki þá gamalreyndu og mjög svo vinsælu leið í stjórnarráðinu, þ.e.a.s. að fella gengið, hvenær sem þess gerist þörf, því að vissulega mátti ríkisstj. vita, að sú leið, sem hún velur nú, var mjög óvinsæl leið og vissulega einstæður atburður og varla út í þá leið farandi nema af mjög brýnni nauðsyn. En eins og kemur fram í þeim stutta kafla, sem ég las hér áðan, telur hæstv. ríkisstj., að hún geti alls ekki farið út í gengislækkun, vegna þess fyrst og fremst, að kaupmenn og heildsalar skulda of mikið. Sem sagt, ef gengið væri fellt um t.d. 50%, þá yrðu skuldir íslenzkra innflytjenda að krónutölu um það bil 50% hærri en þær eru nú, þeir þyrftu að borga 50% meira í krónum. Og það er mjög skiljanlegt, að þetta atriði hafi mjög orðið til þess að hafa áhrif á, hvaða leið ríkisstj, valdi. En á þessu sjáum við auðvitað eins glöggt og vera má, hverra hag hæstv. ríkisstj. ber fyrir brjósti og hver er í rauninni kjarninn í þeim ráðstöfunum, sem hún gerir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það eru vissulega ekki hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar, sem hún ber fyrir brjósti, og enn þá siður hagsmunir þjóðarinnar allrar. Nei, það eru þessi gamalkunnu, þröngu klíkusjónarmið verzlunarstéttarinnar, sem hér eru alls ráðandi enn einu sinni. Og vissulega er það sannast mála, að öll stefna núv. hæstv. ríkisstj. miðar fyrst og fremst að því að skapa og koma á laggirnar hér á Íslandi því, sem hún nefnir frjálsa verzlun. Vegna þessarar frjálsu , verzlunar á að fórna hagsmunum allra annarra, og í því sambandi er rétt að benda á, að það hefur hvað eftir annað komið í ljós, að hæstv. ríkisstj. er fús á jafnvel að fórna hagsmunum útgerðarmanna og framleiðenda fyrir hagsmuni verzlunarstéttarinnar. Ríkisstj., eins og hér kemur fram, segist ekki geta fellt gengið að þessu sinni, vegna þess að skuldir innflytjenda séu svo miklar. En ég vil spyrja: Er þá unnt að komast að nokkurri annarri niðurstöðu en þeirri, að ríkisstj. sé í rauninni að taka sér tveggja mánaða frest til þess að geta gefið þessum kaupmönnum og þessum heildsölum tækifæri til þess að losna úr skuldaklípunni, en gengisfelling verði svo þrautalendingin strax að þessum fresti liðnum, þ.e.a.s. í byrjun næsta árs? Ég veit ekki, hvað skal halda. En það er hreint ekki ólíklegt, og það er a.m.k. mjög sennilegt, að ríkisstj. sé nú að reyna kaupbindingu í 2 ár, eins og ég hef áður nefnt, og ætli sér að gera það um áramótin eða eftir þau. En hún óttast, að þetta muni ekki takast, og ég er henni alveg sammála um það. Hæstv. ríkisstj. getur verið viss um, að henni muni ekki takast að binda kaupið, og þá eru allar líkur til þess, að það verði gengislækkunarleiðin, sem verður fyrir valinu. En þá er hugsunin sú, að tveggja mánaða frestur geti orðið innflytjendum, heildsölum og öðrum bröskurum að einhverju liði í þeirri miklu klípu, sem þeir eru núna komnir í.

Hæstv. ríkisstj. hefur rökstutt stefnu sína og gerir núna, þessar hastarlegu gerðir gegn verkalýðshreyfingunni, með því, að hún hafi fengið meiri hlutann hjá þjóðinni við síðustu kosningar og þess vegna sé henni heimilt að hegða sér á þennan máta og gera hverjar þær ráðstafanir sem henni líki, hún hafi þjóðina á bak við sig. Og vissulega verður því ekki á móti mælt, að hæstv. ríkisstj. hefur þingmeirihl, og hlaut við síðustu kosningar nokkurn meiri hl. atkv. En ég vil minna á, að þessi ríkisstj, hlaut ekki neitt einræðisvald og hún hefur ekki hlotið neina heimild til þess að gera hvað sem er. Hún fékk alls ekki vald til þess að svipta borgara þessa lands einföldustu lýðréttindum. Valdið, sem núv. ríkisstj. hyggst að beita, er því fengið á röngum forsendum. Ef ríkisstj. hefði þorað og dirfzt að segja kjósendum sínum frá því, hvað hún hygðist gera nú eftir kosningar, þá geta hæstv. ráðh. verið vissir um, að þeir sætu ekki í þessum stólum, sem þeir sitja nú í. Það er alveg vafalaust, að kosningar hefðu fallið á annan veg, og það er þess vegna, sem ég segi, að það vald, sem ríkisstj. hyggst nú að beita, er byggt á röngum forsendum. Við sjáum það líka á viðbrögðum kjósendanna, hvernig þeir bregðast við nú, þegar þeir fá verkin sjálf, en ekki loforðin, framan í sig. Stuðningsmenn Alþfl. og Sjálfstfl., sem studdu þessa ríkisstj. í seinustu kosningum, berjast nú af alefli gegn þessum lögum, og þeir skora á hv. Alþingi að fella þetta frv. Þeir hóta jafnvel sumir hverjir ólöglegum verkföllum. Og hefur þá ekki gerzt nokkuð, þegar kjósendur og heitir stuðningsmenn hafa gengið svo langt? Nei, það er alveg ljóst, að málið stendur þannig í dag, að hæstv. ríkisstj. er að burðast með sitt frv. í andstöðu við meiri hl, þjóðarinnar. Ríkisstj. þarf að sjálfsögðu ekki að verða neitt hissa á því, þó að hún mæti nú óstöðvandi afli, sem er reiðubúið að gera þessi lög að engu, jafnvel þótt þau hljóti lagagildi. Verkalýðshreyfingin lætur ekki sinn rétt baráttulaust. Það þarf enginn að ímynda sér það, og hvað eiga verkamenn að gera annað en að berjast til þrautar, eins og nú er komið málum.

Ég hef áður nefnt það og ég vil ítreka það, og það hafa margir gert á undan mér hér, að verkamannalaun eru ekki nema 5700 kr. á mánuði fyrir 8 tíma vinnu á dag. En samkv. opinberum skýrslum þarf um það bil 9500 kr. á mánuði fyrir meðalfjölskyldu að sjá sér fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, og þó er húsaleiga aðeins reiknuð í þessum reikningi 900 kr. Hvað skyldu vera margir, sem greiða 900 kr. í húsaleigu? Ég veit það ekki, hve margir greiða 900 kr., en ég veit hins vegar um fjöldamarga, sem í haust hafa tekið sér íbúðir á leigu og orðið að borga fyrir þær ýmist 4000, 5000 og jafnvel 6004 kr. á mánuði, þ.e.a.s. meira en verkamannakaup er í dag fyrir 3 herbergja íbúð. Nei, húsnæðismálin í Reykjavík eru vissulega í hörmulegu ástandi og hafa aldrei verið neitt svipuð og þau eru nú, og það eru hundruð fjölskyldna, sem eru á götunni í dag. Þetta mál eitt, svo að ég minnist nú á það, væri vissulega næg ástæða til þess, að ríkisstj. segði hreinlega af sér, því að þau húsnæðisvandræði og þeir erfiðleikar, sem ríkisstj. er völd að, eru vissulega nægilegt tilefni til þess, að hver ríkisstj. með sómatilfinningu sæi sér ekki annað fært en að segja af sér. Húsnæðisvandræðin í dag eru ein af mörgum afleiðingum af stefnu núv. ríkisstj. Það er vaxtaokrið og það er samdrátturinn í framkvæmdum, sem veldur því, að það hefur verið minna byggt, sérstaklega árin 1960 og 1961, og nú er þetta að koma fram í húsnæðisvandræðum, ægilegri en við höfum nokkurn tíma áður séð.

Það liður nú að lokum þessara umr. og ég sé ekki ástæðu til að reifa þessi máli öllu frekar. Ég vil aðeins segja það að lokum, að ástæðan til þess, að ríkisstj. er í vanda stödd núna, er auðvitað einfaldlega sú, sem oft hefur áður verið bent á, að þessi ríkisstj, hefur neitað að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna. Hún hefur tekið þá afstöðu að beita verkalýðshreyfinguna öllu því valdi og öllum þeim bolabrögðum, sem hún hefur getað og hennar sérfræðingar hafa getað fundið upp á. Þessar ráðstafanir, sem nú liggja fyrir, eru þær hastarlegustu og hörðustu, sem ríkisstj. hefur nokkurn tíma boðið launþegum upp á. Ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að hætta við að knýja þetta frv. í gegn hér á Alþingi, heldur leita samráðs við verkalýðshreyfinguna og semja við hana á heiðarlegum grundvelli.