07.11.1963
Efri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

56. mál, launamál o.fl.

Björn Jónsson [frh.] :

Herra forseti. Meðan ég var að tala hér í gær, greip hæstv. fjmrh. fram í fyrir mér og taldi, að ég færi með alrangar tölur, þar sem ég ræddi um þá miklu útiánaaukningu, sem verzlunarstéttin, heildsalarnir hefðu fengið núna á síðustu tímum, sérstaklega á þessu ári, og hæstv. ráðh. ætlaði að fara að halda einhvern rannsóknarrétt yfir mér, meðan ég stóð hér í ræðustólnum. Ég hafði þá ekki tiltækar þær tölur, sem ég þurfti á að halda máli mínu til sönnunar, en hef siðan aflað mér þeirra, og ég vildi, áður en ég held lengra í ræðu minni, fara með nokkrar staðreyndir um þau mál.

Ég hef hér fyrir framan mig nokkurt yfirlit yfir það, hvernig útlánaaukning hefur átt sér stað frá 1961, 1962 og það sem af er þessu ári, og þær tölur eru eftir alveg óyggjandi heimildum, sem jafnvel hæstv. fjmrh. mun ekki reynast fært að hnekkja, því að þær eru beint upp úr bókhaldi Seðlabankans. Þessar tölur eru þannig, að árið 1961 nam útlánaaukning í landbúnaði 66.5 millj., útlán til sjávarútvegsins minnkuðu það ár um 87.2 millj., en verzlunin, hennar lán jukust á þessu ári, sem dregið var þannig úr útlánum til sjávarútvegsins, um 106.8 millj., eða aukningin hjá verzluninni var töluvert meiri en minnkunin hjá aðalútflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar. Á árinu 1962 minnkaði útlánaaukningin til landbúnaðarins niður í 60.2 millj., en útlán til sjávarútvegsins jukust það ár rétt um þriðjung af því, sem þau höfðu minnkað árið áður, eða aukningin var 29.8 millj., en verzlunin var eftir sem áður óskabarnið, sem varð að sitja fyrir lánsfé þjóðarinnar, og útlán til hennar jukust enn um 159 millj., eða samtals á þessum tveimur árum um 266 mill;j. kr., á sama tíma og útlán til sjávarútvegsins höfðu minnkað um röskar 50 millj. Þetta er sagan um þessi tvö fyrri viðreisnarár. Á þessu ári, sem nú er að liða, hefur það gerzt, að á 7 fyrstu mánuðum ársins hafa útlán til landbúnaðar aukizt um 36.9 millj., útlán til sjávarútvegs um 199 millj., eða nokkurn veginn um sömu upphæð og birgðaaukning hefur orðið hjá sjávarútveginum. Raunverulega hefur ekki verið um neina aukningu þar að ræða. En verzlunin heldur áfram að skera sig algerlega úr og hefur hlotið útlánaaukningu úr hinu almenna bankakerfi upp á 232 millj. kr., eða alveg sömu tölu — að vísu rúnnaði ég þær kannske af í gær — eins og ég þá nefndi og hæstv. fjmrh. vildi rengja mig um að væri rétt. Á sama tíma hefur það svo skeð, að stutt vörukaupalán erlendis eru komin upp í 550 millj. kr., en voru á sama tíma í fyrra 373 millj.

Þau auknu lán, sem verzlunin hefur fengið á þessu ári, eru í fyrsta lagi þessar 232 millj., sem hún hefur hlotið úr bankakerfinu, og 180 millj. að auki, sem hún hefur hlotið í stuttum vörukaupalánum, eða samtals á 5. hundrað millj. kr., 412 millj. kr. Þessa tölu hygg ég, að enginn geti hrakið. En sparifjáraukningin á þessu sama tímabili, það sem af er þessu ári, er 440 millj., og ætla ég þá, að það liggi alveg Ijóst fyrir, að ég fór með rétt mái hér í gær, þegar ég hélt því fram, að verzlunarstéttin, heildsalarnir fyrst og fremst hefði fengið á þessu ári í auknu lánsfé upphæð, sem svaraði því sem næst til atlrar sparifjáraukningar landsmanna á þessu tímabili.

Ég ræddi hér í gær nokkuð ýtarlega um þá stórfelldu breytingu, sem raunverulega væri að gerast í stéttaskiptingunni í landinu, og nefndi nokkur dæmi um þróun hálauna í því sambandi. Ég rakti þá sögu, hvernig ráðh. hæstv. ríkisstj. hefðu af mikilli skyndingu, rétt áður en þeir slógu slagbröndum fyrir það, að láglaunastéttirnar gætu rétt hlut sinn, hækkað laun t.d. bankastjóra, og sagði í því sambandi, að þeirra árslaun mundu vera um 360 þús. kr. á ári. Ég verð við nánari athugun að biðja velvirðingar á þessu, því að þetta er rangt, því að það er miklu nær sanni og það rétta, að laun bankastjóranna, þessara manna, sem hafa ca. 6 klst. vinnuviku, ef ekki er talinn með sá tími dagsins, sem þeir líta á víxla og drekka eftirmiðdagskaffið sitt um leið, þau eru ekki 360 þús., heldur a.m.k. 426 þús. á ári, og þó vantar ýmis hlunnindi. Þetta er þannig, að í beinum launum í þessa 13 mánuði, sem þeir telja vera í árinu, fá þeir í laun 286 þús. kr. Þar að auki hafa þeir risnufé skattfrjálst upp á 50 þús. kr., og það er öllum kunnugt, að þeir veita manni aldrei svo mikið sem kaffisopa öðruvísi en láta skrifa það á reikning viðkomandi banka, þannig að þetta eru laun, sem eru skattfrjáls. Þar að auki hafa þeir bílastyrk, sem er lágt metinn 50 þús. kr. á ári, og ofan á þetta hafa þeir 40 þús. kr. fyrir að leggja á sig þá miklu aukavinnu til viðhótar þeim 6 klst., sem þeir vinna annars á viku, 40 þús. kr. fyrir að mæta á fundum með bankaráði, en þeir fundir munu vera haldnir í hæsta lagi einu sinni í mánuði, og mun þó vera oft og tíðum, sem miklu lengri tími liður milli funda. Þetta gerir samtals 426 þús. kr. Ofan á þetta hafa svo þessir menn þau hlunnindi að hafa fríar ferðir hvert sem er út úr landinu, og a.m.k. mjög margir þeirra nota sér það mjög óspart. Þá eru líka ótaldar þær tekjur, sem ýmsir af þessum mönnum hafa af hlutum eins og t.d. af því að sitja á Alþingi, sem mætti nú meta kannske svo sem 90 þús. kr. á ári, og fer þá ekki að liggja mjög fjarri því, að laun þessara manna séu í kringum hálfa millj. á ári, og hygg ég þó, að það sé frekar vanmetið en ofmetið.

Ég taldi það sjálfsagt að leiðrétta þessa missögn mína, svo að það sanna mætti koma í ljós í þessu máli, því að þetta er vissulega athyglisverð mynd af því ástandi, sem er að skapast í launamálum okkar.

Ég hafði, þegar ég gerði hlé á máli mínu hér í gær, rætt nokkuð í fyrsta lagi um þær viðtökur, sem þetta frv., sem hér er til umr., hafði hlotið úti á meðal fólksins, á heimilunum, á vinnustöðunum og í verkalýðsfélögunum, og sýnt fram á það, hvernig það er að gerast, að það er að skapast þjóðarsamstaða gegn þessum aðgerðum, sem hér eru fyrirhugaðar. Ég spáði því þá, og ég spái því enn, að það, sem hingað til hefur gerzt í þessu, er aðeins fyrirboði þess, sem eftir á að ske. Og ég vit í því sambandi minna hv. stjórnarliða á það og undirstrika, hvernig það hefur orðið ljósara með hverjum deginum, að menn láta ekki skipta sér í pólitíska flokka út af þessu máli, hvorki í verkalýðsfélögunum né annars staðar. Nýjasta dæmið af þessu tagi gerðist í gærkvöld á fundi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem var mjög fjölmennur og þar sem mættir voru a.m.k. 500 menn. En áður en þessi fundur var haldinn, hafði það gerzt, að stjórn Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hafði samþykkt mótmæli, að vísu fremur væg, gegn frv., en hafði hins vegar fellt það að skora sérstaklega á Alþingi að fella frv. En á fundinum í gærkvöld gerðist það, að ekki aðeins fundarmenn, heldur stjórn Verzlunarmannafélags Reykjavíkur féllst á till., sem var orðuð á þá leið, að þar var skorað mjög fastlega á Alþingi að fella þetta frv., og meðal þeirra, sem sættust á þessa niðurstöðu á fundinum, voru tveir af varaþm. Sjálfstfl., Guðmundur Garðarsson og Sverrir Hermannsson. Þannig þróast málin dag frá degi. Andstaðan gegn þessu frv. verður sterkari með hverri klukkustund og hverjum degi sem líður.

Ég hef hér fyrir framan mig nokkur af mótmælum, sem ég tel sérstaklega athyglisverð fyrir hæstv. ríkisstj. og fyrir hv. talsmenn ríkisstj., m.a. frá Verkakvennafélaginu Framsókn. Ekki verður hún sökuð um kommúnisma, en í ályktun þess félags er því slegið föstu, að það sé stefnt að því með þessu frv. að skerða frjálsan samningsrétt verkalýðsfélaganna, og það er heitið á alla meðlimi þess að standa vörð um lögvarin réttindi til þess að semja um laun og kjör. Ég hef líka hér mótmæli Hins Íslenzka prentarafélags. Ég hef hér mótmæli Flugvirkjafélags Íslands. Ég hef hér mótmæli stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem skipuð er mönnum úr öllum flokkum. Og ég hef fyrir framan mig mótmæli stjórnar og trúnaðarmannaráðs Múrarafélags Reykjavíkur. Þau eru öll stutt, en segja sína sögu, svo hljóðandi eru þau síðustu: „Stjórn og trúnaðarmannaráð Múrarafélags Reykjavíkur mótmæla harðlega fram komnu frv. um launamál o.fl. og telja slík lög, hverjir sem setja þau, freklega skerðingu á samningsrétti stéttarfélaga.“

Það er nefnilega að dómi þeirra jafnmikil skerðing á réttindum verkalýðssamtakanna, hvort sem það eru þeirra eigin flokksbræður í hæstv. ríkisstj. eða einhverjir aðrir, og það er vissulega rétt.

Ég hafði líka í ræðu minn í gær rakið það nokkuð, hver væru einsdæmin í þessu frv. og hver aðalatriði þess væru, þ.e.a.s. í fyrsta lagi kaupbinding og bann við kauphækkunum og bann við frjálsum samningum og vinnustöðvunum. Í þriðja lagi rakti ég það svo, að þessi lög væru ekki hugsuð til 2 mánaða, heldur til frambúðar, og það væri hugmyndin, sem væri algerlega afhjúpuð af sjálfri hæstv. ríkisstj., að það ætti í framtiðinni að ráða lausn kaupgjaldsmálanna með lögum, og ég rakti það einnig, hvernig verkalýðshreyfingin mundi, hverjum sem hún ætti þar að mæta, verja þennan rétt, sem hún ætti, samningsréttinn.

Loks rakti ég það, hvernig verið væri að skapa það þjóðfélag misréttis og nýrrar stéttaskiptingar með tilstyrk ríkisvaldsins, sem væri algerlega andstætt íslenzkri hefð og íslenzkum hugsunarhætti. Og ég rakti það, hvernig misréttið í launamálum væri nú hér á landi að verða svo mikið, að það væri orðið meira en í okkar nágrannalöndum, og sýndi fram á þetta með tölum.

Ég minnti líka á það, hvernig þróun verðlags og launa hefði verið síðustu árin, að verðlagið hefði hækkað um 62% frá því 1958 og um 65% frá því í marz 1959, meðan laun verkamanna höfðu á sama tíma hækkað aðeins um 28% frá því í okt. 1958, en um 17.4% frá því í jan. 1959, og hvernig bilið hefði stöðugt farið vaxandi á milli launa fyrir eðlilegan vinnudag og lágmarkstilkostnaðar við að framfleyta meðalfjölskyldu og hvernig vinnustéttirnar hefðu ár eftir ár verið sviknar um það að fá sinn réttmæta hluta af aukningu þjóðarteknanna, hvernig vinnuþrældómurinn, sem hefur aukizt ár frá ári, hefði ekki einu sinni nægt til þess að halda í þessu jöfnuði, heldur hefðu raunverulegar launatekjur án tillits til vinnutíma farið síminnkandi á viðreisnarárunum, hvernig þessar launatekjur hefðu minnkað um 6000 frá 1959-60, aftur um 8000 á ári frá 1960–61 og hefðu á árinu 1962 ekki nálægt því náð þeirri upphæð, sem þær voru í byrjun viðreisnarinnar, og hvernig verkamenn á Íslandi yrðu að vinna fyrir meira en þriðjungnum af tekjum sínum í eftir- og næturvinnu og hvernig þeir yrðu að nota nóttina til þess að vinna fyrir stórum hluta af tekjum sínum. Og þetta hefur gerzt þrátt fyrir það, að þjóðartekjurnar, — ja, ég vil bæta við enn þá: þrátt fyrir viðreisnarstjórnina, — hafa farið vaxandi ár frá ári, eða a.m.k. samtals um rösklega 20%. Hreinar þjóðartekjur á mann hafa á árunum 1959–1963 vaxið um meira en 20%, en á sama tíma hefur það gerzt, að laun verkamanna hafa lækkað um álíka mörg prósent, og þetta hefur gerzt undir stjórn þeirra manna, sem sífellt eru að klifa á því, að auðvitað eigi vinnustéttirnar rétt á því að bæta kjör sín sem svari auknum þjóðartekjum. Hversu mikil alvara er í því tali þeirra, það sést af þessum samanburði, annars vegar á þróun launakjaranna og hins vegar á þróun þjóðarteknanna, því að það lætur nærri, að kjörin hafi versnað á hverju ári nokkurn veginn jafnmikið og hreinar þjóðartekjur á mann hafa vaxið.

Ég þykist hafa sýnt fram á það í ræðu minni áður nokkuð glögglega, að það geti ekki verið nein lækning á því vandamáli, sem viðskipti okkar við erlendar þjóðir eru, að lækka laun láglaunastéttanna, og ég hygg, að flestir muni geta samsinnt því, að þar beri að fara jákvæðar leiðir en ekki neikvæðar; þ.e.a.s. í fyrsta lagi að auka útflutningsframleiðsluna með öllum þeim ráðum, sem tiltæk eru, og í öðru lagi að láta vitið taka við í stjórn gjaldeyrismálanna. Það er kannske það furðulegasta við þá stjórnarstefnu, sem ríkt hefur í landinu á undanförnum árum, að hún hefur álitið, að fjármagnið eða þeir, sem því ráða, þeir hljóti alltaf að hafa mest vit á því, hvað rétt sé að gera, en það almenna, mannlega vit má ekki koma nálægt hlutunum. Og í þessu efni er auðvitað alveg það sama að segja um fjárfestingarmátin og gjaldeyrismálin, það, sem þar skortir fyrst og fremst á, er heilbrigð stjórn á þessum málum. Það, sem þar riður mest á, er, að mannlegir vitsmunir taki við af viti peninganna.

Eitt af því, sem hæstv. ríkisstj. lofaði hátíðlega, þegar hún tók við völdum, var, að hún skyldi koma atvinnuvegunum og þá alveg sérstaklega útflutningsatvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll, og þar áttu hvorki að koma til uppbætur né styrkir, eins og áður höfðu viðgengizt. Þegar þessir flokkar hafa ráðið fyrir landinu og stýrt öllum málefnum þess í 5 ár og sjálf viðreisnarstjórnin í 4 ár, þá koma þessir menn og segja okkur, að svo sé nú komið málum, að útflutningsatvinnuvegirnir séu að þrotum komnir, — þeir eru að vísu ekki alveg samdóma í þessu, því að sumir hæstv. ráðh. segja, að útflutningsatvinnuvegirnir geti ekki borið sig við þau skilyrði, sem þeim nú eru sköpuð, en aðrir segja og lýsa því yfir fyrir hönd ríkisstj., að þeir geti borið sig með þeim tilkostnaði, sem atvinnuvegirnir hafi nú, en geti hins vegar ekki bætt meiru á sig. Þessu lýsti t. d, hæstv. viðskmrh. yfir fyrir hönd ríkisstj. á fundi Verzlunarráðs Íslands nú fyrir skömmu, og sannast að segja hygg ég, að þessi hæstv. ráðh. hafi oft sagt hluti, sem fjær væru sannleikanum en þetta. Ég hygg það nefnilega mjög nálægt sanni, að útflutningsatvinnuvegirnir geti borið sig með þeim tilkostnaði, sem þeir nú hafa.

Þá kemur spurningin, þegar um það er rætt og þegar það er sannað, að verkafólkið, sem vinnur við útflutningsatvinnuvegina, þarf á kauphækkun að halda, hvernig það megi verða, án þess að þessum atvinnuvegum sé íþyngt frá því, sem nú er. Og þess vegna á fyrst að því að gæta, að því fer víðs fjarri, að vinnulaunin, kaupið, séu eini hreyfanlegi kostnaðarliðurinn í þessum atvinnuvegi. Ég nefni t.d. dæmi í þessu sambandi um fiskiðnaðinn, sem er hafður sérstaklega á oddinum í umr. um þessi mál, og þar er vitanlega frystiiðnaðurinn langsamlega mikilvægasta atvinnugreinin. í frystiiðnaðinum er það svo, að vinnulaunin eru um eða innan við 20% af vinnslukostnaði frystihúsanna, en kostnaðarliðir, sem ríkisvaldið hefur algerlega á valdi sinu, eru a.m.k. 2123% af tilkostnaðinum, og það sem eftir er, tæp 50%, 48%, eru aftur kostnaðarliðir, sem margir hverjir eru mjög háðir því, hvernig viðkomandi fyrirtækjum er stjórnað og hversu mikil hagkvæmni ræður þar húsum. Af þeim kostnaðarliðum, sem ríkisvaldið hefur sérstaklega á valdi sinu, hversu háir eru, eru útflutningsgjöldin og vextirnir langsamlega þýðingarmestir. Eins og kunnugt er, eru nú samkv. l. heimtuð af útflutningsframleiðslunni útflutningsgjöld, sem nema 7.4% af útfluttum verðmætum. Og það er auðvitað síðasti vinnsluaðilinn, sem verður að greiða þessi prósent. Þessi 7.4% af heildarandvirði vörunnar gera um 11% af vinnslukostnaði í frystihúsunum, en vextirnir nálægt 7.5%, þ.e.a.s. þessir tveir kostnaðarliðir, útflutningsgjöldin og vextirnir, eru nálægt 17% af vinnslukostnaði frystihúsanna eða litlu lægri en vinnulaunin. Við þetta bætast svo ýmsir kostnaðarliðir, bæði þessa atvinnurekstrar og annars, sem ríkisvaldið hefur einnig á valdi sínu, hversu litlir eru, og þar er t.d. að nefna tolla á öllum þeim dýru og miklu rekstrarvörum, sem atvinnuvegirnir þurfa á að halda, vátryggingar, þinglýsingar og sitthvað fleira, sem stjórnarvöld geta fullkomlega ráðið við. Það þarf auðvitað ekki neina reiknimeistara til að sjá það, að t, d. 40–50% lækkun á útflutningsgjöldum og vöxtum, sem ég hygg að hvort tveggja væri mjög auðvelt í framkvæmd, mundi geta gefið kauphækkun, sem svaraði til a.m.k. 40, ef ekki 50% hækkunar á kaupi verkafólksins, sem við fyrirtækin vinnur, þ.e.a.s. meiru en þær kröfur, sem nú eru settar fram af verkalýðsfélögunum, og eru þær þó engan veginn neinar úrslitakröfur. í samningum er ekki um að ræða neinar heilagar tölur, ef setzt er heiðarlega að samningaborði og einhver vilji er til þess að ná sáttum. Ég held þess vegna, að sérhver sá maður, sem reynir að skoða þessi mál niður í kjölinn, geti ekki annað en viðurkennt, að það er vel framkvæmanlegt að hækka laun þeirra, sem vinna við útflutningsframleiðsluna, en það er þó sú atvinnugreinin, sem áreiðanlega á erfiðast með það að standa undir auknum tilkostnaði.

Þá hefur því verið haldið allmikið á lofti í sambandi við þessi mál, að vegna þess, hve kaupgjaldið er hátt, og jafnvel vegna þess, hversu geipilegar kröfur væru uppi hjá verkalýðsfélögunum um hækkað kaup við útflutningsatvinnuvegina, þá væri samkeppnisaðstöðu okkar við erlendar þjóðir stefnt í voða. Ég held, að það sé rétt að athuga þessa röksemd ofur lítið nánar, og það verður naumast gert á raunhæfari hátt en þann að athuga í nokkrum aðalatriðum, hvernig þessum málum er varið hjá Norðmönnum, þ.e.a.s. þeirri þjóðinni, sem um margt er líkust okkur að atvinnuháttum og er okkar aðalsamkeppnisþjóð á erlendum mörkuðum.

Í Noregi er bátaútveginum og togaraútgerðinni borgað miklu hærra fiskverð en hér á landi. Vinnslustöðvarnar verða að greiða sjómönnum og útgerðarmönnum miklu hærra verð fyrir fiskinn upp úr sjó heldur en fiskvinnslustöðvarnar á Íslandi gera. Þetta er staðreynd, og þó að ég hafi ekki um þetta nákvæmar tölur, þá hygg ég, að þetta verði ekki rengt. En norski fiskiðnaðurinn býr ekki aðeins við miklu hærra hráefnisverð en víð búum við á Íslandi, heldur býr hann líka við miklu hærra kaupgjald. Á sama tíma og Íslenzkir verkamenn hafa frá 28 kr. og upp í kr. 28.45 um klst. í fiskiðnaðinum, þá eru launakjör norsku verkamannanna þau, að meðaltalslaun skv. skýrslum norska vinnuveitendasambandsins eru 47.50 að meðaltali fyrir alla norska verkamenn, en í fiskiðnaðinum er þó iðulega um að ræða miklu hærra kaupgjald, þ.e.a.s. það má ætla, að sá norski verkalýður, sem vinnur í fiskiðnaðinum, hafi allt að því 100% hærra kaup en tíðkast á Íslandi. Og svo er því haldið fram af fullkomnu blygðunarleysi, að kaupgjaldið sé að sliga okkur svo, að við getum ekki staðizt samkeppnina við þessa þjóð.

Við þetta bætist svo það, sem öllum er kunnugt, að framleiðni í fiskveiðum okkar er miklu meiri en í Noregi og vinnuafi hvers sjómanns nýtist hér miklu betur til mikillar framleiðslu en þar gerist.

Það, sem hér gerir auðvitað gæfumuninn, er það, að íslenzkir útflutningsatvinnuvegir eru hafðir að féþúfu. Þeir eru hafðir að féþúfu af hankakerfinu og fjármagninu og ríkisvaldinu, en í Noregi er þannig haldið á málum, að þar er frekar um styrki að ræða frá ríkinu heldur en að það séu lagðar álögur á þennan útflutningsatvinnuveg. Það er þar, sem munurinn liggur.

Nei, ég held, að hvaða ráðum sem beitt er og hvernig sem kauplækkunarmennirnir reyna að ná sér fótfestu fyrir aðgerðum sinum, þá sé það algerlega haldlaust. Það er bæði mögulegt og meira að segja auðvelt að hækka laun láglaunastéttanna og það mjög verulega. Vissulega koma ýmsar aðrar aðgerðir til greina, sem geta komið láglaunastéttunum vel, heldur en beinar kauphækkanir, og það hefur verið minnzt á skatta- og útsvarslækkun og tollalækkanir og jafnvel fleira í því sambandi. Og ég vil segja það, að allt þetta ber auðvitað að athuga í sambandi við lausn á þeim vanda, sem nú liggur fyrir. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, að það flýtur út úr ríkiskassanum hjá hæstv. fjmrh. á öli borð, flýtur út úr honum á öll borð, vegna þess að skattastefnan hefur verið svo óhófleg, að það hefur ekki tekizt þrátt fyrir alla óráðsíu þessa hæstv. ráðh. og ríkisstj. hans að eyða öllu því, sem inn hefur komið, og í ár mun það vera þannig, að ofheimt hafi verið af þjóðinni mörg hundruð milljónir króna, sem auðvitað allt hefur orkað til þess að skapa hækkað verðlag í landinu og auka dýrtíðina, og þannig hefur þetta einnig verið undanfarin tvö ár.

Á síðasta Alþingi flutti ég till. um það, að nokkuð yrði linað á söluskatti, og einnig, að tollar yrðu lækkaðir á ýmsum brýnum nauðsynjum. Þá var því svarað til m.a. af hv. 10. þm. Reykv., sem þá var form. fjhn., að ef þetta yrði gert, þá yrði að benda á einhverjar nýjar tekjuöflunarleiðir, því að ríkissjóði veitti ekki af sínu. Reynslan hefur sýnt, að þetta voru falsrök, sem þessi hv. þm. og aðrir hv. stjórnarsinnar héldu þá fram. Það var hægt að lækka tolla á nauðsynjavörum, það var hægt að minnka söluskattheimtuna og lækka þannig verðlagið í landinu, án þess að nokkrar nýjar leiðir væru farnar til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Og vissulega er hún jafngild nú eins og þá, sú leið að reyna að bæta launakjörin almennt í landinu með lækkun á tollum og sköttum. En það er alveg jafnvist eins og þetta er rétt, að það mikla misræmi, sem hefur skapazt í okkar launakerfi, það er ekki mögulegt að leiðrétta það öðruvísi en með verulegri kauphækkun jafnframt slíkum aðgerðum. Það er ekki hugsanlegt, að á sama vinnustaðnum vinni einn maður á lágu kaupi og njóti t.d. einhverra skattfríðinda, en annar vinni á háu kaupi og njóti ekki skattfríðinda, ef báðir mennirnir vinna hliðstæð störf.. Slíkt ástand getur auðvitað ekki gengið til lengdar. Það er þess vegna alveg sama, hvernig þessu máli er velt fyrir sér, niðurstaðan hlýtur að verða sú, að kaupið verður að hækka. En til þess að það sé unnt, verður að bæta kjör fiskiðnaðarins frá því, sem nú er, og það er hægt, eins og ég áður sagði, með því að lækka vexti, með því að lækka útflutningsgjöld, með því að feila niður tolla af rekstrarvörum þessa iðnaðar og með því að auka framleiðni í þessari atvinnugrein, en það er mjög auðvelt, ef ekki verður haldið áfram þeirri stefnu að svelta sjávarútveginn um lánsfé.

Það er áreiðanlega mjög auðvelt í fiskiðnaðinum að auka verulega afköst á hverja vinnueiningu, á hvern mann, ef frystihúsin og annar fiskiðnaður fá nægilegt fjármagn til þess að geta hagrætt sínum rekstri og komið honum í bezta hugsanlegt horf. Í þessu sambandi eru vissulega athugandi hlutir eins og vinnurannsóknir og það, að ákvæðisvinnukerfi sé tekið upp, þ.e.a.s. þessar nýju leiðir, sem mjög svo eru umtalaðar og hafa verið um skeið. Ég lýsti því hér í gær og ætla ekki að endurtaka það, hver áhugi hæstv. ríkisstj. er í þeim efnum, en hún hefur reynt, eftir því sem hún hefur getað, að tefja það og spilla fyrir því, að nokkuð væri gert í þeim málum.

Ég held líka, að eftir því sem menn hugleiða þessi mál betur, þá hljóti menn að komast að þeirri niðurstöðu, að kauplækkunarleiðin, sem hefur verið farin í öllum samskiptum við verkalýðinn á Íslandi og verkalýðshreyfinguna á undanförnum árum, er fásinna, sem ekki fær staðizt. Þessi stefna hefur nú verið prófuð í fimm ár, og reynslan hefur kveðið upp sinn ótvíræða dóm yfir henni. Þessi stefna hefur fremur flestu öðru leitt til þess öngþveitis, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú siglt málefnum þjóðarinnar í.

Ég vil svo líka segja það, að stjórnarflokkarnir, sem hófu á s.l. vori að hún kjörorðið: Veljið viðreisn, hafnið höftum, — þeir voru vissulega ekki kosnir, þeir frelsissinnar, til þess að koma á harðvitugri höftum gagnvart verkalýðsstéttinni í landinu en nokkru sinni áður hefur verið að henni beint, og þeir hafa enga heimild hlotið frá þjóðinni til að framkvæma hluti eins og þá, sem þeir nú hafa í hyggju að gera, heldur þvert á móti hafa þeir lofað því alveg sérstaklega, auk þessara almennu frelsisloforða, að hagsmunasamtökin, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur, skyldu á valdatíma hennar hafa óskoraðan rétt til að ráða sinum málum sjálf. Það væri þeirra hlutverk.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir, að það er um tvær meginleiðir að ræða út úr .þeim ógöngum, sem hæstv. ríkisstj. hefur siglt málefnum þjóðarinnar í og þetta frv. er sérstaklega táknandi fyrir. Það er í fyrsta lagi leið ríkisstj. Sú leið hlýtur að þýða miskunnarlaust stríð við vinnustéttirnar, stórfelldari stéttaátök en áður hafa átt sér stað á Íslandi. Það er leið lögþvingana, sem ekki eiga sér nein fordæmi í sögu lýðveldisins og jafnvel þótt lengra aftur sé leitað, lögþvingana, sem hafa engan tilgang og geta ekki fært þjóðinni neinn ávinning. Það er stríð stríðsins vegna. Og það er í samræmi við það, sem hæstv. forsrh. og sjálfsagt öll hæstv. ríkisstj. að baki honum hafnaði öllum viðræðum og öllum friðarboðum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Það er í samræmi við það, að hann þáði það ekki, að við, sem höfum staðið í nokkru forsvari fyrir verkalýðshreyfinguna, beittum okkur fyrir því, að það yrði gefinn hálfs mánaðar frestur til þess að setjast að samningaborðinu, kryfja málin til mergjar og kanna það til þrautar, hvort samkomulagsleiðir væru finnanlegar, sem firrt gætu þjóðina þeim stéttaátökum, sem ella hlytu að dynja yfir.

Það er vissulega kominn tími til þess, að Alþingi taki í taumana hjá hæstv. ríkisstj., þ.e.a.s. ef hún ekki nú á elleftu stundu dregur þetta frv. til baka og býður verkalýðshreyfingunni að setjast að samningaborði. En það er ekki líklegt, þegar litið er til forsögunnar, að ríkisstj. fari þessa leið.

Á hinn bóginn er svo sú leið, sem verkalýðshreyfingin bendir á, sú leið, sem áreiðanlega yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar mundi styðja, þ.e.a.s. að það væri nú þegar gengið til friðarsamninga við verkalýðshreyfinguna, friðarsamninga á grundvelli kauphækkana og kjarabóta, sem væru sambærilegar við það, sem aðrar starfsstéttir í landinu hafa hlotið á undanförnum árum, friðarsamninga, sem byggðir væru á því, að engin þvingunarlög gegn verkalýðshreyfingunni yrðu sett, hvorki nú né síðar. Og í þriðja lagi, að raunhæfar ráðstafanir væru að öðru leyti gerðar til bóta á því öngþveiti, sem viðreisnin hefur skapað, og raunhæfar ráðstafanir til verndunar gjaldmiðilsins.

Annars vegar er hæstv. ríkisstj., sem vill stríð við verkalýðshreyfinguna, við fólkið í landinu, hins vegar verkalýðshreyfingin, sem einskis æskir frekar en friðar. En það skyldi enginn taka þau sáttaboð, sem áreiðanlega eru fyrir hendi frá verkalýðshreyfingunni, svo, að hún sé deig í þeirri baráttu, sem hún kann að eiga fram undan. Vinnustöðvanirnar byrja á mánudaginn kemur, ef þetta frv. hefur ekki verið dregið til baka og gengið til samninga við verkalýðshreyfinguna. Þær .hefjast, hvort sem þessi lög verða samþ. eða ekki samþ. Verkalýðshreyfingin lætur ekki ríkisstj., sem einskis metur lýðræði og réttar leikreglur, segja sér fyrir verkum. Hún mun verja sinn rétt, á hverju sem gengur. En það er hins vegar ljóst, að slík átök, sem fram undan eru, ef hæstv. ríkisstj. heldur áfram stefnu sinni, þau kosta þjóðina bæði fórnir og fjármuni, — fórnir og fjármuni, sem hv. Alþingi getur sparað með því að fella þetta frv: Það er þess vegna skylda Alþingis að nota vald sitt og hindra ógæfustjórnina í því að sigla málefnum þjóðarinnar í enn verra forað en þau nú eru komin, og það er á elleftu stundu að snúa við.

Hæstv. ríkisst;j. hefur fengið sínar aðvaranir frá verkalýðshreyfingunni í landinu og frá fólkinu í landinu, og eftir þær aðvaranir, sem hún hefur hlotið jafnt frá andstæðingum sem samherjum um allt Ísland, þá verður enginn sakaður um afleiðingarnar annar en hæstv. ríkisstj.. Það er hún, sem ber ábyrgðina.

Það, sem nú verður að gerast, er, eins og ég áður sagði, að það verður að tryggja frið við alþýðusamtökin. Það er fyrsta skrefið, sem er óhjákvæmilegt að stiga. Og síðan verður að hverfa frá viðreisnarstefnunni í grundvallaratriðum, því að það er hennar vegna, sem ástandið er eins og nú er komið. Það verður að tryggja stöðvun verðbólgunnar og gildi þeirra kjarabóta, sem um verður samið, og það verður að tryggja öryggi um framhald bættra kjara vinnustéttanna og þá ekki sízt þeirra, sem halda uppi framleiðslunni í landinu, en einmitt hagur þeirra hefur sætt hraklegastri meðferð hjá þessari hæstv. ríkisstj., á meðan afæturnar í þjóðfélaginu hafa makað krókinn á kostnað almennings. En þetta verður auðvitað ekki gert nema með algerri stefnubreytingu, nýrri stjórnarstefnu í höfuðmálum þjóðarinnar. En það er kannske önnur saga, þó að náskyld sé þessu máli, og lengra mál en svo, að því verði gerð skil hér og nú.