08.11.1963
Efri deild: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (1859)

56. mál, launamál o.fl.

Fram. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur fjhn. ekki náð samstöðu um þetta mál. Við þrír, sem stöndum að nál. á þskj. 65, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en þeir hv. 1, þm. Norðurl. e. (KK) og hv. 6. þm. Sunnl. (HB) tjá sig frv. andvíga og hafa skilað séráliti á þskj. 64.

Þetta mál er nú orðið mikið rætt hér á hv. Alþ., þannig að ég tel mig geta leyft mér hvað þetta frv. snertir að sleppa mörgum atriðum, sem máli skipta í sambandi við frv., þar sem þau hafa áður verið þrautrædd.

Það er tvíþætt vandamál, sem nú blasir við í efnahagsmálum Íslendinga: annars vegar það, sem er meira almenns eðlis, að halda verðhækkunum í skefjum, að vernda gjaldeyrisforðann o.s.frv., hins vegar það að færa tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu í það horf, að samsvari almennri réttlætiskennd. Þó að frv. þetta snerti hvort tveggja þessara atriða, er það þó að mínu áliti einkum hið siðarnefnda, sem máli skiptir, að því er varðar höfuðtilgang þessa frv.

Það er staðreynd, að að undanförnu hefur þróun launamálanna verið ýmsum fjölmennum launastéttum þjóðfélagsins í óhag og ekki sízt ófaglærðum verkamönnum, þannig að hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum hefur minnkað. Samningar þeir, sem gerðir hafa verið siðasta missiri milli vinnuveitenda og launþega, hafa ekki reynzt þess umkomnir að leiðrétta það misvægi, sem skapazt hefur, heldur þvert á móti hefur það aukizt. Í kjölfar kauphækkana, sem verkamenn hafa fengið, stundum að undangengnum langvinnum vinnustöðvunum, sem rýrt hafa afkomu þeirra, hafa siglt enn meiri kauphækkanir til annarra, sem betur voru settir. Þannig var það bæði með þá launasamninga, sem gerðir voru sumarið 1961, og aftur vorið og sumarið 1962. Á þessu vori hefur svo kjaradómur og verðhækkun landbúnaðarafurða af mjög skiljanlegum ástæðum aukið á óánægju verkamanna. Að kjaradómi og hinum miður drengilega málflutningi stjórnarandstæðinga í sambandi við hann mun ég víkja á eftir, en um hækkun landbúnaðarafurða má það segja, að hún er til komin vegna gildandi lagaákvæða um það, að tekjur bóndans skuli hækka til samræmis við laun annarra starfandi stétta. En sú hækkun, sem varð á landbúnaðarvörum á s.l. hausti, hefur fyrst og fremst orðið vegna hærri tekna iðnaðarmanna og sjómanna, hinna siðarnefndu auðvitað vegna mikils síldarafla árið 1962. Samkv. lögum hafa tekjulækkanir þessara stétta samkv. framtölum leitt sjálfkrafa til hækkunar á verði landbúnaðarafurða, en verkamannaheimilin verða auðvitað eins og önnur heimili að bera þá hækkun, sem orðið hefur, þó að þau hafi ekki fengið tilsvarandi tekjuhækkanir til að standa undir þeim og þær aðrar stéttir, sem nefndar hafa verið. Það er enginn ágreiningur um það, að úrbóta er þörf í þessu efni. Það er

því bein rangfærsla af hálfu stjórnarandstæðinga, þegar þeir halda því fram, að tilgangur þessa frv. sé aðeins og eingöngu sá að lögbinda þá tekjuskiptingu, sem nú er. Megintilgangurinn er þvert á móti sá að fá starfsfrið til þess að finna leiðir, sem á raunhæfari hátt geta náð settu marki en þær leiðir, sem hingað til hafa verið farnar í þessu efni.

Stjórnarandstæðingar segja, að til sé einföld leið til lausnar þessum vanda og það sé sú eina sjálfsagða leið, nefnilega sú, að atvinnurekendur semji þegar um hærra kaup við láglaunafólkið. En þessa leið er æði oft búið að fara áður, án þess að hún hafi leitt til nokkurs árangurs í þessu efni. Ef ekkert frekar er að gert, er það því miður svo, að líkurnar virðast aldrei minni en nú fyrir því, að slíkar kauphækkanir verði raunhæfar. Það verður nefnilega að gera sér grein fyrir því, á kostnað hverra sú tekjutilfærsla til verkamanna, sem allir eru sammála um að þurfi að eiga sér stað, eigi að verða. En við þeirri spurningu hefur stjórnarandstæðingum hingað til verið svarafátt. Aukin þjóðarframleiðsla getur ekki staðið undir þessu, því að þegar hafa á þessu ári átt sér stað meiri almennar launahækkanir en hugsanlegt er að þjóðarframleiðslan geti vaxið um. Tekjutilfærslan verður því annaðhvort að vera á kostnað atvinnurekenda eða þá á kostnað annarra launþega. Getur hún orðið á kostnað atvinnurekenda? Ef svo væri, þá væri vandinn leystur og frekari íhlutunar ekki þörf. Það má í þessu sambandi minna á hina svokölluðu kjararannsóknarnefnd, sem skipuð var með samkomulagi vinnuveitenda og launþega á s.l. vori. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér í fyrsta lagi að benda á, að það er ódrengilegur málflutningur, sem kom fram í ræðu eins hv. stjórnarandstæðings við vantraustsumr. í gærkvöld, þegar sá hinn sami talaði um það, að ríkisstj. hefði á s.l. vori fengið 4 mánaða frest og hefði ekki haft neinar till. fram að leggja til lausnar vandanum um miðjan október. Það var af ásettu og yfirveguðu ráði ákveðið í fullu samkomulagi við þau samtök, sem hér áttu hlut að máli, að sú leið yrði farin, að fulltrúar þessara samtaka, sem þau tilnefndu, tækju þessi mál til meðferðar, vegna þess að reynslan hefur sýnt, að þó að ríkisstj. eigi vissulega á að skipa mjög hæfum sérfræðingum í efnahagsmálum, hefur tekizt oft og tíðum að skapa slíka tortryggni í garð þess, sem þeir hafa látið frá sér fara, að af þeim ástæðum þótti það vænlegra til árangurs, að fulltrúar, sem þessi samtök tilnefndu sjálf, fengju málin til meðferðar.

Ég get ekki látið hjá líða að átelja það mjög, hverjir starfshættir hafa verið viðhafðir í þessu efni. Ég býst þó ekki við því, að sökin í þeim efnum sé fyrst og fremst hjá þeim mönnum, sem í þessari nefnd eiga sæti, en meðal þeirra eru þrír þm. úr hópi stjórnarandstæðinga, tveir tilnefndir af verkalýðssamtökunum og einn af atvinnurekendasamtökunum eða Sambandi ísl. samvinnufélaga. En að mínu áliti verður að átelja mjög þann drátt, sem á því varð, að þessi nefnd tæki til starfa. Samkomulagið var gert í miðjum júní, en í tilkynningum, sem nefndin hefur birt, kemur fram, að hún tekur fyrst til starfa um miðjan ágúst. En auðvitað var tilgangurinn með þessari nefndarskipun sá, að það, sem frá henni kæmi, auðveldaði lausn þeirrar kjaradeilu, sem fyrirsjáanleg var í haust, ekki að leggja grundvöll að einhverjum hagrannsóknum, sem gætu hjálpað til við lausn einhverra kjaradeilna, sem síðar kynnu að koma upp. Það gæti verið gott og blessað að gera slíkar ráðstafanir, en það var ekki megintilgangurinn með skipun þessarar nefndar. Svo virðist þó, skv. yfirlýsingum, sem frá nefndinni hafa komið, að störfum hennar sé komið alllangt áleiðis, þannig að á næstunni megi vænta einhverrar niðurstöðu, og það er mjög þýðingarmikið atriði. Það þýðir ekki, eins og ég hef orðið var við að sumir hv. stjórnarandstæðingar gera, að sletta í góm, eins og það skipti engu máli, hver niðurstaðan verður í þessu efni. Vissulega skiptir það máli og þá fyrst og fremst frá hagsmunasjónarmiði launþeganna, hvort þær kauphækkanir, sem þeir fá og grundvöllur kann að vera fyrir, eru greiddar af arði atvinnuveganna, af atvinnurekendum, eða hvort sama sagan á að endurtaka sig, sem gerzt hefur undanfarin 20 ár og jafnvel þó að lengra sé farið aftur í tímann, og útreikningar, sem fylgt hafa frv., sem hv. 3. þm. Reykv. hefur undanfarin ár lagt fram í Nd. um áætlunarráð ríkisins, bera ömurlegan vott um, en niðurstaða þeirra er sú, að í stuttu máli hefur það verið þannig, að allar þær kauphækkanir, sem launþegasamtökin hafa knúið fram undanfarin 20 ár og jafnvel lengur aftur í tímann, hafa verið sóttar í vasa launþeganna sjálfra.

Í þessu sambandi og áður en lengra er haldið get ég ekki látið hjá líða að leiðrétta ábendingar, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) bar hér fram á siðasta fundi. Hann hélt því fram, að það væri raunverulega grundvöllur fyrir því, að atvinnuvegirnir gætu borið allmiklar kauphækkanir, og nefndi jafnvel 40-50% í þessu sambandi. Nú ber það út af fyrir sig að virða, að inn á þessi málefni er farið og leitazt þó við að bera fram rök fyrir því, að það séu möguleikar á því, að atvinnuvegirnir geti staðið undir einhverjum kauphækkunum, meiri eða minni. En því miður er það svo, að þær ábendingar, sem hv. þm. kom með, eru algerlega óraunhæfar. Það vantar allan staðreyndagrundvöll fyrir þeim. Hann benti á, að það væri hægt að lækka aðra kostnaðarliði atvinnuveganna nægilega mikið til þess, að þeir gætu staðið undir þessum kauphækkunum, og í því sambandi nefndi hann sérstaklega hvað sjávarútveginn snerti, að það væri hægt að afnema útflutningsgjaldið á sjávarvörum. (BJ: Lækka það, sagði ég.) Jæja, eða lækka það, það skiptir ekki máli í þessu sambandi. En þess ber bara að gæta, að þeim peningum, sem innheimtir eru á þennan hátt, er óskiptum varið í þágu s jávarútvegsins. Ef þessa leið ætti að fara, yrði að sjá fyrir þessum peningum með einhverju öðru móti. Enn fremur nefndi hv. þm. það, að það væri hægt að lækka ýmsa aðflutningstolla á nauðsynjum sjávarútvegsins. Í þessu sambandi komum við aftur að því, að spurningin verður þá sú, hvort afkoma ríkissjóðs þoli það, þannig að fjárlög verði þá ekki afgreidd með halla. Hv. þm. minntist í því sambandi orðaskipta, sem rétt mun vera með farið, að áttu sér stað milli mín og hans vorið 1962, þegar söluskatturinn var til meðferðar. Hann sagði, að hann hefði þá haldið því fram, að söluskattinn væri hægt að lækka, án þess að það stefndi fjárhagsafkomu ríkissjóðs í voða, en ég hefði talið, að ekki væri svo, og til sönnunar því, að hann hefði haft á réttu að standa, benti hann á það, að allverulegur tekjuafgangur hefði orðið hjá ríkissjóði á því ári. En þessi orðaskipti áttu sér stað vorið 1962, en ekki í árslok 1962. Það, sem gerði það að verkum, að tekjur ríkissjóðs urðu meiri þetta ár en nokkur hafði gert ráð fyrir og skynsamlegt var að gera ráð fyrir vorið 1962, var hinn geysimikli afli á síldveiðum, sem var metafli bæði að magni og verðmæti. Það er alveg satt, að þessar auknu tekjur ríkissjóðs hefðu leitt til þess, að hallinn hefði a.m.k. orðið minni en ella hefði verið gert ráð fyrir, en auðvitað hefði ekkí verið neitt skynsamlegt vit í því, þegar fjárlög voru afgreidd fyrir áramót 1961—1962, að gera það á þeim grundvelli, að síldarafli á næsta sumri hlyti að verða miklu meiri en nokkru sinni áður. Annars skiptir það ekki máli í þessu sambandi, heldur hvaða möguleikar séu á því að afgreiða fjárlög nú án tekjuhalla. Fjárlfrv. hefur nú verið útbýtt meðal hv. þm., og það er auðsætt af því, að það er ekki gert ráð fyrir neinum teljandi greiðsluafgangi.

Þá minntist hv. þm. á lækkun vaxta. Að því mun ég víkja seinna, en hvað sem því liður, hvort sú leið sé skynsamleg að lækka vexti, eins og nú horfir við, en að mínu áliti er svo ekki, þá eru vextirnir yfirleitt svo lítill kostnaðarliður í útflutningsframleiðslunni, að ég tel engar líkur á því, jafnvel þótt það þætti fært af öðrum ástæðum, að það sé neitt, sem um munar. Því miður getur niðurstaðan ekki orðið önnur en sú ein, að það, sem hv. þm. hefur bent á í þessu sambandi, er algerlega óraunhæft. Annað mál er það, að ef hann og aðrir þeir, sem sæti eiga með honum í kjararannsóknarnefnd, kæmust að þeirri niðurstöðu og gætu leitt fyrir því frambærileg rök, að möguleiki væri á því, að atvinnuvegirnir gætu staðið undir einhverjum meiri eða minni kauphækkunum, þá mundi það vissulega breyta viðhorfum í þessu efni, og það er ábyggilegt, að til þess verður tekið fullt tillit, ef slíkt liggur fyrir núna fyrir þessi áramót, og getur haft sína þýðingu fyrir framvindu málanna. (BJ: Getur hv. ræðumaður ekki upplýst, hvað vextirnir eru mikill þáttur í þjóðarframleiðslunni?) Ekki í allri útflutningsframleiðslu. Hins vegar er mér kunnugt um það, að vextir af rekstrarlánum til bátaútvegsins voru innan við 1 % þau árin, sem vextirnir hafa þó veríð einna hæstir, eins og 1960. Það stendur skýrum stöfum í skýrslu reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Þar við bætast að vísu vextir af föstum lánum, sem mig minnir að nemi 2-3%, einhvers staðar þar á milli. En þess verður að gæta, að vaxtabreytingar hafa ekki veruleg áhrif á það.

Þá skulum við aðeins líta á þá möguleika, að þær kauphækkanir, sem verða kynnu, gætu orðið á kostnað einhverra annarra en atvinnurekendanna. Geta launþegar aukið sinar tekjur á kostnað bænda eftir þeirri leið? Nei, það er með öllu útilokað samkv. þeim lögum, sem nú eru í gildi, og enn hefur ekki neinn gerzt til þess að bera fram till. um, að þeim lögum væri breytt. En þessi lög ákveða, eins og öllum er kunnugt, að tekjur bænda skuli hækka alveg sjálfkrafa til samræmis við tekjur annarra vinnandi stétta. Ekki eru heldur líkur á því, eða það mundi stinga mjög í stúf við þá reynslu, sem hefur orðið að undanförnu, að slíkar kauphækkanir til láglaunafólks rétti hlut þeirra miðað við þá aðila innan Alþýðusambandsins t.d., sem betur eru launaðir, því að undanfarið hefur það alltaf verið þannig, að samið hefur verið um ekki minni kauphækkun og jafnvel meiri handa þeim. Getur þetta þá orðið á kostnað opinberra starfsmanna ? Sú spurning kemur eðlilega upp í þessu sambandi. Nei, ekki heldur samkv. gildandi lögum, því að í lögum um kjaradóm er beinlínis ákvæði um það, og með því ákvæði hafa allir hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem áttu sæti á Alþingi á s.l. kjörtímabili, rétt upp höndina, að hvenær sem um verði að ræða teljandi kauphækkanir á hinum almenna launamarkaði, eigi opinberir starfsmenn rétt á því, að þeirra launakjör verði endurskoðuð með tilliti til þess.

Þegar þetta er athugað, getur niðurstaðan aðeins orðið ein, nefnilega sú, að engar líkur eru á öðru en sama sagan mundi enn endurtaka sig, að verkamennirnir verði sjálfir látnir borga sér þær kauphækkanir, sem þeir hafa fengið, úr eigin vasa, og aðferðin til þess er sú að hækka vöruverðið, til þess að atvinnuvegirnir geti staðið undir þessu hærra kaupi. En þó að hv. stjórnarandstæðingar hafi ekki nein frambærileg svör við ofangreindum spurningum, þá láta þeir sér samt sæma beint og óbeint jafnvel að hvetja til þess, að með ofbeldi og ólöglegum aðgerðum verði reynt að hindra það, að starfsfriður fáist til þess að kanna aðra möguleika í þessu efni. Að þessu er nú unnið, og ég vil leyfa mér með tilliti til þeirra úrræða, sem til athugunar eru, að visa til ræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti við vantraustsumr. í gærkvöld, þegar hann taldi upp í 8 liðum þau úrræði, sem til athugunar eru. Hv. stjórnarandstæðingar leggja svo mikla áherzlu á það, að þessa athugun þurfi að hindra, að það þurfi jafnvel að beita til þess ólöglegum aðgerðum. En ætli það, sem liggur því að baki, sé ekki e.t.v. öðru fremur óttinn við það, að einhver raunhæf lausn kynni að finnast í þessum efnum, lausn, sem þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, mundu skilja og sannfærast um, að leiddi til raunhæfari kjarabóta fyrir þá en það, sem hingað til hefur verið gert í þessu efni.

Þá vil ég leyfa mér, þó að það mál hafi nú þegar allmikið verið rætt, bæði hér í hv, d. og einnig við vantraustsumr., að víkja nokkrum orðum að kjaradómi. Það hefur oft verið nefnt, að opinberir starfsmenn hafi fengið svo og svo miklar launahækkanir að meðaltali, jafnvel 40 - 45%. Ég skal hvorugt gera að staðfesta þessa tölu eða vefengja. Ég býst við, að enginn viti enn þá nákvæmlega um þetta, og kemur það til, að það er allfjölmennur hópur opinberra starfsmanna, sem enn þá hefur alls ekki verið raðað í launaflokka. En á því má þó vekja athygli, að þær launahækkanir, sem einstakir starfshópar hafa fengið, eru mjög mismunandi. Nú eru flestar starfandi launastéttir í rauninni innan raða opinberra starfsmanna. Ríkið og að ég hygg bærinn líka og ekki síður hafa í sinni þjónustu á föstum launum ófaglærða verkamenn. Báðir þessir aðilar og fleiri opinberir aðilar hafa einnig í þjónustu sinni allstóran hóp faglærðra iðnaðarmanna. Það er eðlilegt, að litið sé á það, þegar talað er um kjaradóm og niðurstöður hans í sambandi við hinn almenna launamarkað, hver eru laun þessara starfshópa miðað við það, sem gerist á vinnumarkaðinum. Hvað verkamenn snertir í þjónustu ríkisins, eru þeim ætluð byrjunarlaun, sem eru á milli 5600 og 5700 kr. Þeir eru í V. launaflokki, má ég segja. Þessi laun eru algerlega sambærileg við lágmarkstaxta Dagsbrúnar. En svo hækka launin að vísu með starfsaldri upp í allt að 7000 kr. eftir 15 ára starf. Það verður ekki sagt að mínu áliti, að þessi laun séu ákveðin, a.m.k. sem neinu nemur, hærri en almenn verkamannalaun eru, og fyrir utan það má á það benda, að þeir verkamenn, sem vinna í þjónustu ríkisins, fá aldrei nema klippt og skorið það, sem þeim ber samkv. kjarasamningi, en vitað er um, að margir ófaglærðir verkamenn annars staðar, ekki sízt hér í Reykjavík, hafa aðstöðu til þess að fá meiri eða minni umframgreiðslu.

Við skulum þá líta á iðnaðarmannaflokkinn. Byrjunarlaun faglærðra iðnaðarmanna, sem laun taka samkv. 10. launaflokki, eru um 7000 kr., hækkandi upp í 8000 kr. eftir 15 ára starf. Það má vel vera og ég skal ekki véfengja það, að finna megi einhverja taxta iðnaðarmanna, sem kunna að vera lægri en þetta. En þó hygg ég, að allir þeir, sem kunnugir eru vinnumarkaðinum, hljóti að komast að þeirri niðurstöðu, að það muni verða mjög erfitt, svo að ekki sé meira sagt, að fá faglærða iðnaðarmenn til þess að vinna eftir þessum kjörum. Svo eru iðnaðarmenn, sem hafa á hendi verkstjórn eða gegna sjálfstæðum störfum, með nokkru hærri laun, en það mun vera í fullu samræmi við það, sem tíðkast annars staðar.

Hvað snertir afgreiðslu- og skrifstofufólk er ég ekki eins kunnugur samanburði í því efni við t.d. samninga Verzlunarmannafélags Reykjavíkur eins og hvað hin atriðin snertir. Ég býst við, að kjaradómur hafi ákveðið þessu fólki nokkru hærri laun en samkv. kjarasamningi verzlunarmanna, en þó væri það mjög í ósamræmi við annað, ef þar væri verulegur munur. Og hvað sem þessu líður, tel ég fullkomlega eðlilegt, að þær stéttir, sem geta fært sannanir fyrir því, að kjaradómur hafi ákveðið hærri laun fyrir sambærileg störf, fái á því leiðréttingu, og það eru engar líkur á því, þó að sú leiðrétting yrði í formi kauphækkana, að slíkt kæmi til þess að skapa efnahagskerfinu verulega hættu. Munurinn getur aldrei verið svo mikill, og jafnvel þó að einstök dæmi væru um það, að hann væri verulegur, þá væri erfitt fyrir aðra að byggja á slíku nokkrar sérstakar kröfur.

Nei, það, sem mest hefur verið rætt í sambandi við kjaradóminn, er sú verulega hækkun, sem vissulega hefur orðið á launum ýmissa þeirra, sem ábyrgðarstörfum gegna í þjóðfélaginu, sérstaklega launum langskólagenginna manna. Það má auðvitað mjög um það deila, hvað þjóðfélagið hafi efni á að greiða há laun fyrir þessi störf, og ég býst við, að um það séu mjög skiptar skoðanir meðal manna í öllum flokkum. Þetta er matsatriði, sem í rauninni snertir litið þau mál, sem eðlilega skipta mönnum í flokka. En á það má bara benda í þessu sambandi, sem öllum er ekki kunnugt, að hin háu laun til langskólagenginna manna eru engin nýjung. Það er nokkuð, sem til var komið, löngu áður en kjaradómur kvað upp sinn úrskurð. Og það, sem nærtækast er að benda á í því sambandi, er sú staðreynd, að það skeði fyrir einum 8—9 árum, að verkfræðingar í þjónustu ríkisins sögðu upp störfum sínum, mynduðu sitt stéttarfélag og gerðu sérstakan samning við hið opinbera, bæði ríki og bæjarfélög, um launakjör sín. Þessi samningur eða þau launakjör, sem þar voru ákveðin, þýddu það, að þessi stétt manna fékk í rauninni launakjör, sem voru alveg sambærileg við úrskurð kjaradóms nú. Ég held, að það sé rétt með farið hjá mér, að samkv. þessum kjarasamningi átti verkfræðingur, sem var á öðru starfsári, að fá mánaðarlaun, sem voru álíka og laun verkfræðiprófessoranna við Háskóla Íslands. Eftir 15 ára starfstíma eða þar um bil voru launin orðin allt að því tvöföld prófessorslaun. Menn geta deilt um það, hvaða laun verkfræðingum og öðrum langskólagengnum mönnum beri. Hitt var auðvitað mál, að þessi mikla launahækkun til þeirra hlaut að hafa áhrif á öðrum sviðum. Það er mjög fjarri mér að gera lítið úr verkfræðingum og því, hversu nauðsynleg þeirra störf eru fyrir þjóðfélagið. En var það nú ekki eðlilegt, þegar þeir höfðu fengið þessar kjarabætur, að stétt eins og læknarnir t.d. risi þá upp, benti á það, að námstíminn til undirbúnings læknisstörfum er sízt skemmri en námstími verkfræðinga, hann er yfirleitt talsvert miklu lengri. Og enginn mundi halda því fram, að störf læknanna væru ábyrgðarminni en störf verkfræðinga, enda upplýstist það, þegar læknadeilan var til meðferðar hér á hv. Alþingi á s.1. vetri, að meðallaun þeirra lækna, sem í deilunni áttu, voru þá, áður en þeir fengu hlut sinn réttan, 14–15 þús. kr. og einstakir læknar höfðu jafnvel yfir 20 þús. kr., eða álíka há laun og kjaradómur hefur úrskurðað til handa ráðh. nú, eins og talsvert hefur verið talað um. Og má þess þó geta, að í hópi þeirra lækna, sem í deilunni áttu, voru ekki yfirlæknar eða þeir, sem gegna æðstu stöðum á þessu sviði. í þessu kaupi hefur sjálfsagt verið einhver yfirvinna, en að launin voru orðin svona há, mun að mestu vera þannig til komið, að farnar höfðu verið að undanförnu ýmsar krókaleiðir til þess að hækka laun við þessa menn, þannig að þeim væri hægt að halda í störfum, þeim veittir bílastyrkir og annað slíkt. Þeir, sem taka laun samkv. töxtum, sem þeir setja sjálfir á almennum markaði, eins og tannlæknar og slíkir, höfðu auðvitað ákveðið laun sín í samræmi við þetta.

Eins og ég sagði, má auðvitað um það deila, hvað þjóðfélagið hafi efni á að greiða þessum langskólagengnu mönnum hátt kaup. En staðreynd var; að áður en kjaradómur felldi sinn úrskurð, var það þannig, að þeir langskólagengnir menn, sem tóku laun sín annars staðar en hjá ríkinu samkv. launalögum, höfðu yfirleitt um 100% hærri laun en þeir, sem tóku laun hjá ríkinu. Allir hljóta að sjá, að hvað sem öðru líður, fær þetta ekki staðizt. Það er sjálfsagt hægt að færa rök fyrir því, að slík laun séu hærri en þjóðfélagið hafi efni á að borga. En þeir, sem halda því fram, ættu þá að vilja fara aðra leið en þá að hækka laun þeirra, sem verr voru settir í þessu efni, um allt að því 100%. Það hefði átt að fara aðra leið, sem hlotið hefði að valda miklu minni röskun í þessu sambandi. Það hefði verið sú leið að færa nægilega mikið niður laun þeirra, sem betri kjaranna nutu, ef þetta var meira en þjóðfélagið eðlilega gat borið. Ekki hefur komið ábending um það frá hv. stjórnarandstæðingum. Og þá má minna á það, að á s.l. vori var til meðferðar hér á hv. Alþingi frv. til staðfestingar brbl. um bann við verkfalli verkfræðinga, og á þessu þingi mun koma til meðferðar staðfesting á brbl., sem út voru gefin á s.l. sumri, þar sem settur er á fót gerðardómur, sem úrskurði laun verkfræðinga. Hrekklaust fólk, sem hlustað hefur á ræður ýmissa hv. stjórnarandstæðinga nú undanfarna daga, þegar verið var að tala um það mikla ranglæti, sem láglaunafólki sé gert með því að tefja það með þessu frv., að það fái kjör sín leiðrétt til samræmis við þær kjarabætur, sem opinberir starfsmenn hafa fengið, kynni nú að ætla, að þegar brbl. voru til staðfestingar á s.l. vori hér á hv. Alþingi, hefðu hv. stjórnarandstæðingar talað sem svo: Auðvitað eiga verkfræðingar að fá þau launakjör, sem fært er að greiða, en okkar þjóðfélag er nú einu sinni fátækt. Slík há laun vekja andúð almennings, og þess vegna ber að gæta hófs í þessu efni. — Ef þeir hefðu talað þannig þá, gætu þeir með meiri rétti flutt þær ræður, sem þeir hafa að undanförnu gert varðandi kjaradóminn. En töluðu þeir þannig? Nei, það var nú eitthvað annað. Það lá að vísu ekki ljóst fyrir, hvað það voru miklar launahækkanir, sem verkfræðingarnir heimtuðu, þegar þessi brbl. voru sett, en mig minnir, að okkur hv. 9. þm. Reykv., sem mikið talaði í því máli, kæmi saman um það, að sú launahækkun, sem farið var fram á, væri 50—100%, og þess ber að gæta, að fyrir höfðu verkfræðingarnir þá launakjör, sem fyllilega eru sambærileg við það, sem kjaradómur hefur úrskurðað, jafnvel betri, því að ein af meginstoðunum undir þeim kröfum, sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gerði fyrir kjaradóminum, var einmitt samanburður við þessi launakjör verkfræðinganna.

En ætli hv. stjórnarandstæðingar hafi samþykkt þessi lög? Nei, það var nú eitthvað annað. Þeir töldu það hið mesta gerræði gagnvart þessari stétt að setja þessi brbl., og ég man, að hv. 9. þm. Reykv. fór hér um það hjartnæmum orðum, hvað nauðsynlegt væri fyrir þjóðfélagið að gera sem bezt við þessa menn. Hv. stjórnarandstæðingar töldu, að þessir menn ættu ekki eingöngu að halda þeim launakjörum, sem þeir hefðu, heldur væri mesta gerræði að hindra það, að þeir fengju á þeim verulega hækkun. Já, það verður gaman, þegar nýju brbl. verða lögð fyrir til samþykktar hér á hv. Alþingi, að vita, hvaða afstöðu þeir taka þá. Skyldu þeir tala þá í sama tón og þeir gerðu á s.l. vori? Skyldu þeir tala í sama tón og þeir hafa gert við útvarpsumr. nú? Eða skyldu þeir velja þriðja kostinn, þann að þegja? En hvern kostinn af þessum þremur sem þeir velja, verður ekki hjá því komizt, að menn sjái gegnum þau óheilindi, sem eru í öllum þeirra málflutningi.

Það hefur verið minnzt á það hér, að bankastjóralaun hafi verið hækkuð. Ég véfengi ekki, að svo sé. Hins vegar er rétt að leiðrétta þá rangfærslu, sem fram hefur verið borin. Ég heyrði, að einn hv. stjórnarandstæðingur sagði í útvarpsumr. í gærkvöld, að ríkisstj. hefði ákveðið, rétt áður en hún lagði fram þetta frv., að hækka svo og svo mikið laun bankastjóra. Mér hefur nú ekki verið kunnugt um það áður, að það væri ríkisstj., sem ákvæði laun bankastjóra. Ég veit ekki betur en það séu bankaráðin, og eins og nú er eiga hv. stjórnarandstæðingar fulltrúa í öllum bankaráðunum. Ég vil leyfa mér að lýsa eftir því hér og biðja hv. stjórnarandstæðinga um að upplýsa það, hvort þeir hafi kynnt sér, hvaða afstöðu fulltrúar þeirra í bankaráðunum hafi tekið til þessarar launahækkunar bankastjóranna. Það má vel vera, að fulltrúar hv. stjórnarandstöðuflokka hafi barizt eins og ljón gegn þessari launahækkun. En ég er viss um það, að ef það skyldi vera satt, sem ég er nú satt að segja miður trúaður á, mun það vekja gagnrýni margra þm. stjórnarflokkanna á gerðum fulltrúa sinna í bankaráðunum, ef þetta hefur verið barið fram gegn vilja og samþykki fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í þessum bankaráðum. En hvað sem öðru líður, tel ég æskilegt, að þetta verði upplýst.

Ég mun láta mér nægja, til þess að lengja mál mitt ekki allt of mikið, að víkja aðeins að einstökum atriðum varðandi hina almennu hlið efnahagsmálanna.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa haldið því fram, að viðreisnin hafi misheppnazt algerlega og sé í rauninni úr sögunni. Meginrökin fyrir því eru þau, að verðhækkanir hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir að þyrfti að leiða af efnahagsmálaráðstöfunum, sem gerðar voru 1960. Það sanni það, að viðreisnin hafi mistekizt. Já, vissulega er það rétt, að vísitalan hefur hækkað meira en þau 4 stig, sem hún hækkaði um vegna viðreisnarráðstafana. í þeim áætlunum, sem gerðar voru og fylgdu efnahagsmálafrv. vorið 1960, var gert ráð fyrir því, að verðhækkanir af völdum þessara ráðstafana mundu verða um 4%. Og ári síðar eða vorið 1961, en þá má gera ráð fyrir því, að allar þær verðhækkanir, sem leiddi af þessum ráðstöfunum, hafi verið komnar fram, þá var vísitalan nákvæmlega 104 stig. Síðan hafa orðið miklu meiri verðhækkanir, eins og kunnugt er. Þessar verðhækkanir stafa að sumu leyti af utanaðkomandi ástæðum, en fyrst og fremst af því, að almennar kauphækkanir hafa orðið meiri en nemur vexti þjóðarteknanna, og af því hefur aftur leitt, að mikil verðhækkun hefur orðið á landbúnaðarvörum. Um þessar kauphækkanir hafa hv. stjórnarandstæðingar fyrst og fremst haft forustu. Það er nú einu sinni þannig, að ríkisstj. hefur ekki óskoruð öll völd í efnahagsmálum. Stjórnarandstæðingar hafa þar einnig mikil völd vegna þeirra ítaka, sem þeir eiga bæði í launþega- og atvinnurekendasamtökunum. Því valdi hafa þeir beitt á þann hátt að kný,ja fram verðhækkanir umfram það, sem nauðsynlegt hefur verið. En þeir, sem valdið hafa, geta ekki skorazt undan ábyrgðinni, og ábyrgðin í þessu efni, hvað snertir þær verðhækkanir, sem af þessu hefur leitt, hvílir auðvitað fyrst og fremst á þeim, sem verðhækkununum hafa valdið.

En hvað sem þessu líður, þá hefur því aldrei verið lofað, að vísitalan kæmi aldrei til að hækka meira en um þessi 4 stig, sem leiddi af viðreisnarráðstöfununum. Hvað sem því liður, verður því ekki haldið fram með neinum rökum, að viðreisnin hafi ekki borið neinn árangur. Og í hverju er árangur viðreisnarinnar þá fólginn? Að mínu áliti er það þannig, að meginbreytingin, sem orðið hefur, síðan þessar viðreisnarráðstafanir voru gerðar, er fólgin í afnámi hinna pólitísku úthlutunarnefnda, sem þá settu svip sinn á allt efnahagslíf landsins, og má þar fyrst og fremst nefna gjaldeyrisúthlutunarnefndina. Ég álít, að fyrir utan þau miklu óþægindi, sem þessar nefndir og störf þeirra bökuðu öllum almenningi, og fyrir utan þá spillingu, sem hlaut alltaf að leiða af þessu fyrirkomulagi, sé hér um að ræða eina meginskýringuna á því, að síðan viðreisnarráðstafanirnar hafa verið gerðar, hafa þjóðartekjurnar vaxið með eðlilegum hætti, en ekki staðið að mestu í stað, eins og var um langt árabil, áður en viðreisnarráðstafanirnar voru gerðar. Ég veit, að báðir hv. stjórnarandstöðuflokkar telja, að það hafi verið víxlspor að afnema þessar nefndir, og ég hygg mig ekki halla réttu máli, þegar ég held því fram, að þegar hv. framsóknarmenn eru að tala um, að það þurfi að taka upp nýja stefnu í efnahagsmálum, sem þeir segja þó ekki nánar, í hverju sé fólgin, þá megi lesa það á milli linanna, að nýja stefnan, sem þeir tala um, á að vera fólgin í því að endurreisa gjaldeyrisúthlutunarnefndirnar. Sönnun þess — svo framarlega sem nokkur heil brú er í málflutningi þeirra — er það, þegar þeir sí og æ eru að gagnrýna það og fordæma það, að gengisfelling var gerð sumarið 1961. Ef sú gengisfelling átti að vera óþörf, þá hlýtur það að liggja í því, að ríkisstj. hafi, í stað þess að fella gengið sumarið 1961, átt að endurreisa gjaldeyrisúthlutunarnefndirnar. Það var nefnilega svo á miðju sumri 1961, að gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem þá var fyrir hendi, nam aðeins 150 millj., eða hálfs mánaðar innflutningi, og ef gert væri upp á sama hátt og hv. framsóknarmenn vildu gera, þá hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn í rauninni ekki verið neitt. Hitt gefur auga leið og ætti ekki að vera neinn ágreiningur um, að það er ekki hægt að hafa frjálsa gjaldeyrisverzlun án þess að eiga gjaldeyrisvarasjóð. Hin nýja stefna hv. framsóknarmanna, sem þeir tala um, er í því fólgin að taka upp að nýju gjaldeyrisúthlutunarnefndirnar og aðrar hliðstæðar nefndir, eins og fjárfestingareftirlitið o.s.frv.

Ég skal ekki fara út í það hér að ræða um starfshætti þessara nefnda. Það má nú á það benda, að það er einu sinni ekki til neinn vísindalegur mælikvarði á það, eftir hvaða reglum skuli úthluta gjaldeyrisleyfum, hvað eigi að leyfa að flytja inn og hverjir eigi að fá leyfin. Það eru ekki til neinar vísindalegar reglur, sem úr því skera, a.m.k. er mér ekki kunnugt um það. En eftir einhverjum reglum verður þ6 að fara við úthlutun gjaldeyrisleyfa. Til þess að gera málið ekki allt of flókið, hafa þær nefndir, sem að þessu hafa unnið, sett sér vissar reglur, svo sem þær, að eitthvert fyrirtæki eigi rétt á því að fá vissan innflutningskvóta, eins og það er kallað, o.s.frv., en að því leyti sem þær reglur ekki nægja til að leysa þau vandamál, sem þessar nefndir standa gagnvart, þá er það nú einu sinni þannig, að í þessum nefndum eiga sæti fulltrúar stjórnmálaflokkanna, og hver einstakur þessara fulltrúa telur það fyrst og fremst verkefni sitt að gæta þess, að hagsmunir fyrirtækja og einstaklinga, sem styðja hans flokk, séu ekki fyrir borð bornir. Síðan er svo samið um það milli nefndarmanna, hvernig úthluta skuli bílum o.s.frv., þar sem hver mælir með þeim, sem hann veit að eru hans flokksmenn. Eftir þessum leiðum eru vandamálin leyst. Það gefur auga leið, að fyrir utan þá spillingu, sem þetta fyrirkomulag býður heim, hefur þetta ekki heppileg áhrif á efnahagsvöxt þjóðarinnar. Þótt fyrirtæki greiði í sjóð einhvers flokks eða jafnvel í sjóð fleiri flokka til að tryggja sig alveg, er ekki vist, að þetta sama fyrirtæki geri sem hagstæðust innkaup.

Ég skal nú ekki fara út í þetta. En ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, þó að það verði e.t.v. tekið sem gamanmál, að það er nú einu sinni staðreynd, að áður en að því kemur, að framkvæmd verði sú hugsjón hv. framsóknarmanna að endurreisa gjaldeyrisúthlutunarnefndina, þá verður að byggja stórhýsi yfir þessa nefnd, ef það á ekki beinlínis að stofna í hættu lífi og limum þess fólks, sem undir þessa nefnd þarf að sækja. Í fyrsta lagi er nú búið að segja ríkinu upp, eftir því sem ég bezt veit, húsnæðinu á Skólavörðustígnum, þar sem þessi nefnd var lengst af til húsa, en jafnvel þó að kostur hefði verið á því að nota það húsnæði áfram, þá er mér vei kunnugt um það, þar sem ég vann í þessu húsnæði, þótt að vísu hefði ég ekki með gjaldeyrisúthlutun að gera, að það voru svo miklir troðningar í göngunum þar, að ég held, að heilsu þess fólks, sem við það þurfti að búa, hafi verið hætta búin. Nú er vitað mál, að ef gjaldeyrisúthlutunarnefndin yrði endurreist að nýju, þá yrði það margfaldur fjöldi þess fólks, sem þá þurfti undir hana að sækja, sem nú þyrfti að gera það. Það, sem fyrst og fremst var takmarkað þá, voru bílaleyfi og ferðalög til útlanda. Þá var það að eiga bil eða ferðast til útlanda ekki nema á færi tiltölulega fárra. Nú eru það yfir 10 000 manns, sem ferðast til útlanda á hverju ári, og bílaeigendur hér munu vera orðnir um 30 000. Það gæti ekki gengið að ætla sér að afgreiða þann hóp allan í gamla húsnæðinu. Það yrði ekki hjá því komizt að byggja stórhýsi, áður en þetta fyrirkomulag yrði endurreist. (BJ: Það þarf ekki að byggja yfir bílana, sem engir geta keypt.) Ja, það er nú ekki eins aðkallandi, margir láta sér nú nægja að láta bíla sína standa úti á götunni og byggja ekki yfir þá, en það getur verið. - (Gripið fram í: Það fer illa með suma bíla.) Já, já, auðvitað væri æskilegt að geta byggt yfir alla bíla, bæði þá, sem eru til sölu, og þá, sem einstaklingar eiga, en það verður ekki allt gert í einu, og þetta hefur gengið eins og það er.

Þá ætla ég aðeins með örfáum orðum að víkja að hinni margendurteknu staðhæfingu, sérstaklega af hálfu hv. framsóknarmanna, um það, að lækkun vaxta muni leysa allan vanda í efnahagsmálum. Satt að segja furðar mig nú varla eins mikið á nokkru í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga og á þessu tali um vextina. Mig furðar á því, að þeir, sem tala um lækkun vaxtanna sem eitthvert úrræði til að lækka dýrtíð o.s.frv., skuli leggja það mat á þekkingu og þroska almennings, að málflutningur, sem í raun og veru snýr öllum efnahagslögmálum við, sé fallinn til fylgisauka. Það er enginn ágreiningur um það meðal hagfræðinga, hvorki erlendra né innlendra og hvar í flokki sem þeir eru, að vextir og verðlag breytist ekki í sömu átt, eins og hv. stjórnarandstæðingar nú halda fram, heldur í öfuga átt. Þetta veit hver samvinnuskóla- og verzlunarskólapiltur. En það versta í þessu er, að hv. stjórnarandstæðingar vita þetta líka. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að hv, stjórnarandstæðingar séu upp og ofan verr að sér í efnahagsmálum en við, sem fylgjum stjórninni. Fyrir utan það, að margir þeirra hafa lesið sér til um þessi málefni, þá er það þannig með alla þá, sem í langan tíma hafa átt sæti á þingi, að þeir hafa orðið að kynna sér álit sérfræðinga og annað slíkt, þannig að þekking hv. stjórnarandstæðinga er alveg næg í þessu efni. Og til þess að leiðrétta þennan málflutning og sanna það, sem ég nefndi áðan, að það er á allra vitorði, að vextir og verðlag breytist í öfuga átt, þarf ég ekki að vera að halda hér neinn hagfræðilegan fyrirlestur. Ég þarf ekki heldur að gera mér þá fyrirhöfn að fara að blaða í gömlum þingtíðindum, en þar væri ábyggilega af nægu að taka, þar sem eru ræður þeirra, sem nú eru í stjórnarandstöðu, og þeir hafa haldið við fyrri tækifæri, þegar þeir voru í stjórnaraðstöðu og ræddu málin af meiri skynsemi. Nei, ég get bara látið mér nægja .að vitna til ræðna hv. stjórnarandstæðinga, sem haldnar voru í gær, þar sem skýrt kom fram, að þeir vita það rétta í þessu efni. Það má láta þá kenna sér þetta sjálfa með því að vitna í þessar ræður, því að eitt af því, sem hv. stjórnarandstæðingar þá töluðu mikið um, var það, sem er rétt með farið því miður, að bankaútlán hafi á undanförnum mánuðum vaxið miklu meira en nemur aukningu sparifjárins. Þetta sögðu þeir, að væri ein af ástæðunum til vaxtar verðbólgunnar. Hér er talað alveg á réttum nótum. Það er alveg laukrétt, að þessi aukning útlánanna hefur ásamt öðru haft sín áhrif í þá átt að auka verðbólguna. Ég skal ekki vera neitt að vefengja það, að hér kunni að vera um einhver mistök að ræða. Ég er engan veginn að halda því fram, að allt það, sem gera má stjórnarflokkana ábyrga fyrir, sé í öllum einstökum atriðum alltaf það laukrétta. Það má vel vera, að þessi útlán hafi aukizt meira en æskilegt er. Það er nú einu sinni þannig, að á bankastjórana er alltaf mikill þrýstingur, ekki sízt á verðbólgutímum, um aukin útlán, og þegar það er nú einu sinni þannig, að í bankastjórastólunum sitja menn, en ekki trékarlar, þá er það mannlegt, að undan þessum þrýstingi verði látið. Þegar fyrirtæki eða einstaklingur biður um lán og segir: Ef ég ekki fæ þetta lán, þá verð ég að stöðva minn rekstur og þið berið ábyrgð á því, — þá er undan þessu látið og kannske oft meira en samrýmist heilbrigðri efnahagsþróun. En hvað sem þessu liður, er hv. stjórnarandstæðingum það ljóst, að aukning útlánanna að öllu öðru jöfnu leiðir til verðþenslu. Það hamlar á móti þessu, ef menn leggja fyrir fé og nota það ekki að sama skapi, en ef aukning útlánanna er umfram þetta, þá leiðir það til verðþenslu.

Hvernig væri það nú, ef vextir væru lækkaðir? Afleiðing þess verður í fyrsta lagi sú, að þrýstingurinn á bankana verður meiri. Eftir því sem lánin fást með betri kjörum, eftir því verða fleiri, sem vilja taka lánin. Hvað snertir aftur á móti sparifjársöfnunina, minnkar hún, ef vextir eru lækkaðir. Þar gildir auðvitað hið almenna lögmál, að fái menn minni laun fyrir það að leggja fyrir peninga, þá verða menn ófúsari til þess og ráðstafa fé sinu heldur á annan hátt. Þetta skýrir það, að hv. stjórnarandstæðingum er, þegar öllu er á botninn hvolft, sjálfum fyllilega ljóst, að þessi staðhæfing þeirra, áð lækkun vaxta væri ráð til þess að lækka dýrtíðina, fær ekki staðizt. Ef sú fullyrðing fengi staðizt, mundi það algerlega stangast við það, sem menn úr báðum stjórnarandstöðuflokkunum með réttu bentu á í útvarpsumr. í gær, að það hefði átt sér stað meiri útlánaaukning en æskilegt hefði verið.

Ég mun nú ekki hafa þetta öllu lengra, en ég vil aðeins leyfa mér að gefnu tilefni að nefna það, að þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. fór að vitna í það í gær, að verkamannalaun í Noregi væru jafnvel allt að því helmingi hærri en hér, þá held ég, að það fái ekki staðizt. Þjóðartekjur Norðmanna eru ekki meiri á mann en þjóðartekjur Íslendinga. Það er enn fremur víst, að launamismunur í Noregi er meiri en hér, því að eitt af því, sem haft var til hliðsjónar, þegar opinberir starfsmenn báru fram sínar kröfur, var launamismunurinn í Noregi, en hann er minni en á Norðurlöndunum hinum utan Íslands. Nú voru þessar kröfur að vísu mjög verulega skornar niður, eins og kunnugt er, en hefði verið gengið að þeim, hefði launamismunurinn hér orðið álíka og í Noregi. Það er auðsætt, að þar sem það er staðreynd, að þjóðartekjur Norðmanna eru ekki hærri en Íslendinga, og í öðru lagi, að launamismunur er þar meiri en hér, þá er ekki hægt að láta dæmið ganga upp, ef því er líka haldið fram, að kaupmáttur launa sé helmingi meiri í Noregi en hér. Nú væni ég hv. þm. engan veginn um það að hafa farið hér með rangar upplýsingar, en hér hlýtur þá að vera um starfshópa að ræða, sem njóta sérstakra fríðinda. Almennt fær það ekki staðizt.

Þá vildi ég aðeins leyfa mér að víkja að furðulegum upplýsingum, sem komu hér fram í umr. í gær frá hv. 1. þm. Vesturl. Ég harma það, að hann er hér ekki viðstaddur. (Gripið fram í: Hann gekk út alveg núna.) Já, en kannske ég láti þetta aðeins bíða.

Að lokum þetta: Auðvitað verður því ekki neitað, að verði frv. þetta samþ., þá felst auðvitað í því íhlutun um samninga atvinnurekenda og launþega. Ég tel, að slík íhlutun, í hvaða formi sem hún er, sé í sjálfu sér æskileg, að bezta fyrirkomulagið í þessum efnum sé það, að samningar þessara aðila um skiptingu arðsins ráði launakjörunum. En því miður er það þannig, að vinnubrögð þessara aðila hafa að undanförnu verið með þeim hætti, að slík íhlutun í einni eða annarri mynd er algerlega óhjákvæmileg. Það er nefnilega ekki þannig, að þessir aðilar láti sér nægja að semja um það, hvernig skipta eigi þeim arði, sem framleiðslan gefur af sér, heldur hefur það hvað eftir annað skeð, að þeir samningar, sem gerðir hafa verið, hafa gert það óhjákvæmilegt, að gerðar yrðu sérstakar ráðstafanir, til þess að samningarnir sköpuðu atvinnulífinu eða framleiðslunni starfsgrundvöll. Það hefur hvað eftir annað verið samið um algerlega óraunhæfar almennar kauphækkanir. Síðan hafa báðir aðilar, bæði atvinnurekendur og verkamenn, komið til ríkisvaldsins og sagt: Þeir samningar, sem við höfum gert, skapa framleiðslunni ekki starfsgrundvöll. — Nú verður ríkisstj. að taka til sinna ráða og skapa þennan starfsgrundvöll. Þar koma ýmsar leiðir til greina, en allar þær leiðir, sem til greina koma og farnar hafa verið, svo að segja á hverju ári, hafa fólgið þetta í sér, að raunverulega hefur verið breytt beim samningum, sem atvinnurekendur og verkamenn hafa gert. Stundum hefur þetta verið gert með beinum aðgerðum, eins og þegar vísitala hefur verið bundin árin 1947, 1956 og 1960, svo að dæmi séu nefnd. Stundum hefur kaupgjaldið beinlínis verið fært niður, eins og gert var 1959, eða þá að farnar hafa verið aðrar leiðir, sem þýða auðvitað líka breytingar á hinum gerðu samningum, nefnilega að rýra kaupmátt þess kaups, sem um hefur verið samið, með dulbúnum eða ódulbúnum gengisbreytingum. Og mig furðaði satt að segja á því með tilliti til þess, hvað það hefur verið oft, sem slík íhlutun hefur verið framkvæmd, að bæði í því nál. frá hv. minni hl., sem hér liggur fyrir, svo og í ræðum einstakra framsóknarþm. í gær, sérstaklega ræðu hv. 5. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, er farið mjög hörðum orðum um það ranglæti, sem í þessu frv. fælist, að um fárra vikna skeið er fest kaupgjald og verðlag. Það virðist sem þessir menn séu alveg búnir að gleyma því, að þeirra flokkur stóð að gerðardóms árið 1942, þar sem allar hækkanir kaupgjalds, með fáum þýðingarlitlum undantekningum, voru bannaðar ótímabundið. Í þessum málflutningi eru ekki heilindi. Það eru vinnubrögð þessara aðila, sem þurfa að breytast, til þess að sú stefna verði framkvæmanleg, sem ég tel þá einu æskilegu í þessu sambandi, að það séu samningar þessara aðila, sem ráða hér úrslitum.

Áður en ég lýk alveg máli mínu, get ég ekki látið hjá liða, þó að hv. 1. þm. Vesturl, sé ekki kominn, að leiðrétta með örfáum orðum missagnir hjá honum í gær. Hann upplýsti það, að 18. maí, minnir mig, í vor hefði verðlagsnefnd gefið út tilkynningu, þar sem afnumin hefðu verið verðlagsákvæði á fjöldamörgum nauðsynjavörum, m.a. á búsáhöldum, matvælum og ýmsu fleira. Ég hef átt sæti í verðlagsnefnd s.l. 3 ár, og mér er með öllu ókunnugt um það, að þetta spor hafi verið stigið. Sú eina tilslökun, sem almennt hefur verið gerð á verðlagsákvæðum, var fólgin í því, að sumarið 1961 var gefin frjáls verðlagning á nokkrum vörutegundum, sem taldar voru til minna brýnna nauðsynja, og mun hlutdeild þessara vara í heildarinnflutningnum hafa þá numið eitthvað um 2%. Ástæðan til þessara tilslakana var sú, að eftir gengisbreytinguna 1960 voru sett mjög ströng verðlagsákvæði, sem lögðu þunga byrði á þá, sem fengust við vörudreifingu, og mun þá þegar hafa verið gefið vilyrði um það, að eitthvað yrði á þessu slakað, þegar mál færðust í eðlilegra horf, og þetta var gert með því að sleppa verðlagsákvörðunum á þessum 2% innflutningsins sumarið 1961. Annað hefur, svo að mér sé kunnugt, ekki verið gert í þessum efnum.

Annars hefur hv. þm. orðið það á, eftir því sem ég bezt veit, að stíga út af flokkslínunni í þessu efni. Hann fór mjög hörðum orðum um þetta afnám verðlagsákvæða, en eins og ég býst við, að mörgum öðrum hv. þm. sé kunnugt, hefur það verið yfirlýst stefna Sambands ísl, samvinnufélaga, að verðlagsákvæði skuli afnumin með öllu, og á s.l. vori og sumri birti Tíminn athugasemdalaust margar greinar um þetta undir nafni manns, sem nýtur alveg sérstaks trausts hv. framsóknarmanna í þessum efnum, þar sem hann er fulltrúi þeirra í verðlagsnefnd, en þessi maður er Stefán Jónsson prentsmiðjustjóri. En í öllum þessum greinum gerði hann sig mjög ákaft að talsmanni fyrir því, að það bæri að afnema öll verðlagahöft, eins og hann nefndi það. Meðan það væri ekki gert, væri það frelsi, sem viðreisnarflokkarnir hældu sér af, eins og hann orðaði það, aðeins nafnið tómt.

Ég get að síðustu ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að það er annað mál og í rauninni miklu stærra en það, sem hér er til umr., sem hefur blandazt inn í þetta, vegna að mínu áliti furðulegra ummæla, sem fallið hafa hjá ýmsum hv. stjórnarandstæðingum. En þetta mál snertir spurninguna um það, hvort borgurum þjóðfélagsins beri skylda til þess að hlýða lögum, sem þeir eru andvígir. í þessu frv. er aðeins farið fram á frest til þess að athuga málin, eins og oft hefur komið fram. Það væri hægt að fara aðrar leiðir til lausnar vandamálunum en þá, sem nú hefur verið farin í bili. Það hefði verið hægt að láta hlutina ganga sinn gang, þannig að eftir svo og svo mikil átök eftir atvikum hefði verið samið um óraunhæfar kauphækkanir. Þá hefði það vandamál blasað við eins og oft áður, að ef útflutningsatvinnuvegina hefði vantað rekstrargrundvöll, þá hefði það verið öllum ljóst, að heimtað hefði verið af stjórninni og stjórnarflokkunum, að hún kæmi með úrræði. Ef stjórnarandstöðuflokkarnir væru spurðir að því, hvaða úrræði þeir hefðu, þá mundu þeir fylgja uppteknum hætti, annaðhvort segja: Það er ekki okkar að benda á slík úrræði, — eða ef farið hefði verið inn á það, þá væru það algerlega óraunhæfir hlutir, eins og vaxtalækkun, sem þeir hefðu nefnt. Það, að öllum var sýnilegt, að þennan vanda hefði þurft að leysa, hefði svo aftur leitt til þess, að þjóðin hefði sætt sig við ráðstafanir, sem hefðu verið gerðar í formi dulbúinnar eða ódulbúinnar gengisbreytingar. Hlutirnir hefðu getað gengið sinn vanagang fyrir því. Það hefði verið hægt að halda uppi frjálsum viðskiptum og viðreisnin hefði í sjálfu sér staðizt. En ástæðan til þess, að stjórnárflokkarnir hafa þó ekki farið þessa leið, heldur hina, sem hér liggur fyrir, er sú, að eftir hinum gömlu leiðunum hefði ekki verið hægt að leysa tekjuskiptingarvandamálið. Þess vegna er það fyrst og fremst í þágu hinna láglaunuðu stétta að mínu áliti, að þessi leið verði reynd. Og það er bæði hörmulegt og furðulegt að mínu áliti, að nú hefur skotið upp aftur kenningunni um það, að beita þurfi handaflinu, kenning, sem ekki hefur verið hreyft á opinberum vettvangi, svo að ég muni, síðan Kommúnistaflokkurinn, sem þá var og hét, skipti um nafn og númer 1938. Kommúnistar lofuðu því þá að semja sig að háttum siðaðra manna, og það er fyrst nú, sem handaflskenningin hefur skotið upp kollinum.

En til hvers leiðir það, ef það er viðurkennt, að þeir, sem telja sér einhverja lagasetningu í óhag, telji sig um leið hafa leyfi til þess að brjóta þessar aðgerðir á bak aftur með ofbeldi? Spurningin er sú: Ef stéttarfélög innan Alþýðusambandsins, eitt eða fleiri, hafa slíkan rétt, hljóta þá ekki allir aðrir að lita þannig á, að þeir hafi sama rétt? Mundu bændur þá ekki telja sig hafa siðferðilegan rétt til þess að stöðva sölu sinna afurða, ef þeir væru óánægðir með úrskurð samkv. 1. um afurðaverðið? Hvernig væri með opinbera starfsmenn, ef þeir væru óánægðir með kjaradóm? Hefðu þeir þá ekki líka siðferðilegan rétt til þess að stofna til ólöglegra verkfalla?

Það má einnig nefna sem nærtækt dæmi, –segjum, að Alþingi setti lyfsölulög, sem þeir, sem fást við lyfjasölu, væru óánægðir með, þeir gætu auðvitað sagt, eins og allir geta alltaf sagt, þegar þannig stendur á: Þessi lög skerða okkar hagsmuni og réttindi. Alþingi hefur ekki siðferðilegan rétt til að setja þessi lög. Við skulum bara taka okkur saman og loka okkar lyfjabúðum, þangað til Alþingi og ríkisstj. sér að sér og breytir þessum lögum. — Ef þessi hugsunarháttur verður almennur, er erfitt að sjá, hvernig hægt er að halda uppi siðmenningarþjóðfélagi. Það er meira en lýðræðið, sem hér er í hættu, blátt áfram það, hvort siðmenning á að ríkja á Íslandi eða ekki. Og hvað sem öðru líður, vona ég, að allir þjóðhollir Íslendingar hljóti að sameinast um, að svo megi verða, að siðmenningarþjóðfélagi megi þó halda hér uppi, hver sem afstaða manna kann að vera til réttmætis þessarar lagasetningar.