19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

95. mál, vegalög

Helgi Bergs:

Herra forseti. Í þeim fáu orðum, sem ég sagði um þetta frv. hér við 1. umr. í gærkvöld, lýsti ég stuðningi mínum við það í grundvallaratriðum, og ég skal ekki eyða tíma í það nú að ræða um frv. almennt. En ég lét í ljós þá skoðun í gær, að trúlega mundi koma fram brtt. við frv. enn, og ég hef sjálfur lagt fram á þskj. 167 tvær brtt. við frv., sem ég vil fara hér um örfáum orðum.

Það kemur mér að vísu ekki nema að hálfu gagni að fá orðið nú, fyrst hæstv. samgmrh. getur ekki verið í d., vegna þess að í sambandi við fyrri brtt. mína hefði ég þurft að beina orðum mínum aðallega til hans. Það er því kannske rétt, að ég snúi mér fyrst að þeirri síðari í þeirri von, að hæstv. samgmrh. kunni að koma á fundinn fljótlega. (Gripið fram í: Það er verið að leita að honum.)

Síðari brtt. mín er shlj. brtt., sem hv. 3. þm. Norðurl. e. bar fram í Nd., á þá leið, að við bráðabirgðaákvæði frv. bætist þessi orð: „Alþingi kýs á árinu 1965 mþn. til þess að endurskoða þessi lög í samráði við vegamálastjóra.“ Ég fór um það nokkrum orðum í gær, að nauðsynlegt mundi að endurskoða þessa löggjöf fljótlega. Eftir slíka gerbreytingu hljóta að koma fram ýmisleg ófyrirséð tilvik, og ýmislegt af því nýja fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, er alveg eftir að fá reynslu af. Ég skal gjarnan segja það, að mér virðist undirbúningur þessa frv. í aðalatriðum vandaður, en athugunartími sá, sem hv. Alþingi hefur haft til meðferðar frv., hefur verið mjög skammur, og margvíslegar brtt., sem fram hafa komið, bera þess vott, að þm. eru ekki mjög öruggir um, að öll atriði frv. séu varanlega til bóta. Þess vegna virðist mér eðlilegt, að það hljóti að verða að gera ráð fyrir því, að lögin verði fljótlega endurskoðuð, og þá þykir mér einnig eðlilegt, að Alþingi, þegar það afgreiðir frv., láti strax í ljós þá skoðun sína, og þess vegna hef ég borið fram þessa brtt., sem er 2. liðurinn á þskj. 167.

Ég kem þá að því að ræða fyrri till. nokkuð, þó að hæstv. samgmrh. sé ekki á fundinum. Sú till. gerir ráð fyrir því, að 95. gr. frv. sé í burtu felld, en hún veitir ráðh. heimild til þess að ákveða með reglugerð, að greiða skuli sérstakt umferðargjald af bifreiðum, sem fara um tiltekna vegi og brýr. Þetta er, eins og menn sjá, ákvæði, sem veitir samgmrh. mjög víðtæka og mjög almenna heimild. Það hefur í sambandi við umr. um endurbætur á okkar vegamálum og umr., sem hafa átt sér stað í sambandi við undirbúning og aðdraganda þessa frv., verið mjög um það rætt, hvort bæri að byggja upp vegakerfið fyrst og fremst á framlögum úr ríkissjóði eða hliðstæðum framlögum, sem innheimt eru af þjóðfélagsþegnunum almennt, eða hvort ætti að hugsa sér það fyrirkomulag að taka að verulegu leyti lán til a.m.k. varanlegrar vegagerðar og láta þá umferð, sem um þá vegi fer, greiða tolla eða skatta af hverju farartæki, sem fer um veginn. Þetta er auðvitað grundvallaratriðið, sem ástæða er til þess að íhuga mjög vandlega. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að eftir að Alþingi fjallar um vegáætlunina og veitir af alþjóðarfé fjárveitingar til vegagerðar, þá sé ráðh. heimilt að ákveða, að tekið skuli af umferðinni fé til þessa í annað sinn. Mér virðist, að spurningin um vegatoll sé svo mikið prinsipmál, að það sé full ástæða til þess, að Alþingi fjalli um það alveg sérstaklega, í stað þess að hér er í einni grein veitt mjög almenn og víðtæk heimild til ráðh. til þess að ákveða slíkt upp á eigin spýtur.

Ég hefði mjög gjarnan viljað spyrja hæstv. samgmrh., ef hann hefði verið hér, hvernig hann hyggst beita þeirri heimild, sem honum er fengin í þessari gr., ef samþykkt yrði. Það hefur heyrzt sagt, að með þessu ákvæði sé einkum haft í huga að innheimta gjöld af bílum, sem fara um hinn nýja Keflavíkurveg, sem nú hefur verið í byggingu um tveggja ára skeið. Ef það er fyrst og fremst þetta, sem fyrir mönnum vakir, þá virðist mér heimildin í 95. gr. vera óþarflega rúm. Í sambandi við Keflavíkurveginn vil ég gjarnan segja það, að það öngþveiti, sem orðið var í vegamálum Suðurnesja, átti að verulegu leyti rót sína að rekja til þess, að umferðarálagið á þennan veg hefur verið gífurlegt sökum dvalar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og viðskipta og samgangna við það. Það væri alls ekki óeðlilegt, að sú umferð greiddi verulegan hluta af kostnaði við byggingu vegarins, og sízt mundi ég mæla á móti till., sem lytu að því. En það verður að gá að því, að það fara fleiri um þennan veg en þeir einir, sem erindi eiga í sambandi við þetta. Vegurinn er einnig aðalsamgönguæð íbúanna í sjávarplássunum og kaupstöðunum á Suðurnesjum.

Nú mætti að vísu segja, að á meðan þeir hafa einir svo vandaðan veg að aka um, væri þeim kannske vorkunnarlaust að greiða eitthvað sérstakt fyrir það, en á hinn bóginn er nú í þessu frv., sem hér er til meðferðar, gert ráð fyrir því, að fleiri vegir verði vonandi innan mjög skamms tíma gerðir á sama vandaðan máta, og þá er auðvitað ekki eðlilegt, að íbúar nokkurra kaupstaða og þorpa á Suðurnesjum skuli einir þurfa að borga slíkt umferðargjald. Og ekki er ástæða til þess, að þeir gjaldi þess, að þannig hafi atvikazt; að þeir urðu rétt fyrstir í þessari þróun.

Nú vil ég taka það fram alveg skýrt, að með þessu er ég ekki að taka neina endanlega afstöðu til þess, hvort ég telji rétt í einstökum tilvikum að taka upp slíka umferðartolla. Ég er ekki að taka afstöðu til þess endanlega í „prinsipinu“, heldur er ég að láta í ljós þá skoðun, að heimildin, sem ráðherra er veitt með 95. gr., sé óeðlileg og allt of rúm og óskilgreind. Ég mundi telja eðlilegt, að ef farið væri inn á þessa braut, væri um það mál sérstaklega fjallað á Alþ., og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þá brtt., sem fólgin er í fyrsta lið á þskj. 167, um það, að 95. gr. falli niður.

Ég hefði gjarnan, eins og ég sagði áðan, kosið, að hæstv. samgmrh. hefði verið hér í d. og getað gefið okkur yfirlýsingar um það, hvernig hann hygðist beita ákvæðum þessarar greinar, ef samþykkt yrði, og enn fremur hefði ég þá óskað þess, að hann hefði lýst því yfir; að hann mundi ekki beita henni án samráðs við þá aðila, sem sætzt hafa á að koma þessu stóra máli áfram með óvenjulega skjótum hætti. Ég hefði talið eðlilegt, að þar sem hefur orðið samkomulag um það að koma fram þessu merka máli á þann hátt, sem nú er verið að gera, yrði um slíkt stórmál eins og það, sem fólgið er hér í lítilli grein, einnig samráð og samkomulag, hvernig því yrði beitt, ef till. mín um að fella þessa heimild burt nær ekki fram að ganga. Ég geri mér það ljóst, að ýmsir, þótt þeir kynnu að vera þessari brtt. hlynntir, munu hafa nokkurn hug á að koma frv. gegnum þessa hv. d. án breytinga. En ég vildi samt ekki láta hjá líða að bera fram þessa brtt. til þess að vekja athygli á þessu máli og sérstaklega til þess að biðja um yfirlýsingu hæstv. samgmrh., sem því miður er ekki hérna núna, um það efni, sem ég var að gera grein fyrir áðan.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira.