08.11.1963
Efri deild: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (1861)

56. mál, launamál o.fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það hafa þegar orðið miklar umr. og langar um það frv., sem hér liggur fyrir, og er það að vonum. Það má nú búast við, að allur þorri röksemda með og móti þessu frv. sé nú fram kominn eftir svo langar og viðtækar umr. og þess vegna muni þykja ástæðulaust að orðlengja mjög mikið um málið, úr því sem komið er. En þetta mál er þannig vaxið, að það er í sjálfu sér eðlilegt, að í sambandi við það fari fram víðtækar umr. um störf og stefnu hæstv. núv. ríkisstj, og gerð nokkur úttekt á því og nokkurt mat á það lagt, hvernig hennar störf hafa verið og hvar við stöndum nú í dag eftir fjögurra ára stjórn hennar. Það gefur og nokkra ástæðu til þess að fjalla um einstök atriði þessara mála, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. flutti hér langa ræðu í dag og kom víða við, flutti að vísu margar þær hinar sömu röksemdir sem hæstv. ríkisstj, hefur flutt í sambandi við þetta mál og kom þó að einstökum liðum þess frá nokkuð öðru sjónarmiði, og verð ég að segja, að hann varði þar erfitt mál sízt ófimlegar en hæstv. ráðh. hafa gert, og ég saknaði þess í sambandi við a.m.k. ákveðinn kafla ræðu hans, að hér voru ekki fleiri hæstv. ráðh. til staðar, því að ég hygg, að þeir hefðu haft gott af því að hlusta á röksemdir hans, t.a.m. í sambandi við það, hvað af of mikilli og óhóflegri fjárfestingu getur leitt og hlýtur að leiða, — af of mikilli, óhóflegri og óskynsamlegri fjárfestingu. Hins vegar var ég honum ekki alls kostar sammála um sumar þær ályktanir, sem hann dró af þessu, og mun koma dálítið að því síðar. Með tilliti til þessa býst ég við, að ég þurfi að eyða hér dálitlum tíma hv. deildar til þess að ræða allmörg einstök atriði þessa máls, en býst þó ekki við að verða ákaflega langorður.

Hæstv. ráðh. hafa ekkert dregið úr því nú undanfarna daga, að ástandið í efnahagsmálunum sé orðið býsna erfitt. Þeir lýsa því hver á fætur öðrum, að fjárfesting og neyzla sé allt of mikil og meiri en framleiðslan þolir. Þeir benda á hríðversnandi viðskiptajöfnuð. Þeir benda á minnkuð sparifjárinnlán, miklu meiri eftirsókn eftir lánsfé en hægt hefur verið og hægt er að fullnægja. Og hæstv. ráðh. og aðrir talsmenn ríkisstj. þurfa engan að fræða um verðbólguþróun síðustu mánaða. Hún liggur að verulegu leyti fyrir í opinberum skýrslum og grg., en almenningur þarf hvorki að gripa til eða leita til vísitöluútreiknings eða styðjast við yfirlýsingar frá ríkisstj. um þau efni. Hann finnur verðbólguáhrifin áreiðanlega nógu greinilega sjálfur, þegar hann er að kaupa lífsnauðsynjar sínar. Ástandið er því vissulega alvarlegt í þessum málum öllum. Hitt er svo annað mál, að hæstv. ráðh. gera nú jafnvel enn þá meira úr því en ástæða er til, eða a.m.k. meira úr vissum þáttum þeirra örðugleika, sem við er að etja, heldur en bein ástæða er til, svo sem getu framleiðenda fiskafurða til þess að borga hækkað kaup, og þá ekki síður getu ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins til þess að gera þeim það kleift. Það er að vísu rétt, að allur tilkostnaður hraðfrystihúsa, sem aðallega er talað um í þessu sambandi, annar en vinnulaun, hefur hækkað gífurlega af völdum viðreisnarstefnunnar, af völdum stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það annað en frásagnir eða einhverjir lauslegir útreikningar frá hraðfrystihúsaeigendum sjálfum eða stjórn þeirra, hvernig rekstrarafkoma hraðfrystihúsanna raunverulega er. Þó er vitað, að stórir kostnaðarliðir, sem stjórnarstefnan hefur hækkað mjög með löggjöf og ríkisvaldið og löggjafinn ráða miklu eða mestu um, valda mjög miklu um afkomu hraðfrystihúsanna og jafnvel meira en hitt, þó að kaup verkafólks hækkaði verulega, jafnvel um þau 40%, sem kröfur verkalýðsfélaganna eru almennt miðaðar við. Þetta stendur enn óhrakið þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða.

Það hefur verið sýnt fram á það með rökum, að lækkun vaxta og lækkun útflutningsgjalda gæti fyllilega komið á móti þeim aukna kostnaði, sem af kauphækkun til verkafólks mundi leiða. Þegar hæstv. ríkisstj. er í dag að mála þennan tiltekna þátt efnahagsmálanna sem allra dekkstum litum, er það að sjálfsögðu gert í alveg ákveðnum tilgangi. Málsvarar stjórnarstefnunnar segja að vísu, að þeir geri þetta af einskærri sannleiksást. Þeir hafa tekið upp þann góða sið að segja þjóðinni alveg satt og rétt um ástandið, þeir séu svo sem ekki undir sömu sökina seldir og ýmsar fyrri ríkisstj., sem hafi viljað gera litið úr erfiðleikum, hafi viljað leyna þjóð og þing því, hvernig komið var, þegar erfiðlega gekk. Þessir sannleikselskandi hæstv. ráðh. berja sér nú á brjóst og tilkynna: Við leynum engu, erfiðleikarnir ern miklir, það verður að grípa til róttækra ráðstafana, ef ekki á illa að fara. — Og þetta er sagt til að réttlæta það, sem nú er verið að gera með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir. Það er verið að reyna að réttlæta það framferði að svipta verkalýðshreyfinguna verkfalls- og samningsrétti. Það er verið að reyna að réttlæta það, að nú á að banna launþegum og atvinnurekendum að semja sín á milli um kaup og kjör. Þessar harkalegu aðgerðir eru nauðsynlegar, segir ríkisstj., ef útflutningsframleiðslan á ekki að stöðvast og efnahagskerfið ,jafnvel að liðast í sundur, og þessar aðgerðir á svo að framkvæma á sama tíma sem verzlunargróðinn er meiri en nokkru sinni fyrr, á sama tíma sem auðsannanlegt er, að verðbólgubraskarar af margvislegu tagi raka til sín skjótfengnari og meiri auði en dæmi eru um áður. Það á að gera þetta á sama tíma eða skömmu eftir að mjög margar starfsstéttir, þ.á.m., eins og margsinnis hefur verið bent á, allir launahæstu embættismenn landsins hafa fengið rausnarlegar launahækkanir samkv. kjörorðinu: Sá launalægsti hlutfallslega minnsta hækkun, sá kauphæsti hlutfallslega mesta hækkun.

Á meðan allt þetta var að gerast, impraði hæstv. ríkisstj. ekki á því, að þjóðarbúið þyldi ekki svona miklar kauphækkanir. Hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. hafa báðir skrifað og talað á þá lund, ef ég man rétt, nm launamál opinberra starfsmanna, að þar bar mest á fögnuði yfir því, að réttlætis- og sanngirnismál næði nú fram að ganga. Og enginn mun neita því, að opinberir starfsmenn og ýmsar þær stéttir aðrar, sem brátt fylgdu í kjölfar þeirra, þurftu að fá kjör sín bætt á tímum mikillar verðbólgu, á tímum viðrefsnarverðlags. Hitt er svo annað mál, að ýmsir hafa verið dálitið hissa á því, að svo fúslega hefur verið aðhyllzt, — ekki aðeins af hæstv. ríkisstj., ég skal taka það fram, heldur af öllum þeim, að því er virðist, sem um þessi mál fjölluðu í sambandi við kjaramál opinberra starfsmanna, — sú stefna, að þeir menn, sem eru í hinum hærri eða hæstu launaflokkum, skyldu fá 60—80—90% kjarabót, þegar láglaunuðu starfsmennirnir voru taldir fullsæmdir af 30% hækkun eða þar um bil. Hæstv. ríkisstj. bendir að vísu á það og réttilega, að hún hafi ekki sjálf ákveðið laun opinberra starfsmanna, það hafi hlutlaus og óháður kjaradómstóll gert. Það er að vísu rétt, að launin voru ákveðin með kjaradómi. En það þarf enginn hins vegar að ætla, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki átt sinn drjúga þátt í því að leggja meginlínurnar, svo sem um það atriði, að háu launaflokkarnir skyldu hækka hlutfallslega langmest, og að hún hafi einnig haft áhrif á hitt, veruleg áhrif, hversu stórri heildarfjárhæð var talið fært að verja til þessara launabóta. Þarna hefur vafalaust komið til mat hæstv. ríkisstj. sjálfrar og síðan kjaradóms á því, hversu mikil laun menn þyrftu að hafa í íslenzku þjóðfélagi í dag undir viðreisnarstjórn. Það fer naumast milli mála, að þetta hefur verið eitt meginsjónarmiðið, og í því sambandi er vert að veita því sérstaka athygli, að einn dómenda í kjaradómi er annað helzta haldreipi hæstv. ríkisstj. í öllum stórmálum, sem snerta efnahagsmál, efnahagsmálasérfræðingur viðreisnarinnar, dr. Jóhannes Nordal.

Og hvernig féll nú dómur þessara manna? Eins og margsinnis hefur verið bent hér á, var dómurinn um það, sem réttlátt og nauðsynlegt væri, að þessir menn fengju, þá var sá dómur þessi: Mikil almenn kauphækkun, 45% að meðaltall. Og ástæðurnar voru taldar einkum tvær. Í fyrsta lagi sú, að opinberir starfsmenn hefðu dregizt aftur úr ýmsum sambærilegum starfshópum, m.a. hefði ekki verið tekið nægilegt og eðlilegt tillit til sérhæfni og menntunar. Og í öðru lagi, að opinberir starfsmenn hafi dregizt aftur úr í verðbólgukapphlaupinu. Þeir þurftu að dómi kjaradóms að fá 45% hækkun til bess að geta lifað sómasamlega undir viðreisn. Ég skal játa, að það er margt rétt í þessum rökum. Að sumu leyti var þarna verið að lagfæra gamalt misrétti, margra ára sultarlaun, sem opinberir starfsmenn hafa orðið að búa við. En mestu munaði þó um hitt, hvað viðreisnarkrónan var orðin lág, hvað margar krónur þurfti til þess að menn gætu lifað sómasamlegu lifi undir viðreisn.

Þessar aths. um viðhorf ríkisvaldsins til launabóta til handa opinberum starfsmönnum ber ekki að skilja á þá lund, að ég telji, að það hafi verið vanþörf á að bæta kjör þeirra almennt. Það var óhjákvæmilegt og það hafði dregizt of lengi. Hitt er svo engan veginn hafið yfir gagnrýni, og mér er nákvæmlega sama, hversu margir aðilar þar bera ábyrgð á, að það var furðulangt gengið í því að lyfta hinum betur launuðu, að auka launamismunimi. Að mínum dómi var þarna farið skör lengra en eðlilegt og skynsamlegt var. A.m.k. verður að telja, að þetta sé fullkomin ofrausn frá sjónarmiði þeirrar hæstv. ríkisstj., sem kemur svo fram fyrir þjóðina skömmu síðar og segir: Nú er svo illt í efni, að við verðum að banna allar kauphækkanir þeim til handa, sem lægst hafa launin.

Þegar það er haft í huga, sem á eftir fór, sem nú er fram komið — og skýrast með þessu frv., þá er það næsta einkennilegt, ef það hefur aldrei flögrað að hæstv. ríkisstj., að með þeim samningum, sem gerðir voru í sumar, og þá ekki sízt í sambandi við hina launahæstu, væri um nokkra ofrausn að ræða, þegar í einu stökki eru hækkuð svo mikið embættislaun hinna launahæstu, að viðbótin ein nemur hálfum öðrum til tvennum verkamannalaunum. Það vita allir, þó að það hafi nú verið reynt í þessum umr. af hálfu hæstv. ríkisstj. að mótmæla því, að kaup verkamannsins í dag er 28 kr. um tímann, og það gerir með 8 klst. vinnu hvern virkan dag allt árið rúmar 6 þús. kr. Og það er næsta furðulegt, þegar menn eru hvað eftir annað að halda því fram, að það sé nægilegt, ef verkamaðurinn getur aukið þessar tekjur sínar eitthvað verulega með því að leggja á sig eftir-, nætur- og helgidagavinnu. Það er a.m.k. furðulegt, þegar talsmenn Alþfl. leggja á þetta áherzlu, eins og hæstv. viðskmrh. hefur gert hvað eftir annað. Hann hefur hvað eftir annað borið það fram sem röksemd, að samkv. skattframtölum sjáist það, að verkamenn hafi t.a.m. í fyrra haft nálægt 90 þús. kr. í tekjur. En það er eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á, þær tekjur fást ekki með öðru móti en því að vinna 11 stundir a.m.k. að meðaltali á dag, 11–12 stundir jafnvel. Það hefði vissulega einhvern tíma þótt fjarstæðukennt, ef því hefði verið spáð, að forustumenn Alþfl. ættu eftir að berjast við hlið fulltrúa atvinnurekendavaldsins í landinu fyrir löggjöf af því tagi, sem festir þessi launakjör verkamanna. Og þó að menn séu nú á síðustu árum orðnir ýmsu vanir af forustumönnum Alþfl., þá fer ekki hjá því, að mörgum blöskri þetta. Ég held, að það hafi ekki heldur farið fram hjá hæstv. ráðh, þess flokks og þm. nú undanfarnar vikur og daga, allt frá því að þetta frv. kom fram, að það er fordæmt af fjölmörgum fylgismönnum þeirra sjálfra. Ég veit líka, að innan Sjálfstfl. eru margir, sem telja, að hér sé verið að fremja hróplegt ranglæti. Þeir áfellast hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa haldið að sér höndum í allt sumar, þótt hún mætti vita, að hverju hlyti að draga í launamálunum öllum. Þeir áfellast hana fyrir það að hafa nú engar till. tilbúnar, komið fram í nóvembermánuð, ekkert annað en þetta þvingunarfrv., sem hlýtur að valda mjög miklum óróa og margvislegum óþægindum fyrir atvinnurekendur, fyrir þjóðina alla.

Ég gat þess áðan, að hæstv. ríkisstj. hafi stundum að undanförnu — einstakir ráðh. verið að hæla sér af því, að þessi ríkisstj. hafi til að bera það hugrekki og þá hreinskilni, sem til þess þarf að segja þjóðinni satt og rétt um ástand efnahagsmálanna. En það verð ég að segja, að heldur er fátt orðið um fína drætti hjá hæstv. viðreisnarstjórn, þegar hún fer að bera tof á sjálfa sig fyrir sérstaka hreinskilni. Það held ég, að muni allir, hver var söngurinn hjá öllum talsmönnum stjórnarflokkanna fyrir kosningarnar í sumar. Það var eðlilegast, að þá hefðu hæstv. ríkisstj. og hennar talsmenn lagt spilin hreinlega á borðið. Kjósendurnir áttu heimtingu á því, að spilin væru þá þegar lögð á borðið. Gerði hæstv. ríkisstj. það? Lagði hún spilin á borðið í vor? Gaf hún sannar og hlutlausar skýrslur um ástandið í efnahagsmálum? Ég held, að það hafi skort mikið á, að svo væri. Hún talaði þá ekkert um, að það væri vaxandi jafnvægisleysi, að óðaverðbólga væri á næstu grösum og það væri hætt við því, að álit færi í strand í haust.

En nú er hæstv. ríkisstj. loksins orðin hreinskilin. Nú segir hún, að þetta jafnvægi, sem var í ágætu lagi í vor, sé nú farið veg allrar veraldar. Nú skýrir hún frá því, að greiðslujöfnuður á þessu ári sé orðinn óhagstæður um 700 millj. Það gat hún að vísu ekki sagt í vor. En þó gat hún skýrt frá ýmsu. Hún segir frá því, að sparifjáraukning fari minnkandi, að eftirspurn eftir lánsfé fari vaxandi, að neyzla og fjárfesting sé miklu meiri en þjóðarbúið þolir. Og eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á, hefur það gerzt í sambandi við verðlagsþróunina, að á 4 mánuðum hefur framfærsluvísitalan hækkað úr 131 stigi í 148. Það má segja, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki í vor getað skýrt frá þessum tölum, sem eru byggðar á ástandinu í haust, en hún hefði vissulega getað skýrt frá því, að hverju stefndi, ef hún hefði viljað, því að hvað er það, sem hefur gerzt svo alvarlegt síðan í vor, að það hafi breytt öllu, sem máli skiptir í þessum efnum?

Ekki er um það að ræða, að það hafi veríð sérstaklega erfitt árferði í sumar. Ekki er hægt að segja, að síldveiðin hafi brugðizt, því að í sumar veiddist síld fyrir svo mikil verðmæti, að mjög nálgast aflametsumarið í fyrra. Ekki er heldur um það að ræða, að lélegur fiskafli hafi verið þetta ár yfirleitt. Jafnvel hygg ég, að afli togara hafi verið heldur skárri en mörg undanfarin ár. Verð fyrir framleiðslu landsmanna hefur verið gott og heldur hækkandi, og salan hefur verið greið. Nei, það er ekkert af þessu, sem hefur gerzt. En það, sem skeð hefur frá vori til hausts, er í stuttu máli það, að stefna hæstv. ríkisstj., viðreisnarstefnan, hefur sannað það, sem að vísu var fyrirsjáanlegt í vor, en er fullkomin og óumdeilanleg staðreynd í haust, að hún er endanlega gjaldþrota. Og nú er svo komið, að jafnvel hin mesta árgæzka og mjög góð aflabrögð geta ekki komið í veg fyrir það. að þetta gjaldþrot verði og sé öllum ljóst.

Ég skal ekki fara mjög langt út í það að ræða um, hverjar eru orsakirnar fyrir því, að efnahagsmálastefna hæstv. ríkisstj. hefur misheppnazt. Þó vil ég aðeins minnast á nokkur atriði. Að mínum dómi er ástæðan sú, að nokkur meginatriði í sambandi við þá stefnu eru byggð á hreinni hugsanavillu. Það eru upp teknar kenningar, sem reyndar hafa verið, að vísu með nokkuð misjöfnum árangri, hjá stórum þjóðum og fjölmennum, þar sem um er að ræða mikið fjármagn og tiltölulega mikið jafnvægi. En þó að slíkar efnahagsráðstafanir hafi á vissum tímum e.t.v. skilað einhverjum árangri meðal þjóða, þar sem allt öðruvísi hagaði til en hér, hlutu þær að mistakast hér, og ástæðurnar eru nokkuð augljósar. Það er í fyrsta lagi, að hér á landi er um að ræða mjög takmarkað fjármagn miðað við þær miklu þarfir, sem fyrir eru til uppbyggingar í þessu þjóðfélagi. Þess er í öðru lagi að geta, að í sambandi við okkar aðalatvinnuveg, sjávarútveginn, verða oft miklar sveiflur, og hann er óstöðugur, gefur góða afkomu sum árin, en slæma önnur. Viðreisnarstefnan byggðist fyrst og fremst á því, að það átti að innleiða hér sem allra mest frelsi í viðskipta- og fjárhagsmálum. Það átti ekki að skipta sér neitt af því, hvert fjármagnið rynni. Það átti ekki að skipta sér neitt af fjárfestingunni. Hömlurnar í sambandi við fjármagnið áttu að felast í því, að vextirnir væru hækkaðir, þegar þess þyrfti með, og þá lækkaðir aftur, ef ástæða þætti til. Það átti a.m.k. fyrst um sinn að hamla gegn ofþenslu og verðbólgu með gífurlegri vaxtahækkun, með því að selja eða leigja réttara sagt peninga mjög dýrt. Áhrifin af þessari stefnu urðu strax augljós og hafa þó komið æ betur í ljós, eftir því sem lengra leið. Þegar um engar hömlur er að ræða, leita peningarnir vitanlega þangað, sem þeir renta síg, eins og það er kallað, bæði fljótt og vel. Þeir leita þangað, sem af þeim er að hafa mestan og skjótfengnastan gróða. Og vinnuaflið leitar vitanlega á eftir til hinna sömu atvinnuþátta, sem geta rentað dýra peninga. Íslenzkur landbúnaður á að sjálfsögðu mjög erfitt með að taka þátt í slíku kapphlaupi um dýra peninga. Íslenzkur sjávarútvegur á það vissulega í flestum tilfellum líka. Og íslenzkur iðnaður almennt er ekki sérlega vel fær um það. En á hinn bóginn er það í slíku frelsi peninganna möguleiki verzlunarinnar fyrst og fremst, sem um er að ræða. Það er á því sviði, þar sem fljótlegast er að fá ávexti af dýrum peningum. Þar er um að ræða í flestum tilfellum fljótteknastan gróða. Og svo er þess einnig að gæta í þessu sambandi, að hér á landi er og hefur lengi verið mikill húsnæðisskortur, mikil þörf á því að byggja, og sú þörf minnkar ekki, þó að vextir séu hækkaðir og leiga á peningum sé þess vegna dýr. Og það er haldið áfram að byggja, því að þörfin kallar eftir því. En þessir háu vextir valda því hins vegar, að byggingarkostnaður verður óhóflega og óstjórnlega mikill. Það hefur líka sýnt sig og er hægt að færa að því alveg eindregin rök, að þessi gífurlegi byggingarkostnaður er ein meginástæðan fyrir þeirri miklu dýrtið og verðbólgu, sem er hér í landinu.

Menu gátu sagt sér það sjálfir þegar í upphafi, þegar viðreisnarstefnan var boðuð, að afleiðingin hlyti að verða þessi, að verzlunin fyrst og fremst og byggingariðnaðurinn að einhverju leyti mundu taka við allt of miklum hluta þess lánsfjár, sem um gat verið að ræða, og þetta mundi hafa margt skaðlegt í för með sér. Það er nú þannig í okkar landi, að framkvæmdahugurinn er að jafnaði meiri en það vinnuafl og þeir peningar, sem um er að ræða að hagnýta á hverjum tíma. Þess vegna er það óhjákvæmilegt í landi, þar sem ástatt er eins og hjá okkur, að gerðar séu áætlanir um það, hvernig á að leysa verkefnin, að lausn þeirra komi, eftir því sem hægt er, í réttri og eðlilegri röð.

Það verður engan veginn sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi síðan um kosningar verið sérlega heppin eða sérlega varfærin um notkun þeirra meðala, sem hún telur þó vafalaust, að helzt ættu að halda niðri þeim sjúkdómum, sem gert höfðu vart við sig í sambandi við viðreisnarstefnuna. Á tímum mikillar verðbólgu, á tímum gífurlegs innflutnings og ofþenslu á flestum sviðum hikuðu stjórnarflokkarnir, ekki við það í vor að stórauka þensluna. Og ástæðan, hver var hún? Hún var öðru fremur sú, að þá voru alþingiskosningar fram undan, og hæstv. ríkisstj. var nú aldeilis ekki á því að tapa þeim kosningum. Þar átti að vinna sigur, hvað sem það kynni að kosta. Og það er óhætt um það, að eins og stundum hefur að vísu komið fyrir áður, komu menn sér sjálfir á framfæri og ekki miður en áður. Þeir báðu um fyrirgreiðslu, og þeir fengu hana margir í ríkum mæli. Og þess munu ekki hafa verið fá dæmi, að mönnum hafi verið boðin fyrirgreiðsla. Þetta er hægt að sanna. Það er hægt að nefna tiltekin dæmi um þetta, þó að ég sjái ekki ástæðu til að gera það hér. Og svo að ég segi ekki meira en hægt er að standa við, þá fullyrði ég, að sitthvað af þeirri lánastarfsemi, sem uppi var höfð á s.l. vori, er ekki hafið yfir gagnrýni, svo að ekki sé meira sagt. Þar má a.m.k. benda á eitt og annað, sem vel hefði mátt bíða og sjálfsagt var að láta bíða fremur en að auka útlánastarfsemina langt fram yfir öll skynsamleg takmörk, en það var vissulega gert. Með þessu er ég vitanlega ekki að segja, að öll sú mikla lánastarfsemi og óvenjulega, sem fram fór á s.l. vori, hafi farið í óráðsíu, hreina óráðsíu eða til óþarfra framkvæmda. Mikið af þeirri lánastarfsemi hefur vafalaust farið til meira og minna gagnlegrar uppbyggingar, en áreiðanlega ekki allt og ekki nærri því allt. Dæmi þess eru vitanlega deginum ljósari, hinn gegndarlausi bílainnflutningur, sjónvarpstækin og margt og margt fleira. Og það er vitanlega svo í landi, þar sem ákaflega margt kallar að og mikið þarf að framkvæma, en fjármagn og vinnuafl er hins vegar takmarkað, að þá verður að hafa þar einhvern skynsamlegan hemil á. Það verður að ákvarða af einhverju viti, hvað skal ganga fyrir og hvað má eða verður fremur að bíða. En því var alls ekki að heilsa í vor, að það væru hafðar á lánastarfseminni miklar hömlur.

Ég nefndi hinn gífurlega bílainnflutning hér áðan. Það er að sjálfsögðu mjög æskilegt, að sem allra flestir geti veitt sér það að eiga bíl. En það er nokkuð dýrt fyrir þjóðfélagið, og það er a.m.k. ólíklegt, að hægt sé að veita mörgum þúsundum þjóðfélagsþegna þessa fyrirgreiðslu svo að segja samtímis, jafnvel þótt kosningar séu fyrir dyrum. Og sízt af öllu virðist vera vit í því að leyfa innflytjendum alveg eftirlitslaust að yfirfylla markaðinn, láta bílahangana grotna niður. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur loksins, þegar seint var orðið nokkuð, séð sig dálítið um hönd og kippt til baka þeim lánum, sem um var að ræða og innflytjendur gátu fengið til þess að flytja inn alla þessa miklu bíla. En það var mjög seint, sem það var framkvæmt. Þó er það vitanlega vottur þess, að hæstv. ríkisstj. sá, að þarna hafði verið óskynsamlega og óeðlilega langt gengið. Ég held meira að segja, að í sambandi við allan þennan bilainnflutning sé það þannig, að það fyrirfinnist ekki sú bílategund, a.m.k. vestan járntjalds og ég held fáar fyrir austan, þar sem einhver framtakssamur maður, annaðhvort gamall heildsali eða ungur, framtakssamur piltur, sem vildi fara að flytja inn bíla, hefur ekki krækt sér í umboð, pantað bíla hérna upp á krít og byrjað að verzla með þá. Afleiðingin er svo sú, sem allir vita. Það er innflutningur fyrir hundruð milljóna á nokkrum mánuðum, ag nú liggja heilar breiður af óseldum og jafnvel illseljanlegum bílum hér í höfuðborginni.

Þegar ég ræði um þessa miklu lánastarfsemi banka, peningastofnana og það, hvernig ríkisvaldið kom inn á þennan peningamarkað með sitt stóra lán allt í einu í vor, og þegar ég er að gagnrýna það, að þetta hafi allt gerzt fyrir kosningar og að allverulegu leyti í sambandi við þær, þá er ég ekki að halda því fram, að núv. stjórnarflokkar hafi þarna verið að finna upp eitthvert alveg spánnýtt púður í sambandi við kosningar, því að þess eru vissulega dæmi og þau kannske nokkuð mörg, að eitthvað í áttina við þetta hefur gerzt áður hjá stjórnarflokkum ýmsum, þegar kosningar fóru í hönd. En þó held ég, að það verði ekki vefengt með rökum, að eins mikið örlæti í þessum efnum og sýnt var s.l. vor hefur aldrei verið sýnt í nokkrum kosningamánuði á Íslandi.

Að unnum varnarsigri í kosningunum s.l. vor, byggðum öðrum fremur á þeirri forsendu, að allt væri í góðu lagi, að viðreisnin væri í blóma, virðast hæstv. ráðh. hafa varpað öndinni léttara og lögðust nú á lárber sín. Þeim fannst nú vitanlega mikið fengið. Það virðist svo, að þeim hafi þá um sinn a.m.k. ekki verið vandamálin sérstaklega mikið áhyggjuefni. Það liggur við, að maður gæti haldið, að þeirra frammistaða, þeirra áróður í kosningabaráttunni, áróðurinn um það, að allt væri í himnalagi, hafi verið svo mikill og áfengur, að þeir hafi verið búnir að sannfæra sjálfa sig um, að nú þyrfti ekkert að gera á næstunni, þetta mundi allt saman ganga af sjálfu sér, vandinn væri nánast enginn. Svo mikið er víst, að það fer ekki mikið fyrir þeim athugunum og þeim till., sem byggðar eru á heilabrotum og umhugsun hæstv. ráðh. um vandamálin frá því í sumar eða haust. Nei, sumarið leið, og skyndilega var haust komið. Hæstv. ráðh., þeir sem höfðu þurft að bregða sér út fyrir pollinn, eins og stundum kemur nú fyrir, flugu heim einhvern tíma í septembermánuði eða byrjun október, og þá er við því að búast, að alvara lífsins hafi tekið við að nýju. Þá mun hafa verið byrjað að þinga um ástand og horfur, og þá kom í ljós þetta, sem marglýst hefur verið og hæstv. ríkisstj. hefur sjálf lýst, að ástandið væri ekki gott og horfurnar þó sýnu verri. Og nú voru góð ráð vitanlega dýr. Það var komið fram í lok septembermánaðar, þegar ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi fyrst farið að sinna þessum málum verulega, hafi getað t.a.m. haldið fullmyndaðan ríkisstjórnarfund eftir kosningar. Það mun hafa verið seint í september. En þá fóru þeir líka að þinga. Þeir munu vafalaust hafa leitað til hinna margumtöluðu sérfræðinga sinna í efnahagsmálum og rætt við þá um þær lausnir, um þær till., sem fram þyrfti að leggja, spurt þá, hvort þeir hefðu ekki tilbúið lausnarorðið. En það mun hafa eitthvað staðið á því, að hinir ágætu efnahagsmálasérfræðingar viðreisnarinnar hefðu tilbúið lausnarorðið. Og þá fyrst, eftir að eitthvað stóð á því, munu hæstv. ráðh. sjálfir hafa farið að brjóta heilann verulega um vandann. Og mér er ekki grunlaust um, að það hafi verið gamalkunn hrossalækning í þessum efnum, sem einna fyrst kom upp í hugann, það hafi verið gengisfellingarhugmyndin, sem fyrst skaut upp kollinum. En henni var hafnað, a.m.k. að svo stöddu og að því er helzt lítur út fyrir, eða það er a.m.k. haft á ytra byrðinu, er henni nú hafnað með hinni mestu fyrirlitningu. Það hafa verið haldnar um það miklar ræður. Til að mynda minnist ég þess, að það var jafnvel uppistaða í ræðu, sem hæstv. dómsmrh. hélt á Varðarfundi í haust, að gengisfelling væri í fyrsta lagi engin lausn, og manni skildist, að hún hefði aldrei verið lausn á neinum vanda.

Ég er nú þeirrar skoðunar, að þó að þetta sé að mínu viti alveg rétt athugað; að gengisfelling sé ekki lausn í sjálfu sér á neinum vanda, þá hafi ástæðurnar til þess, að hæstv. ríkisstj. hafnaði þessari leið, a.m.k. að svo stöddu verið dálitið aðrar en þær, að allt í einu hafi runnið upp fyrir stjórnarherrunum það Ijós, að gengisfelling væri ekki lausn á neinum vanda. Og það mætti segja mér, að eitthvað hafi þar komið til, að fljótlega kom í ljós — eða var vitað e.t.v. áður, að ýmsir innflytjendur, þ. á m. ýmsir hinir stærstu máttarstólpar í Sjálfstfl., skulduðu svo mikið erlendis, að gengisfelling hefði verið mjög óheppileg fyrir þá og jafnvel orðið einhverjum þeirra að falli. Loks gæti það hafa komið til og verið önnur meginástæðan fyrir því, að gengisfellingarleiðinni var hafnað, að hæstv. ríkisstj. hafi fengið um það vinsamlega ábendingu frá aðilum erlendis, aðilum, sem hún metur mikils og tekur mikið mark á, að það stjórnarfar, að sú stefna í efnahagsmálum, sem leiðir til sífelldra gengisfellinga, sem leiðir til gengisfellinga svo að segja ár eftir ár eða á tveggja ára fresti, sé ekki sérlega hátt skrifuð erlendis né ákaflega mikið fyrir hana gerandi.

Næst mun önnur leið til lausnar vandanum hafa komið til nokkurrar athugunar hjá hæstv. ríkisstj. Það er sá leið, sem nokkrar Evrópuþjóðir, t.a.m. Vestur-Þjóðverjar og Frakkar og Finnar, hafa farið til þess að reyna að hefta verðbólgu eða koma á jafnvægi. Það er hin svokallaða niðurfærsluleið. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, hvort sú leið sé æskileg eða framkvæmanleg. Ég efa það ekki, að hún er ýmsum vandkvæðum bundin og vafalaust töluvert erfið í framkvæmd. Og vitanlega mundi það skipta allan almenning meginmáli, hvernig að slíkri niðurfærslu yrði staðið. Það mundi skipta meginmáli um það, hvaða árangur næðist. En hæstv. ríkisstj. mun ekki hafa hugsað sig lengi um, áður en hún hafnaði þessari leið, og það kynni að vera, að ein af ástæðunum til þess, að hún leiddi ekki hugann lengi að þeim möguleika að fara niðurfærsluleiðina í einhverju formi, sé sú, að þessari leið hlýtur óhjákvæmilega að fylgja allsherjareignakönnun í þjóðfélaginu, þar sem í ljós kæmu hinir réttu hlutir um eignir, þar sem í ljós kæmu faldar eignir, ef einhverjar væru, og eignir, sem e.t.v. kynnu að hafa sloppið fram hjá skattheimtu. Ég segi ekkert um það, hvort þetta var ein af meginástæðunum til þess, að þessari leið var umsvifalaust hafnað, en svo mikið er víst, að hæstv. ríkisstj. mun ekki hafa verið lengi að athuga þessa leið, áður en hún hafnaði henni gersamlega. En það var ljóst, að eitthvað varð að gera. Og þegar ráðin voru ekki, þ.e.a.s. hin varanlegu úrræði, sem hæstv. ríkisstj. er að vísu að boða að einhvern tíma muni koma, þegar þau voru engin fyrir hendi og komið að lokum októbermánaðar, þá er gripið til þess skyndiúrræðis, að því er hæstv. ríkisstj. segir til þess að vinna tíma, til þess að fá enn umhugsunarfrest, þá er gripið til þess að slengja því lagafrv. inn á Alþingi, sem hér er enn til umr.

Ég játa, að það er lögð á það áherzla af talsmönnum stjórnarflokkanna, að hér sé um bráðabirgðaúrræði að ræða og það sé verið að leita að fresti til þess að leysa vandann til einhverrar frambúðar, eins og það er kallað. En óneitanlega er eitt og annað, sem vekur grunsemdir um það, að hér sé verið að leita fyrir sér um það, að ákveðinn, veigamikill þáttur þessa frv. verði einnig tekinn upp í þær till., í það frv., sem síðar á að koma fram og leysa vandann að þeirra sögn til einhverrar frambúðar, og ég á þá við festinguna á kaupgjaldinu. Það er eitt og annað, sem bendir til þess, að þetta eigi ekki að hverfa um áramót, það eigi að koma skýrt og ákveðið inn í hina nýju löggjöf.

Ég held, að ég muni það rétt, að ekki alls fyrir löngu hafi verið hér á ferð erlendur efnahagsmálasérfræðingur, eins og hæstv. ríkisstj. hefur stundum fengið til þess að líta stuttlega á sinn hag og í einstaka tilfellum að því er virðist til þess að gefa eins konar vottorð um það, hvernig viðreisnin hafi tekizt. Erindi þessa sérfræðings mun hafa verið að kynna sér viðreisnina, kynna sér fjármálaástandið í landinu. Og ég hef það fyrir satt, að hann hafi að vísu látið frá sínu sjónarmiði sæmilega af sumum þáttum, en taldi þó eitt skorta mjög tilfinnanlega og það svo mjög, að það spillti öllum kostunum, sem hann taldi vera á viðreisnarstefnunni. Og það var þetta, að stjórnarvöldin, ríkisstj. hefði ekki vald á kaupgjaldsmálunum, eins og það var orðað, hún hefði ekki vald á því, hvaða kaupgjald væri greitt hverju sinni, hvaða samningar væru um það gerðir. Það er þetta vald í kaupgjaldsmálum launþega, sem hæstv. ríkisstj. ætlar nú að taka sér. Hún segist ætla að taka þetta vald til áramóta, en því hefur ekki verið hiklaust neitað, að hún ætli sér, ef hún kæmist fram með það, að taka sér þetta vald til frambúðar, því að með því að fá þetta vald til frambúðar væri hæstv. ríkisstj. orðin hinn einráði skömmtunarstjóri í þessu landi.

Þrátt fyrir ítrekaðar fsp. til hæstv. ráðh. um það, hvort ríkisstj. hafi í huga að leyfa fullt verkfalls- og samningafrelsi eftir áramót, hafa hæstv. ráðh. skotíð sér undan að svara skýrt og skorinort, eins og þó virðist auðvelt að gera, annaðhvort já eða nei. En hvað má af þessu ráða? Tæplega annað en það, að sá sé ásetningur hæstv. ríkisstj., ef hún telur sig geta, ef hún telur sig komast upp með það, sé það ásetningur hennar að afnema þetta mikilvæga frelsi til frambúðar og gerast þar með sjálf skömmtunarstjóri um kaup fólks og kjör. Það fer því eftir viðbrögðunum við þessu, hvort áformin takast eða ekki. Það þarf nú e.t.v. enginn að furða sig svo mjög á því, þó að Sjálfstfl., flokkur atvinnurekendanna í landinu, flokkur þeirra, sem hafa fjármagnið fyrst og fremst í sinum höndum, geti hugsað sér að standa að og beita sér fyrir svo harðneskjulegri lagasetningu gagnvart alþýðustéttum landsins eins og þetta frv. er. Ég vil segja, að afstaða Sjálfstfl, í málinu sé ekkert torskilin, og það má e.t.v. komast svo að orði, að hún sé næstum því rökrétt.

En hitt er svo önnur saga og spurning, sem ástæða er til þess að velta fyrir sér í 5 mínútur eða svo, hvernig það má vera, að Alþfl., flokkur sá, sem kennir sig við íslenzka alþýðu, flokkur, sem hefur talið sig og telur sig væntanlega enn fyrst og fremst verkalýðsflokk, — hvernig Alþfl. getur tekið þátt í þessu verki, hvernig hann getur með þessari árás, þessari grímulausu árás á mikilvæg réttindi íslenzkra alþýðustétta, einhver þau dýrmætustu, sem þau hafa aflað sér, tekið þátt í þeirri árás, — sá flokkur, sem barðist fyrir þessum réttindum á sinum tíma, sem barðist fyrir því, að verkalýðshreyfingin öðlaðist þennan mikilvæga rétt. því miður eru þeir nú ekki hér. (Forseti: Það er einn hér.) Já, ég ætlaði aðeins að ræða nánar við þá hv. þm. Alþfl. hér í þessari deild, hv. 12. þm. Reykv. og hv. 9. landsk, þm. Þeir eru báðir töluvert yngri menn en ég og þeir hafa því ekki fylgzt eins vel með og ég fyrir svo sem 25—26 árum. Þá mun ég hafa þekkt jafnvel betur til hjá Alþfl. en þeir gátu, sem þá voru kornungir menn. Og þess vegna vil ég gjarnan segja þeim lítillega frá þessum gömlu dögum, frá þeim tíma eða frá því, hver var tónninn hjá Alþfl.-mönnum og hver var stefna Alþfl. í þessum málum fyrir svo sem 25 árum og jafnframt fyrir skemmri tíma.

Ég man það áreiðanlega rétt, að á sínum tíma háði Alþfl. baráttu fyrir þessum réttindum, í fyrsta lagi fyrir því, að verkalýðsstéttin fengi þessi mikilvægu réttindi, sem hér er um að ræða, verkfalls- og samningsréttinn, og síðan háði hann margendurteknar orrahríðir til þess að halda þessum réttindum alþýðunni til handa. Og gegn hverjum barðist Alþfl. þá fyrir því, að verkalýðurinn héldi þessum mikilvæga rétti? Hann barðist fyrst og fremst gegn flokki atvinnurekendanna, gegn flokki, sem að vísu kallaði sig ýmsum nöfnum, — það eru fleiri en sósíalistar, það er stundum verið að tala um það, að þeir hafi breytt um nafn, — það má í því sambandi minnast á það, að þeir ágætu menn, sem nú bera sjálfstæðisnafnið, eru í rauninni sami flokkurinn, sem einu sinni hét Sparnaðarbandalag, ef ég man rétt, þar næst Borgaraflokkur, þá íhaldsflokkur, en hefur nú að vísu nokkuð lengi flaggað með sjálfstæðisnafninu, hversu vel og með hversu miklum rétti sem menn telja, að hann beri það virðulega nafn.

Nei, það kynni að vera dálítið athyglisvert að bera saman stefnu og málflutning Alþfl. fyrr og nú, að athuga lítillega, fyrir hverju hann barðist áður fyrr, hverjir voru skjólstæðingar hans og. hverjir höfuðandstæðingar. Ég fæ ekki betur séð en forustumenn Alþfl. hafi í þessum efnum skipt alveg gersamlega um hlutverk, að þeir berjist nú við hlið hinna gömlu andstæðinga flokksins og stefnu hans, berjist við hlið þeirra fyrir því að svipta verkalýðshreyfinguna mikilvægum réttindum, sem Alþfl. áður á tíð taldi henni lífsnauðsyn að öðlast og varðveita óskert. Ég man greinilega átökin, sem urðu í marzmánuði 1938 í sambandi við gerðardóm í tiltekinni kjaradeilu, gerðardóm, sem verkalýðshreyfingin mótmælti harðlega, og þar var þó um að ræða réttindaskerðingu, sem er ekki nema örlítið brot af því, sem nú á að demba yfir. Það var, ef mig ekki misminnir, deilt um kjör sjómanna á togaraflotanum. Flotinn hafði stöðvazt, deilan harðnaði, útgerðarmenn neituðu öllum kjarabótum. Sáttasemjari lagði fram miðlunartill. í þessari deilu eftir nokkra hríð, og hún fól í sér einhverja kauphækkun fyrir sjómennina. Sú varð niðurstaðan, að þessi miðlunartill, var felld af báðum aðilum, en um 2/5 eða nær helmingur sjómanna hafði þó viljað fallast á hana, taldi hana ekki ósanngjarnari en það. Um þessar mundir var hér samstjórn Framsóknar og Alþfl. Framsfl. hugðist nú leysa þessa langvinnu deilu með flutningi frv. um gerðardóm, sem átti að ákvarða kjörin. Ég held, að það hafi verið gert ráð fyrir því í þessu frv., eða það var a.m.k. gert ráð fyrir því almennt, að sjómannakjörin hlytu eitthvað að hækka, og ég held, að það hafi verið sleginn sá varnagli í sambandi við skipan gerðardómsins eða lögin um hann, að kjörin mættu ekki versna. Það var sleginn sá varnagli a.m.k. En hvað var með Alþfl.? Féllst hann á það, að skipaður væri gerðardómur til lausnar þessari langvinnu og erfiðu deila? Alþfl. átti töluvert í húfi á þessum tíma. Hann var aðili að ríkisstj., og hann vissi, að samstarfsflokkurinn var staðráðinn í að knýja fram þessa lausn, og hann gat gert það, því að Sjálfstfl. var tilbúinn að styðja hann í því. Nei, Alþfl. gerði það ekki. Hann sagði: Hér er um „prinsip“-mál að ræða. Alþýðustéttirnar og Alþfl. hafa háð baráttu fyrir því, að verkalýðurinn öðlaðist fullan samningsrétt um kaup sitt og kjör. Við munum því ekki og getum ekki átt hlut að því, að sá réttur verði skertur. Ef samstarfsflokkur okkar knýr fram gerðardómslög með tilstyrk Sjálfstfl., þá erum við farnir úr ríkisstj. Svo mikils metum við, sögðu Alþfl: mennirnir þá, verkfalls- og samningsrétt launastéttanna. Og í þingræðum frá þessum tíma og einnig í málgagni Alþfl., Alþýðublaðinu, geymast mörg ummæli, sem þm. og þá ekki síður ráðh. Alþfl, hæstv. mættu gjarnan líta í í dag. Í Alþýðublaðinu frá þessum baráttudögum stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

Það hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi rökum, sem enginn hefur treyst sér til að mæla gegn, að í raun og veru er ekki nema eitt svar til gegn því ofbeldi, sem skuldugustu útgerðarfyrirtækin hafa sýnt ríkisvaldinu og allri þjóðinni með því að stöðva veiðar og neita að leysa togarana. Og þetta svar er, að þau séu svipt umráðum yfir atvinnutækjunum, að hinir skuldugu útgerðarmenn séu loks gerðir ábyrgir gagnvart lánardrottnunum og að fyrirtækin séu rekin með hagsmuni hins opinbera og alþýðunnar fyrir augum, en ekki sem baráttutæki ákveðins stjórnmálaflokks, eins og nú er. Hvaða vit er í því, að það sé látið viðgangast, að þeir, sem ekkert eiga í togurunum og skulda hundruð þúsunda og milljónir, geti, þegar þeim býður svo við að horfa, stöðvað skipin, rekið sjómennina í land, svipt þúsundir manna atvinnumöguleikum, lagt heimili í rústir, stöðvað dýrmætustu framleiðslutækin og neitað að taka nokkrum sættum? En hvað gerir Framsókn? Lætur Framsfl. þetta ofbeldislið höfuðstaðarins kúga sig? Leggst hann hundflatur undir högg þess? Hlýðir hann Morgunblaðinu og hinum skuldugu útgerðarmönnum og þá fyrst og fremst Kveldúlfsliðinu, sem reiðir til höggs við sjómannastéttina? Leiti Framsfl. samvinnu við íhaldið og Kveldúlfsvaldið, þýðir það meiri kúgun á sjómönnum og verkamönnum en áður hefur þekkzt hér. Hvaða áhrif hefur það, ef þessu ofbeldi er leyft að vaða uppi? Verkalýðsstéttirnar ruglast og tapa trú á venjulegum baráttuaðferðum. Upp rennur hættulegra tímabil en nokkru sinni hefur komið yfir íslenzkan verkalýð.“

Og Alþfl. stóð við orð sín. Haraldur Guðmundsson hvarf úr ríkisstj. Alþfl, mótmælti gerðardómslögunum mjög harðlega.

Þegar hæstv. núv. forsrh., Ólafur Thors, og félagar hans í ríkisstj. árið 1942 skelltu á gerðardómslögum, var stefna Alþfl. hin sama og áður. Alþfl. átti sinn þátt í því, að þau gerðardómslög voru bókstaflega gerð að engu. Og enn haustið 1949 áttu leiðtogar Alþfl, þann manndóm, að þáv. forsrh., Stefán Jóh. Stefánsson, sagði af sér fyrir sig og ráðuneyti sitt út af kröfum, sem þá voru uppi um gengislækkun og kaupbindingu. Þá sagði Alþýðublaðið í leiðara 2. sept., með leyfi hæstv. forseta:

„Það getur vel verið, að Framsfl. og Sjálfstfl. eigi erfitt með að skilja einarða framkomu Alþfl. í þessu máli. Þeir eru vissulega ekki að hugsa um hag verkalýðsins og launastéttanna í landinu. Margir stuðningsmenn þeirra, útgerðarmenn, heildsalar og stórbændur, vænta sér að sjálfsögðu aukins gróða af gengislækkun og lögbindingu kaupgjalds um leið, því að hún er vitanlega einn liðurinn í þessum þokkalegu fyrirætlunum. En fyrir verkalýðinn og launastéttirnar mundu slíkar ráðstafanir þýða, að kjarabætur, sem þessar stéttir hafa barizt fyrir og fengið síðan á ófriðarárunum, yrðu á svipstundu að miklu leyti frá þeim teknar. Alþfl., sem er flokkur verkalýðsins og launastéttanna, hefur hvorki verið né er til viðtals um slíka lausn dýrtíðarmálsins. Það er fullur ásetningur hans að verja þær kjarabætur, sem verkalýðurinn og launastéttirnar hafa fengið.“

Og enn birtist leiðari í Alþýðublaðinu, þegar sýnt var, að Sjálfstfl. og Framsfl. voru staðráðnir í að knýja gengislækkunina fram. Fyrirsögn leiðarans mótar afstöðu Alþfl, á þessum tíma skýrt og skorinort, og sú fyrirsögn gæti í rauninni verið eins konar einkunnarorð þess frv. um launamál o.fl., sem nú liggur hér fyrir hv. Alþingi. Leiðarinn hét: „Frelsi fyrir braskið, þrælalög fyrir fólkið: Þar segir svo m.a.:

„Alltaf og alls staðar er söngur íhaldsins sá sami. Það formælir ríkisþrælkun, sem það kallar svo. Það er, að ríkið takmarki einstaklingsframtakið og braskið og taki að sér yfirstjórn atvinnu- og viðskiptalífsins til þess að sjá þjóðarbúinu farborða. Þegar Morgunblaðið velur þessu fyrirkomulagi nafnið ríkisþrælkun, þá er það hræsni og ekkert annað. Jafnvel Morgunblaðinu er nú ljóst, að þrátt fyrir allt orðagjálfur um einstaklingsframtak og frjálsa verzlun á okkar tímum er hvorugt hugsanlegt og ótakmarkað, án þess að þjóðarbúskapnum sé teflt í bráða hættu. Annars má minna á það, að Sjálfstfl. hefur aldrei verið neitt mótfallinn íhlutun ríkisvalds um atvinnu- og viðskiptalíf þjóðarinnar, þegar um það hefur verið að ræða að lögbinda kaupgjald í landinu eða lækka það með gengislækkun. Þannig tók Sjálfstfl. t.d. fyrir rúmlega 7 árum höndum saman við Framsfl. um setningu gerðardómslaganna, sem áttu að halda kaupi verkalýðsins og launastéttanna niðri, eftir að búið var að hækka verð á lífsnauðsynjum upp úr öllu valdi. Þá talaði íhaldið ekki um ríkisþrælkun,“ heldur blaðið áfram, „en verkalýðurinn og launastéttirnar kölluðu þau lög hins vegar réttu nafni: þrælalög. Hið vinnandi fólk lítur nefnilega allt öðrum augum en braskararnir á það, hvað sé frelsi og hvað þrældómur: `

Ég hef rifjað þessi ummæli upp, ef verða mætti, að þau yrðu hv. Alþfl.-mönnum nokkurt umhugsunarefni, nokkurt tilefni til þess, að þeir staldri við og íhugi, hvar þeir og þeirra flokkur er á vegi staddur í dag. Og hæstv. ríkisstj. öll ætti að hugsa sig um tvisvar, áður en hún vinnur það verk að beita verkalýðsstéttirnar ofbeldi með tilstyrk meiri hl, síns hér á hv. Alþingi. Engin ríkisstj. getur til lengdar staðið í styrjöld við verkalýðshreyfinguna og kúgað hana með þvingunarlögum.

Verkalýðshreyfingin hefur sýnt núv. hæstv. ríkisstj. mikið langlundargeð, óvenjumikla þolinmæði. Hæstv. ríkisstj. hefur svarað. Hún hefur svarað með því að lýsa styrjöld á hendur verkalýðssamtökunum, með því að ætla með lagaboði að hindra eðlilega og sjálfsagða samninga, og hún tekur á sig mikla ábyrgð. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að endurskoða þessa afstöðu sina nú á elleftu stundu, áður en það er um seinan.