20.03.1964
Neðri deild: 72. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (1870)

190. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er fjallað um nýskipan íslenzkra rannsókna í þágu atvinnuveganna. Frv., sem í öllum aðalatriðum var samhljóða þessu frv., var lagt fyrir Alþingi 1962, en hlaut ekki afgreiðslu, enda er um viðamikið mál að ræða, sem segja má að ekki sé óeðlilegt, að hið háa Alþingi vilji athuga vandlega. Hinu fyrra frv. fylgdi mjög ýtarleg grg., sem ég hef ekki séð ástæ$u til að láta endurprenta með þessu frv., enda er greiður aðgangur að henni í þingtíðindum. Ég leyfi mér því að vísa til hennar varðandi undirbúning málsins.

Í framsöguræðu fyrir fyrra frv. ræddi ég ýtarlega um vaxandi þýðingu vísinda og rannsóknarstarfa í nútímaþjóðfélagi og undirstrikaði nauðsyn þess að efla vísindarannsóknir á Íslandi. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær röksemdir nú, en læt við það sitja að leggja áherzlu á, að ég tel þær enn þá í fullu gildi og í raun og veru eiga við í enn ríkara mæli nú en þá. Nú mun ég hins vegar gera grein fyrir því, í hverju þær breytingar eru fólgnar, sem gerðar hafa verið á hinu fyrra frv., en áður langar mig þó til að fara fáeinum orðum um þær meginbreytingar, sem verða mundu á skipulagi íslenzkra rannsókna í þágu atvinnuveganna, ef þetta frv. yrði að lögum.

Gildandi lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna voru sett árið 1940. Eru það lögin um náttúrurannsóknir og lögin um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. Samkv. þessum lögum eru rannsóknir í þágu atvinnuveganna í höndum rannsóknaráðs ríkisins og atvinnudeildar háskólans ásamt tilraunaráðum jarðræktar og búfjárræktar. Af öðrum aðilum, sem sinna að einhverju leyti rannsóknum vegna atvinnuveganna, má nefna rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands, sem starfar að rannsóknum á sviði fiskiðnaðar, jarðhitadeild raforkumálastjóra, sem annast rannsóknir í sambandi við nýtingu jarðhita, og verkfæranefnd ríkisins, sem gerir tilraunir með landbúnaðarvélar. Undirstöðurannsóknir hafa fyrst og fremst verið í höndum Háskóla Íslands, og náttúrugripasafnsins. Háskólinn rekur tilraunastöð í meinafræði að Keldum og eðlisfræðistofnun. Auk þess er unnið nokkuð að undirstöðurannsóknum í fiskideild og landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans og lítils háttar hjá öðrum aðilum í sambandi við önnur meginverkefni.

Megingallinn á núverandi skipulagi rannsóknarmálanna er sá, að rannsóknarstarfsemin er á ýmsum sviðum óeðlilega dreifð. Þannig fá nú

a.m.k. 8 aðilar fjárveitingar úr ríkissjóði til rannsókna á sviði landbúnaðar, án þess að trygging sé fyrir hagkvæmri samræmingu á nýtingu fjárins. Þá má og á það benda, að meginhlutinn af starfsemi sumra rannsóknarstofnana fer í þjónustu, sem fólgin er í rannsóknum á sýnishornum, eða aðra aðstoð við atvinnuvegina. Er talið, að um 80% af starfsemi iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans sé fólgin í því að láta í té slíka þjónustu. Á ýmsum mikilvægum sviðum atvinnulífsins á sér lítil eða engin rannsóknarstarfsemi stað. Sem dæmi um það má nefna, að hér skortir alveg skipulegar rannsóknir í því skyni að lækka byggingarkostnað, sem hér er tiltölulega hærri en í nálægum löndum. Það, sem fyrst og fremst hefur háð íslenzkri rannsóknarstarfsemi, er annars vegar fjármagnsskortur, en hins vegar skortur á samstarfi og samræmingu við rannsóknirnar.

Í þessu frv. er fyrst og fremst fjallað um skipulagsmál rannsóknanna og leitazt við að styðja rannsóknarstarfsemina með bættu skipulagi og bættri starfsaðstöðu, en jafnframt er gert ráð fyrir nýjum tekjustofnum til aukningar á rannsóknum í þágu iðnaðar og byggingariðnaðar. Er gert ráð fyrir því í 46. gr. frv., að innheimt séu hjá iðnfyrirtækjum, verksmiðjum og verkstæðum gjöld, sem nemi 2 af þúsundi af útborguðu kaupi hvers slíks fyrirtækis til verkafólks og farmanna, en undanþegin gjaldinu skulu þó vera hraðfrystihús, síldar- og fiskimjölsverksmiðjur, hvalstöðvar og annar iðnaður úr sjófangi, sláturhús, kjötiðnaður, mjólkurbú og annar slíkur iðnaður, sem vinnur að landbúnaðarafurðum, svo og sements- og áburðarframleiðsla. Er gert ráð fyrir, að tekjur af þessu gjaldi verði talsvert á 2. millj. kr. á ári. Þá er í 53. gr. gert ráð fyrir 1/2% aðflutningsgjaldi af öllu innfluttu timbri, sementi og steypustyrktarjárni og framleiðslugjaldi af sementi, sem framleitt er hér á landi, og á þetta gjald að renna til rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Hefur verið áætlað, að tekjur af þessu gjaldi mundu einnig nema nokkuð á 2. millj. kr. á ári.

Ef þetta frv. verður að lögum, gerist hvort tveggja, að skipulag rannsóknarmálanna kemst í fastara og skynsamlegra horf en nú á sér stað, auk þess sem samþykkt þess mundi þýða talsvert á 3. millj. kr. nýjar fjárveitingar á ári til rannsókna í þágu iðnaðar og byggingariðnaðar. Fjárveitingar til annarra rannsóknarstarfa þyrftu einnig að aukast, en um það verður að fjalla í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En eftir því sem skipulag rannsóknarmálanna batnar og verður hagkvæmara, ættu líkur að vaxa fyrir því, að Alþingi telji eðlilegt og nauðsynlegt að auka fjárveitingar til rannsóknarmála.

Höfuðbreytingin á skipulagi rannsóknarmálanna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er fólgin í því, að komið er á fót fimm sjálfstæðum rannsóknastofnunum, sem hver um sig á að heyra undir ráðuneyti þess atvinnuvegar, sem rannsóknastofnunin á að þjóna. En rannsóknastofnanirnar eru hafrannsóknastofnun, rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, rannsóknastofnun landbúnaðarins, rannsóknastofnun iðnaðarins og rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins. Yfirstjórn hverrar stofnunar á að vera í höndum hlutaðeigandi ráðherra og þriggja manna stjórnar, en dagleg stjórn í höndum forstjóra. Einnig er hægt að skipa svonefndar ráðgjafarnefndir við rannsóknastofnanirnar, ef félög eða samtök innan hlutaðeigandi atvinnuvega óska þess. Er þetta gert til að auka tengsl rannsóknastofnananna og þess atvinnuvegar, sem þeim er ætlað að þjóna.

Í stjórn hafrannsóknastofnunarinnar eiga að vera forstjóri stofnunarinnar, fiskimálastjóri og maður tilnefndur af ráðgjafarnefnd stofnunarinnar eða sjútvmrh. í stjórn rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins eiga sæti forstjóri þeirrar stofnunar, fiskimálastjóri og maður tilnefndur af ráðgjafarnefnd eða ráðh. í stjórn rannsóknastofnunar landbúnaðarins eiga sæti forstjórinn, búnaðarmálastjóri og maður tilnefndur af tilraunaráði. í stjórn rannsóknastofnunar iðnaðarins eiga sæti forstjóri stofnunarinnar, einn maður tilnefndur af Félagi ísl. iðnrekenda og einn tilnefndur af ráðgjafarnefnd eða ráðh. Og í stjórn rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins skulu eiga sæti forstjórinn, einn maður tilnefndur af Landssambandi iðnaðarmanna og einn tilnefndur annaðhvort af ráðgjafarnefnd eða ráðh. Er þannig um hliðstæða skipun á stjórnum allra rannsóknastofnananna að ræða.

Skipan og hlutverki rannsóknaráðs ríkisins er breytt verulega frá því, sem nú á sér stað. Nú fer rannsóknaráð og framkvæmdastjóri þess með yfirstjórn allra deilda atvinnudeildar háskólans. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að rannsóknaráð ríkisins sé ráðgjafarstofnun, sem vinni að eflingu hagnýtra rannsókna í landinu, en einnig að eflingu undirstöðurannsókna, að því leyti sem þau verkefni eru ekki í höndum Háskóla Íslands, og þá jafnan í fullu samráði við hann. Rannsóknaráðið á að vera ríkisstj. til ráðuneytis um rannsóknarmál, og skal það gera hlutaðeigandi ráðuneyti viðvart um rannsóknarverkefni, er það telur, að sinna ætti. Rannsóknaráðið á að hafa samráð við rannsóknastofnanir og er þeim stofnunum og einstaklingum, sem fá framlög úr ríkissjóði til rannsókna, skylt að láta rannsóknaráði ríkisins í té upplýsingar og hafa samráð við það, þegar þess er óskað og því verður við komið. Höfuðverkefni rannsóknaráðs ríkisins eiga að vera: Efling og samræming hagnýtra rannsókna og undirstöðurannsókna í landinu. Athugun á nýtingu náttúruauðæfa landsins til nýrra atvinnuvega og atvinnugreina. Að gera till. um framlög ríkisins til rannsóknarmála og fylgjast með ráðstöfunum opinberra fjárframlaga til þeirra rannsóknastofnana, sem þetta frv. tekur til. Öflun fjármagns til starfseminnar almennt til viðbótar framlagi ríkisins og tillögugerð um skiptingu þess á milli rannsóknastofnana og rannsóknaverkefna. Öflun skýrslna um rannsóknir á sviði raunvísinda, sem kostaðar eru af opinberu fé, og kynning á niðurstöðum þeirra. Söfnun erlendra rita og annarra upplýsinga um vísindastörf, rannsóknastörf og tækni og úrvinnsla þeirra til hagnýtingar fyrir atvinnuvegi landsins. Að beita sér fyrir skjótri hagnýtingu tæknilegra nýjunga hjá atvinnuvegunum með kynningarstarfsemi og upplýsingaþjónustu. Samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir.

Í rannsóknaráði eiga samkv. frv. að eiga sæti 17 menn: 5 alþm., fulltrúar Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands, Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Efnahagsstofnunarinnar, raforkuráðs og raforkumálastjóra, háskólans og rannsóknastofnananna, sem koma á á fót samkv. frv. Rannsóknaráð á að vera ólaunað, en kjósa úr hópi sinum 5 manna framkvæmdanefnd. En rannsóknaráð ríkisins skal og hafa sérstakan framkvæmdastjóra. Gert er ráð fyrir því, að rannsóknaráð heyri undir menntmrh., þar eð þær stofnanir, sem stunda undirstöðurannsóknir, og þá fyrst og fremst háskólinn og náttúrugripasafnið, heyra undir það ráðuneyti. Og eðlilegt þykir, að ábyrgð á samræmingu rannsóknarstarfseminnar sé í höndum þess ráðuneytis, sem vísindamál almennt heyra undir.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér á skipulagi íslenzkra rannsóknarmála. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á þessu frv. miðað við frv., sem lagt var fram 1962, eru fyrst og fremst fólgnar í breytingu á skipan stjórnar rannsóknastofnunar iðnaðarins, en í ljós kom við meðferð málsins í hv. menntmn. þessarar d., að forvígismenn íslenzkra iðnrekenda voru óánægðir með þá skipan, sem þar var ráðgerð á stjórn rannsóknastofnunar iðnaðarins. Í frv. frá 1962 var gert ráð fyrir, að stjórnarnefndarmenn væru 5, forstjórinn sjálfkjörinn, Félag ísl. iðnrekenda og S.Í.S. áttu að tilnefna einn stjórnarmann hvert um sig, og síðan átti ráðh. að skipa 2 menn í stjórnina án tilnefningar. Nú er gert ráð fyrir, að stjórn rannsóknastofnunar iðnaðarins sé skipuð 3 mönnum eins og stjórnir hinna rannsóknastofnananna, forstjóranum, einum manni tilnefndum af Félagi íslenzkra iðnrekenda og hinum þriðja tilnefndum af ráðgjafarnefnd eða ráðh. Ekki þykir ástæða til að gera ráð fyrir, að S.Í.S. tilnefni einn stjórnarnefndarmann eins og Félag ísl. iðnrekenda, þar eð mjög lítill hluti íslenzks iðnaðar er rekinn á vegum S.Í.S. og kaupfélaganna. Samkv. l. um iðnlánasjóð er 0.4% gjald innheimt af öllum iðnaði í landinu. Er það lagt á sama gjaldstofn og aðstöðugjald samkv. l. um tekjustofna sveitarfélaga. Undanþeginn þessu gjaldi er þó allur kjöt og fiskiðnaður og mjólkurbú. Athugun á iðnlánasjóðsgjaldi á árinu 1963 hefur leitt í ljós, að af öllu álögðu iðnlánasjóðsgjaldi á því ári greiddu S.Í.S. og kaupfélögin aðeins 3.69%. Langmestur hluti iðnaðarsjóðsgjaldsins kemur því frá meðlimum Félags ísl. iðnrekenda, og þykir því eðlilegt, að sá aðili tilnefni fulltrúa iðnaðarins í stjórn rannsóknastofnunar hans.

Þá hefur og verið gerð sú breyting á skipan stjórnar rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, að þriðji maður í stjórn hennar skal samkv. þessu frv. tilnefndur af ráðgjafarnefnd eða ráðh., en ekki af ráðh., eins og eldra frv. gerði ráð fyrir.

Í 57: gr. eldra frv. var gert ráð fyrir, að unnt væri að veita sérfræðingum verðlaun fyrir sérstök störf eða afrek. Sú grein er felld niður í þessu frv., þar sem ýmsir annmarkar hafa við nánari athugun verið taldir vera á framkvæmd slíkrar verðlaunaveitingar. Að öðru leyti er þetta frv. eins og eldra frv. Það hefur verið mjög rækilega undirbúið. Það var upphaflega samið af þingkjörinni nefnd, atvinnumálanefnd ríkisins, sem jafnframt hafði samið mjög ýtarlega grg. með frv. Það frv. var til rækilegrar athugunar hjá ríkisstj. og ýmsum öðrum aðilum. Í ágústmánuði 1961 var að minni tilhlutan haldin ráðstefna í Háskóla Íslands um framtíðarskipan raunvísindarannsókna á Íslandi, og tók sú ráðstefna frv. atvinnumálanefndar til mjög rækilegrar meðferðar. Samin var ýtarleg skýrsla um störf þessarar vísindaráðstefnu, og var hún á sinum tíma send öllum alþm. Í frv., sem lagt var fyrir Alþ. 1962, var tekið tillit til ýmissa sjónarmiða, sem fram komu á þessari ráðstefnu. Áður en málið var lagt fram 1962, var það enn fremur rætt mjög ýtarlega við forstöðumenn þeirra rannsóknastofnana, sem nú starfa í landinu, og fulltrúa frá atvinnuvegunum. Ég held því, að óhætt sé að fullyrða, að þetta frv. hafi fengið svo rækilegan undirbúning sem frekast eru tök á og málið hafi verið rætt ýtarlega við alla þá aðila, sem það snertir. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.