20.03.1964
Neðri deild: 72. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (1871)

190. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að láta í ljós þá skoðun, sem ég hef að vísu áður komið á framfæri, að mér sýnist mikil nauðsyn á því að efla mjög frá því, sem verið hefur, ýmiss konar vísindalegar rannsóknir í landinu, tilraunir og margvislegt leiðbeiningarstarf, sem gæti orðið byggt á niðurstöðum þessara rannsókna og tilrauna. Ég hygg, að það væri mjög mikil nauðsyn á því að athuga þau mái öll í heild sinni með það fyrir augum að efla þessa starfsemi stórkostlega frá því, sem verið hefur.

Í þessu frv. er aðallega gert ráð fyrir skipulagsbreytingum á rannsóknarmálum. Ég hef ekki haft aðstöðu til að skoða þessi efni á þá lund, að ég treysti mér til að láta í ljós álit mitt á þeim skipulagsbreytingum, sem hér eru ráðgerðar, enda veit ég, að það verður skoðað gaumgæfilega í nefnd. En ég kvaddi mér hljóðs til að láta í ljós þá skoðun við þetta tækifæri, að það þarf að stórefla vísindalega starfsemi, tilraunastarfsemi og leiðbeiningastarfsemi í landinu frá því, sem hún hefur verið áður. Og ég hefði talið vel fara á því, að einmitt í löggjöf eins og þeirri, sem hér er efnt til, þ.e.a.s. nýrri löggjöf um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, hefði verið ákveðin, beinlínis í löggjöfinni sjálfri, aukin starfsemi af þessu tagi og verulega aukið fjármagn til þessara mála. En það er ekki hægt að segja, að það sé gert í þessu frv., eins og raunar kom fram hjá hæstv. ráðh. Þó að það eigi að auka dálitið með nýjum álögum framlag til tveggja deilda eða svo samkv. ákvæðum frv., þá er þó í meginatriðum gert ráð fyrir því, að fjárframlög til þessara mála verði ákveðin siðar í fjárlögum og með sérstökum fjárveitingum, en ekki ákveðin framlögin nema að mjög litlu leyti í þessu frv.

Ég hefði talið, að það væri mjög þýðingarmikið að ákvarða það jafnvel í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, að stórauka framlögin í þessu skyni, og það er þetta, sem ég vildi láta koma fram við þessa umr.

Ég óska eftir því, að hæstv. ráðh. taki það til íhugunar og svo hv. nefnd, sem málið fær til meðferðar, hvort ekki væri hægt beinlínis núna í sambandi við afgreiðslu þessa máls að koma fram nýjum ákvörðunum um aukin fjárframlög í þessu skyni umfram það, sem gert er ráð fyrir í frv., en þar er, eins og hæstv. ráðh. benti á, ákvæði um að leggja á nokkra nýja skatta, sem eiga að renna til rannsóknastofnunar iðnaðarins og rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Þar er um tiltölulega mjög lágar fjárhæðir að ræða, á 2. millj. á ári til hvorrar deildar, ef ég skil frv. rétt og það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh.

Ég get svo ekki stillt mig um að láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli telja nauðsynlegt að fara að efna til nýrra skattaálaga til þess að styðja þessar deildir á þennan hátt umfram það, sem verið hefur, og þar sem ekki er um meiri fjárframlög að ræða.

Sannast að segja finnst mér það vera nokkuð fyrirhafnarsamt og skothent að efna til þess að setja upp nýtt innheimtukerfi, eins og gert er ráð fyrir í 53. gr., t.d. nýjan aðflutningstoll á timbur, sement og steypustyrktarjárn og einnig framleiðslugjald af sementi, að efna til þess að innheimta nýja tolla fyrir ekki meiri fjárhæðir en þarna er gert ráð fyrir að gangi til rannsóknanna.

Í raun og veru er það sama að segja um það að fara að setja upp nýtt álögukerfi á iðnfyrirtæki til þess að ná saman rúml. milljón á ári til að styðja rannsóknastofnun iðnaðarins umfram það, sem verið hefur. En þar er gert ráð fyrir að innheimta sérstakan skatt, 2%, á allt útborgað kaup iðnaðarfyrirtækja í landinu. Þetta verður geysimikið innheimtukerfi, sem efnt er til með þessu móti, nýr skattur, en á ekki að gefa í aðra hönd nema eitthvað á 2. millj. Mér finnst þetta einkennilegt. Þegar þess er gætt, að gjaldheimta ríkisins er yfir 3000 millj. og nýlega hafa álögur verið hækkaðar um a.m.k. 250 millj., finnst mér einkennilegt að vera að bæta nýjum álagaliðum á af þessu tagi. Væri eðlilegt, að þetta væri greitt af ríkinu til þess að gera skattheimtuna í landinu ekki enn flóknari en hún er, því að sannarlega er hún nógu flókin fyrir.

En hvað sem þessu liður, þá var aðalerindi mitt í sambandi við 1. umr. þessa máls að benda á nauðsyn á því að auka vísindalega rannsóknarstarfsemi, tilraunir og leiðbeiningar og að benda á, hvort ekki væri hægt einmitt í sambandi við þetta mál að ákveða aukið fjármagn í þessu skyni.