16.04.1964
Neðri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

213. mál, náttúrurannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir skömmu lagði ríkisstj. fyrir þessa hv. d. frv. til l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, og er það frv. nú til meðferðar í hv. menntmn. þessarar d. í því frv. felast till. nm gagngera endurskipulagningu á íslenzkum rannsóknum í þágu sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og byggingariðnaðar, og er því frv. ætlað að koma í staðinn fyrir gildandi lög um náttúrurannsóknir, nr. 68 frá 1940. En þau lög, sem frv. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er ætlað að koma í stað fyrir, fjalla um meira en hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þau fjalla einnig um almennar náttúrurannsóknir, og þess vegna er nauðsynlegt að gera jafnframt till. um nýskipan á þeim málum, sem lúta að almennum náttúrurannsóknum.

Fyrsta heildarlöggjöfin, sem sett var um allar náttúrurannsóknir hér á landi, var sett árið 1940, og fjalla þau lög bæði um hinar almennu rannsóknir, undirstöðurannsóknirnar, og hagnýtu rannsóknirnar. Meginhluti l. fjallar um hagnýtu rannsóknirnar, þ.e.a.s. um atvinnudeild háskólans og skipulag hennar og hlutverk. En framan við þennan meginkafla l. frá 1940 var skeytt tveimur smáköflum, I. og II. kafla, sem fjalla um hinar almennu rannsóknir og rannsóknaráð ríkisins. Þegar þessi lög voru sett, l. frá 1940, sem enn gilda, var engin stofnun til í landinu, sem gat annazt og haft umsjón með hinum almennu rannsóknum. Þess vegna var ekki nema eðlilegt, að rannsóknaráði ríkisins væri í þeirri löggjöf falið að gegna því hlutverki, sem slík stofnun hefði átt að hafa með höndum, ef hún hefði verið til. En Náttúrugripasafn Íslands var þá enn eign Hins íslenzka náttúrufræðifélags.

Í ársbyrjun 1947 var náttúrugripasafnið hins vegar gert að ríkisstofnun, og jafnframt voru þá ráðnir að safninu fastir starfsmenn. Með þessari ráðstöfun var í raun og veru sett á laggirnar opinber stofnun, sem að sjálfsögðu bar, eins og ríkissöfnum í öðrum löndum, að annast og hafa forustu um hinar almennu rannsóknir á sviði dýrafræði, grasafræði, jarðfræði og landafræði. í framhaldi af þessari ráðstöfun, þegar ríkið tók við náttúrugripasafninu af Hinu íslenzka náttúrufræðifélagi 1947, hefði auðvitað átt að endurskoða l. frá 1940 og breyta þeim til samræmis við hinar breyttu aðstæður. En þetta var þó ekki gert þá og hefur dregizt allt til þess, að hafin var allsherjarendurskoðun á skipulagi íslenzkra rannsóknarmála, bæði hinna hagnýtu rannsókna í þágu atvinnuveganna og hinna almennu rannsókna.

1951 setti Alþingi lög um Náttúrugripasafn Ísland. Þegar þau lög voru undirbúin, varð ljóst, að erfitt mundi reynast að ákveða á viðunandi hátt, hvert ætti að vera hlutverk náttúrugripasafnsins, þar sem sumt af sjálfsögðum hlutverkum slíks safns var þá falið rannsóknaráði ríkisins í l. frá 1940, sem ég hef þegar gert að umtalsefni. Þá kom til tals 1950—1951 að endurskoða l. um náttúrurannsóknir frá 1940 og skapa með því gleggri verkaskiptingu milli rannsóknaráðs ríkisins og náttúrugripasafnsins. Úr þessu varð þó ekki, og var látið við það sitja að setja Náttúrugripasafni Íslands lög, sem eingöngu tóku til starfsemi náttúrugripasafnsins, eins og það var þá, og án þess að breyta í nokkru ákvæðum laganna frá 1940. Sú endurskoðun, sem þá hefði að sjálfsögðu verið tímabær, var látin undir höfuð leggjast, þangað til, eins og ég sagði áðan, hafin var allsherjarendurskoðun fyrir nokkrum árum á skipulagi íslenzkra rannsóknarmála yfirleitt. Sú rannsókn var hafin samkv. þál., sem Alþingi samþykkti á sínum tíma, og hafði atvinnumálanefnd ríkisins þá rannsókn með höndum.

Frv. um nýskipan rannsóknarmála í þágu atvinnuveganna var upphaflega samið af atvinnumálanefnd ríkisins, en síðan athugað mjög ýtarlega í menntmrn. og á sérstakri ráðstefnu um vísindamál, sem haldin var í Háskóla Íslands að frumkvæði menntmrn. Þetta frv. var einnig samið fyrir tilstilli atvinnumálanefndar ríkisins og hefur fengið sams konar meðferð og hitt frv., þ.e.a.s. verið rætt á ráðstefnu um vísindamál í háskólanum og við hlutaðeigandi embættismenn, fyrst og fremst við forstöðumenn Náttúrugripasafns Íslands og einnig við Háskóla Íslands. Er enginn ágreiningur á milli þeirra aðila, sem um þetta frv. hafa fjallað, að þau ákvæði, sem í því felast, mundu öll vera til bóta, og er frv. að fullu samræmt við hitt frv. um skipulag hagnýtra rannsókna í þágu atvinnuveganna. Helztu breytingarnar, sem í þessu frv. felast frá gildandi skipan, eru þessar:

Í fyrsta lagi er nafni Náttúrugripasafns Íslands breytt í Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem fyrra nafnið hefur valdið töluverðum misskilningi. Margir hafa haldið, að verkefni þessarar stofnunar væri fyrst og fremst að safna eða jafnvel eingöngu að safna náttúrugripum til sýnis fyrir almenning. Þess vegna hefur verið lagt til, að nafninu væri breytt og áherzla lögð á það meginverkefni stofnunarinnar að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru landsins. Þá er það önnur aðalbreytingin, að inn í þetta frv. eru felld ýmis ákvæði úr gildandi l. nr. 68 frá 1940, um náttúrurannsóknir, sem áður voru í verkahring rannsóknaráðs ríkisins, en eru ekki talin í verkahring þess samkv. frv. um skipulag hagnýtra rannsókna í þágu atvinnuveganna, og er samkomulag milli hlutaðeigandi aðila um þá verkaskiptingu, sem þessi tvö frv. gera ráð fyrir í þessum efnum. Með þessu frv. yrðu því almenn ákvæði um náttúrurannsóknir innlendra og erlendra manna tengd Náttúrufræðistofnun Íslands og þeirri stofnun falið eftirlit með almennum rannsóknum erlendra náttúrufræðinga. Þessi samræming á verkefnum náttúrugripasafns og rannsóknaráðs hefur áður verið talin nauðsynleg, þótt ekki hafi orðið úr henni fyrr, enda hefur náttúrugripasafnið og vísindamenn þess í raun og veru að meira eða minna leyti, líklega að mestu leyti, annazt þessi verkefni undanfarin ár samkv. ósk rannsóknaráðs, sem að lögum til á að fara með þessi verkefni.

Í l. frá 1951 um náttúrugripasafnið er það talið fremst í aðalhlutverkum safnsins að safna náttúrugripum og varðveita þá. í þessu frv. er þessu hins vegar breytt og fyrst talið það mikilvæga verkefni stofnunarinnar að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins.

Með þessu móti vona ég, að ég hafi gert fullnægjandi grein fyrir því, hvernig þetta frv. er til orðið, hver er tilgangur þess og hvaða breytingar mundi leiða af samþykkt þess. Ég tel eðlilegt, að meðferð þessa frv. fylgi meðferð hins frv., sem er stærra og umfangsmeira, um hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna, og í samræmi við það legg ég til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. menntmn.