17.10.1963
Efri deild: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

2. mál, þinglýsingar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur áður verið til meðferðar á hv. Alþ., a.m.k. tvisvar, en hefur ekki orðið útrætt. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Það er flókið og tæknilegt og mjög erfitt um það að dæma fyrir aðra en þá, sem við þessi störf fást eða hafa af öðrum sökum á því sérþekkingu.

Frv. er samið af Ármanni Snævarr núv. háskólarektor og Ólafi A. Pálssyni borgarfógeta, en prófessor Ármann hefur um margra ára bil kynnt sér þessi efni sem fræðimaður, en Ólafur Pálsson hefur allra manna mest af hérlendum mönnum starfað að þinglýsingum og þekkir þær því bæði af raun og eins fræðilega, þar sem hann hefur aflað sér á þeim fræðilegrar þekkingar til viðbótar sinni miklu reynslu.

Málið hefur verið til umsagnar hjá Dómarafélaginu, þ.e.a.s. sýslumönnum, bæjarfógetum og borgarfógeta, og dagaði málið uppi á síðasta þingi vegna þess, að þessir aðilar, sem fjalla um framkvæmd þinglýsinga, töldu þá ekki tímabært að láta það hljóta afgreiðslu. Ég ræddi í fyrra við fulltrúa þeirra og gaf þeim kost á því að gera aths. við frv., óskaði eftir því, að fulltrúar þeirra ættu um það fundi og gæfu sér nægan tíma til að vinna með höfundum frv. að leiðréttingum eða aths., sem þeir hefðu fram að bera. Úr því hefur ekkert orðið, að þeir bæru fram einstakar brtt., hvorki þá né heldur nú í sumar, þótt eftir því væri leitað.

Ég hygg, að ég fari ekki rangt með, að heildarálit þessara manna, sem framkvæmd þinglýsingar hafa nú á hendi, sé það, að þeir hafi ekki athugasemdir við einstök ákvæði frv. að gera, en telji hins vegar, að það muni leggja allverulega miklu meiri vinnu á embættismennina en þeir þurfa nú að leysa af hendi, og þeir hafa af því tilefni gert um það fyrirvara, að rn. þurfi að vera við því búið að láta þeim í té meiri starfskrafta, þegar til framkvæmda kemur, heldur en nú vinna að þessum málum. Úr þessu fær enginn nema reynslan skorið. Um hitt held ég að sé ekki að efast, að okkar núverandi þinglýsingarlöggjöf sé að ýmsu leyti ófullkomin og úrelt og því sé þar þörf á endurskoðun, og með þessu frv. er mjög stuðzt við þá reynslu, sem fengizt hefur í okkar nágrannalöndum, sem okkur eru skyldust að löggjöf. Ég tel þess vegna, að nú sé tímabært að fá þetta frv. lögfest.

Dómararnir hafa haft mjög ríflegan tíma til að bera fram sínar aths., og eins og ég segi, þá hafa þær engar orðið í einstökum atriðum, og þó að það muni kosta einhverja töluvert meiri vinnu að framkvæma nútímaskipan á þessum málum, þá hygg ég, að það sé ekki hægt að láta það standa í vegi fyrir, að þessi mál séu með skaplegum hætti hjá okkur og svipuðum og í öðrum sams konar þjóðfélögum tíðkast nú á dögum. Ég mundi því vilja leggja áherzlu á, að þetta frv. yrði nú afgreitt og þau fylgifrv. sjálfs meginfrv., sem einnig eru á dagskránni. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða um þau sérstaklega hvert út af fyrir sig. Þau eru bein afleiðing af sjálfu meginfrv. Þrátt fyrir mín orð hér og þá áherzlu, sem ég legg á, að frv. hljóti nú afgreiðslu, þá er auðvitað sjálfsagt, að það fari til n. og verði athugað þar eftir föngum, þó að ég geri mér ljóst, eins og ég segi, að það er í raun og veru ekki nema á sérfræðinga færi, hvort sem þeir hafa aflað sér reynslunnar úr hinu lifanda lífi eða með fræðilegum iðkunum, að dæma um einstök atriði málsins. En ég legg sem sagt til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.