19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

95. mál, vegalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða almennt um frv. það til vegalaga, sem hér liggur fyrir, þó að það sé vissulega þess vert, að um það sé rætt, því að hér er um merkilegt mál að ræða. Höfuðatriði þess frv. er að mínum dómi það, að í því felst aukin fjáröflun til vegaframkvæmda, en auk þess geymir það svo að sjálfsögðu, eins og hér hefur verið rakið, ýmis nýmæli, sem ég hygg að mörg eða jafnvel flest horfi til bóta, þó að reynslan ein fái til fullnustu úr því skorið, hvernig þau reynast. En sem sagt, ég ætla ekki að fara að ræða almennt hér um þetta frv., heldur vildi ég aðeins leita skýringar á einu eða tveimur ákvæðum í þessu frv. og af því tilefni beina fsp. til frsm. hv. samgmn.

Þau ákvæði, sem ég vil gjarnan fá nánari skýringu á, eru í X. kafla frv., sem fjallar um eignarnám, jarðrask, átroðning o.fl. Mér er það ljóst, að þar er í sjálfu sér ekki um neinn sérstaklega veigamikinn þátt að ræða í þessum mikla lagabálki.

Í síðasta málsl. 60. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Kostnað við matið greiðir landeigandi, ef upphæð sú, er honum er metin, er nær því, sem honum hefur verið boðið, en því, sem hann hefur krafizt, ella telst kostnaðurinn við matið með skaðabótakostnaðinum.“

Ég held, að þetta ákvæði fái naumast staðizt samkv. stjórnarskránni. Ég held, að það leiði til þess, að landeigandi fái ekki fullar bætur, svo sem boðið er í 67. gr. stjórnarskrárinnar. Og ég skal taka einfalt dæmi máli mínu til skýringar. Við skulum segja, að landeigandi krefjist þess að fá 50 þús. kr. í bætur. Vegamálastjóri býður aftur á móti að greiða 35 þús. Mat fer fram, og niðurstaða matsmanna verður sú, að 40 þús. kr. skuli greiddar í skaðabætur vegna þess, sem þar er um að ræða, hvort sem það er jarðrask eða malarnám eða hvað sem það nú er. Kostnaður við þetta mat verður 2000 kr., sem ég hygg að sé ekki of í lagt. Þá verður niðurstaðan sú, að landeigandi samkv. þessu ákvæði, sem ég las hér upp áðan, á að greiða þennan kostnað við matið, 2000 kr. Þær dragast þess vegna frá þeim 40 þús. kr., sem honum hafa verið metnar og matsmenn hafa talið að skaði hans væri, þ.e.a.s. hann fær ekki nema 38 þús. kr., og þá hefur hann ekki fengið fullt verð fyrir eign sína, eins og 67. gr. stjórnarskrárinnar býður.

Ég vildi gjarnan fá skýringu á því hjá hv. frsm. n., hvernig n. lítur á þetta ákvæði, hvort hún er þeirrar skoðunar, að þetta geti samrýmzt stjórnarskránni. Og það er því meiri ástæða til þess að velta þessu fyrir sér, af því að hv. samgmn. hefur sýnt lofsverðan áhuga á því í sambandi einmitt við þetta ákvæði að girða fyrir það, að ákvæðið bryti í bág við stjórnarskrána, því að í upphaflega frv., eins og það var lagt fyrir Alþingi, stóð svo í niðurlagi 2. mgr. 60. gr.: „Kostnað við yfirmat greiðir sá, sem þess hefur krafizt, ef matsupphæðinni verður ekki breytt honum í vil meira en 10% af matsupphæð undirmatsins, ella telst hann með öðrum skaðabótakostnaði.“ Þetta ákvæði felldi samgmn. niður eða gerði till. um, að það væri fellt niður, og var það fellt niður í hv. Nd., af þeim ástæðum, að mér skilst, að hún taldi vafasamt, að þetta ákvæði um greiðslu kostnaðar við yfirmat stæðist samkv. stjórnarskránni. Nú er ég að vísu á annarri skoðun um það efni og tel, að niðurlagsákvæði 2. mgr. 60. gr., eins og það var upphaflega, hefði verið í góðu samræmi við stjórnarskrána, og hef mín rök fyrir því, en það er önnur saga, og ég fer ekki út í það hér að rekja þau. En einmitt af því, að hv. samgmn. hefur bersýnilega haft auga fyrir þessu, hefur þar af leiðandi hlotið að grandskoða þetta, þykir mér rétt að krefjast á þessu skýringar. En ég hef hingað til haldið, að það væri alveg ótvíræð grundvallarregla, að eignarnemi yrði að greiða kostnað við undirmat, hver svo sem niðurstaða þess annars væri, og ég veit ekki til þess, að öðru sé þar undan haldið neins staðar, þannig að ég held nú, að flestir, a.m.k. lögfræðingar, hljóti að vera sammála um það, að þetta niðurlagsákvæði 1. mgr. 60. gr. standist nú ekki samkv. stjórnarskránni. Og það er nú svona, að þó að þetta sé kannske í sjálfu sér smámál og þyki óþarfi að vera að fjölyrða um það, er það dálítið erfitt fyrir hv. alþm. að samþykkja það, sem bersýnilega er andstætt stjórnarskránni, af því að þeir hafa nú einu sinni unnið eið eða drengskaparheit að því að halda stjórnarskrána, svo að mér virðist nú þörf á því að athuga þetta ákvæði aðeins og staldra við, og sem sagt, ég vildi óska eftir því að fá skýringar á þessu ákvæði.

Raunar má kannske sama segja um 62. gr., að því er varðar þær lögákveðnu bætur til leigutaka, þar sem gert er ráð fyrir því, að landeigandi greiði honum 5% árlega af skaðabótaupphæðinni, meðan leigusamningur sá er í gildi, sem var, þegar bæturnar voru ákveðnar. Þessar lögákveðnu bætur þurfa náttúrlega ekki alltaf og í öllum tilfellum að vera fullar bætur, og þess vegna mundi slíkt ákvæði sjálfsagt ekki standast. En það hefur verið áður í lögum að vísu, og skal ég ekki fjölyrða um það.

En aðra spurningu vildi ég einnig bera upp við hv. frsm. samgmn., og það er út af þessu, að niður hefur verið fellt niðurlagsákvæðið í 2. mgr. 60. gr., sem ákvað það, hvernig fara skyldi með greiðslu yfirmatskostnaðar. Nú eru í þessu lagafrv., eins og frá því er gengið, engin fyrirmæli um greiðslu yfirmatskostnaðar. Þess vegna vildi ég beina þeirri spurningu til hv. frsm., hvaða regla n. hefði hugsað sér að ætti við um greiðslu yfirmatskostnaðar. Getur það verið, að hún hafi hugsað sér, að um greiðslu yfirmatskostnaðar ætti að fara eftir niðurlagsákvæðinu í 1. mgr. 60. gr.? Það er fjarstætt að mínum dómi. En það lægi þó kannske einna beinast við eftir því, hvernig frá þessu er gengið. Eða ætlast hún til þess, að þetta sé skilið svo, að það sé farið um þetta efni eftir þeirri almennu reglu, sem um þetta er sett í l. um framkvæmd eignarnáms, nr. 61 1917? Sú ályktun mundi náttúrlega vera eðlilegust og mundi auðvitað eiga við, ef ekkert væri um þetta mælt í l. og felldur væri niður síðasti málsl. 1. mgr. 60. gr. Þá mundi sjálfsagt verða ályktað sem svo, að um framkvæmd eignarnámsins og greiðslu kostnaðar við það ætti að fara eftir þessum almennu eignarnámslögum, nr. 61 frá 1917, enda er það eðlilegt og í sjálfu sér óþarfi, þegar einstök lög eru að taka upp reglur um framkvæmd eignarnáms, vegna þess að það eru settar í þessum lögum í eitt skipti fyrir öll almennar reglur um þetta efni.

Nú ætlast kannske n. til þess eða hefur hugsað sér, að það gilti um þetta sama regla og t.d. er sett í l. um náttúruvernd, sem við vorum að tala um hér í gærkvöld, þar sem svo er fyrir mælt, að yfirvirðingarnefndin sjálf ákveði það, hvernig greiðslu kostnaðar sé háttað eða skipt á milli aðila.

Eins og ég áðan sagði, finnst mönnum þetta kannske ekki stór atriði, og ég játa það, að þetta eru ekki í sjálfu sér stór atriði, borin saman við þetta mikla mál, sem hér liggur fyrir, en þau atriði eru þó þannig vaxin, að ég tel eðlilegt, að þm. geri sér grein fyrir því, hvað þeir eru að samþykkja í þessu efni, og ég efast ekki um, að þessi mál hljóta að hafa verið rækilega könnuð hjá hv. samgmn. og að hv. frsm. hennar geti því gefið einhverjar skýringar á því.