19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

95. mál, vegalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 3. þm. Norðurl. v. í sambandi við 60. gr. hef ég ekki mikið að segja. Þar talar löglærður maður, en ég er ekki löglærður.

Viðvíkjandi síðari fyrirspurnarliðnum er það að segja, að þetta var rætt nokkuð í samgmn., að eðlilegast væri, að það atriði færi eftir almennum ákvæðum um eignarnám, og væri óþarft að hafa sérstakt ákvæði í þessum lögum um það. En að því er varðar fyrra atriðið, að það standist samkv. stjórnarskrá, sem þar segir um mat, er því aðeins til að svara, að þetta hefur staðið í vegalögum og að því er ég veit ekki valdið neinum árekstrum. Ég skal játa, að það hefur ekki verið sérstaklega rannsakað af þeim nefndum, sem hafa undirbúið þetta frv., hvort þetta fengi staðizt, en talið, að það mundi standast, þar sem það hefur ekki valdið árekstrum hingað til.

Hér hafa komið fram nokkrar brtt. frá hv. 5. þm. Reykn. Að því er varðar þær brtt., sem hann gerir á 32. gr., er það að segja, að sú grein var rædd allmikið á fundi n. Henni hafði borizt bréf frá bæjarráði Kópavogs, sem taldi, að þar væru sérstakar ástæður fyrir hendi og ákvæði þessarar gr. mundu koma illa við kaupstaðinn Kópavog, og tók n. till. bæjarráðs algerlega til greina.

Um 3. brtt. hv. 5. þm. Reykn. er það að segja, að það er að sjálfsögðu álitamál, hvort það á að binda það í þessum lögum, hversu mikið framlag á 13. gr. fjárl. eigi að vera til vegagerða fram yfir þær tekjur, sem vegagerðin fær gegnum sína ákveðna tekjuliði. Ég er alls ekkert viss um það, að frv. verði neitt betra með því að binda það, að það skuli vera ¼ hluti á móti því, sem inn kemur samkv. 86. og 87. gr. Ég gæti alveg eins hugsað mér, að það þyrfti að vera meira. Vegaþörfin er mikil, og þrýstingurinn á það að fá fé til vegagerða er mikill. Ég get upplýst það, að það var að vísu um það talað, hvort eðlilegra væri og hvort það væri trygging fyrir vegagerðina að fá þetta ákveðið í einhverjum hlutföllum, og niðurstaðan varð sú, að það mundi vera skynsamlegast að láta þetta óbundið í því trausti, að hlutur vegagerðarinnar yrði ekki rýrður frá því, sem lagt er til á fjárlfrv. nú og búið er að eða í þann veginn er verið að ganga frá að þessu sinni. Hvoruga þessa till. tel ég því þörf á að samþykkja og sé mér ekki fært að styðja þær.

Þá var till. frá hv. 6. þm. Sunnl. um það að taka það inn í l. nú að ákveða um nýja endurskoðun. Ég held, að það sé of snemmt að ákveða það enn, meðan ekki er séð, hvernig ákvæði þessara laga verka, og það er alltaf opið að bera fram brtt., ef einhver atriði í frv. eða l., ef þetta verða lög, reynast þannig, að breyta þurfi. Þá tel ég einboðið, að það verði tekið fyrir, strax og það kemur fram, en að ákveða nú allsherjar endurskoðun á frv. finnst mér vera allt of snemmt og nálgast það að vera vantraust á þá, sem samið hafa frv., að ákveða það nú þegar, að á því skuli fara fram ný endurskoðun. Ég get af þessum ástæðum ekki heldur stutt þessa tillögu.