19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

95. mál, vegalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta neitt að ráði. Ég vil þakka hv. frsm. fyrir hans greinargóðu svör við minni fsp. Hann játaði það að niðurlagsákvæði 1. mgr. 60. gr. mundu kannske ekki hafa verið nægilega athuguð í n.. en taldi hins vegar, að eftir brottfall síðasta málsl. í 2. mgr. 60. gr. mundu nm. hafa verið þeirrar skoðunar, að um greiðslu matskostnaðar færi eftir þeim almennu reglum, sem þar um gilda samkv. l. um framkvæmd eignarnáms frá 1917. Ég tel þessa skoðun eðlilega.

Hv. síðasti ræðumaður, 9. landsk. þm. var einnig alveg sammála, að mér skildist, þeirri aths., sem ég gerði varðandi síðasta málsl. í 1. mgr. 60. gr., að hann fengi ekki staðizt eftir stjórnarskránni. Hins vegar virtist mér, að hann hefði kannske nokkuð annan skilning en hv. frsm. á þýðingu þess, að síðasti málsl. 2. mgr. 60. gr. var felldur niður, en efnislega virtist mér hann þó fallast á mitt sjónarmið í þessu efni. Það er náttúrlega, eins og allir lögfræðingar vita, meginmunur á undirmati og yfirmati, að því er kostnaðargreiðsluna varðar. Eins og ég sagði áðan, held ég, að það séu ekkert deildar meiningar um það, að eignarnemi verður að greiða kostnað við undirmat, það mat, sem fram fer. Hins vegar eru aftur á móti ýmsir og ég vil segja margir þeirrar skoðunar, að löggjafinn þurfi ekki að fyrirskipa nema eitt mat, en ef hann heimilar yfirmat, þá geti hann sett aðra reglu um skiptingu kostnaðar af því. En mér sýnist við, sem um þetta höfum rætt, vera yfirleitt sammála í verulegum atriðum um efnið. Þess vegna mundi ég hafa tilhneigingu til þess að bera fram brtt. við þessa grein við 3. umr. málsins. Og mín brtt. mundi þá verða á þá lund, að síðasti málsl. 1. mgr. falli niður.

Það er að sjálfsögðu rétt, eins og kom fram, að þetta ákvæði hefur verið áður í lögum, en það réttlætir það náttúrlega ekki, að það sé látið standa áfram, þegar mönnum verður ljóst, að það er ekki í samræmi við stjórnarskrá. Og í öðru lagi mundi ég vilja leggja til, að við 60. gr. bættist ný mgr., svo hljóðandi:

„Um greiðslu kostnaðar við eignarmat samkv. þessum lögum fer eftir l. nr. 61 frá 1917, um framkvæmd eignarnáms.”

Þá væri það sagt alveg berum orðum, sem hv. frsm. taldi hafa verið skoðun n. Ég vil þó taka það fram, að ef það þætti ekki fært vegna þess, hve naumur tími er orðinn, að láta málið ganga á milli deilda vegna slakrar breytingar, þá mundi ég sætta mig við þá yfirlýsingu, sem fram kom frá hv. frsm., og ekki vilja tefja fyrir málinu með því að flytja brtt. En ég sé nú ekki, að það þyrfti að stefna þessu máli í neina tvísýnu, þó að svona einföld breyting væri gerð. En ég mun þá væntan1ega, ef nokkur tími gefst til, prófa það við 3. umr., hvort menn vildu fallast á slíka brtt. eða ekki.