13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (1921)

23. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Fjhn, hefur haft þetta mál til meðferðar, en ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess og skilar tveimur nál. Meiri hl. hefur skilað nál. á þskj. 407, en niðurstaða þess og till. n. er sú, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og þar er tiltekið. Ég vil nú í stuttu máli gera grein fyrir þessu áliti meiri hl. og fara nokkrum orðum almennt um þetta mál.

Það er svo með þetta frv. um jafnvægi í byggð landsins, ásamt ýmsum öðrum áþekkum málum eða frv. og till., sem hv. flm. og flokksmenn þeirra hafa flutt nú á þessu og undanförnum þingum, að ég held, að mætti kalla þau einhvers konar iðrunar- og yfirbótaverk. Nú sé það að vísu í fjarri mér að ræða um þetta mál af nokkru alvöruleysi, það á það alls ekki skilið, því að hér er um alvörumál að ræða, sem krefst alvarlegrar íhugunar. En það eru aðeins viðbrögð þeirra hv. flm. og flokksmanna þeirra, sem má segja að séu hin skoplega hlið þessa máls. Þróunin í byggð landsins hefur nú um áratugaskeið verið vandamál, sem menn hafa orðið að horfast í augu við, og það hefur verið gripið til ýmiss konar ráða til þess að freista þess að hafa áhrif á þá þróun í þá átt að draga úr hinum öru fólksflutningum úr dreifbýlinu í þéttbýlið. Oft og tíðum hefðu menn kosið, að það fjármagn, sem til þess fór, hefði verið ríflegra, en það hefur að sjálfsögðu ávallt miðazt við það, sem talið var fært hverju sinni innan ramma fjárlaga. Árið 1962 var þessum málum í fyrsta sinn skipað með lögum og fjárframlög tryggð fram í tímann um 10 ára skeið samkv. lögum. Einnig þá hefðu ýmsir kosið, að ríflegra hefði verið tiltekið, og það er von manna, að unnt verði að auka það framlag, sem lögin frá 1962 gerðu ráð fyrir, enda hefur það komið til síðan, að verðlag allt hefur hækkað, síðan framlagið var ákveðið. En hitt var í sjálfu sér veigamikið, að hér var í fyrsta skipti tekið á málinu af nokkurri festu og reynt að búa grundvöll til frambúðarskipunar. En hv, framsóknarmenn brugðu nú við, þegar þeir voru ekki lengur í stjórnaraðstöðu, báru ekki lengur ábyrgð á ríkisstj., og höfðu flutt frv., sem voru lík þessu frv., áður en þetta frv. kom fram, og sýnir það raunar vel, að það var nokkuð rétt í því, sem hv. 3. þm. Reykv. lýsti hér á Alþingi um daginn í umr. um annað mál um hin gerólíku viðbrögð þeirra til mála eftir því, hvort flokkur þeirra er í ríkisstj. eða utan ríkisstj. En ég ætla nú ekki að fara að ræða um það nánar hér. En með þessu frv. viðurkenna flm. þess raunverulega, að þeir hafi, á meðan þeir hefðu haft tök á, algerlega vanrækt að framkvæma það, sem þeir nú telja nauðsynlegt, því að öll rök þeirra fyrir nauðsyn þessarar lagasetningar áttu ekki síður við, þegar flokkur þeirra var í ríkisstj. og réð mestu um fjármálastjórn í landinu. Í þessu ljósi verður að skoða þetta frv. þeirra hv. flm. þess. En við skulum líta aðeins örstutt á vandamálið sjálft.

Ef litið er á þróun byggðarinnar í landinu, það sem af er þessari öld, munum við finna greinilegar hliðstæður eða svipaða þróun mjög víða erlendis, a.m.k. alls staðar í hinum atvinnulega þróuðu löndum. Sá er þó meginmunur á, þegar sá samanburður er gerður, að t.d. í löndum Evrópu hefur hin mikla röskun í byggð landanna verið að gerast á miklu lengri tíma en hér hjá okkur. Það hefur verið að gerast nánast undanfarnar tvær aldir, eða frá því að iðnbyltingin hófst. Hér hjá okkur hefur breytingin gerzt á mjög skömmum tíma eða segja má á þessari öld, eða rúmlega hálfri öld, og að vissu leyti skapar það þeim mun erfiðari vandamál. Sú röskun, sem orðið hefur á byggð tandanna, er að meginstefnu til fólgin í fólksflutningum úr sveitunum og strjálbýlinu yfirleitt til borganna, þéttbýlisins, þar sem uppvaxandi iðnaður hefur sífellt kallað á fleiri hendur til starfa. Þau vandamál og sú félagslega hætta, sem því eru samfara, að slíkir stórfelldir fólksflutningar eigi sér stað, sem og mikil samansöfnun fólks í þéttbýli, hefur löngum verið mönnum ærið umhugsunarefni. Hins vegar var það almennt viðurkennt, að þessi þróun var forsendan fyrir þeim stórkostlegu efnahagslegu framförum, sem orðið hafa í heiminum á þessu tímabili.

Eins og ég gat um áðan, var breytingin hér á landi ekki síður byltingarkennd en í nágrannalöndunum, nema frekar væri. Fyrst í stað lá fólksstraumurinn úr sveitinni að sjónum, þegar uppbygging sjávarútvegsins hófst fyrir alvöru á öndverðri þessari öld. En þessir fólksflutningar áttu sér ekki stað jafnt í öllum hlutum landsins. Smám saman óx aðdráttaraflið þar, sem reynslan sýndi, að aflavonin var mest. Þangað safnaðist fiskiskipaflotinn, og þar skapaðist þéttbýlið, sem byggði afkomu sína á útgerð og fiskvinnslu. Þessu fylgdi svo einnig uppbygging margs konar iðnaðar og þjónustustarfsemi, sem jafnan fylgir slíkri þróun atvinnuveganna og þéttbýlinu. En einnig hér á landi er það ljóst, að þessi þróun atvinnuveganna, sem varð m.a. fyrir tilflutning fólksins, var forsendan fyrir þeirri öru efnahagsþróun, sem orðið hefur undanfarna áratugi og hefur leitt til þess, að þjóðin öll og einnig og ekki siður sá hluti hennar, sem í dreifbýlinu býr, hefur komizt frá fátækt til meiri almennrar velmegunar en nokkru sinni fyrr, og verður því raunar ekki líkt við neitt, sem áður hefur þekkzt í því efni. En þrátt fyrir þetta fer ekki hjá því, að mönnum hefur verið það áhyggjuefni, hvernig byggðin hefur þróazt. Þó að mikil ný verðmæti hafi skapazt vegna þróunar atvinnuveganna og þéttbýlisins, hafa einnig mikil verðmæti glatazt eða að engu orðið vegna hinna miklu fólksflutninga. Einnig hefur það orðið mönnum áhyggjuefni, að segja má, að dregið hafi til landauðnar í sumum sveitum og í heilum landshlutum hefur orðið að horfa upp á það, að íbúum hefur annaðhvort fjölgað mjög lítið eða beinlínis fækkað á síðustu áratugum. Í grg. með því frv., sem hér liggur fyrir, er sýnt með tölum og hundraðshlutum, hvernig íbúatalan hefur breytzt frá árinu 1940 til ársins 1962, sem er síðasta árið, sem manntalsskýrslur eru til um. Er landinu skipt í þessu yfirliti í grg. í sex hluta. Vissulega sýna þessar tölur miklar breytingar. En það er nú svo með tölur, að með þeim má ýmislegt sýna og vandfarið með þær, svo að þær gefi rétta og óyggjandi mynd af því, sem þær eiga að sýna. Með tölum þessum er í fyrsta lagi gefið í skyn, að sú þróun, sem þær sýna, hafi byrjað 1940. Þetta er ekki sagt berum orðum, en með því að stilla tölunum upp eins og gert er eða minnast ekkert á það, sem var fyrir þann tíma, er þetta að vissu leyti gefið í skyn. Með því að sleppa öllu, sem gerzt hefur á tímabilinu 1940-1962, er einnig gefið í skyn, að þróunin haldi enn áfram á sama hátt. Þetta er ekki heldur sagt berum orðum með þessum tölum, en framsetningin öll gefur það í skyn. En hvað sjáum við, ef við gáum svolitið nánar á bak við þessar tölur og dálítið lengra aftur í tímann en þær sýna? Á tveggja áratuga tímabili fyrir árið 1940 fór íbúum fækkandi í fjórum af þeim sex landshlutum, sem í skýrslunni eru. Fjölgun varð aðeins á Norðurlandi og í Kjalarnesþingi. En mest var fækkun íbúanna á Vestfjörðum, að vísu ekki nema rúmlega 3%. Hins vegar sýnir seinna tímabilið samkv. yfirlitinu í grg. með frv., að fjölgun hefur orðið í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum, en þar hefur íbúum fækkað á 22 ára tímabili um nær 19%. En einnig hér er fróðlegt að athuga þróunina nánar. Á Vestfjörðum var fólksfækkunin mest á tímabilinu fram til 1955, en þá nam hún nærri 18% af þessum 19, sem er á öllu tímabilinu, 22 árum. Næstu árin þar á eftir fer íbúum að vísu fækkandi, en meira hægfara, og eftir 1958 hefur sú litla breyting, sem orðið hefur, verið heldur upp á við. Þessar tölur virðast benda til þess, að sú þróun, sem verið hefur nú um áratuga skeið í þessum landshluta, sé að snúast við. í öðrum landshlutum er þó enn greinilegra, að þróunin hefur tekið breytingum á seinustu árum. Á Vesturlandi var að heita mátti óbreytt íbúatala á áratugnum 1940-1950, en næstu 12 árin verður fólksfjölgun, sem nemur nær 23% í þeim landshluta og fer heldur vaxandi hlutfallslega, eftir því sem líður á tímabilið. Á Norðurlandi, sem var, eins og áður segir, eini landshlutinn utan Kjalarnesþings, sem sýndi fólksfjölgun á áratugunum tveimur fyrir 1940, hefur þróunin gengið í svipaða átt, þótt heldur hægara sé; og a.m.k. greinilega snúið við eftir 1955, en næstu 5 ár þar á undan hafði fólki farið fækkandi á Norðurlandi. Á Austurlandi mátti heita kyrrstaða á tímabilinu frá 1945–1955, og hafði þá orðið fækkun frá árinu 1940. En einnig hér tekur fólkinu að fjölga eftir 1955. Loks er svo Suðurland, austanfjalls, en þar var að heita mátti óbreytt íbúatala á áratugnum 1940—1950. Eftir það hefur verið stöðug aukning fólksfjölda í þessum landshluta.

Ég hef með þessum tölum viljað vekja athygli á því, að þróun íbúatölunnar í hinum ýmsu landshlutum er með nokkuð öðrum hætti en maður fær hugmynd um með því að sjá aðeins þær tölur, sem nefndar eru í skýrslunni í grg. með frv. í öllum tilfellum, en þó misjafnlega mikið, kemur í ljós, að á síðustu árum hefur orðið sú breyting á stefnu þróunarinnar, að í stað þess, að áður lá hún niður á við, liggur hún nú upp á við og það er þó allténd í rétta átt með tilliti til meira jafnvægis í byggðinni. Með þessu vil ég þó á engan hátt segja, að þar með sé þetta vandamál leyst eða ekki lengur fyrir hendi. Svo er ekki. Hins vegar gefur þetta tilefni til að ítreka það, sem ég drap á áður, að hafi þróun síðustu ára gert þetta frv. nauðsynlegt, þá voru ölt rök fyrir því miklum mun sterkari á þeim árum, þegar þróunin í byggðinni var til vaxandi misvægis, en þá voru einmitt, eins og ég gat um áðan, aðstandendur þessa frv. mestu ráðandi um fjármálastjórnina í landinu. Þá var og ekki til nein lagasetning um þessi mál, en núv. ríkisstj. hefur einmitt beitt sér fyrir lagasetningu, þar sem séð er fyrir nokkru fjármagni fram í tímann í því skyni að stuðla að auknu jafnvægi í byggðinni.

Nú má ekki heldur líta á þau lög, sem nú gilda um atvinnubótasjóð, né heldur þetta frv., sem einangrað fyrirbrigði og telja, að með setningu laganna eða samþykkt þessa frv. væri séð fyrir öllum þörfum að því er snerti jafnvægi í byggð landsins. Það er margt fleira, sem gera þarf og gert hefur verið og gert er, sem hefur ekki síður mikla þýðingu í þá átt að auka jafnvægi í byggðinni, og þannig á þetta líka að vera. Við skulum aðeins líta á fá atriði, sem sýna þetta. Á þessu þingi hafa verið sett ný vegalög t.d., hin merkasta lagasetning. Samkv. þeim eru fyrirhugaðar miklum mun meiri framkvæmdir í vegamálum en nokkru sinni fyrr og séð fyrir stórauknum tekjum til þeirra framkvæmda. Fyrir hinar dreifðari byggðir hefur þessi lagasetning stórkostlega þýðingu. Á s.l. ári fékk ríkisstj. stórt erlent framkvæmdalán, sem varið hefur verið til margvislegra framkvæmda beint og óbeint á sviði atvinnulífsins. Má þar til nefna raforkuframkvæmdir og undirbúning raforkuframkvæmda, sem hafa munu mikla þýðingu fyrir landsbyggðina, einnig hafnarframkvæmdir, þar sem meginhluti eða verulegur hluti fjármagnsins hefur runnið til framkvæmda á svæðinu utan Kjalarnesþings. Má segja, að meira en 2/3 hlutar þess fjármagns, sem af framkvæmdaláninu fékkst, hafi runnið til framkvæmda, sem beint eða beint munu stuðla að meira jafnvægi í byggðinni. Síðasta dæmið um þetta er svo frv., sem liggur hér fyrir þinginu nú um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sem getur komið til með að hafa mikla þýðingu fyrir byggðina á Norðurlandi austan til, bæði vegna þeirrar verksmiðju, sem þar ris upp, og eins vegna þess iðnaðar, sem hugsanlegur er í sambandi við það, og ýmiss konar atvinnustarfsemi, sem væntanlega gæti fylgt því.

Hér voru aðeins nefnd þessi þrjú atriði, en ef athugað væri, hva,ð ýmsir fjárfestingarsjóðir hafa lagt af mörkum í þessu sama skyni, mundi koma í Ijós, að þar er um mjög verulegar upphæðir að ræða.

Í umr. um hið margumtalaða jafnvægi í byggð landsins á undanförnum árum hefur ekki verið hægt að segja, að mikið hafi verið um bað, að fram hafi komið fastmótaðar hugmyndir um lausn þeirra vandamála, sem því eru tengd, enda kannske varla von til þess, að það hafi getað orðið. Þetta hefur verið að mótast í hugum manna langan tíma. Verkefnin eru líka ekki alltaf þau sömu. Þau blasa við misjafnlega, eftir því sem tímarnir breytast. Nú nýlega gerðist það svo, að um þetta birtist grein í tímariti Seðlabankans eftir Valdimar Kristinsson viðskiptafræðing. Þar er á glöggan hátt fjallað um. á hvern hátt mætti hafa áhrif á dreifingu byggðarinnar og þróun byggðarinnar með myndun svokallaðra þróunarsvæða. Þá má einnig minna á það, að nú á sér stað sérstök athugun á þessum málum að því er Vestfirði snertir, svo sem fram kom nýlega í umr. um það efni hér á hv. Alþ. Er einmitt ekki ólíklegt, að slíkar athuganir gætu leitt til raunhæfrar niðurstöðu um þær leiðir, sem vænlegastar væru til lausnar þessu vandamáli, og eigi ekki alls staðar hið sama við og því sé nauðsynlegt að gera slíkar athuganir sem þarna er um að ræða.

Eins og fram kemur í áliti meiri hl. fjhn., telur hann, að eins og nú horfir sé ekki þörf nýrrar lagasetningar um þessi efni, þar sem lögin um atvinnubótasjóð hafi þann tilgang fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og þess. vegna, eins og ég gat um áðan í upphafi máls míns, leggur meiri hl. til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og segir í nál.