24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

26. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh., eins og t.d. hæstv. dómsmrh., viðskmrh. og fjmrh., hafa verið að halda ræður að

undanförnu, þar sem þeir hafa gert efnahagsmálin að nokkru umtalsefni. Það, sem hefur vakið sérstaka athygli í sambandi við þessar ræður, er, að það kveður við talsvert annan tón um þessi mál nú í ræðum þeirra en á s.l. vori, fyrir kosningarnar þá. Þegar þessir hæstv. ráðh. voru að flytja ræður sinar á seinasta vori fyrir kosningarnar, þá var því lýst með mörgum fögrum orðum, hve vel viðreisnin hefði heppnazt, hve efnahagsástandið væri í góðu lagi og mikil velgengni ríkti hjá atvinnuvegunum og hjá almenningi og það mundi verða greið gata fram undan, aðeins ef viðreisnarstefnunni væri fylgt áfram. Nú kveður við allt annan tón hjá þessum hæstv. ráðh. Nú er það viðurkennt, að það sé ríkjandi ringulreið og öngþveiti í efnahagsmálum. Það er talað um, að launamálin séu í ólestri, og það er talað um, að útflutningsatvinnuvegirnir séu á heljarþröm, þrátt fyrir það þó að þeir hafi aldrei búið við betra árferði en á undanförnum missirum. Ástandið er sem sagt allt annað að dómi þeirra nú en það var á s.l. vori.

Þetta upplýsir það mjög vel, að hæstv. ráðh. og stjórnarflokkarnir hafa unnið meiri hl. sinn í seinustu kosningum á algerlega fölskum forsendum. Þeir hafa unnið kosningarnar með því að lýsa ástandinu raunverulega allt öðru en það var, miklu betra og fegurra en það var, því að þær lýsingar, sem eru gefnar af ástandinu í dag, eru vissulega miklu nær lagi. Þetta sýnir, að þennan veika meiri hl., sem hæstv. ríkisstj. hefur nú að baki sér á Alþingi, hefur hún fengið með algerlega fölskum forsendum. Ég sé ekki ástæðu til að ræða nánar um þetta atriði að sinni, en tel hins vegar rétt að vekja athygli á því.

En hitt finnst mér nokkur ástæða til að ræða, hvers vegna svo er komið í efnahagsmálum þjóðarinnar, eins og hæstv. ráðh. hafa verið að lýsa að undanförnu. Hvers vegna er öngþveiti í efnahagsmálum? Hvers vegna er ólestur í launamálum? Hvers vegna eru útflutningsatvinnuvegir á heljarþröm? Hvað er það, sem veldur þessu? Jú, hæstv. ráðh. hafa svör á reiðum höndum um, hvað það sé, sem þessu valdi. Þeir segja, að þetta stafi af því, að launastéttirnar og bændastéttin hafi verið of óbilgjarnar, þær hafi gert of miklar kröfur, þær hafi knúið fram of miklar kröfur, og þess vegna sé komið sem komið er.

Að mínum dómi eru þessar fullyrðingar algerlega rangar. Það eru aðrar ástæður eða orsakir, sem valda því, að svo er komið í efnahagsmálum þjóðarinnar eins og nú ber raun vitni um.

Ég vildi segja, að það væru sérstaklega þrjár orsakir, sem valda mestu um það, að nú sé komið eins og raun ber vitni um í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég vil nefna í fyrsta lagi vaxtaokrið, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp. Það var eitt af fyrstu verkum hennar að stórhækka vextina, svo að íslenzkir atvinnuvegir og einstaklingar, sem standa í framkvæmdum, hafa orðið að búa við miklu óhagstæðari vaxtakjör en þekkjast yfirleitt annars staðar í nágrannalöndum okkar. Ég vil aðeins nefna það sem dæmi, að íslenzkir bændur verða að búa við það að greiða allt frá 61/2 % til 91/2 % vexti af þeim stofnlánum, sem þeir þurfa til framkvæmda sinna. Hins vegar er þannig ástatt t.d. í Vestur-Þýzkalandi, að þar þurfa bændur ekki að greiða nema 3% vexti af svipuðum lánum og jafnvel enga vexti í mörgum tilfellum, vegna þess að hið opinbera borgar vextina niður. Hver getur álitið, að það sé óeðlilegt, þó að íslenzkir bændur t.d. heimti hærra verð fyrir afurðir sinar en þýzkir bændur, þar sem þeir verða að greiða þrisvar sinnum hærri vexti og jafnvel margfalt hærri vexti fyrir þau lán, sem þeir þurfa að nota, miðað við það, sem þýzkir bændur þurfa að greiða? Hið sama gildir að sjálfsögðu um marga aðra þætti íslenzkrar framleiðslu. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um framkvæmdir, sem ýmsir efnaminni einstaklingar ráðast i, eins og t.d. íbúðarbyggingar. Hinir háu vextir, sem ríkisstj. hefur tekið upp, eiga sinn mikla þátt í því dýrtíðarástandi, sem hér hefur skapazt og hefur átt þátt í því að knýja bændur og aðrar launastéttir til þess sem beina nauðvörn að heimta bætt kjör og hækkuð laun.

Og þó er þetta sannarlega ekki aðalástæðan til þess, að launastéttirnar og bændastéttin hafa orðið að fara út á þessa braut. Aðrar ástæður eða orsakir valda hér enn meiru. Sú orsök, sem ég vil nefna næst, er hin mikla skattpíning, sem núv. ríkisstj. hefur tekið upp, hinir stórhækkuðu tollar, sem núv. ríkisstj. hefur lagt á. Það var nýlega upplýst hér á Alþingi, að síðan 1958 hefur skatta- og tollabyrðin, sem lögð er á landsmenn, hækkað um hvorki meira né minna en 1700 millj. kr. Og það er engan veginn látið við það eitt standa að leggja á tolla til að mæta hinum stórauknu útgjöldum ríkisins. Það eru lagðir á þungir skattar, til þess að ríkið hafi miklar umframtekjur. Á seinasta ári voru tollstigarnir hafðir svo háir, að tekjur ríkissjóðs urðu yfir 300 millj. kr. meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Umframtekjurnar umfram það, sem Alþingi taldi vera nauðsynlegt, urðu hvorki meira né minna en 300 millj. kr. Nú hefur það verið reiknað út af hagfræðingum ríkisstj., að 1% almenn kauphækkun í landinu svari til þess að nema 30 millj. kr. Þessar 300 millj. kr., sem ríkisstj. innheimti á seinasta ári umfram það, sem Alþingi taldi nauðsynlegt, svara hvorki meira né minna en til 10% almennar kauphækkunar í landinu. Hver getur ætlazt til annars, þegar slíkar álögur eru lagðar á landsmenn gersamlega að óþörfu umfram það, sem þingið álítur vera nauðsynlegt, en að launastéttirnar og bændastéttin reyni að mæta þessum auknu byrðum með því að gera kröfur um bætt kjör og hækkað kaup? Á þessu ári eru allar horfur á því, að umframtekjur ríkisins umfram það, sem Alþingi hefur talið nauðsynlegt í fjárlögum, verði miklu meiri en á seinasta ári. Og það er líka vist, að þrátt fyrir það, þótt útgjöld ríkisins vaxi á næsta ári, þá verða samt mjög miklar umframtekjur hjá ríkissjóði á komandi ári, ef tollstigarnir verða ekki lækkaðir. Og hvernig á almenningur að mæta þessari miklu skattpíningu öðruvísi en að heimta hækkað kaup, hækkuð laun og bætt kjör? Beinlínis með þessum aðgerðum ríkisstj. eða þessari skattpíningu ríkisstj. eru launþegarnir neyddir til þess að heimta bætt kjör.

En þó eru þessar tvær ástæður, sem ég er nú búinn að nefna, ekki aðalástæða þess, að launþegar hafa orðið að krefjast bættra kjara. Aðalorsökin er tvímælalaust þær miklu gengisfellingar, sem hafa átt sér stað í tíð núv. ríkisstj. Þegar núv. ríkisstj. kom til valda veturinn 1960, þá var verðið á dollarnum, þegar búið var að leggja yfirfærslugjaldið á, 25 kr. Með þeim gengisfellingum, sem siðar hafa átt sér stað, er verðið á dollarnum komið upp í 43 krónur. M.ö.o.: verð hans hefur nærri því tvöfaldazt. Það geta allir gert sér í hugarlund, hve stórfelld áhrif þessi skerðing á gjaldmiðlinum hefur haft á það að auka dýrtíðina í landinu. Það getur hver og einn gert sér það í hugarlund, að þegar erlendu vörurnar eru þannig nærri því tvöfaldaðar í verði, þá er óhjákvæmilegt fyrir launþega og bændur að mæta þessu með því að krefjast kjarabóta og hækkaðra launa.

Það eru sem sagt þessar þrjár orsakir, þessar þrjár aðgerðir hæstv. ríkisstj., vaxtaokrið, skattpíningin og gengisfellingarnar, sem hafa valdið öllu um það, að launþegar hafa orðið að krefjast hækkaðra launa og bændur hafa einnig orðið að gera slíkt hið sama. Það eru ekki launastéttirnar, það eru ekki bændurnir, sem eiga þátt í því, að þannig er komið í efnahagsmálunum, eins og hæstv. ríkisstj, er nú að lýsa, heldur þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj.

Af öllum aðgerðum hæstv. ríkisstj., sem hún hefur unnið á sinum valdaferli, tel ég gengisfellinguna 1961 vera langversta. Það er sannanlegt og var sannað þá strax, að atvinnuvegirnir gátu mjög vel risið undir þeim hóflegu kauphækkunum, sem samið var um sumarið 1961. Þau rök hafa verið svo oft rakin hér í hv. d., að ég sé ekki ásfæðu til þess að rifja þau upp einu sinni enn. Og þessir kaupsamningar, sem voru gerðir sumarið 1961, báru af öðrum kaupsamningum að því leyti, að þeir voru gerðir til 2 ára. Ef þeir hefðu fengið áð standa, hefði haldizt vinnufriður í 2 ár. Þá hefði verið tryggður stöðugur gjaldmiðill í 2 ár, þá hefði verið tryggð góð afkoma atvinnuveganna í a.m.k. 2 ár og batnandi hagur hjá almenningi í a.m.k. 2 ár. En þessir kaupsamningar fengi ekki að standa vegna aðgerða hæstv. ríkisstj., vegna þess að hún greip þá til þess hefndarúrræðis, sem gengislækkunin sumarið 1961 var. Hún kollvarpaði því samkomulagi, sem var komið á milli atvinnurekenda og launastéttanna. Hún varð þess valdandi, að dýrtíðarskriðan, sem var raunverulega búið að stöðva, fór af stað á ný með þeim afleiðingum, að hún hefur stöðugt verið að vaxa og vaxa síðan. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengið við neitt ráðið og verður nú að játa, að komið sé í hið mesta óefni. Ég héld, að það sé erfitt að benda á í stjórnmálasögu Íslands öllu verra verk, sem hafi verið unnið í efnahagsmálum þjóðarinnar, heldur en einmitt gengisfellinguna 1961.

Sú gengislækkun vár framkvæmd með þeim hætti, að gengisskráningarvaldið, sem áður hafði verið í höndum Alþingis, var af því tekið og það lágt í hendur Seðlabankans að nafni til, en raunverulega í hendur ríkisstj., vegna þess að það er ríkisstj., sem ræður svo að segja öllu eða getur ráðið öllu um störf Seðlabankans. Eitt hið illa, sem tvímælaust hefur létt af þessari gengisfellingu og þessari breytingu á gengisskráningarlögunum, er það, að trú manna á gengi krónunnar hefur mjög glatazt við það, að þetta var gert. Menn drógu þá ályktun af þessum aðgerðum, að hæstv. ríkisstj. væri búin að ná gengisskráningarvaldinu í sínar hendur í þeim tilgangi að mæta svo að segja hverri nýrri kauphækkun með gengislækkun og taka þannig aftur það, sem launþegarnir höfðu áunnið sér með hækkunum, enda er sannleikurinn sá, að síðan þessi gengislækkun var gerð og síðan þessi stefna var mörkuð af hæstv. ríkisstj., hefur verið sífelldur ótti við, að nýtt gengisfall mundi skella á þá og þegar. Það er tvímælalaust, að þessi ótti við nýtt gengisfall, sem hefur ríkt hér á landi seinustu mánuðina og missirin, á mjög mikinn þátt í þeirri þenslu, sem hæstv. ríkisstj. er að tala um og telur að gera þurfi sérstakar ráðstafanir vegna, áður en langt um liður. Menn treysta ekki lengur á verðgildi peninganna, og menn vilja þess vegna koma þeim í einhverjar framkvæmdir eða einhverja fasta hluti, áður en ríkisstj. reynir að beita gengislækkunarvopninu að nýju. Með þessari lagabreytingu og þeirri aðferð, sem ríkisstj. beitti sumarið 1961, hefur hún vakið stórfelldan gengislækkunarótta og menn þess vegna verið svo að segja á stöðugum flótta með peningana og verið að reyna að koma þeim í eitthvað annað en eiga þá, t.d. jafnvel í bíla, eins og ljóst hefur orðið á þessu ári.

Ég held, að eitt hið nauðsynlegasta, sem þurfi að gera til að fá bót á þeim vanda, sem nú er glímt við í efnahagsmálunum, sé að vinna að því að vekja aftur aukið traust til gjaldmiðilsins. Að sjálfsögðu þarf ýmsar ráðstafanir að gera í þeim efnum, en ég hygg, að sú ráðstöfun sé ekki veigaminnst, að sú breyting verði gerð á skráningu gjaldmiðilsins, að menn óttist gengislækkanir minna en nú á sér stað. Ég hygg, að meðan gengisskráningarvaldið er í höndum Seðlabankans og ríkisstj, og þessir aðilar geta breytt genginu svo að segja hvenær sem þeim þóknast, þá verði ríkjandi meiri ótti við nýtt gengisfall heldur en ella. Ég hygg, að það skapi meira öryggi í þessum efnum og meiri tiltrú almennings til krónunnar, ef gengisskráningarvaldið verður aftur lagt í hendur Alþingis, eins og áður var, því að það er öllum ljóst, að það er miklu torveldara fyrir valdhafana að knýja fram gengisbreytingar, þegar þeir þurfa áður að ræða málið hér á Alþingi, en þegar þeir geta aðeins gert það með því að gefa seðlabankastjórunum fyrirskipun um að beita gengisskráningarvaldinu. Í samræmi við þetta höfum við flm. lagt þetta frv. fram, en aðalefni þess er það, að gengisskráningarvaldið verði aftur fært í fyrra horf, þ.e. að ekki sé hægt að breyta skráningu krónunnar nema að fengnu samþykki Alþingis, en það verði fellt niður, sem var tekið upp með brbl. sumarið 1981, að Seðlabankinn og ríkisstj. geti gert þetta. upp á sitt eindæmi og án þess að' spyrja Alþingi nokkuð ráða um það, hvað skuli gert í þessum efnum. Ég er sannfærður um, að ef þessi breyting yrði gerð, þá mundi hún hjálpa til þess að endurvekja það traust til krónunnar, sem okkur er nauðsynlegt að vekja áð nýju. Þó að ég viðurkenni að sjálfsögðu, að ýmsar fleiri ráðstafanir þurfi að gera og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst þá að breyta alveg um stjórnarstefnu, þá álit ég, að þetta sé eitt af þeim ráðum, sem beita þurfi til þess að skapa aukið traust til íslenzkrar krónu, það traust, sem fæst við það, að mönnum er ljóst, að ekkí er eins auðvelt að hrófla við gengi hennar og það er nú, meðan Seðlabankinn og ríkisstj. geta breytt gengi hennar svo að segja daglega, ef þeim þóknast að gera það.

Í þeim ræðum hæstv. ráðh., sem ég minntist á í upphafi máls míns, hefur það komið fram, að þeir eru ekki eins miklir gengislækkunarmenn í dag og þeir hafa verið áður, hvað lengi sem það stendur. Og þeir tala nú um það, sem þeir hafa ekki talað um áður, að nauðsynlegt kunni að vera að gera ráðstafanir til þess að tryggja gengi íslenzkrar krónu og þó sérstaklega til þess að auka tiltrú almennings til krónunnar. Ég vil vænta þess vegna þessarar stefnubreytingar hjá hæstv. ráðh., — hvað djúpt sem hún kann að rista og hvað lengi sem hún kann að standa, að þá verði hún til þess, að þeir líti öðrum augum á þetta frv. en þeir gerðu á seinasta þingi og það geti náðst samkomulag á milli hæstv. ríkisstj, og stjórnarandstæðinga um að gera þessa breytingu.

Hæstv. ríkisstj. talar mikið um það nú, að hún vilji hafa góða samvinnu við andstæðinga sína um þær aðgerðir, sem nauðsynlegt kunni að þurfa að gera í efnahagsmálum. Ég vona, að þau ummæli séu á fullkomnum heilindum byggð, og í trausti þess vil ég vænta, að það verði m.a. til þess í þessu máli; að þeir taki í framrétta hönd stjórnarandstæðinga til samkomulags og hjálpi til þess, að þetta frv. nái fram að ganga.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að þessu sinni að fara um þetta mál fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málið látið ganga til hv. fjhn.