28.10.1963
Neðri deild: 6. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

32. mál, áfengisvarnasjóður

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum urðu talsverðar umr. hér í d. um annað frv., sem snertir þau mál nokkuð. sem þetta frv. fjallar um. í þeim umr. var það m.a. rifjað upp, að á s.1. vori höfðu gerzt svo alvarlegir atburðir í sambandi við áfengisnautn unglinga í Þjórsárdal, að ríkisstj. hefði talið ástæðu til að skipa sérstaka nefnd til að íhuga það mál og skila um það sérstöku áliti. Í áliti þessarar nefndar kemur fram, að hún telur það heppilegt, að ýmis bönn séu aukin, en þó fyrst og fremst,,að meiri áherzla verði lögð á það að auka bindindisstarf og ýmislegt uppeldisstarf, sem væri líklegt til þess að vinna gegn áfengisnautn unglinga. Ég held, að af báðum þessum leiðum, sem að sjálfsögðu koma að meira eða minna leyti til greina, sé sú leiðin, sem leggur áherzlu á bindindisfræðsluna og uppeldisstarfið, enn þýðingarmeiri og vænlegri til árangurs. Það gildir hins vegar um hana, að hún verður ekki farin, svo að gagni sé, nema það sé séð fyrir fjármagni til þess að tryggja þær framkvæmdir, sem eru nauðsynlegar í því sambandi.

Þegar samið var frv. að þeim áfengislögum, sem nú eru í gildi, var gert ráð fyrir allviðtækum áfengisvörnum, og er sérstakur kafli í þeim lögum um áfengisvarnir, en við meðferð málsins hér á Alþingi var fellt niður það ákvæði í áfengisvarnakaflanum, sem ég tel að hafi verið veigamest, en það var ákvæði um það, að séð yrði fyrir fjármagni til þeirra áfengisvarna, sem lögin gera ráð fyrir.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir um áfengisvarnasjóð, er lagt til, eins og gert var upphaflega í áfengislagafrv., að viss hluti af tekjum áfengisverzlunar ríkisins verði lagður í sérstakan sjóð; er notaður sé til áfengisvarna eða til að styrkja áfengisvarnir. Þó er gert ráð fyrir því í þessu frv., að hlutverk sjóðsins verði víðtækara en gert var ráð fyrir í frv. um áfengislögin á sínum tíma: Þar var aðeins gert ráð fyrir því, að sjóðurinn styrkti áfengisvarnir og bindindisstarf, en hér er einnig lagt til, að sjóðurinn styrki aðra uppeldisstarfsemi, sem sé líkleg til þess að vinna. gegn áfengisnautn, eða æskulýðsstarfsemi, sem sé líkleg til þess að koma að sama gagni og bein bindindisstarfsemi.

Ég held, aðeins og málum er nú komið, sé nauðsynlegt að hafa slíka starfsemi víðtækari en upphaflega var gert ráð fyrir í áfengislagafrv.; þannig að það sé ekki aðeins nauðsynlegt að styrkja hina beinu bindindisstarfsemi, heldur líka hina óbeinu bindindisstarfsemi, þ.e. ýmsa æskulýðsstarfsemi, sem er líkleg til þess að vinna gegn áfengisnautn unglinga.

Ég minntist á það í sambandi við það frv., sem var hér til umr. fyrir nokkrum dögum og fjallaði um breytingar á áfengislögunum, að e.t.v. væri rétt að leysa, þetta mál þannig að taka þetta ákvæði að nýju, eins og upphaflega var ráð fyrir gert, upp í áfengislögin, og þess vegna vildi ég beina þeim tilmælum til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til athugunar, að hún athugi þá leið, en telji hún hana ekki heppilega; þá verði þetta frv. látið ganga fram. En hins vegar nær það alveg sama marki, ef sú leið verður farin að taka þau ákvæði, sem frv. fjallar um, beint upp í sjálf áfengislögin.

Vegna þeirra umr., sem fóru fram um áðurnefnt frv., sé ég ekki ástæðu til þess að segja hér öllu meira að sinni, en leyfi mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til allshn. og 2. umr.