16.03.1964
Neðri deild: 69. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

34. mál, áætlunarráð ríkisins

Einar Olgeirsson [frh.] :

Herra forseti. Ég hafði þar komið ræðu minni að athuga nokkuð um afstöðu Framsfl, til áætlunarbúskapar og heildarskipulagningar á atvinnulífinu. Það er máske alveg sérstök ástæða til þess að taka það nokkuð fyrir nú, vegna þess að miðstjórnarfundur Framsóknar hefur nú nýlega gert mjög mikla samþykkt í þessu efni, og það er ákaflega fróðlegt að fá hér yfirlýsingar um það, hvort eigi að taka þá samþykkt alvarlega eða ekki. Og það verður þess vegna í þessu sambandi að rifja nokkuð upp fyrir mönnum, ekki sízt með tilliti til þess, sem ýmsir af forustumönnum Framsóknar, bæði hv. 1. þm. Austf. og hv. 6. þm. Sunnl., hafa sagt, að vísu í Sþ., mn afstöðu Framsóknar í þessum efnum, því að það er náttúrlega alveg sérstaklega afgerandi að vita það og ekki sízt fyrir Alþb. og Alþfl., hver hin raunverulega afstaða Framsfl. er í þessum efnum.

Lengst af hefur ekki verið mikið hik á því, hvaða afstöðu Sjálfstfl. hefur tekið, eins og ég ræddi síðast. Hann hefur verið nokkuð einarður gegn þessu yfirleitt, þó að það sé nokkur breyting máske að verða þar á nú, en aftur á móti hefur afstaða Framsóknar verið vægast sagt mjög óákveðin, a.m.k. allmikill munur á orði og verki, og ég skal þá leyfa mér að byrja með því að athuga fyrst höfuðsamvinnuna milli Alþfl. og Framsóknar í þessum efnum.

Það var 1934, sem þessir flokkar mynduðu ríkisstj., og Alþfl. hafði við þær kosningar, sem lögðu grundvöllinn að þeirri ríkisstj., lagt fram sem aðalmál sitt kröfuna um íslenzka 4 ára áætlun, sem varð raunverulega aðalkosningaplagg þeirra kosninga og átti að verða grundvöllurinn að allri framkvæmdinni, að svo miklu leyti sem Alþfl. gæti við það ráðið á næsta tímabili að hrinda í framkvæmd atvinnurekstri og framleiðslu eftir nákvæmri áætlun, sem gerð væri til 4 ára, sem þá átti að útrýma atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar. Framsfl. fékk þá í fyrsta skipti alvarlegt tækifæri til þess að sýna heilindi sín í þessum efnum. Það, sem gerðist, eftir að vinstri stjórnin þá var mynduð, stjórn Alþfl. og Framsóknar, stjórn hinna vinnandi stétta, eins og hún var almennt kölluð, var, að sett var nefnd, skipulagsnefnd atvinnumála, sem átti að vinna að þessum efnum. Sú nefnd vann mjög mikið og gott starf að einu leyti. Hún tók fyrir einhverja beztu þjóðhagslega rannsókn, sem tekin hefur verið fyrir í íslenzku þjóðlífi, eða a.m.k. hvað snerti efnahagslíf landsins, og birti í þeirri bók, sem kölluð hefur verið Rauðka, skýrsla frá skipulagsnefnd atvinnumála. Þessi nefnd útbjó líka allmargar till. og heil frv., en það, sem sýndi sig í afstöðu Framsóknar þau 3—4 ár, sem þessi samvinna stóð, var, að Framsókn var að vísu með því, að þessi nefnd fengi að lifa, Sjálfstfl. tók þá ekki þátt í henni, en Framsfl. var á móti því að framkvæma nokkurn skapaðan hlut af því, sem þessi n. gerði, og þetta var á einhverju erfiðasta tímabili, sem yfir Ísland hefur gengið, og þegar þörfin á skipulögðum atvinnurekstri og heildaráætlun um þjóðarbúskapinn var nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr. Framsfl. lofaði mönnum svo að segja að vinna í n., en hann drap allt, sem n. lagði til. M.ö.o.: hafi Framsfl. að einhverju leyti verið með þeirri hugsun, sem þarna var lögð til grundvallar, gerði hann allt til þess að drepa þá hugsjón í framkvæmd. Og það er engum efa bundið, að það, hvernig Framsfl. lék Alþfl. í þeirri stjórnarsamvinnu, varð Alþfl. til pólitískra óheilla. Hann hefur raunverulega aldrei borið sitt barr síðan . Hann treysti auðsjáanlega á það að fá að reka allróttæka pólitík einmitt í þeim efnum að koma á heildaráætlunum í þjóðarbúskapnum. Það fékk hann ekki. Hann varð að standa uppi með nál. eitt og engar aðgerðir. Og þetta olli m.a. alveg sérstaklega því, að Alþfl. síðan tapaði í næstu kosningum. Sem sé vegna þess, að þarna treysti verkalýðsflokkur á samvinnu Framsóknar um heildaráætlun í þjóðarbúskapnum og Framsókn drap þetta niður, hefur meira eða minna slíkt samstaða við Framsókn verið ómögulegt síðan. Samt sem áður var vitnað; bæði af hv. 6. þm. Sunnl. í ræðu, sem hann hélt hér í Sþ., og af hv. 1. þm. Austf. í fyrirspurnatíma hér nýlega, í þetta samstarf um Rauðku sem eina sönnun fyrir því, að Framsfl. væri fylgjandi heildaráætlun í þjóðarbúskapnum.

Þá gerðist næsti hlutur. Það var, þegar fjárhagsráð var sett á laggirnar 1947. Í því fjárhagsráði var kveðið mjög skarplega að orði í lögunum sjálfum, vegna þess að þau lög voru að mestu leyti sniðin eftir 1. um nýbyggingarráð hvað snerti fyrstu greinarnar, og þótti þá svo sjálfsagt vegna þess, hve vel hafði tekizt um ýmsa hluti á nýsköpunartímunum, að taka nokkuð af slíkum áætlunarbúskaparhugmyndum upp í lagafrv. um fjárhagsráð. Því var þá lýst yfir af hálfu formanns Alþfl., þáv. forsrh., Stefáns Jóh. Stefánssonar, að það væri meining Alþfl., að nú yrði framkvæmd heildaráætlun á þjóðarbúskapnum, og fjárhagsráð átti að vera tæki til þess. Hvernig varð svo fjárhagsráð í reyndinni? Fjárhagsráð útbjó aldrei neina heildaráætlun. Fjárhagsráð varð í heildinni einhver sú versta og óvinsælasta haftastofnun, sem á fót hefur verið sett á Íslandi, og ekki sízt fyrir áhrif Framsfl., þó að ég búist kannske við, að bæði Framsfl. og Sjálfstfl. eigi þar mjög mikla sök á. En heildaráætlunin um þjóðlífið og annað slíkt var aldrei nokkurn tíma gerð af þeirri stofnun. þannig að þegar til fjárhagsráðs kom og þess tímabils, sýndi það sig, að að svo miklu leyti sem Framsfl. hefur haft einhverjar hugmyndir um að framkvæma heildaráætlun um þjóðarbúskap, þá hefur hann snúið því yfir í algera andstæðu þess í framkvæmd og skapað, eins og ég sagði áðan, einhverja harðvítugustu haftastofnun, sem til hefur verið á Íslandi, stofnun, sem meira að segja var látin ganga svo langt að takmarka íbúðabyggingar á Íslandi, þannig að menn mættu ekki byggja hús yfir sig nema fá leyfi hjá nefnd hér í Reykjavík, og er það í fyrsta og eina skipti í sögu Íslands , sem slíkt hefur verið gert.

Þá hafa þeir fulltrúar Framsfl., sem ég minntist á áðan, minnzt á Framkvæmdabankann sem eitt af því, sem hafi verið að nokkru leyti í anda Framsfl. um framkvæmd á heildaráætlun um þjóðarbúskap. Ég þarf ekki að minnast á störf Framkvæmdabankans í því efni. Hann hefur aldrei búið til neina heildaráætlun og aldrei látið vinna að neinni heildaráætlun, og það, sem hann hefur slett sér fram í atvinnulífið, hefur ekki verið sérstaklega heillavænlegt, hvorki andabú né glerhallir, þannig að ég bjóst nú satt að segja við, að Framsfl. og jafnvel formanni hans mundi þykja vænst að minnast sem minnst á hugsjónina um heildaráætlunina um þjóðarbúskap hvað Framkvæmdabankann snertir.

Síðan kom vinstri stjórnin. Þegar vinstri stjórnin var sett á laggirnar, var það samþykkt í stjórnarsamningnum, að gera skyldi heildaráætlun um þjóðarbúskapinn. Það var samþykkt og það var ákveðið. Og eins og ég gat hér um nýlega og skal ekki fara að endurtaka, var gerð tilraun til þess í sambandi við endurskipulagningu bankanna að framkvæma þennan hlut og framkvæma hann á mjög skynsamlegan hátt með því, að áætlunarráðið væri um leið yfirstjórn Seðlabankans, og þar með hefði verið útrýmt þeim andstæðum, sem að miklu leyti háðu nýbyggingarráði á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, þegar nýbyggingarráð og nýsköpunarstjórnin urðu að eiga í sífelldu höggi við afturhaldið í Landsbankanum um að fá fram þá hluti, sem voru nauðsynlegir, þannig að það varð að berjast innan ríkisvaldsins á milli þeirrar nefndar, sem átti sérstaklega að sjá um skipulagningu um uppbygginguna, og þess afturhaldssama skrifstofuvalds, sem drottnaði þá í Landsbankanum, sem þá um leið var seðlabanki og setti sífellt hindranir í veginn fyrir allar þær framkvæmdir, sem þá átti að gera, þannig að það varð lengi og harðvituglega að berjast til þess að fá í gegn, eins og kunnugt er, stofnlánadeild sjávarútvegsins. Þess vegna fór það svo, að þegar vinstri stjórnin var sett á laggirnar, var strax gerð tilraun til þess, einmitt við umskipulagningu bankamálanna, að knýja það fram, að þarna yrði loforð í stjórnarsamningnum um heildaráætlun í þjóðarbúskap sett í framkvæmd.

Eins og ég gat um hér áður í þessum ræðustól, kom Framsfl. í veg fyrir þetta. Alþfl. og Alþb. voru sammála og þeirra menn í þeirri nefnd sammála um frv., sem sent var til ríkisstj. En eftir því sem þáv. hæstv. fjmrh., núv. hv. 1. þm. Austf., upplýsti hér nýlega, mun hann einu sinni varla nokkurn tíma hafa lesið þetta, hvað þá meir. Það var líka gefið, að það voru tveir aðrir menn, sem þá réðu og þá dikteruðu, hvað gera skyldi. Það voru Vilhjálmur Þór og Jónas Haralz og sérstaklega í bankamálunum Vilhjálmur Þór, og veit ég ekki, hvort Framsfl. reiknar það sér til gæfu að hafa frekar farið að þeim till., sem hann gerði í þeim málum, og skapað það hálfgerða einræðisskipulag, sem þá var komið á í bankamálunum, heldur en ef hann hefði farið að till. Alþb. og Alþfl. Það var einmitt eitt af því, sem varð vinstri stjórninni til ógæfu, að hún skyldi aldrei móta almennilega efnahagspólitík og aldrei skapa sér heildaryfirlit yfir þjóðarbúskapinn og reyna að gera eitthvað til þess að stjórna þjóðarbúskapnum sem heild, enda var það líka greinilegt á öllum sviðum, þar sem eitthvað var farið inn á þá hluti, sem tengdir voru við áætlunarbúskap, eins og t.d. till. um ríkisrekstur á olíusölunni, að þá var eins og komið væri við hjartað í Framsókn, og mátti ekki minnast á neitt slíkt. M.ö.o.: í vinstri stjórninni hafði Framsfl. tækifæri til þess að framkvæma heildaráætlun í þjóðarbúskap, og hann hafði bundizt heitum um það í stjórnarsamningnum að gera þetta. Hann sveikst um að gera þetta og neitaði þessu allan tímann.

Hvað hefur svo gerzt nú? Nú eru liðin 8 ár síðan. Nú er Framsfl. í stjórnarandstöðu og er búinn að vera það í ein 3-4 ár. Og nú kemur stjórnarfundur Framsóknar saman, krefst þingrofs og kosninga og gefur út heilmikla stjórnmálaályktun um stórfelldar framkvæmdir í landinu. Og hvað segir í þeirri stjórnmálaályktun, með leyfi hæstv. forseta? Þar segir m.a.:

„Efnahagskerfið þarf að endurskoða frá rótum og skapa skilyrði fyrir skipulegum hagvexti í stað þess skipulagsleysis, sem nú ríkir“.

Síðan eru taldir upp ótal liðir hér í, og einn af þeim liðum, nr. 2, er svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Tekin verði upp ný og vísindaleg vinnubrögð við skipulagningu efnahagsþróunarinnar, m.a. með fullkominni áætlanagerð, sem miði að því að tryggja öran og skipulegan hagvöxt. Áætlanirnar skulu vera tvenns konar: Þjóðhagsáætlanir til langs tíma, sem leggja drögin að markmiðum og heildarstefnu, — slíkar áætlanir skal endurskoða á 5 ára fresti, — þ,jóðhagsáætlanir og framkvæmdaáætlanir til 5 ára í senn, sem staðfestar séu af Alþingi“.

Síðan segir í 6. liðnum:

„Fundurinn leggur áherzlu á, að hætta verður handahófinu í fjárfestingarmálum. Ríkisvaldinu ber að tryggja það með beinum, tímabundnum takmörkunum á þeim fjárfestingum, sem helzt geta beðið, að nauðsynlegar framkvæmdir í þágu alþjóðar geti setið í fyrirrúmi.“

Það er yfirleitt mjög mikið af viti í þessari samþykkt, enda í algerri mótsetningu við allan praxís Framsfl, á síðustu áratugum. Það er mjög mikið t.d. af því þarna einmitt, sem er í þessu frv. til l, um áætlunarráð ríkisins, sem hér liggur fyrir, heildaráætlanir til samsvarandi tíma og annað slíkt. Og nú vil ég spyrja, og við þessar umr. hafa hv. framsóknarmenn tækifæri til þess að svara því og færa þar sannanir á sitt mál, þannig að trúa megi: Meinar Framsfl, það, sem hann segir í þessum efnum? Og hvaða sannanir vill hann færa fyrir því, að þetta sé tilgangur hans? Er hann algerlega horfinn frá þeirri stefnu, sem hann hefur fylgt fram að þessu í praxís? Má nú loksins í fyrsta skipti byrja að trúa honum ? Á það nú að verða eitthvað meira en bara yfirlýsing, á það nú að verða framkvæmd?

Þetta eru spurningar, sem eðlilega hljóta að vekja mjög mikinn áhuga hjá öllum vinstri mönnum í landinu, hvort nokkuð sé að marka það, sem nú hefur verið samþykkt, hvort það sé eitt kosningaplaggið enn þá, til þess að veifa framan í menn fyrir kosningar. Ég vil t.d. minna á, að það var margt skynsamlegt í kosningaáætlun Hræðslubandalagsins 1956. Það er mjög margt skynsamlegt þar, og mætti kannske lesa hana upp til þess að minna á, hvað það var, sem Framsfl. þá þóttist vinna að. En hvernig fór um framkvæmdirnar?

Það er vitað mál, að ef menn ætla eitthvað að ráða við það stjórnleysi, sem einkennir auðvaldsskipulagið, sem einkennir kapítalismann, verða menn að fara inn á það að taka heildarstjórn á þjóðarbúskapnum. Hvort sem menn gera það á þann máta að ganga svo róttækt til verka að afnema kapítalismann sjálfan og fara að koma á sósialisma eða hvort menn reyna innan þess kapítalíska skipulags að koma við eins mikilli heildarstjórn og hægt er, og það er hægt að mjög miklu leyti í svona litlu landi eins og okkar, þá er það alveg óhjákvæmilegt og það er ekki hægt að stjórna nútímaþjóðfélagi af neinu viti nema gripa til þessara aðferða. Þess vegna vil ég vonast til þess, að það fáist í þessari umr. skýrar yfirlýsingar og sannanir, sem taka megi gildar fyrir því, að hér sé um algera stefnubreytingu að ræða hjá Framsókn og það sé ekki bara ein hræsnin enn þá, ein yfirlýsingin enn þá fyrir hugsanlegar kosningar, til þess að reyna að tjalda vinstri stefnu fyrir kosningar og framkvæma þá hægri stefnu eftir kosningar.

Ég tók að vísu eftir því í sambandi við það, þegar farið var inn á hin einstöku atriði um, hvað vinna skyldi; við skulum segja VII. kaflann um landbúnaðinn, VIII. kaflann um sjávarútveginn, að það var eitt atriði, sem var algerlega sleppt úr og hefur þó ekki haft neina smáræðis þýðingu á Íslandi. Það var verzlunin. Og ef framsóknarmenn tækju til máls við þessa umr., vildi ég mjög gjarnan fá yfirlýsingar frá þeim um, hvað þeir hugsi sér í sambandi við verzlunina. Það er alveg rétt, að það er nauðsyn á skipulagningu í sambandi við landbúnaðinn og eflingu og skipulagningu í sambandi við sjávarútveg. En það, sem er búið að vera meinið í íslenzku þjóðskipulagi og var sannað strax með gömlu Rauðka frá 1934, var styrkleikur verzlunarauðvaldsins á Íslandi og hve hlutfallslega allt of mikið af fjármagni þjóðarinnar væri fest í verzluninni. Ég býst við, að ýmsir þeir hv. þm., sem hafa á annað borð kynnt sér þessi mál, muni enn þá, hvernig tölurnar voru þá. Allt íslenzkt fjármagn í fiskiskipaflotanum var 22 millj. Allt íslenzkt fjármagn í verzluninni var 100 millj. Það var fimmfalt auðmagn í verzluninni miðað við það, sem var í sjávarútveginum.

Það hefur að vísu tekizt, án þess að Framsfl. hafi komið þar sérstaklega mikið nærri, að breyta þessum hlutföllum. Það hefur tekizt með áhrifum Sósfl. og Alþb., þegar þeir tveir flokkar hafa verið í ríkisstj., nýsköpunarstjórninni og vinstri stjórninni, að knýja fram þá stórfelldu aukningu á sjávarútveginum, sem framkvæmd hefur verið á Íslandi og einkennir allt tímabilið eftir stríðið, nema það tímabil, þegar Framsfl. og Sjálfstfl. sátu í ríkisstj. saman 1950—1956.

Því var slegið föstu 1934—1936, að höfuðbreytingin, sem gera þyrfti á íslenzku þjóðskipulagi, væri, að fjármagnið yrði að flytjast úr verzluninni og í framleiðsluna, og við þetta hefur verið barizt, hvenær sem verkalýðurinn hefur getað látið til sín taka um áhrif á Íslandi um ríkisstj. Engu að síður er það enn sem komið er þannig, — það eru ekki til eins góðar skýrslur og voru 1936, þrátt fyrir allt, — að fjármagnið í verzluninni er miklu meira en í sjávarútveginum og óskipulegra, og það verzlunarauðvald, sem þar drottnar, er enn þá frekara en það hefur verið nokkru sinni fyrr, eins og sést bezt á því, að ráðstafanir voru gerðar nú fyrir síðustu kosningar að veita þessu verzlunarauðvaldi stórkostleg lán erlendis, leyfa því að taka lán erlendis, leyfa því að vera frekara gagnvart ríkisbönkunum og leyfa því að eyða þess vegna meiru af lánsmöguleikum þjóðarinnar og fjármagni hennar en góðu hófi gegndi og setja raunverulega allt atvinnulif hennar meira eða minna úr skorðum með því móti. M.ö.o.: það er jafnbrýnt í dag og var fyrir 25-30 árum að draga fjármagnið út úr verzluninni og minnka gróðamöguleikana í verzluninni, til þess að fjármagnið leiti ekki þangað, því að það eru ekki aðrir möguleikar til að stjórna þróun fjármagnsins fyrir utan bein ríkisafskipti og þjóðnýtingu í kapítalísku skipulagi en að draga úr gróðanum á einhverju sviði.

Það er gefið, að svo framarlega sem það fer að verða lítt gróðavænlegt að stunda verzlun á Íslandi, hætta menn að fást við það, og það er það, sem þarf. En hvernig hefur þetta verið í praxis undanfarið? Það hefur verið þannig, að þegar Sjálfstfl. og Framsfl. hafa myndað stjórn saman, hefur það verið einmitt stjórn verzlunarauðvaldsins á Íslandi, ekki aðeins á mótí verkalýðnum, heldur sérstaklega á móti sjávarútvegi og jafnvel bændum, eins og hörmungatímabilið 1950—1956 að miklu leyti sýndi, þegar atvinnuleysi og vandræði voru um allt land og það var eitt aðalkeppikefli bænda og sona þeirra að mega komast í vinnu á Keflavíkurflugvöll, sem var úthlutað með sérstökum leyfum af erindrekum Frams. og Sjálfstfl.

Ef nú ætti að reyna að taka upp heildaráætlun um íslenzkan þjóðarbúskap, verður eitt höfuðinnihald hennar að vera það að draga úr verzluninni, og það verður ekki gert á vissum sviðum nema með þjóðnýtingu. Tökum olíuna. Mér þætti gott að heyra það í þessum umr., ef framsóknarmenn tala hér, hvort þeir séu reiðubúnir að ganga inn á þjóðnýtingu á dreifingarkerfinu á olíunni, í staðinn fyrir að viðhalda í fyrsta lagi stjórnleysi kapítalismans á þessu sviði með því að hafa þrefalt dreifingarkerfi í landinu, en koma svo á í öðru lagi einokunarkerfi ekta einokunarauðvalds með því að láta þessa þrjá aðila koma sér saman um verðlagið á olíunni í landinu. Það hefur verið lengi eitthvert svið, sem sjálfsagðast var að þjóðnýta, en einmitt þessir tveir fésýsluflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa sérstaklega haldið vörð um. Og Framsfl. neitaði í vinstri stjórninni að vera með slíkri þjóðnýtingu. Mér þætti vænt um að heyra, hvort hann vill vera með henni núna. Ég hélt satt að segja, að hann mundi vera búinn að fá nóga skömm af afskiptum sinum af olíunni, þannig að hann ætti að vera til í það að fallast nú á að láta þjóðnýta olíudreifinguna. Sama gildir á fjölmörgum sviðum verzlunarinnar og fjármálastarfseminnar: Þarna þarf að verða alger breyting á, og það væri ákaflega gott að geta einmitt rætt þá hluti og heyrt afstöðu Framsóknar í þessu sambandi.

Ég tók einmitt þessi mál, hvaða afstöðu flokkarnir hefðu tekið um þetta, til þess að hægt væri að ganga úr nokkrum skugga um það, hvaða stefna það væri, sem sérstaklega Framsfl. vildi nú fylgja í þessum efnum.

Þá er það viðvíkjandi Alþfl. Alþfl. hefur alltaf verið yfirlýstur með heildaráætlun um þjóðarbúskapinn, og hann hefur venjulega í fjhn., þegar þetta frv. mitt hefur farið þangað, staðið með því. Hins vegar man ég eftir því, að hæstv. núv. viðskmrh. gaf þá yfirlýsingu fyrir 1–2 árum, einmitt þegar þetta frv. var til umr., að ég væri nú nokkuð seinn með þetta allt saman og skildi nokkuð lítið í þessu öllu saman, því að nú væri einmitt hæstv. ríkisstj. sjálf að framkvæma þetta, sem ég hef nú verið að berjast fyrir og Alþb. og Sósfl. áður í áratugi. Og hæstv. viðskmrh., því miður er hann ekki hér inni núna, hann hélt um það mjög fagra ræðu, hvað þetta hefði verið óttalega leiðinlegt með mig, ég hefði verið að klöngrast þarna í ógöngunum og tala um þessa hluti, og á meðan hefðu þessir duglegu, framsýnu, stórhuga menn í ríkisstj. verið að framkvæma þetta, og það eru ein 2 ár síðan. Og nú þætti mér vænt um, ef hæstv. viðskmrh. væri einhvers staðar nærri, að heyra, hvernig hann litur á þetta nú. Þetta var sem sagt fyrir kosningar, og þá var þjóðhagsáætlun ríkisstj, á döfinni. Ef ég man rétt, var að vísu ekki búið að útbýta henni prentaðri á meðal okkar þá, en hún var í undirbúningi, og hún átti að verða voðalega fallegt plagg fyrir kosningar. Svo loksins kom hún, og um hvað var hún þá? Var hún heildaráætlun um þjóðarbúskap? Nei, hún var engin heildaráætlun um þjóðarbúskap. í hugum þeirra manna, sem þá þjóðhagsáætlum hafa gert, var sem sé skipt í tvennt. Annars vegar var ríkisbúskapurinn, hins vegar var búskapur einkafyrirtækjanna og einstaklinganna. Ríkisbúskapurinn er að vísu allstór á Íslandi,hann er um 30%, ef maður telur bæjar- og samvinnubúskapinn þar með, þ.e. þann búskap, sem raunverulega er rekinn af almenningi. En þó var nú þetta í áætluninni fyrst og fremst takmarkað við það, sem ríkið sjálft hefði, en minna það, sem bæir og samvinnuhreyfingin hefði, þannig að þetta var raunverulega ekki nema smámynd af þjóðhagsáætlun. Ef hæstv. viðskmrh. hefði kynnt sér vel t.d. þjóðhagsáætlun Norðmanna, sem nú í 20 ár hefur fylgt þeirra fjárlfrv. sem stórt og merkilegt plagg, sem við höfum líka ýmsir fengið hér alltaf, hefði hann séð muninn þar á, því að þar var rætt um alla þróun þjóðarbúskaparins í Noregi.

Hæstv, viðskmrh. hefur ekki fengizt til umr. um þetta mál, síðan þessi þjóðhagsáætlun kom út. En hvað hefur gerzt í þessu máli síðan ? Jú, þessi þjóðhagsáætlun kom þarna, henni var hampað mikið fyrir kosningar, og svo komu kosningarnar og svo er nokkuð liðið síðan, og hvað gerðist á þessu þingi ? Jú, það gerðist á þessu þingi, að það voru sett lög, þar sem einni litillí mgr. var bætt inn í um, að ríkisstj. væri heimilt að draga úr framkvæmdum, sem ákveðnar hefðu verið með fjárl., og jafnvel að hvetja einstaklinga til þess að draga úr framkvæmdum. Hvað þýddi þetta raunverulega? Það þýddi í fyrsta lagi, að þjóðhagsáætlunin, áætlunin um ríkisbúskapinn, var eyðilögð í framkvæmd. Það átti sem sé að gera gerbreytingar á henni. Það þýddi í öðru lagi, að hæstv. ríkisstj. áleit þörf á því, að ríkið færi að skipta sér af búskap einstaklinganna með því móti að fara að draga úr framkvæmdum þeirra. Hvað þýðir þetta þá raunverulega? Þetta þýðir það, að hæstv. ríkisstj. sér, að það er nauðsynlegt að skipta sér af þessum hlutum, það er nauðsynlegt að skapa sér einhverja heildarmynd um þessa hluti, það er nauðsynlegt, að ríkið hafi afskipti af efnahagslífinu og allri þess þróun. Það er hægt að hafa slík afskipti á neikvæðan hátt með því að vera að skera niður og skera niður. Það er óviturlegasti mátinn, sem slík afskipti eru framkvæmd á. Það er hægt að hafa viturleg afskipti af þessu. Það er með því að hugsa um þessa hluti fyrir fram, reyna að skipuleggja þá og skapa sér einhverja hugmynd um, hvernig þetta verði bezt fyrir almenning í landinu. En þá verður það að ná jafnt yfir einkabúskapinn sem ríkisbúskapinn og samvinnubúskapinn.

Ég skal taka dæmi: Það hefur sýnt sig nú á þessu siðasta ári, að það er að skapast atvinnuleysi í landinu. Það er komið tilfinnanlegt atvinnuleysi í Norðurlandi vestra, og það liggur við atvinnuleysi víðar þrátt fyrir þær einmuna vertíðir, sem við höfum haft á vissum svæðum landsins. Hvað var nú eðlilegt að gera, ef það hefði verið hugsað um einhverja þjóðhagsáætlun í þessum efnum? Það var eðlilegt að ráðstafa staðsetningu atvinnutækja frá því sjónarmiði, hvar þörf væri á þeim. Nýlega var t.d. verið að koma upp sokkaverksmiðju, nælonsokkaverksmiðju, held ég, á Akranesi. Á Akranesi hefur yfirleitt verið allmikil vinna og frekar hörgull á að fá þar fólk. Nælonsokkar eru það dýr vara, að flutningskostnaður hefur þar hverfandi lítið að segja. Líklega er aðeins þörf fyrir eina nælonsokkaverksmiðju á Íslandi,þannig að það mundi ekki vera praktískt, að farið væri að setja upp fleiri. Ein nælonsokkaverksmiðja getur líklega, annaðhvort með einum eða tveim mönnum, afkastað öllum þeim nælonsokkum, sem Ísland þarf. Það hefði verið skynsamlegt að setja slíka verksmiðju niður — við skulum segja á Blönduósi, Skagaströnd eða einhverjum af þeim stöðum, þar sem nú er atvinnuleysi, fólkið verður að flýja burt, kannske hvar sem vera skal.

M.ö.o.: það er hægt að hugsa um það fyrir fram, þegar verið er að setja niður svo og svo mikið af iðngreinum, hvar sé praktískast að gera þetta, bæði út frá því, hvaða flutningskostnað þessar afurðir þola og út frá því, hvar heppilegast er að hagnýta vinnuafl og annað slíkt. Þetta er ekki hægt nema menn hafi heildaryfirlit yfir allt saman, sem á að gera, einkabúskapinn, ríkisbúskapinn, samvinnubúskapinn og annað slíkt, og ríkið hafi aðstöðu til þess að geta fyrir fram ráðlagt þeim aðilum og haft áhrif í gegnum fjármálakerfið, gegnum bankana og annað slíkt að tryggja það að koma þessu upp, þannig að þjóðhagslega séð sé þetta sem bezt. Það er talað hér öll ósköp um hættu á flótta frá dreifbýlinu. En það er einmitt ekki hægt, eins og ég ræddi í fyrri hluta ræðu minnar, að stjórna þessum hlutum öðruvísi en með svona heildaráætlun. Þetta er hlutur, sem Alþfl. ætti að athuga. Ég held, að hæstv. viðskmrh., ef hann hefur gefið sér tíma til þess að hugsa um þetta mál frá því fyrir 12 árum, hljóti að hafa komizt að þeirri niðurstöðu, og hann ætti raunar fyrir löngu að hafa verið kominn að henni sem hagfræðingur, að þjóðhagsáætlun, sem er bundin við ríkisbúskapinn einan, er svo að segja gagnslaus, hún er raunverulega aðeins nokkuð, sem menn hvort sem er eiga að gera sér hugmyndir um í sambandi við fjárl., hún er bara framkvæmd á þeirri hugsun, sem á að liggja til grundvallar fyrir fjárl. En það er ekkert raunverulegt gagn að henni, fyrr en hún er hluti í heildaráætlun um allan þjóðarbúskapinn. Og það sýnir sig núna, að einkaauðvaldið á Íslandi mun ekki sjá um að útrýma atvinnuleysinu á þeim stöðum, þar sem það er að myndast. Það gerði það ekki á tímabilinu 1950-1956, þegar Sjálfstfl. og Framsfl. stjórnuðu. Þá var atvinnuleysi og víða neyð úti um allt land. Þá var líka verið með lofgerðir um einkabúskapinn. Marshall-stefnan átti svo sem að skapa það. Framkvæmdabankinn átti svo sem að sjá um það. En við sáum bara, hvað kom út úr því. Við munum eftir hungurgöngunum hingað til Reykjavíkur þá. Við munum eftir ástandinu á Bíldudal. Við eigum á hættu, að sama ástandið skapist aftur, að vísu verði kannske Suðvesturland undantekning, eins og það var líka þá, nema rétt á árunum 1951-1952, þannig að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið um þessa hluti, og Alþfl., ef hann hefur gengið með einhverjar tálvonir í sambandi við þá þjóðhagsáætlun, sem skellt var út fyrir síðustu kosningar, ætti að vera búinn að átta sig nú. Þess vegna vildi ég rekja þessa afstöðu hinna pólitísku flokka til þessa máls á undanförnum áratugum, til þess að sýna fram á, að sá þeirra, sem hefur verið næstur því að fylgja slíku, eins og Alþfl., þarf að gera alvöru úr því núna. Hann þarf að gera alvöru úr því, ef hann ætlar ekki að láta fara illa fyrir sér.

Framsfl., sem stundum í orði hefur verið hlynntur því að koma upp nefndum um þetta og jafnvel lagt það stundum til sjálfur, en alltaf svikizt í framkvæmd um að vinna að þessu og það herfilegast, þegar hann hafði bezt tækifæri til þess í vinstri stjórninni, þarf að segja til um, hvort hann meinar það, sem hann segir nú, eða ekki, og af hverju hann er þá horfinn að þeim brigðum við þessa stefnu, sem hann áður fylgdi. Og Sjálfstfl. þarf að átta sig á því, að það er ekki til neins lengur að vera að prédika þessa svokölluðu frjálsu samkeppni, hún er dauð, hún hefur raunverulega ekki verið lifandi á þessari öld, og sjálf bæjarstjórn Reykjavíkur fær meira að segja sannanirnar á borðið fyrir sig í tilboðinu frá olíufélögunum.

Og ég get sagt ykkur aðra sögu í viðbót, sem gerðist hérna nýlega, þegar verið var að gefa frjálsa álagningu á nokkrum vörum í Reykjavík. Það kom kona hér í búð og spurði einmitt um eina af þeim vörum, sem frjáls álagning hafði verið gefin á, hvað hún kostaði. Jú, það var sama verð. Hún var alveg hissa, hvernig stæði á þessu, hvort það væri ekki orðin frjáls álagning á því, hvort það væri ekki hækkað. Nei, var svarið, þeir eru ekki búnir að ákveða hækkunina. Hverjir þeir? Er þetta ekki frjálst? Hefur verðlagsnefndin nokkuð með það að gera? Nei, en kaupmannasamtökin eru ekki búin að því. M.ö.o.: álagningin er ákveðin, en í stað þess að vera ákveðin á Skólavörðustignum,er hún bara ákveðin af samtökum kaupmannanna.

Það er ekki til neins að vera með þessa blekkingu við okkur. Við vitum alveg hreint, hvað er að gerast þarna. Þessi frjálsa samkeppni er ekki til. Og þegar að þessari frjálsu samkeppni kemur, jú, hún getur einstaka sinnum orðið að gagni í smásöludreifingu, sérstaklega ef kaupfélög geta verið sæmilega sterk að fást við kaupmenn og ef þau þá ekki fara þá leið að mynda t.d. kompaní um olíu með kaupmönnunum og mynda svo einokunarhringa á þann máta, — en þegar að framleiðslunni kemur, er þarna venjulega alger einokun, og það, sem á sér svo stað hjá okkur þar að auki, er að við höfum stjórnleysi í framleiðslunni og einokun ofan á stjórnleysið. Við þurfum ekki að líta nema á súkkulaðigerðirnar eða eitthvað annað slíkt hérna á Íslandi eða smjörlíkisgerðirnar, halda allri yfirbyggingunni, öllum kostnaðinum, láta fólkið borga, en fara kannske, eins og í smjörlíkisgerðunum, að framleiða allt saman í einni, eitt og sama smjörlíki undir fjórum mismunandi merkjum. M.ö.o.: það dugir ekki fyrir stjórnmálaflokkana á Íslandi að berja hausnum lengur við múrinn um það að ætla að fara að framkvæma hér stefnu, sem er dauð fyrir b0 árum. Það heimtar hvert einasta nútímaþjóðfélag, að tekin sé upp meira eða minna heildaráætlun í þjóðarbúskapnum, og þau ríki, sem ekki gera það, við skulum segja eins og Bandaríkin, standa frammi fyrir því að eiga í hreinustu vandræðum með efnahagslíf sitt, standa frammi fyrir því, að 5-6 millj. manna séu atvinnulausar þar, að þorrinn af ungu fólki, sem útskrifast úr skólunum, fái hvergi vinnu út af stjórnleysinu í framleiðslunni. Ef menn ætla að ráða við kapítalismann að einhverju leyti, gera hann skárri en hann mundi vera, ef hann væri svo að segja óstjórnaður, engin væri stjórn á honum, verða menn að taka upp þessa aðferð. Ég legg áherzlu á þetta vegna þess, að ég er búinn að flytja þetta frv. það oft hér, að það hefði sannarlega átt einhvern tíma að geta komizt þannig til 2. umr., að það hefði sýnt sig, hvaða afstöðu menn þyrðu að taka til þess. Ég skal ekki fara út í þetta frv. ýtarlega, en ég skal aðeins minna á nokkur atriði í því út frá því, sem hér hefur verið rætt og allir þm. virðast vera sammála um að sé nauðsynlegt að framkvæma.

Lokasetningin í 3. gr. þessa frv. hljóðar svo: „Áætlunarráð skal og gera áætlanir um, hvar tækin skulu staðsett, og till. um byggingar, byggð og þróun og aðrar framkvæmdir í því sambandi“. Þetta var í l. um nýbyggingarráð í gamla daga, og í nýbyggingarráði voru þá útbúin heil plön um, hvernig byggja skyldi upp landsfjórðungana, hvernig byggja skyldi upp stóra bæi, einn á Snæfellsnesinu, einn stóran á Vestfjörðunum og aðra slíka, þ. e. hugsjónir, sem aldrei komust til framkvæmda, vegna þess að það var allt saman drepið, þegar ameríska auðvaldið fór að skipta sér af þjóðarbúskap okkar og þróun hans. Í sambandi við spurninguna um dreifbýlið og að tryggja líf þess er það óhjákvæmilegt, að þetta vald sé í höndum þess, sem drottnar yfir bankastarfseminni í landinu. Það er til lítils, eins og við höfum rætt hér um áður, að skipa eina smánefnd, láta hana hafa eitthvert samband við atvinnubótasjóðsstjórnina eða eitthvað þess háttar og reyna að fá einhverja smástyrki í þessu efni. Það er sjálf þróunin, sem þarf að breyta, og það er þróunin, sem þarf að stjórna. Það þarf að taka völdin af þessu peningavaldi, sem dregur allt þangað, sem það er fyrir, og ráðstafa því út frá hagsmunum þjóðfélagsins í heild, hvar þetta skuli vera.

Í 7. gr. er mælt fyrir um, hver skuli vera höfuðstefnan. Á fyrri hluta 10 ára tímabils, fyrri 5 ára áætlunin skuli vera fyrst og fremst miðuð við fullvinnslu sjávarafurðanna, það sem ég vil kalla iðnbyltingar í matvælaframleiðslunni á Íslandi. Það skuli þannig vera höfuðatriðið í þessu og á þeim tíma skuli hins vegar undirbúa, að hve miklu leyti við treystum okkur til þess að koma með iðnað í verulega stórum stíl, annan en þann, sem byggist á okkar eigin hráefnum. Ég vil því leggja höfuðáherzluna á, að úrvinnslan úr okkar eigin hráefnum á að vera höfuðatriði fyrir okkur. Þar vil ég taka jafnt úr sjávarútveginum sem landbúnaðinum, og ég álít vera mögulegt að skapa þar gerbyltingu í þessum efnum. Hvað snertir hins vegar, ef við viljum fara að vinna úr innfluttum hráefnum, — út af því, hvað stóriðjan er mikið á dagskrá nú, — vil ég taka það fram, að ég álít alveg rangt af okkur að stíla sérstaklega upp á eins og t.d. alúminíumverksmiðju, sem mundi þýða erlendan hring algerlega drottnandi í þessu. Ég þori ekkert að fullyrða í þessum efnum, hvað praktískast muni vera, en að mörgu leyti sýnist mér, að ef það er nauðsyn á því, t.d. eftir 5—10—15 ár, að fara að vinna úr útlendu hráefni á Íslandi, mundi það jafnvel fyrst og fremst vera olía, sem okkur væri heppilegast að vinna úr. Olían er það hráefni, sem er langþægilegast að flytja fyrir okkur, og olían er það hráefni nú, sem veldur mestri byltingu í öllum efnaiðnaði, þ.e. öllum kemískum iðnaði, þannig að það er jafnhægt að vinna úr henni sem hráefni þá hluti, sem væru notaðir t.d. í staðinn fyrir stál og annað slíkt, í byggingarefni og í það, sem notað er í staðinn fyrir vefnaðarvörur, þ.e. nælon, plast, allt mögulegt þess háttar. Olía virðist vera með þessari nýju vísindagrein, petrologi, eins og hún er kölluð, alveg undratæki til slíkrar hagnýtingar, enda sagði einn af höfuðvísindamönnunum í þeirri grein nýlega, þegar talað var um, hve mikil olía er notuð til brennslu, að það væri einhver sú ægilegasta sóun, sem ætti sér stað með verðmæti, og nefndi í því dæmi: Jú, vissulega væri líka hægt að framleiða hita t.d. með því að brenna peningaseðlum. — Ég skýt þessu nú aðeins fram sem dæmi, að áður en íslenzk stjórnarvöld ákveða að fara að láta vinna úr erlendu hráefni hér á Íslandi, eiga þau að hafa látið farið fram nákvæmar rannsóknir á öllu, sem til mála kemur, og það af íslenzkum aðilum. Það á ekki að hlaupa til, ef einhver og einhver braskari úti í veröldinni, stórt alúminíunauðfélag eða einhver annar kemur og segir við okkur íslendinga: Ég vil gjarnan fá hérna fossana ykkar til þess að hagnýta þá. — Það á ekki að hlaupa til undireins og gína við þessu. Það á að rannsaka, hvað komi til mála, og meta síðan, hvað sé bezt, og vinna úr því.

Í 8. gr. þessa frv. er síðan ákveðið, að þegar áætlunarráð hafi lokið samningu áætlana, sem það vinnur að, skuli þær lagðar fyrir ríkisstj. til staðfestingar, ríkisstj. skuli kunngera Alþingi hina staðfestu áætlun, að jafnaði með því að láta eins árs áætlanir fylgja fjárl. sem fskj., en áætlanir til lengri tíma skulu lagðar fram með sérstakri — þáltill. til samþykktar. Og síðan er síðasti hluti 8. gr. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar áætlanir hafa hlotið endanlega samþykkt, er það síðan verkefni ríkisstj., hinna einstöku ráðuneyta, Seðlabankans og allra annarra stofnana ríkisins undir yfirstjórn ríkisstj. að sjá um framkvæmd á þessum áætlunum til fulls, og skal öll stjórn á lánsfjármálum og utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og öll afskipti hins opinbera af atvinnu- og verzlunarlífinu við þetta miðuð“

Það er, þegar búið er að gera þessar áætlanir, ríkisstj. búin að samþykkja þær, Alþingi búið að staðfesta þær, þá skuli unnið í samræmi við þessar áætlanir að öllum efnahagsmálunum á Íslandi. Og þetta er, eins og ég vona að menn skilji, höfuðatriði í þessu sambandi: Með þessu er komið á heildaráætlun í þjóðarbúskapnum, sem síðan er framkvæmd sem eitt höfuðverkefni ríkisstj. Það sýnir sig, eins og margoft hefur verið tekið fram, að stjórnin á efnahagslífinu á Íslandi er höfuðverkefni hverrar ríkisstj. Ef ríkisstj, lætur þetta afskiptalaust eða heldur, að hún komist upp með það, mun hún hrökkva við alltaf öðru hverju og verða að fara að skipta sér af þessu, og þau afskipti verða meira eða minna vitleysa. Það er gripið inn í seint og síðar meir, kannske með hálfgerðum ofbeldislögum, kannske af því, að atvinnurekendur og verkamenn hafa gert samninga sín á milli, sem ríkisstj. líkar ekki, eða þess háttar og allt þjóðfélagið meira eða minna brjálað. Ég skal taka sem dæmi: 1962 gera atvinnurekendur og verkamenn samning um kauphækkun, í júnílok 1962, ef ég man rétt. Í ágústbyrjun gefur ríkisstj. út brbl. til þess að lækka gengi krónunnar um 13%. Á þessu sama ári og um þetta sama leyti bötnuðu öll viðskiptakjör Íslands, þannig að útfluttar vörur hækkuðu og innfluttar vörur lækkuðu í kringum 12%. Menn geta flett upp í skýrslum Framkvæmdabankans til þess að sjá það. Á sama tíma sem viðskiptakjörin batna um 12%, og ef menn hefðu farið eftir þeim gömlu reglum um skráningu krónunnar, krónan hefur oft hækkað, þá er krónan lækkuð með afskiptum ríkisstj., af því að hún er að sletta sér fram í efnahagslifið án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um, hvað hún er að gera, án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um þróun efnahagslífsins, grípur inn í í hreinni vitleysu og á algerlega rangan hátt og lætur embættismennina, þ.e. stjórn Seðlabankans, brjóta raunverulega allar sinar embættisskyldur með því að framkvæma þessa lækkun, þannig að það hefði raunverulega átt að taka þá alla saman til rannsóknar og kæra þá, vegna þess að þeir gerðu þveröfugt við það, sem bankastjórar hefðu yfirleitt átt að gera, og sízt af ötlu bankastjórar seðlabanka. Og það er sannað með þeirra eigin skýrslum núna, hve gersamlega þetta var andstætt öllum lögum og öllum viðskiptaháttum, allri borgaralegri hagfræði líka að framkvæma svona hlut, það er einskær hefndarráðstöfun út í bláinn. Þess vegna er það ekki seinna vænna, að menn átti sig á því, að það er ekki hægt að stjórna nútímaþjóðfélagi með þessum aðferðum, sem þarna eru reyndar.

Þetta fer allt úr böndunum, svo framarlega sem þetta er gert. Menn skapa ofþenslu í atvinnulífinu núna rétt fyrir kosningar með því að fara að hleypa inn útlendu fjármagni gegnum lán, sem kaupmenn og aðrir taka, meira að segja gegnum ensk lán, sem ríkisstj. tekur, og svo rétt eftir kosningarnar standa menn uppi eins og þvara gagnvart því, að það skuli vera atvinnuleysi í meira en hálfum landsfjórðungi. Svona þjóðarbúi eins og Íslendinga er ekki hægt að stjórna af neinu víti, nema með því að hafa heildarsýn yfir það. Það er vitanlegt, að ein ríkisstj. hefur það mörgu að sinna, að hún getur ekki sjálf staðið í slíku: Það hefur jafnvel yfirleitt verið gallinn á öllum okkar ríkisstj. á síðasta aldarfjórðungi, að þær hafa viljað skipta sér af allt of miklu. En það að skapa sérstaka stofnun, sem einvörðungu hugsar um þetta og hefur í sinni þjónustu beztu sérfræðinga og aðra til þess að vinna í þessu, það er það, sem alltaf hefur verið gert á þessari öld, þegar menn hafa staðið frammi fyrir verulegum vandræðum í efnahagsmálum. Það er það, sem meira að segja Roosevelt gerði í Bandaríkjunum, þegar hann bjargaði Bandarfkjunum út úr kreppunni 1930. Hann gerði það 1932 og hlaut náttúrlega hatur auðvaldsins í Bandaríkjunum fyrir og var talinn kommúnisti, bara vegna þess að hann tók upp viss, stórfelld ríkisafskipti samkv. áætlun af vissum þáttum í amerískum þjóðarbúskap. Þess vegna er tími til kominn, að stjórnmálaflokkar á Íslandi átti sig á þessum hlutum og fallist á það að fara að breyta þarna um.

Ég man ekki, hve oft ég er búinn að flytja þetta frv., það er a.m.k. 10—11 sinnum, og það hefur kannske einu sinni áður komizt til 2. umr., ég man ekki, hvort hún hefur klárazt. En nú vildi ég mega vonast til þess, að hv. þm. tækju kjark í sig og ræddu þessi mál og sýndu í atkvgr. um þetta mál afstöðu sína til þess. Ég efast ekki um, að það megi margt að frv. sem slíku finna og það megi endurbæta það á margan hátt. Það hafa menn möguleika til. Menn hafa möguleika til þess að gera sínar brtt. og allt mögulegt annað slíkt við það. En heildarstefnan, sem þetta frv. byggist á, er sú stefna, sem ekki er hægt að komast fram hjá, svo framarlega sem menn ætla að stjórna þjóðarbúskap af nokkru viti, ef menn ætla ekki að láta allt fara úr böndunum hjá sér. Og það er það, sem ég vildi mega vona að væri farið að renna upp fyrir mönnum, þeim, sem hafa ekki verið hlynntir slíku, og ekki sízt út frá þeirri yfirlýsingu, sem Framsfl: nú hefur gefið, að þarna ætti að verða stefnubreyting.