19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

64. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. í grg. fyrir þessu frv. segir: „Vegalagafrv. þetta er endurflutt nær óbreytt frá siðasta þingi, en þá náði það ekki fram að ganga, sökum þess að ríkisstj. lét í veðri vaka, að hún mundi þá leggja fyrir Alþingi vegalagafrv. byggt á heildarendurskoðun vegalaganna, en reyndin var sú, að það frv. kom aldrei fram“.

Í þessu felst það, að flm. segja, að vegna þess að ríkisstj. hafi látíð í veðri vaka, að hún mundi flytja frv. nm heildarendurskoðun vegalaganna, hafi frv. þetta ekki verið samþykkt. Það er leiðinlegt að vera að prenta slíkt í þskj., sem er algerlega rangt, og ég skora á hv. 1. flm. að vitna til þess, hvenær ég boðaði það á siðasta Alþingi, að frv. um heildarendurskoðun vegal. yrði flutt. Hitt var svo vitað mál, að endurskoðun vegalaganna stóð yfir, en það var ljóst, að frv. yrði ekki flutt fyrr en þeirri endurskoðun væri endanlega lokið, fyrr en vegalaganefnd hefði sagt lokaorðið. Og ég vil minna hv. þm. á það, sem fer svona smekklega með staðreyndir, að á þeim 8 árum, sem liðin eru síðan vegalög voru siðast opnuð, munu hafa verið flutt frv. til breyt. á vegalögunum, að ég ætla, á hverju þingi. Og þegar þessi hv. þm. er að tala um, að það þurfi að ýta við ríkisstj., að Sjálfstfl. hafi sofið Þyrnirósarsvefni í þessu máli, þá verður mörgum minnisstætt, hvenær það var, sem framsóknarþm. á Austurlandi vöknuðu af svefninum og uppgötvuðu það, að Austurland var sem sagt vegalaust. Hvað eru mörg ár síðan? Tvö, þrjú? Það eru nákvæmlega 3 ár, síðan 1. flm. þessa frv. og flokksbræður hans á Austurlandi uppgötvuðu það, að vegamálin á Austurlandi voru í megnustu óreiðu. En það var 1934, sem hv. 1. þm. Austf. var kosinn til þess að vera þm. í Suður-Múlasýslu, sem er stærsti hluti þessa landsfjórðungs, og hv. 1. flm. þessa frv., hvað ætli hann sé búinn að vera lengi á þingi? — í kringum 2 áratugi. Það hefði verið þarft fyrir Austurland, ef þessir menn hefðu gert sér grein fyrir því, að það þurfti að endurbæta vegina á Austurlandi, á meðan þeir höfðu lyklavöldin að ríkiskassanum og öll ráð á Alþingi. Og hvernig stendur á því, að vegalögin voru ekki opnuð 1956, 1957, 1958? Hvernig stendur á því? Var það af því, að hv. 1. flm. þessa frv. svaf enn Þyrnirósarsvefninum? Það hlýtur að vera.

Það fer illa í munni manna, sem eiga sér fortíð eins og ljóst liggur fyrir, að vera nú að deila á stjórnarflokkana og ríkisstj. fyrir það að hafa ekki enn komið með vegalögin, þegar það er vitað, að ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess, að það færi fram allsherjarendurskoðun á þessum málum til þess að gera nú einu sinni stórt átak til að koma vegamálunum í gott horf.

Það er óþarfi fyrir hv. 1. flm. þessa frv. að vera að eyða löngum tíma í það að tala hér yfir hv. þm. um þörfina á því að fá betri vegi, að það þurfi að fá meira fjármagn til veganna, að það sé þörf á því að hafa akfæran veg heim á hvern bæ. Ég ætla, að allir hv. dm. viti þetta, og alveg óþarfi að vera að fara í kennslustund til hv. þm. um það. Það er alveg ljóst, og það er enginn vafi á því, að vegalaganefnd hefur gert sér þetta ljóst og byggt sitt vegalagafrv. einmitt upp á því sjónarmiði, að það sé þörf á að bæta úr í þessum málum. Og vegalaganefnd hefur unnið mikið og gott starf, en lokatill. hennar eru að mótast og frv. um ný vegalög verður ekki flutt fyrr en þær lokatill. liggja fyrir, og ég geri mér vonir nm, að þess verði ekki langt að biða. Þetta frv. ýtir ekki við ríkisstj. um flutning á því heildarfrv. Það frv. verður flutt, þegar lokatill. n. liggja fyrir, sem vænta má, áður en langur tími líður.

Það er í rauninni óþarfi að ræða þetta mál meira. Ég vildi aðeins láta það koma fram, að ríkisstj. hefur látíð vinna að þessum málum og ríkisstj. og stjórnarflokkarnir gera sér grein fyrir þeirri brýnu nauðsyn, sem á því er að auka framlög til vegamálanna. Framlög til vegamálanna hafa verið aukin nú seinni árin meira en sem nemur auknum tilkostnaði vegna kauphækkana og annars kostnaðar. En ég er samt sem áður þeirrar skoðunar, að það, sem hefur verið varið til þessara mála, sé enn of lítið og það þurfi að gera nýjar ráðstafanir, sem veita auknu framlagi til þessara mála, því að það er víðar en aðeins á Austurlandi, sem vegirnir mega batna frá því, sem nú er. Og það má vel vera, að það sé eðlilegt að flytja frv, um það að taka sýsluvegi í þjóðvegatölu. Það er eðlilegt, að sýsluvegir séu teknir í þjóðvegatölu, en það kemur því aðeins að gagni, að framlögin séu aukin, að það sé eitthvert fjármagn til þess að leggja í þessa lengdu þjóðvegi.

Ég hef svo ekki, herra forseti, meira um þetta að seg,ja. Ég ætla, að þetta sé nægileg skýring. En það var sérstaklega það, að hv. 1. flm. gaf í skyn, að það væri sök ríkisstj., að frv. hans og félaga hans var ekki samþ. á síðasta þingi, af því að hún hafði þá boðað nýtt vegalagafrv. Það var aldrei fullyrt, að það kæmi fram, vegna þess að það var ekki tilbúið. Það eru 8 ár liðin síðan vegalögin voru siðast opnuð, og hv. flm. þessa frv. mun hafa, að ég ætla, þótt ég geti ekki fullyrt það, á hverju þingi í þessi 8 ár flutt brtt. um vegalögin, án þess að þær næðu fram að ganga, og ekki einu sinni meðan hann studdi ríkisstj. Eða var það svo, að það féll úr að flytja till, þau árin? Það gæti nú verið.