19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

64. mál, vegalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa afskipti af þeirri deilu, sem er á milli hæstv. ráðh. og fim. frv., en vil aðeins láta í ljós þá skoðun mína, að núv. ríkisstj. hafi gert stóra hluti í vegamálum, bæði með því, sem hv. síðasti ræðumaður viðurkenndi, stórframkvæmdum, er gerðar hafa verið fyrir lánsfé, og eins með mikilli aukningu á framlögum. Þó hygg ég, að það muni, þegar fram liða stundir, verða talið merkast, ef henni tekst, eins og ég geri mér vonir um, að láta ljúka endurskoðun vegalaga og fá samþykkt ný lög um vegamál.

Hitt þarf engum að koma á óvart, þótt ný vegalög séu ekki hrist fram úr erminni, því að ég hygg, að t.d. í Noregi hafi tekið mörg ár að undirbúa slíkt frv., mun fleiri ár en hafa farið í það hér nú.

Út af andstæðum, sem kunna að virðast vera í því, að vegalaganefnd hafi lagt fram frv. s.l. haust, en sé samt enn að starfi, þá gerðist þetta: Hæstv. ráðh. sendi n. lista yfir nokkur atriði frv., sem hann óskaði eftir að væru tekin til frekari athugunar, og hefur sú athugun staðið yfir.

Aðalástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, var þó sú skoðun, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að það kynni að vera hyggilegt fyrir okkur að draga úr vegaviðhaldi til þess að fá örlítið meiri nýbyggingu vega, eða eitthvað í þá átt, að þetta mundi vera athugandi. Ég held, að þessi hugsun sé byggð á miklum misskilningi. Ég hygg, að sérfróðir menn, þeir sem ég hef rætt við um vegamál, séu miklu frekar þeirrar skoðunar, að á undanförnum áratugum hafi Alþingi freistazt um of til þess að skammta naumlega viðhaldsfé veganna til þess að geta komið fram nýjum spottum og þetta kunni að koma fram núna, þegar umferðin eykst snögglega. Viðhald á höfuðvegum hefði mátt vera meira en það hefur verið. Þó að ýmsum finnist stundum eins og ofaníburðurinn fjúki, jafnóðum og hann er látinn niður, þá hef ég það fyrir satt, að á þessu ári og undanförnum 2—3 árum hafi verið látnar á vegi í landinu rúmlega milljón smálestir af ofaníburði. Reikningsfróður maður komst að þeirri niðurstöðu nýlega, að þetta væri eins og 20 bændahallir fullar af ofaníburði.

Við verðum að gera okkur grein fyrir, hvers konar vegi við höfum, hvers konar veðurfar og loftslag við búum við. Meðan við getum ekki gert alla vegi úr varanlegu efni, verðum við að sætta okkur við, að töluvert af vegaefninu fjúki burt. En ég hygg, að það sé rétt stefna að auka viðhaldið, auka það jafnvei enn meira en hingað til hefur verið gert.

Spyrjið einhverja af bílaeigendum landsins, hvað þeir vildu gefa fyrir það; að grjóthnullungarnir væru farnir og í staðinn fyrir þá væri kominn niðurmulinn ofaníburður ! Það kostar að vísu 40—50 kr. á tonnið að mylja ofaníburðinn, sem víða er notaður, þannig að úr honum verði fyrsta flokks efni. Þetta er aðeins eitt verkefni við vegaviðhald, sem mundi gerbreyta á skömmum tíma þeim vegum, sem við höfum, og sýnir, að það væri mjög óhyggilegt að draga úr viðhaldinu til að geta aukið við vegakerfið.

Vegakerfi okkar er ærið langt. Ég hygg, að ef íslenzku vegirnir, þjóðvegir, sýsluvegir og hreppavegir, væru settir hver við endann á öðrum, mundu þeir ná frá Tokíó til London, sem er ærin vegalengd fyrir 180 þús. sálir að hafa komið upp og standa undir. Þó bíða mörg verkefni. En það verður að vera skynsamlegt jafnvægi milli nýbygginga og viðhalds þeirra vega, sem fyrir eru.

Ég vil að lokum segja um það frv., sem hér er fram komið, að við skulum íhuga, hverju við erum nær, þó að þetta frv. væri samþykkt. Ég hef, eins og flestir þm., staðið að því að flytja svipaðar till, fyrir nokkrum árum. En sannleikurinn er sá, að þó að við setjum nokkur hundruð km í viðbót í þjóðvegatölu á þennan hátt, erum við ákaflega litlu nær, því að nú þegar eru í þjóðvegatölu svo margir vegir, að ég býst við, að það mundi taka 10-20 ár að gera þá alla umferðarhæfa, þó að við fengjumst við lítið annað. Hér er sem sagt aðeins um eina frekar yfirborðskennda hlið á vegamálunum að ræða, og hygg ég, að við þurfum, þegar til vegalaganna kemur, að hugsa miklu lengra og gera stórfelldari breytingar, sem verða til þess, að við getum veitt til vegakerfisins mun meira fjármagn, keypt mun meira af vinnuvélum, til þess að geta fengið sem mest fyrir fjármagnið og komið þannig af stað verulegum framkvæmdum, bæði til þess að viðhalda og endurbyggja gamla vegi, þar sem umferðin er nú að fletja þá út eða sökkva þeim niður í mýrar, og svo til þess að byggja nýja vegi og setja varanlegt slitlag, þar sem umferð er orðin svo mikil, að þess er brýn þörf. Ég hygg, að við verðum að játa, þó að Alþingi hafi ár eftir ár, þangað til nú síðustu 8 árin, bætt nýjum vegum í þjóðvegatölu, þá hljómi það að vísu vel fyrir háttvirta og elskulega kjósendur, en sé ekki að sama skapi jafnraunhæf umbót á vegamálum þeirra heima fyrir og ætla mætti.