19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (1974)

64. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. brosti nú að sjálfum sér, að hann skyldi láta það eftir sér að segja þetta, sem hann sagði. Mig undrar það nú ekki, þótt honum finnist það broslegt, um leið og hann hefur ósjálfrátt látíð hugann reika til þeirra ára, sem flokksbræður hans fóru með þessi mál.

Hv. þingmenn, hv. 1. flm. frv. og hv. 3. þm. Vestf., tala um, að það séu mikil lán, sem hafi verið tekin í héruðunum til þess að koma vegunum áfram. Þetta er alveg rétt. Og sveitarfélögin borga vexti af þessum lánum og standa straum af þeim, þangað til fé er veitt á fjárlögum. Þetta hefur nú viðgengizt, að ég ætla, um áratugi, en nokkuð aukizt á seinni árum, og það vitnar um þörfina fyrir aukið fjármagn til veganna, og eru allir sammála um það. En það eru ekki allir hv. þm. sammála um, hvort það eigi að snúa staðreyndunum við. Það er ekki hægt að hlusta þegjandi á það, þegar hv. framsóknarmenn halda því fram hér í þingsölunum, að það sé tiltölulega minna, sem hefur verið veitt til vegamálanna nú hin síðari árin, heldur en meðan þeir fóru með þessi mál. Það er ekki hægt. Og þær tölur, sem ég nefndi áðan, voru einungis fjárlagatölur. Það voru fjárlagatölur, að til viðhaldsins var veitt 1958 33 millj., en í reyndinni var það 67 millj. á þessu ári: á fjárlögum 63 millj. plús 4 millj., sem hefur orðið að veita m.a. vegna þess, hversu snemma tók að snjóa í haust, og varð að taka vitanlega af vegafénu, eins og vant er, til þess, og eins vegna þess að klaki fór seint úr vegunum á s.l. vori og viðhaldið varð þess vegna enn þá meira en venjulega. Svo liggur það fyrir, að vegamálastjóri hefur reiknað út aukninguna á kostnaðinum síðan 1958, og það eru 45%, þegar vegaviðhaldið hefur verið aukið á milli 90 og 100% og til nýbyggingar vega 72%. Þetta ætti ekki að þurfa að deila um. Lánsfé er svo þar fyrir utan og vegaframkvæmdirnar þess vegna orðnar mjög miklar á s.l. ári, eins og vegamálastjóri hefur lýst í útvarpinu nú ekki fyrir löngu. Auk þess hefur verið unnið að miklum vegabótum: að Reykjanesbrautinni, að Ennisvegi, að Strákavegi og Múlavegi. Það hefur verið unnið að sumu leyti fyrir lánsfé. En allt þetta miðar að því að hæta samgöngurnar, og eftir að Reykjanesbrautin hefur verið steypt, þarf hún a.m.k. ekki viðhaldsfé eins og nú frá öðrum vegum. Og ég ætla, að við séum í hv. Alþingi sammála um, að það beri að stefna að því að gera hina fjölförnustu vegi úr varanlegu efni.

Hv. 3, þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það væri í rauninni hv. framsóknarmönnum að þakka, að hafizt var handa um endurskoðun vegalaganna, og vitnaði í mál, sem þeir höfðu flutt hér í hv. Alþingi. Ég verð að gefa upplýsingar um það, að hv. landsk. þm. Bjartmar Guðmundsson flutti till. um allsherjarendurskoðun vegalaganna, og það var sú till., sem var samþykkt og upphafið að því, að vegalaganefndin varð til. Ég kemst ekki hjá að leiðrétta misskilning hv. 3. þm. Vesturl. í því efni, og ég efast ekki um, að þetta er vegna þess, að hann hefur ekki munað betur, en ekki af því, að hann hafi vísvitandi viljað fara rangt með.

Meira er nú ekki þörf á að taka hér fram í þessu sambandi. Ég held, að það hafi ekkert nýtt komið fram, sem ástæða er til að leiðrétta hér frekar en orðið er. Það er ekki til þess að eyða orðum að því, þegar hv. framsóknarmenn eru að tala um það, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir séu of nægjusamir, þegar þeir eru að tala um, að það hafi nokkuð áunnizt í samgöngumálum og vegamálum síðustu árin. Það er staðreynd, að það hefur mikið áunnizt í þessum málum. Það er staðreynd, að framkvæmdir í vegamálum núna seinni árin eru meiri en þær hafa verið áður. Það er staðreynd, að fjárveitingar til þessara mála eru meiri, tiltölulega meiri, þótt miðað sé við kostnaðaraukningu, sem orðið hefur. En það er einnig staðreynd, að það þarf að gera meira en orðið er, og það verður gert með því að fá aukið fjármagn. Það verður gert með nýjum vegalögum, sem gera jafnframt ráð fyrir fjáröflun.