26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

67. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir til umr., er vissulega hreyft einu af mestu áhugamálum okkar Vestmanneyinga. En ég tel, að mál þetta sé þess eðlis, að það þurfi mun meiri athugunar við en fram kemur í frv. sjálfu eða grg. þess. En þetta gefur mér þó tilefni til almennra umr. um samgöngumál okkar, eins og þau hafa verið og eru nú í dag.

Að sjálfsögðu eru samgöngumál hvers byggðarlags og hljóta að vera þess eðlis, að þau séu eitt af mestu áhugamálum þess fólks, sem þar býr, og má segja, að framgangur hvers byggðarlags velti oftast mest á því, hvernig samgöngum er þar háttað, hvort fólkið, sem þar býr, telur þær viðunandi eða ekki. Árið 1962 var tala farþega til og frá Eyjum milli 22 og 23 þús. Skiptist það nokkuð jafnt milli farþega, sem hafa ferðazt þarna á milli með flugvélum og skipum, þó heldur meira með flugvélum en sjóleiðina.

Fram að síðari heimsstyrjöld voru Vestmanneyingar, miðað við þær aðstæður, sem þá voru, nokkuð vel settir, og má segja, að þeir hafi þá til þess að gera haft mun örari samgöngur við Reykjavík en síðar varð. Kom það til af því, að öll skip, bæði erlend og íslenzk, sem sigldu milli Reykjavíkur og útlanda, höfðu fasta áætlunarviðkomu í Eyjum. Var þar um að ræða fyrst og fremst Eimskipafélag Íslands, sem lét þá öll sín skip koma við í Vestmannaeyjum, þegar þau sigldu frá Reykjavík til útlanda eða komu frá útlöndum á leið til Reykjavíkur. Einnig hélt þá Sameinaða gufuskipafélagið í Kaupmannahöfn uppi föstum ferðum, bæði milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur og Leith og Reykjavíkur, lét þetta félag öll sín skip koma við, bæði á uppleið og útleið, í Vestmannaeyjum. Var þar um fastar vikulegar ferðir að ræða. Bergenska gufuskipafélagið hafði þá einnig eitt skip í förum milli Íslands og Noregs, og hafði það einnig fasta viðkomu í Vestmannaeyjum, bæði á uppleið og útleið, og var hálfsmánaðarlega í förum á milli landanna. Það má því teljast, að á þessum tíma hafi samgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur verið, eftir því sem aðstæður voru þá, vel við unandi hvað fjölda þeirra snerti. Hins vegar háði það nokkuð farþegum, að hafnarskilyrði voru þá enn í Eyjum mjög erfið og gat oft verið miklum erfiðleikum bundið að komast um borð í skipin eða frá borði aftur.

Eftir að styrjöldinni lauk, gerbreyttist þetta alveg, þannig að allar þessar föstu áætlunarferðir, sem fyrir stríð voru, féllu niður. Eimskipafélag Íslands hætti að láta sín skip koma við í föstum áætlunarferðum, ferðir Bergenska gufuskipafélagsins féllu niður og ferðir Sameinaða gufuskipafélagsins í Kaupmannahöfn féllu einnig að miklu leyti niður og hættu alveg viðkomu í Eyjum.

Vestmanneyingar voru á þeim tíma mjög illa settir með ferðir frá og til Eyja, og byggðust þær þá `að langmestu leyti á ferðum báta, fyrst milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja og síðan milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Mátti segja, að það hafi verið heppni yfir þeim öllum, að aldrei hlauzt slys af, eins og oft var til þeirra stofnað við mjög erfiðar aðstæður.

Fyrsta verulega samgöngubótin, sem Vestmanneyingar fengu, — ég vil leiðrétta það hjá flm., það var ekki Herjólfur, — það var bygging flugvallarins 1945. Það má segja, að þá hafi verulega hreytt til batnaðar, og þegar á fyrsta ári munu hafa verið fluttir um 10 þús. farþegar á milli Eyja og Reykjavíkur þessa leiðina. Tilkoma Herjólfs síðar var að sjálfsögðu mjög mikil samgöngubót, og hefur það aukið farþegatölu til og frá Vestmannaeyjum mjög mikið.

Þegar Herjólfur var byggður eða áður en hann var byggður, var komin mjög mikil hreyfing á það heima í héraði, að Vestmanneyingar byggðu sjálfir skip, leituðu til ríkis um stofnframlag og rekstur, eftir því sem þá gerðist til samgöngumála, en ættu skipið sjálfir og hefðu yfir því alveg ótakmörkuð umráð. Úr þessu varð þó ekki, þar sem málið var tekið á dagskrá hér á hv. Alþingi og fékk þá afgreiðslu, eins og kunnugt er, að Skipaútgerð ríkisins var heimilað og falið að byggja skip til Vestmannaeyjaferða og Hornafjarðarferða. Þeir, sem þessum málum voru kunnugastir þá heima í héraði og einnig hér í Reykjavík, töldu, að með Herjólfi væri fengin nokkur framtíðarlausn um flutning farþega á milli þessara staða. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að svo er ekki. Það, sem ekki var tekið með í reikninginn og menn gerðu sér ekki ljóst, þegar stærð Herjólfs var ákveðin og farþegarými í honum einnig ákveðið, er það, að við tilkomu fastra og öruggra ferða milli þessara staða hefur komið miklu meiri hreyfing á fólkið en áður var og menn höfðu gert sér grein fyrir. Fyrsta árið, sem Herjólfur gekk milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, varð aukning á farþegaflutningi milli Reykjavikur og Vestmannaeyja alveg það, sem Herjólfur flutti, eða um 10 þús. farþegar. Það hefur þegar sýnt sig, að skipið er því miður, þó að það í alla staði sé traust og gott, þá er það ekki okkur fullnægjandi. Ég hef því í því sambandi farið fram á það við samgmrn, og einnig Skipaútgerð ríkisins, að Herjólfur yrði látinn hætta hinum föstu Hornafjarðarferðum, en gengi eingöngu í fastri áætlun milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Ég tel, að full rök liggi að því, að við þessum tilmælum verði orðið, svo framarlega sem þess er nokkur kostur. Það kemur í ljós, að á árinu 1962 flutti skipið rúmlega 8500 farþega til og frá Eyjum, þar af um 7 þús. milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Nú er það svo, að þó að farþegaklefar Herjólfs séu fullir í hverri einustu ferð, þá getur hann ekki flutt meira en 5000 farþega á ári eða tæplega það, miðað við 100—125 ferðir, ef farþegar eiga að hafa svefnklefa, en ferðir Herjólfs eru, eins og kunnugt er, næturferðir báðar leiðir. Það sýnir sig því, að þessa teið hafa farið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja rúmlega 2000 farþegar á því, sem kalla verður dekkpláss, eða við langt frá því fullnægjandi aðstæður. Það er að vísu hægt að sitja í borðsal skipsins, og það er hægt að fá legurúm í öðrum sal, sem þar er og upphaflega var ætlaður borðsalur. En ef tekið er tillit til þess, að þarna er um 10-11 tíma ferð að ræða fyrir Reykjanes, sem getur verið að vetrarlagi einhver erfiðasta sigling hér við strendur landsins, er langt frá því, að það sé frambærilegt og fólki sé bjóðandi að fara þessa leið án þess að hafa rúm í farþegaklefa. En þetta hefur svona gengið fyrir sig, og tel ég, að það sé alveg óviðunandi og úr þessu verði að bæta eins og hægt er, en það verður gert með því móti einu, eins og aðstaðan er nú, að láta skipið hætta ferðum til Hornafjarðar.

Nú er mér það að sjálfsögðu alveg ljóst, að þeir, sem búa á Hornafirði, eiga nákvæmlega sama rétt til ferða til sín eins og við úti í Vestmannaeyjum. En ég hef þegar farið fram á það við rn. og við Skipaútgerð ríkisins, að það yrði athugað nú fyrir áramótin, hvort ekki er hægt að koma áætlunum annarra skipa þannig fyrir, að þau geti leyst Herjólf undan þessum ferðum. Eftir því sem ég hef getað kynnt mér þetta mál, hygg ég, að með góðum vilja sé hægt að verða við þessum óskum okkar, a.m.k. vona ég það.

Eins og ég sagði í upphafi, er þetta og hefur verið eitt af mestu áhugamálum Vestmanneyinga, að fá sínar samgöngur enn bættar frá því sem nú er. En ég tel, að málið sé þess eðlis, að það þurfi nánari athugunar við. Ég skal viðurkenna og tel mér það skylt, að samgöngumál okkar hafa fyrir atbeina Alþingis verið mjög bætt á síðustu árum, bæði með byggingu flugbrautar 1945, með byggingu Herjólfs og með byggingu þeirrar þverbrautar, sem nú er verið að byggja þar og við vonum að tekin verði í notkun þegar á næsta sumri. En eins og flm. sagði, krefst nútíminn þess, og fólk, sem býr við aðstæður eins og Vestmanneyingar, hlýtur að krefjast þess, að þar sé um öruggar og daglegar samgöngur að ræða.

Flutningur fólks úr Eyjum hefur, sem betur fer, ekki verið eins mikill og fram kom hjá hv. flm. og ég reyndar hef heyrt áður og séð ritað um í blöðunum. Frá Vestmannaeyjum fluttu árið 1962 143 menn, en nýir innflytjendur til Eyja voru 136, þannig að þar er ekki nema um 7 manna mismun að ræða. En það er rétt, að því öruggari og betri sem samgöngur eru, því meiri líkur eru fyrir því, að fólkið uni þar betur og að fleiri vilji þar búa og flytja þangað inn heldur en nú hefur verið. Mér sýnist, að þetta ár, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, muni tala þeirra, sem flutt hafa úr bænum, vera allmiklu lægri og tala þeirra, sem flutt hafa inn í bæinn, einnig verið svipuð og þeirra, sem út hafa flutt. Eftir hreyfingu fólks almennt í landinu held ég, að þetta sé ekkert óeðlilegt, og sem betur fer er enn þá engin hætta á ferðum. En allt er það til öryggis fyrir þá, sem þarna búa, að samgöngur séu sem beztar og greiðastar, og ég tel, að Vestmanneyingar geti ekki við annað unað en að svo verði innan skamms, að þar verði um daglegar ferðir að ræða og þá stytztu sjóleið, sem hægt er að fá hingað upp til fastalandsins, eins og við orðum það.

Flugbrautin, sem í byggingu er og vonandi verður tekin í notkun á næsta ári, er vissulega stórt skref í þessa átt. En fullt öryggi getur flug aldrei á stað eins og Vestmannaeyjum veitt, og hlýtur því að koma að því, að fastar daglegar ferðir sjóleiðis verði einnig að vera fyrir hendi.