26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í C-deild Alþingistíðinda. (1984)

67. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Austf., að ég ætlaðist til þess, að aðstaða Hornfirðinga yrði nokkuð skert við samgöngur, þó að Herjólfur yrði látinn hætta þeim ferðum, sem hann undanfarið hefur annazt þangað. Ég tók það alveg skýrt fram, að ég hefði farið fram á við samgmrn. og Skipaútgerð ríkisins, hvort ekki væri hægt með breyttum áætlunum annarra skipa að haga því svo til, að Hornfirðingar misstu þar einskis í. Ég, eins og ég tók fram, geri mér alveg ljóst, að þeir eiga sama rétt til að fá sínar samgöngur bættar og haldið við eins og Vestmanneyingar, þannig að hafi þessi hv. þm. skilið mig þannig, að ég ætlaði að fara að ganga eitthvað á þeirra rétt, þá er það hjá honum misskilningur.

Ég sagði í upphafi minnar ræðu, að ég teldi, að mál þetta þyrfti frekari athugunar við. Það er ekki vegna þess, að mér sé ekki ljóst og kannske manna ljósast, hversu brýn nauðsyn það er fyrir Vestmanneyinga að fá enn bættar sínar samgöngur, að ég gerði þessa aths. Upphaflega, eins og ég tók fram, var það meining Vestmanneyinga að eiga sjálfir það skip, sem þarna gengi í föstum ferðum á milli, hafa yfir því alveg óskoraðan og ótakmarkaðan rétt. Ég tel, að einnig þetta spursmál þurfi nú að athuga. Ég tel, að það þurfi að koma fram, áður en endanlega verður gengið frá þessu máli, hvort Vestmanneyingar sjálfir vilja leggja fjármagn í skipið til þess að fá á því alveg ótakmarkaðan rétt. Ég hygg, að við teljum okkur aldrei alveg örugga með þetta, nema þannig verði frá því gengið í upphafi, að við eigum þann rétt, sem við teljum okkur nauðsynlegan í því sambandi. Eignarrétturinn skiptir því fyrir okkur miklu máli.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er eingöngu miðað við siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar í framtíðinni. Ég tel, að þegar frá þeim skipakaupum verður gengið, verði skipið að öllum búnaði einnig að vera þess umkomið og ráð fyrir því gert, að það geti siglt þá sjóleið, sem Herjólfur hefur hingað til siglt, milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Það er vitað, að sú leið er einhver sú erfiðasta hér við ströndina, siglingin gegnum Reykjanesröst, og skipið frá upphafi verður að vera þannig búið, bæði að sjóhæfni og öllum búnaði, að það sé þess umkomið að geta siglt þessa leið, því að ég geri mér alveg ljóst, að þótt Þorlákshöfn verði fullgerð í þeirri mynd, sem nú liggur fyrir, þá getur farið svo, að dögum saman verði kannske ekki hægt að láta skipið, sem hér um ræðir, fá þar afgreiðslu. Eins og víst flestir vita, hagar svo til þar, að aðalbryggjan, sem nú er og einnig verður vafalaust mikið notuð í framtíð inni, er um leið s,jóvarnargarður fyrir opnu úthafi, og það getur aldrei orðið þar öruggt lægi fyrir skip af þessari stærð, eins og við gerum ráð fyrir, og þess vegna verður strax í upphafi að taka tillit til þess, að skipið sigli einnig þá 1eið, sem ég hef hér áður minnzt á.

Ég tel mig ekki þurfa að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að það frv., sem hér er, er eitt af okkar mest brennandi áhugamálum heima í byggðarlagi, og munum við, bæði ég og aðrir þar heima, að sjálfsögðu fylgja því máli eftir að þeim leiðum, sem við teljum að okkur séu beztar og öruggastar um að fá samgöngumál okkar bætt.