26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

67. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Austf., því að hann sagði, að eftir að Herjólfur hefði komið, hefðu Vestmanneyingar farið að hugsa um eða látíð þá ósk í ljós, að þeir vildu vera þar eigendur. Þetta mál bar þannig að, að það var haldinn almennur borgarafundur heima í Vestmannaeyjum um samgöngumálið og þar var tekin sú ákvörðun, að Vestmanneyingar réðust í það að eignast skip til þessarar ferðar. Málið hafði verið mjög vel athugað, bæði fjárhagshliðin og rekstrarhliðin. Það höfðu verið sendir menn út til Noregs, látnir þar skoða skip, sem þá var til sölu og okkur var boðið, og einnig hafa samband þar við skipasmíðastöðvar um byggingu skips fyrir okkur. Þetta þróaðist hins vegar þannig, að málið var tekið hér á dagskrá í Alþingi og þar ákveðið, að þetta skyldi vera skip til Vestmannaeyja- og Hornafjarðarferða, og féll þá að sjálfsögðu þá í bili niður sú hugmynd okkar um að vera einir eigendur að skipinu. — Ég vildi láta þetta koma hér fram að gefnu tilefni, því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði um upphaf málsins.

Að ég hafi vantraust á núv. ríkisstj. til þess að koma þessu máli fram, er einnig misskilningur. En hann verður að gæta þess, að ríkisstj. sjálf skipuleggur ekki slíkt skip. Hún felur sínum sérfræðingum að gera það, og ef þeim er falið að byggja skip eingöngu til ferða milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, þá er ekki víst, að það yrði tekið tillit til allra þeirra aðstæðna, sem þurfa að vera hjá skipi, sem á að ferðast sjóleiðina frá Reykjavík til Vestmannaeyja að næturlagi. Við ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja yrði um dagferð að ræða, 3-4 tíma, og aðbúnaður farþega þá að sjálfsögðu áætlaður allt annar en ef um næturferðir, 11-12 tíma ferðir, er að ræða. Það var þetta, sem ég meinti, þegar ég sagði, að málið þyrfti að athugast betur að þessu leyti.

Ég tel alls ekki, að það þurfi neitt að tefja framgang málsins, þó að ég hafi bent á, að það bæri þegar í upphafi að athuga og vega og meta allar aðstæður og gera sér grein fyrir því verkefni, sem skipinu væri ætlað. Það er síður en svo, að það væri sagt hérna nokkuð til þess að tef ja málið, því að ég endurtek, að þetta er eitt af mestu áhugamálum okkar, sem búum úti í Eyjum.