26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (1987)

67. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur allar umr., en kvaddi mér hljóðs út af því, að ferðir Herjólfs til Hornafjarðar hafa borizt í tal. Ég vil taka undir það, sem hér kom fram áðan hjá hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni. Mér er sérstaklega vel kunnugt um þetta, vegna þess að ég hef fjallað um þessi mál og átti sæti í ríkisstj., þegar ákveðið var að smiða Herjólf. Ég vil taka undir og staðfesta, að þegar það skip var smíðað, var beinlínis gengið frá því og samkomulag um það við alla aðila, sem ég hygg að hafi reyndar líka verið viðurkennt af hv. 3. þm. Sunnl., sem ræddi þetta mál, að Herjólfur væri fyrir Vestmannaeyjar og tæki einnig þessar Hornafjarðarferðir. Það má ekki bregða því samkomulagi, sem þá var gert um þetta mál, eins og hér kom líka fram áðan, og vil ég taka sterklega undir það. Sú er reynsla okkar núna af strandferðunum, eftir að skornar hafa verið mikið niður fjárveitingar til þeirra, að þær hafa engan skipakost til og engin tök á að bæta upp þessar ferðir Herjólfs austur, ef þær verða teknar af.

Ég vil mjög kröftuglega undirstrika, að það getur ekki komið til greina að gera slíkt og bregðast þannig því samkomulagi, sem gert var. Og þó að það kynni að vera látíð í veðri vaka, að það ætti að gera eitthvað í staðinn, þá er enginn kostur á því, eins og nú standa sakir.

Fyrst ég er kominn hér, vil ég einnig lýsa samþykki mínu við þetta frv., því að vitaskuld er þetta eitt þýðingarmesta samgöngumál Vestmannaeyja, að fá reglulegar tíðar ferðir til og gott samband við Þorlákshöfn, auk þess sem fyrir er.