05.12.1963
Neðri deild: 25. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

71. mál, bygging leiguhúsnæðis

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Áður en þetta mál er tekið út af dagskrá og umr. lýkur, vil ég leyfa mér að segja fáein orð, enda þótt ég hafi kannske litlu við að bæta það, sem hv. 1. flm. þessa máls hefur sagt um það hér. En ég vil lýsa því yfir, að ég sakna þess nokkuð, að enginn hv. þm. úr stjórnarliðinu eða neinn ráðh. skuli taka til máls um þetta mikilvæga mál.

Ég vil halda því fram, að hér sé um stórmál að ræða, mál, sem snertir mjög alvarlega alla ungu kynslóðina í landinu. Hér hefur verið lögð fram till., sem er tilraun til að finna nokkra bráðabirgðalausn á þeim húsnæðisvandræðum, sem nú eru ríkjandi og hafa sjaldan verið verri. Það hefði vissulega verið full þörf á því, að húsnæðismálin hefðu verið tekin á dagskrá almennt. Flokkarnir hefðu þá sagt sína skoðun á þeim málum, og komið fram með sínar till., og þá hefði fengizt fram, hvaða till. hæstv. ríkisstj. hefur fram að færa í þessu vandamáll. Það hefði komið fram, hvort nokkur úrræði eru til hjá hæstv. ríkisstj. og hvaða úrræði það eru. Ég sakna þess, að enginn frá hæstv. ríkisstj. skuli segja álit sitt á þessu máli, og maður freistast til að halda, að þögnin sé hálfgert samþykki við þeirri ásökun. að engin úrræði séu til staðar.

Í öðrum löndum mundi vera litið svo á, að það væri mjög alvarlegt mál, þegar slíkt vandræðaástand væri í landinu og engin úrræði hjá þeim mönnum, sem halda á stjórnartaumunum, og þar að auki, að því er virtist, ekki nokkur vilji til að leysa málið. Slík stjórn mundi vafalaust standa völtum fæti í landinu, og þetta væri vafalaust mikið stórmál og deilumál með þjóðinni, sem gæti valdið töluvert miklu, ef um kosningar væri að ræða. En hér fer það svo, að þó að hin mestu vandræði séu ríkjandi, fellur þetta mál, að því er virðist, í skuggann. Það eru svo mörg önnur stórmál á ferðinni, sem vekja kannske enn meiri athygli.

Hér er sem sagt alveg óvenjulega mikil ólga í stjórnmálunum. Við höfum hér í landinu óðaverðbólgu og meiri upplausn í efnahags- og peningamálum en aðrar þjóðir þekkja. Ríkisstj. á í stórstyrjöld við sameinaða verkalýðshreyfinguna, og að auki ætlar hæstv. utanrrh. í mjög alvarlegu og viðkvæmu utanríkismáli að ganga langt út fyrir verksvið sitt og telur sig ekki þurfa að ráðfæra sig við Alþingi, eins og fram kom hér í gær. þegar um mjög örlagaríkar ákvarðanir í utanríkismálum er að ræða. Þannig mætti lengi telja.

En stórmál eins og þetta, þar sem um er að ræða allsherjar uppgjöf ríkisstj. í húsnæðismálum, virðist falla í skuggann fyrir enn meiri og alvarlegri vandræðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur kallað yfir þjóðina með misheppnaðri stefnu sinni.

Það verður aldrei of oft vakin á því athygli, að nú ríkir algert neyðarástand í húsnæðismálum. Það er mjög erfitt fyrir ungt fólk að kaupa sér húsnæði, vegna þess að það neyðist til að leggja verulegan hluta kostnaðarins beint út, þar eð lánveitingar eru sáralitlar. Óhugsandi er fyrir flest ungt fólk að eignast eigin íbúðir. Þetta er afleiðing af því, að lán húsnæðismálastjórnarinnar, sem hafa hækkað nokkuð í krónutölu, eru lægri hlutfallslega miðað við byggingarkostnaðinn en nokkru sinni fyrr. Ungt fólk verður því að grípa til þess að leigja, en þá stendur svo á, að það er hreint ekkert framboð á leiguhúsnæði, og það litla, sem er í boði, er á ofsaverði, okurverði, þetta 3000—6000 kr. fyrir frekar litla íbúð. Þetta ástand er svo aftur afleiðing af stefnu ríkisstj., þá fyrst og fremst vaxtaokrinu, þeirri verðbólgu, sem skapazt hefur af stefnu hæstv. ríkisstj. og þeim litlu framkvæmdum, sem hafa verið í húsbyggingarmálum.

Till. okkar Alþb.-manna er tilraun af okkar hálfu til þess að bæta úr neyðarástandi. Við leggjum til, eins og hér hefur áður verið rakið, að ríkisstj. verði heimilað að byggja 500 íbúðir, sem verði leigðar út á sanngjörnu verði. Við teljum mjög nauðsynlegt, að allmikið sé af leiguíbúðum á markaðnum, þannig að ungt, barnlaust fólk geti komizt í húsnæði, áður en það hefur sjálft efni á að byggja, og svo aftur, að gamalt fólk, sem hefur litlar tekjur, geti komizt í gott húsnæði, þegar fuglarnir eru flognir úr hreiðrinu. í öðru lagi teljum við, að bygging slíks leiguhúsnæðis mundi vega drjúgum til þess að halda leiguverðinu niðri. Og í þriðja lagi álitum við, að slíkar byggingar væru hlutfallslega ódýrar miðað við aðrar byggingar og þar af leiðandi hagkvæmari peningalega fyrir þjóðina í heild.

Það er rétt að leggja sérstaka áherzlu á það, að till. okkar Alþb.- manna er engin framtíðarlausn á þessum málum. Þetta er aðeins tilraun til þess að bæta úr neyðarástandi. Þetta neyðarástand hefur skapazt og er afleiðing af stefnu núv. hæstv. ríkisstj. Þess vegna ber ríkisvaldinu skylda til þess að gera ráðstafanir til að forða ungu fólki frá því að verða fórnarlömb þessa neyðarástands.

Ég ítreka það, sem ég sagði hér í upphafi, að ég harma það, að enginn úr stjórnarliðinu, enginn af hæstv. ráðh. skuli segja sína skoðun á þessu máli, og ég vil enn hvetja til þess, að um þessi stórþýðingarmiklu mál, þ.e.a.s. húsnæðismálin, verði miklu meiri og almennari umr. en verið hefur og menn leggist á eitt um að reyna að finna viðhlítandi lausn á þessu mikla neyðarástandi.