28.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (2003)

81. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. ásamt hv. 5. þm. Vestf. um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Aðalefni þessa frv. er það, að bætt verði nýjum kafla inn í l. og beri sá kafli fyrirsögnina „Um félagsbúskap“.

Það er efni þessa kafla, að gert er ráð fyrir, að tveir eða fleiri bændur geti stofnað til félagsbúskapar á jörð í stað þess að stofna á henni nýbýli eða reka á henni félagsbúskap í byggðahverfi. í frv. eru eftirtalin skilyrði sett fyrir félagsbúskap: 1) Sótt skal til nýbýlastjórnar um viðurkenningu á stofnun félagsbúskapar. 2) Landsstærð og önnur skilyrði til búrekstrar séu að dómi nýbýlastjórnar nægilega góð til að fullnægja þeim fjölda heimila, sem til skal stofnað. 3) Fyrirhuguð sé eigi minni bústærð en 20 kúgildi eða 400 ær fyrir hvert heimili. 4) Hver fjölskylda hafi séríbúð. 5) Vélar allar og verkfæri til ræktunar, fóðuröflunar og annars, er tilheyrir hinum sameiginlega rekstri, sé sameign búsins. 6) Gerður verði samningur um fyrirkomulag hins sameiginlega félagsrekstrar og sé hann þinglesinn. Skulu þar tilgreind eignarhlutföll aðila í jörð, húsum og búvélum, mannvirkjum jarðar og bústofni. Enn fremur sé tilgreint, hvernig reikningshaldi, arðskiptingu og áhættu sé fyrir komið. í samningi skal og fram tekið, hvaða meðferð skal hafa, ef einn eða fleiri aðilar ganga úr félagsrekstrinum.

Þetta eru nú helztu ákvæðin í frv. varðandi félagsbúskap. Samkv. frv. er lagt til, að þeir, sem efna til félagsbúskapar, skuli njóta betri stofnlánakjara en aðrir, sem lán fá úr Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þannig er lagt til, að stofnlán til félagsbúskapar verði sem nemur 20% af heildarkostnaðarverði hærri en til einstaklingsbúskapar og nemi því allt að 80% af stofnkostnaði búsins. Til þeirra framkvæmda, sem framlags njóta samkv. jarðræktarlögum, skal einnig greiða 20% hærra framlag. Þá er í frv. lagt til, að lánstími stofnlána til félagsbúskapar verði þriðjungi lengri en til einstaklingsbúskapar. Þetta eru nú helztu efnisatriði frv.

Um það verður ekki deilt, að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum í íslenzkum landbúnaði. Véltæknin hefur rutt sér til rúms við landbúnaðarstörf, og nýjar vinnuaðferðir hafa verið teknar upp. Framleiðslan hefur líka aukizt mjög mikið, aðallega í landbúnaði, þrátt fyrir það, þótt ekki sé þar um neina teljandi fólksfjölgun að ræða við búskaparstörf. Þessi þróun hefur auðvitað verið hagstæð og út af fyrir sig stefnt í rétta átt. En þessaxi þróun eru mjög þröng takmörk sett, á meðan ekki verða grundvallarbreytingar á uppbyggingu landbúnaðarins.

Eins og allir vita, er svo að segja allur íslenzkur landbúnaður byggður upp sem heimilisrekstur eða sem einyrkjabúskapur. Stærð búanna hlýtur því að vera mjög takmörkuð, og verkaskiptingu er af skiljanlegum ástæðum mjög erfitt að koma við við slíkar kringumstæður. Það má því í rauninni segja, að einyrkjabúin séu í rauninni í fullri mótsögn við nútímavélvæðingu og kröfurnar um mikla verkaskiptingu. Á þessu er þegar farið að bera alltilfinnanlega í okkar landbúnaði. Nýjar vélar, sem notaðar eru við búnaðarstörfin, eru alltaf að koma til sögunnar, þær eru að verða fullkomnari og fullkomnari, afkastameiri og afkastameiri, en þær verða líka jafnframt dýrari í stofnkostnaði og dýrari í rekstri. Slíkar vélar kalla því beinlínis á það, að framleiðslan geti aukizt, heildartekjuöflunin geti orðið meiri, ef búin eiga að fá að njóta góðs af hinni nýju tækni. Það er því ekkert um það að villast, að það er að rísa upp það vandamál í íslenzkum landbúnaði, að það búskapariag, sem nú er aðallega byggt á, fær illa samrýmzt þróuninni. Við stöndum sýnilega frammi fyrir því, að það þarf að stækka búin enn til mikilla muna frá því, sem verið hefur, ef vel á að fara, og þá verður um annað af tvennu að velja, annaðhvort verða að koma til stórbýli einstaklinga, sem aðallega byggja þá á aðkeyptu vinnuafli, eða þá að um það verður að ræða, að bændur taki upp aukið samstarf sín á milli í búrekstrinum. Það verður sem sagt um að ræða meiri eða minni félagsrekstur. hað er skoðun okkar flm. þessa frv., að það standi miklu nær vilja og hug íslenzkra bænda að fara síðari leiðina, að hugsa til meira samstarfs í búrekstrinum og jafnvel sameignar í ýmsum tilfellum og fika sig áfram eftir þeirri leiðinni, fremur en stefna að hinni leiðinni, sem byggir fyrst og fremst á aðkeyptu vinnuafli.

Það er augljóst mál, að það búskaparlag, sem þegar hefur verið tekið upp í okkar landbúnaði, útheimtir í rauninni líka, ef vel á að vera, aukna verkaskiptingu. Það eru vissulega óskyld störf í sjálfu sér, að kunna vel til meðferðar á vélum og það oft og tíð um nokkuð samsettum vélum, að kunna vel til þess að fara með vélarnar, endurnýja þær og velja sér vélar til búrekstrar, og svo aftur hins, að vera út af fyrir sig góður fjármaður eða góður búskaparmaður í sambandi við ræktunarmál. Hér er um mjög óskyld störf í sjálfu sér að ræða, og er ekki nema í einstaka tilfelli, sem þannig háttar til, að sami maðurinn sé til hvors tveggja vel fallinn. Á því er því enginn vafi, að í landbúnaði ekki síður en í öðrum störfum er þörf á því að reyna að koma málunum þannig fyrir, að um hagkvæma verkaskiptingu geti verið að ræða, að einn maðurinn þjálfist meira í meðferð véla og vinnu með þeim og annar aftur í ýmsum öðrum störfum, sem landbúnaðinum fylgja.

Þá er ekkert heldur um það að villast, að það búskaparlag, sem nú er byggt á, einyrkjabúskapurinn, leiðir af sér mikið ófrjálsræði í störfum. Það er varla hægt að komast hjá því, að svo fari, að bóndinn verði mjög bundinn hinum daglegu störfum og megi í rauninni aldrei frá því víkja. En í félagsrekstri er hægt að komast fram hjá þessum vanda, því að þá er miklu auðveldara, þó að einn af 2 eða 3, sem saman búa, viki sér frá um stundarsakir, og eru þá aðrir tiltækir á búinu til þess að hlaupa í skarðið.

Okkur flm. þessa frv. er fyllilega ljóst, að það verður ekki vandalaust að breyta frá hinu gamla búskaparlagi einyrkjafyrirkomulagsins yfir í félagsrekstur. Það má fyllilega búast við því, að þar geti orðið um marga byrjunarörðugleika að ræða og ýmsar tilraunir í þeim efnum kunna að mistakast. En þrátt fyrir byrjunarerfiðleika má ekki gefast upp við þetta verkefni, á því verður að taka, og það verður að reyna að komast yfir byrjunarörðugleikana og finna nýju búskaparlagi nýtt form eða skapa því nýjar aðstæður.

Aðaltilgangur þessa frv. er að reyna að hafa áhrif á þróunina í uppbyggingu landbúnaðarins, reyna að hafa áhrif á það, að búskapur okkar þróist í þá átt, sem byggir á meira samstarfi, meiri samvinnu en hingað til hefur verið og miðar jafnframt að því að gera búin eða búreksturinn stærri, umfangsmeiri en hann er nú, stækka búeininguna. Og til þess að reyna að ná þessu marki er sem sagt gert ráð fyrir því að bjóða þeim bændum, sem reyna vilja hið nýja fyrirkomulag, upp á nokkru hærri lán til stofnframkvæmda og bjóða þeim upp á nokkru hagstæðari lánakjör en einyrkjabúskapnum er nú boðið upp á.

Það er að vísu ljóst, að það, sem er lagt til í þessu frv., er aðeins að stiga fyrsta skrefið í þessa átt. Með þessu er ekki allur vandinn leystur, síður en svo. En það er með því verið að benda á leiðina, það er verið að fika sig í áttina. Það væri að vísu mjög brýnt, eins og nú háttar til í íslenzkum landbúnaði, að vinna að því að stækka þau fjölmörgu bú, sem enn þá eru langt undir stærð meðalbúsins, og í þeim efnum þyrfti að gera mikið átak. En um leið og stórátök eru gerð til framfara í landbúnaði, er alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, í hvaða átt skal stefna í raun og veru, hvaða búskaparlag er það, sem á að koma og hlýtur að koma, eða eigum við að treysta á það, að form landbúnaðarins verði um langa framtíð enn það sama og það hefur verið, þar sem byggt er á einyrkjafyrirkomulaginu?

Raddir úr hópi bænda hafa verið að koma fram fleiri og fleiri að undanförnu einmitt í þá átt, sem fram kemur í þessu frv. Ég á því von á því, að undirtektir frá hálfu bænda geti orðið góðar varðandi efni þessa frv. En það skiptir miklu máli, að nauðsynleg lagabreyting sé gerð í þá átt, sem lagt er til í þessu frv., ef hægt á að vera að reyna að gera þessa tilraun.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mái hér að sinni, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og landbn.