05.12.1963
Neðri deild: 25. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (2007)

84. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir því, að gerðar verði þrjár meginbreytingar á gildandi lögum og reglugerðum um bann gegn botnvörpuveiðum. Í fyrsta lagi er lagt til með þessu frv., að sektir fyrir landhelgisbrot verði hækkaðar allverulega frá því, sem nú er í lögum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að sett verði skýr ákvæði í lög um það að banna að láta af hendi eða selja upptæk veiðarfæri þeirra, sem sekir hafa reynzt um botnvörpuveiðar í landhelgi, fyrr en í fyrsta lagi einum mánuði eftir að sektardómur hefur verið kveðinn upp í máli slíkra aðila. Og í þriðja lagi er svo sú breyting, að sett verði í lög alveg ótvíræð ákvæði um það, að þegar svo vill til, að sekur skipstjóri, sem tekinn hefur verið að ólöglegum veiðum í landhelgi, sleppur á einn eða annan hátt undan, þannig að ákæruvaldið hefur ekki aðstöðu til þess að koma fram dómi á slíkan aðila, megi í slíkum tilfellum sækja til saka útgerðarfyrirtæki viðkomandi veiðiskips og gera útgerðarfyrirtækið á allan hátt ábyrgt fyrir landhelgisbrotinu.

Ég vil nú víkja með nokkrum orðum að hverri þessari breytingu um sig og hvaða ástæður liggja til þess, að ég legg til, að þessar breytingar verði gerðar á núgildandi lagaákvæðum.

Það er þá fyrst viðvíkjandi sektarupphæðum fyrir landhelgisbrot. Þær sektarfjárhæðir, sem nú gilda, voru ákveðnar með lögum árið 1951, og eru því þau ákvæði orðin um 12 ára gömul. Á þessum tíma hefur orðið mjög mikil breyting í mörgum greinum varðandi sektarfjárhæðirnar, því að skiljanlega hafa þær verið miðaðar á hverjum tíma í fyrsta lagi við verðgildi þeirra skipa, sem tekin eru að ólöglegum veiðum, og í öðru lagi miðað við verðgildi þess afla, sem hugsanlegt er að þau skip geti náð í, sem brjóta lögin og veiða á ólöglegan hátt innan landhelginnar. Nú er það svo, að sektir varðandi landhelgisbrot hafa um langan tíma verið miðaðar við gullkrónur, en það þýðir, að sektarhæðin hefur hækkað í pappírskrónum talið sem samsvarar gengisbreytingunni á þessum tíma. Það hefur því orðið að vísu nokkur hækkun á sektarfjárhæðinni mælt í ísl. krónum á þessu tímabili, þar sem allmikil breyting hefur orðið á gengi krónunnar, en þessi breyting, sem orðið hefur á gengi krónunnar, er hins vegar ekki í samræmi við aðrar verðbreytingar, sem verður að taka tillit til í sambandi við þetta mál.

Verðið á þeim skipum, sem tekin eru fyrir landhelgisbrot, hefur hækkað miklum mun meira en sem samsvarar beinni gengisbreytingu. Það er að vísu ekki gott að fullyrða um það, hversu miklu meira verðið hefur hækkað á veiðiskipunum, en á því er þó enginn vafi, að verð þeirra hefur hækkað miklum mun meira en samsvarar beinni gengisbreytingu, og þar af leiðandi hafa sektarfjárhæðirnar ekki hækkað til samræmis við hækkandi verðlag skipanna. Ég hygg, að um það leyti sem núgildandi sektarfjárhæðir voru ákveðnar, eða fyrir 12 árum, hafi algengasta skipastærð þeirra togara, sem stunda veiðar hér við land og a.m.k. stundum hætta sér inn fyrir markalínuna, verið á milli 350 og 500 rúmlestir. Það munu ekki hafa verið mörg erlend veiðiskip, sem veiddu með botnvörpu hér við land á þeim tíma, sem voru stærri en þetta. En nú er hins vegar reyndin orðin sú, að skipin eru nær öll komin upp yfir þessa stærð, og mjög algengt mun vera, að skipin séu á stærðinni frá 800—1000 rúmlestir. Hér er því orðið um að ræða miklu stærri og fullkomnari og afkastameiri skip heldur en lögð voru til grundvallar, þegar sektarfjárhæðirnar voru ákveðnar á sínum tíma.

Þá er þess einnig að gæta, að útbúnaður skipanna er orðinn allt annar nú en hann var þá. Nú er búið að setja í flest þessi veiðiskip sem föst veiðitæki eða aðstoðartæki við veiðina mjög dýr og fullkomin tæki, sem þó teljast ekki almennt til veiðarfæra, heldur er þar um að ræða fastatæki, sem notuð eru við veiðarnar, en þau tæki voru af mjög skornum skammti í skipaflotanum fyrir 12 árum og á engan hátt sambærileg við tæki þau, sem eru í skipaflotanum nú. Þessi breyting hefur einnig verkað á það, að heildarverðmæti skipanna er miklum mun meira nú en verðmæti þeirra var, þegar sektarfjárhæðirnar voru ákveðnar á sínu m tíma. Ég hygg, að verð á nýjum togara af algengustu gerð, sem nú stundar veiðar hér við land, muni vera orðið í kringum 40—50 millj. kr. á hverju skipi, en sú upphæð sýnir mönnum, að hér hefur orðið alveg gífurleg breyting frá því, sem áður var. Ég tel því, að það sé orðin brýn nauðsyn á því að hækka sektir fyrir landhelgisbrot, m.a. með tilliti til þess, hve veiðiskipin eru orðin miklum mun dýrari en þau voru, þegar sektarfjárhæðirnar voru ákveðnar á sínu m tíma, hvað þau eru orðin yfirleitt miklu stærri og betur útbúin og miklu afkastameiri en skipin voru á sínu m tíma.

Í öðru lagi er svo þess að geta, að fiskafli sá, sem skipin leita eftir einnig með þessum hætti, að brjóta gildandi lög í okkar landi og veiða innan landhelgismarkanna, — að fiskaflinn hefur einnig hækkað í verði allmikið fram yfir það, sem nemur gengisbreytingu íslenzku krónunnar. Það hefur sem sagt orðið bein verðlagshækkun á fiskmörkuðunum á þessum tíma. Aflaverðmætíð er því orðið miklum mun meira en það var, þegar sektirnar voru ákveðnar. Ég hygg, að nú megi t.d. reikna með því, að mjög algengt aflaverðmæti úr venjulegum fiskitúr hjá togara, sem stundar veiðar á Íslandsmiðum, geti verið í kringum 11/2—2 millj. kr. úr veiðiferð, en vissulega er þetta breytilegt eftir því, hvernig aflast á hverjum tíma. Þarna hefur því einnig orðið breyting á þeim grundvelli, sem á að miða við eða er eðlilegt að miðað sé við, og af þeim ástæðum tel ég, að það sé orðið knýjandi að breyta sektarupphæðunum frá því, sem er í gildandi lögum og reglugerðum.

Nú eru algengustu sektir fyrir brot á landhelgislöggjöfinni hjá togurum í kringum 240—260 þús. kr. En samkv. þessu frv. mundu þessar sektir hækka, ef miðað er við lágmark, í 380 þús. kr. og allt upp í það að vera 1.3 millj. kr. Í gildandi lögum er við það miðað, að veiðiskipunum sé skipt í tvo hópa og sektirnar mismunandi fyrir hvorn hóp um sig. Annars vegar er um að ræða veiðiskip, sem eru að stærð undir 200 brúttórúml., en hins vegar eru svo skip, sem eru yfir 200 brúttórúml. að stærð. Allir erlendir togarar svo að segja, sem teknir eru að landhelgisveiðum hér við land, eru í stærðarflokknum, sem er yfir 200 brúttórúml. Ég hef hins vegar í þessu frv. valið þá leið að flokka skipin niður í 3 stærðarhópa: í fyrsta lagi skip undir 200 rúml., í öðru lagi skip í stærðarhópi frá 200—600 rúml. og í þriðja lagi skip, sem eru yfir 600 rúml. að stærð. Og í frv. er þá miðað við það, að sektarákvæðin séu þannig, að gert sé ráð fyrir talsvert miklu hærri sektarupphæðum fyrir stærstu skipin heldur en skipin af millistærð. Og það er út frá þessu meginsjónarmiði, sem ég hef þegar rakið, að ég tel, að það eigi að leggja hér til grundvallar að verulegu leyti verðmæti skipanna, sem tekin eru að ólöglegum veiðum, og aflamöguleika þeirra, en á því leikur enginn vafi, að skipin, sem eru í stærsta flokknum, stærstu gerðinni, eru hvort tveggja í senn miklum mun dýrari og yfirleitt betur útbúin til veiðanna og hafa miklu betri aflamöguleika.

Það hefur komið í ljós að undanförnu, að erlend veiðiskip hafa verið tekin í landhelgi með mjög stuttu millibili. Ég veit, að það hefur vakið athygli fleiri en mín, að það má alveg furðulegt telja, hvað mikið er orðið um það, að erlendir togarar eru teknir að veiðum innan landhelgimarkanna. Það hefur komið fyrir nú að undanförnu hvað eftir annað, að fleiri en eitt skip hefur verið tekið í sömu vikunni. Ég er á þeirri skoðun, að landhelgissektirnar, eins og þær eru nú í framkvæmd, séu svo lágar, að það sé beinlínis að verða freistandi fyrir skipin að hætta nokkru á það að kunna að verða tekin, þó að þau þurfi að mæta þeirri refsingu, sem nú er framkvæmd hér eftir okkar lögum og reglugerðum í þessum efnum, vegna þess að um svo mikið sé að tefla á hina höndina. Sektarupphæðin er ekki ýkjamikil, þó að viðkomandi útgerðarfyrirtæki þurfi að borga um 240 þús. kr. í sekt fyrir skip, sem er að verðmæti upp á 40—60 millj. kr. og hefur möguleika á því á örfáum dögum að afla verðmæta, sem nema 11/2—2 millj. kr. Ég held líka, að allir þeir, sem um þessi mál hafa hugsað, hafi komizt að svipaðri niðurstöðu og ég, að það sé orðin knýjandi nauðsyn, eins og þessum málum er nú háttað hjá okkur, að gera breytingar í þessum efnum og hækka sektirnar mjög verulega.

Ég vík þá að annarri breytingu þessa frv., en þar er gert ráð fyrir því, að bannað verði með skýrum orðum í l. að afhenda eða láta af hendi með nokkru móti veiðarfæri, sem hafa verið gerð upptæk með dómi, fyrr en a.m.k. einn mánuður er liðinn frá því, að dómur um landhelgisbrotið var kveðinn upp. Nú er sá háttur hafður á í þessum efnum, að þó að ákveðið sé, að veiðarfæri þess skips, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum í landhelgi, skuli gerð upptæk, þá eru þau í raun og veru ekki gerð upptæk í framkvæmd. Það er aðeins látíð fara fram mat á verði veiðarfæranna, og venjulega er það mat mjög lágt, þar sem botnvarpan og tilheyrandi tæki eru metin til verðs, en síðan setur útgerðarfyrirtæki þess skips, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum, tryggingu fyrir því, að áætlunarverðið fyrir veiðarfærin verði goldið, þegar hæstaréttardómur hefur fallið í málinu, verði hann til staðfestingar á undirréttardómi, en síðan eru veiðarfærin aldrei tekin upp úr því skipi, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum, og það getur haldið út með hin upptæku veiðarfæri og hafið veiðar með þeim að nýju, bæði utan landhelginnar og eins innan, ef svo vili verkast til. Ég vil, að sett verði ákvæði í lög um það, að veiðarfæri, sem gerð hafa verið upptæk hjá landhelgishrjóti, verði tekin úr skipinu og það sé óheimilt með öllu að láta þau af hendi eða selja þau fyrr en í fyrsta lagi að mánuður er liðinn frá ]wí, að dómur hafi verið kveðinn upp í undirrétti. Þetta mundi verða til þess, að í flestum tilfellum yrði landhelgisbrjóturinn að hætta við veiðar í það skipti og halda til sinnar heimahafnar og fá þannig maklega refsingu fyrir landhelgisbrotið, og ég hygg, að í mjög mörgum tilfellum mundi útgerðarfyrirtækið og skipstjóri skipsins telja refsinguna í þessu formi jafnvel sér kostnaðarsamari en hina, sem ákveðin var í beinum krónum og greiða átti fyrir brotið. Ég get að vísu hugsað mér það, að í vissum tilfellum gæti slíkt skip, sem verður fyrir þessu, komizt yfir einhver veiðarfæri frá öðrum skipum á miðunum. En ég hygg þó, að það yrði mjög erfitt að koma slíku við. Þetta mundi í flestum tilfellum þýða það, að skip, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum í landhelgi og misst hefur sín veiðarfæri, neyddist til þess að halda til sinnar heimahafnar á nýjan leik, eða eftir að það hafi verið tekið og dæmt. Sú aðferð, sem viðhöfð hefur verið í þessum efnum, er í alla staði óeðlileg, og sé þetta atriði borið saman við framkvæmd á l. í öðrum og hliðstæðum tilfellum, þá er mér tjáð af þeim mönnum, sem með dómsmál í svona málum hafa að gera, að það sé einmitt hin almenna regla, að hvort heldur um er að ræða veiðarfæri eða annað þess háttar, sem gert sé upptækt, þá gildi einmitt sú regla, að slíkur varningur sé tekinn af þeim, sem sekur hefur fundizt, og hann geymdur hjá réttum lögregluyfirvöldum, en ekki látinn af hendi, svo að við mundum, þó að við settum upp þessa reglu, aðeins halda hinni almennu reglu, en ekki víkja út af henni á nokkurn hátt, þó að þessi háttur yrði hafður á, sem lagt er til að hafa í þessu frv.

Ég kem þá að þriðju meginbreytingunni, sem þetta frv. fjallar um, en það er sú breyting, að fram skuli tekið með skýrum orðum í l., að þegar svo vill til, að skipstjóri á skipi, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum í landhelgi, sleppur á einn eða annan hátt undan íslenzkum yfirvöldum og til hans næst ekki, til þess að hann þoli þann dóm og þá refsingu, sem gert er ráð fyrir samkv. íslenzkum lögum að hann verði að þola, þá skuli tekið fram með skýrum ákvæðum í l., að þegar svo vill til, þá beri viðkomandi útgerðarfélag skipsins alla ábyrgð og það megi stefna því og sækja það til saka fyrir landhelgisbrotið, þannig að enginn vafi geti á leikið. Ég veit, að allir hv. alþm. muna eftir því atriði, sem hér kom upp í sambandi við togarann Milwood, þegar brezkt herskip stóð þannig að málinu, að það kom brezka skipstjóranum á hinum seka togara undan og hann komst til síns heimalands, án þess að íslenzk réttvísi næði til hans. Það lék lengi mikill vafi á því, hvort tök væru á eftir íslenzkum réttarfarsreglum að koma fram sekt í sambandi við þetta landhelgisbrot, og enn leikur fullkomin óvissa á því, hvernig réttarfarslega muni fara í þessu tiltekna máli. Þetta hefur vakið menn til umhugsunar um, að það þarf nú ekki einu sinni að hátta til á svipaðan hátt og gerðist í þessu tilfelli. Í rauninni getur þetta komið fyrir í miklu fleiri tilfellum, að sekur skipstjóri, sem tekinn hefur verið að veiðum í landhelgi, geti á einn eða annan hátt komizt undan. Eins og þessi mál hafa verið framkvæmd hjá okkur, höfum við ekki treyst okkur til þess að hafa slíkt eftirlit með sekum togaraskipstjóra, sem fluttur hefur verið til hafnar, að hans sé gætt þannig, að það sé óhugsandi fyrir hann að skjóta sér undan. Það mætti því fyllilega búast við því, að fleiri atvik gætu komið fyrir, að sekur skipstjóri gæti skotíð sér undan, horfið úr landi, og þá færi svo, að ekki væri hægt að koma fram nauðsynlegum refsingum vegna landhelgisbrotsins samkv. þeim lagaákvæðum, sem enn eru í gildi hjá okkur. Ég tel því, að það eigi að setja í lögin alveg ótvíræð ákvæði í þessum tilfellum, þar sem sagt sé, að ef ekki næst til hins seka skipstjóra, ef hann sleppur á einn eða annan hátt undan, er það útgerðarfélag skipsins, sem ber alla ábyrgð og verður að þola dóm og refsingu. Á því leikur enginu vafi samkv. íslenzkum lögum.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim þremur meginbreytingum, sem eru fólgnar í þessu frv. á gildandi lagaákvæðum um botnvörpuveiðar. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum hér, hve mikil nauðsyn er á því, að við reynum að verja okkar fiskimið fyrir ólöglegum ágangi annarra og hvernig við þurfum að haga framkvæmd okkar í þeim efnum, að forða okkur frá þeirri hættu, að okkar dýrmætu fiskimið verði að meira eða minna leyti eyðilögð. Það er svo margrætt mál og viðurkennt af öllum hér, að um það þarf ekki að hafa mörg orð. En þá er það líka alveg augljóst, að við verðum a.m.k. að gæta þess á hverjum tíma, að lagaákvæði, sem eiga að vera til verndar okkar fiskveiðilandhelgi, séu þannig og þannig framkvæmd einnig, að þau dragi verulega úr eða komi sem mest að hægt er í veg fyrir landhelgisbrot. Sektarákvæði öll og allar refsingar verða að vera með þeim hætti, að það leiki enginn vafi á því, að allir, sem hlut eiga að máli, forðist sem allra mest að voga sér í það að brjóta lögin eða reglurnar. Ég held, að ákvæði þau, sem nú eru í lögum hjá okkur, og framkvæmdin, eins og hún hefur verið nú um langa hríð á refsiákvæðum, sé engan veginn fullnægjandi í þessum efnum og það sé orðin því brýn nauðsyn á því að endurskoða þessi ákvæði á þeim grundvelli, sem lagt er til í þessu frv. Það kann vel að vera, að hér þyrfti að taka upp fleiri atriði til breytingar eða þá mætti haga þessum breytingum eitthvað á annan veg en lagt er til í þessu frv.. en ég held þó, að það ætti ekki að verða mikill ágreiningur um það, að öll þau þrjú atriði, sem nefnd eru í þessu frv., eru þýðingarmikil og sjálfsögð, eins og nú er komið málum.

Ég vil svo að lokum óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til sjútvn. d., sem ég vænti að bregðist vel við og afgreiði þetta mál fljótlega frá sér, því að ég held, að það fari ekki vel á því, að þetta mál sé látíð liggja hjá þinginu óafgreitt lengi, að málin séu þegar orðin þannig, að það sé orðið mjög knýjandi að fá þessar breytingar fram. Ég vænti svo, að sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, treysti sér til þess að fallast á efni þess og afgreiði það fljótlega.