17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2030)

102. mál, menntaskólar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, áður en menntmrh. flutt í ræðu sína eða undir umr., sem urðu um þetta mál fyrir nokkrum dögum, og hafði ætlað mér að beina nokkrum fsp. til hæstv. ráðh. Nú hefur hann að verulegu leyti svarað því í ræðu sinni hér áðan, sem ég hefði viljað spyrja hann um. En fsp. sú, sem ég ætlaði að beina til hæstv. ráðh., var sprottin af því, að þegar fjárl. fyrir 1963 voru hér til umr. fyrir 11/2 ári, flutti ég ásamt fleiri þm. till. um það, að tekin yrði upp sérstök fjárveiting til nýs menntaskóla í Reykjavík, en hæstv. menntmrh. lagði þá á móti þeirri till. með þeirri röksemd, að hún væri í raun og veru óþörf, vegna þess að það væri þá ákveðið af hæstv. ríkisstj. að byggja nýjan menntaskóla í Reykjavík, eða sem sagt, áætlanir hennar í þeim efnum væru þær að stækka gamla menntaskólann, eins og nú er verið að vinna að, og svo í framhaldi af því að hefjast handa með byggingu nýs menntaskóla í Reykjavík, í Hamrahlíð, sem raunar væri þá þegar búið að gera teikningar að, og væri ráðgert, að framkvæmdir á þeirri byggingu mundu hefjast ekki síðar en haustið 1964, eða nú í haust. Mér skildist á því, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að þessar ráðagerðir hæstv. ríkisstj. væru óbreyttar, þ.e. að framkvæma þá stækkun gamla menntaskólans, sem nú er verið að vinna að, og hefjast svo handa um byggingu nýs menntaskóla hér í bænum, en þó með þeirri breytingu, að í staðinn fyrir, að hann ráðgerði fyrir 2 árum, að hægt væri að byrja á byggingarframkvæmdum þessa skóla haustíð 1964, verði byrjað á byggingarframkvæmdum vorið 1965.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. séu óbreyttar í þessum efnum, þ.e. að unnið verði að stækkun gamla menntaskólans, eins og ráð var fyrir gert, og enn fremur verði ekki heldur hætt við ráðgerða byggingu nýs menntaskóla í Reykjavík og þær framkvæmdir verði hafnar ekki síðar en vorið 1964. Hins vegar undrar mig á því, fyrst þetta er stefna hæstv. ríkisstj., sem ég treysti að verði staðið við, vegna hvers hún er þá andvíg því, að það verði lögfest, að það verði tveir menntaskólar í Reykjavík. Ég held, að það sé öllum ljóst, sem eitthvað kynna sér þessi mál, að þjóðin kemur til með að hafa mjög mikla þörf fyrir stórfellda aukningu menntaskólagenginna manna í framtíðinni og jafnvel miklu meiri þörf en menn gera sér almennt nú grein fyrir. Og ég tel það með öllu rangt að ætla að áætla þörfina eftir því, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., hve margir það væru, sem öðluðust landsprófsréttindi. Ég held, að það sé öllum ljóst, sem eitthvað kynna sér þessi mál, að landsprófið, eins og það nú er framkvæmt, er þröskuldur í okkar skólamálum, sem á að falla niður. Það er þröskuldur, sem er búinn til, til þess að koma í veg fyrir það, að unglingar geti aflað sér menntaskólanáms, sem er þó nauðsynlegt að miklu fleiri geri en nú á sér stað, og þess vegna álít ég, að þennan þröskuld eigi að nema í burtu að mjög verulegu leyti og skapa þannig fleiri möguleika til þess að komast að hjá menntaskólum, að því að geta stundað nám við menntaskóla. Enda hygg ég, að sannleikurinn um landsprófið sé sá, að það hafi verið fundið upp á sínu m tíma vegna þess, að þá var skortur á menntaskólum og það varð að finna upp einhvern þröskuld til að koma í veg fyrir það, að umsóknirnar að menntaskólunum yrðu of miklar miðað við þá afkastagetu, sem þeir höfðu þá. En ég er alveg sannfærður um það, að ein helzta endurbótin, sem þarf að gera í okkar skólamálum, er einmitt að breyta landsprófinu mjög frá því, sem nú á sér stað, á þann veg að auðvelda fleiri aðgang að menntaskólanámi en er í dag, á meðan þessi þröskuldur er látinn vera þarna í veginum, en um það atriði sé ég ekki ástæðu til þess að ræða frekar að sinni.

Ég vil sem sagt láta á ný í ljós ánægju mína yfir því, að það virðist vera óbreytt afstaða hæstv. ríkisstj. að ljúka þeim framkvæmdum við gamla menntaskólann í Reykjavík, sem nú eiga sér stað, og hefjast handa um byggingu nýs menntaskóla í Reykjavík ekki síðar en á næsta ári því að það er vissulega fylista þörf fyrir þá aukningu, og ég vil segja, að það er þörf fyrir þá aukningu vegna Reykvíkinga fyrst og fremst sjálfra. En þessa menataskóla á ekki að byggja til þess að reisa svo síðar við þá heimavist fyrir nemendur utan af landi, vegna þess að þeir eigi að sækja sitt skólanám þar, og í sambandi við það vil ég segja nokkur orð.

Þegar hæstv. menntmrh. var að lesa hér upp áðan það, sem hann taldi skýrslur um, hve lítil aðsókn mundi verða að menntaskóla á Vestfjörðum og á Austurlandi, rifjuðust upp fyrir mér gamlar umr, hér á Alþ., sem ég las í þingtíðindunum fyrir mörgum árum. Á árunum 1920—1927 eða sérstaklega á árunum 1923—1927 var háð hörð barátta um það hér á Alþ., hvort reisa ætti menntaskóla á Akureyri. Framsóknarmenn, sem þá áttu hér sæti á Alþingi, beittu sér mjög fyrir því, að komið yrði upp menntaskóla á Akureyri. Íhaldið, sem þá var hér á Alþ., beitti sér gegn þessu, og meginrök þess voru að sjálfsögðu þau, eins og vænta mátti af því, að það væri engin þörf fyrir þennan skóla og það yrðu ekki neinir til þess að sækja þennan skóla, þess vegna væri stuðlað þarna að því að koma upp skóla, sem engir mundu sækja og hefði allt of fáa nemendur. Hefur það nú orðið reynslan af Menntaskólanum á Akureyri, að hann hafi skort nemendur? Ég held, að þeir, sem þekkja til þeirra mála, muni ekki svara á þann veg, heldur hefur miklu frekar reynslan orðið sú, eins og kom líka fram hjá hæstv. ráðh., að hann hefur ekki getað tekið á móti öllum þeim, sem hafa sótt um nám í skólanum. Og ég hygg, að það mundi verða svipuð saga, ef svo færi, að komið yrði upp menntaskólum á Vestfjörðum og á Austurlandi, að það mundi fljótlega sýna sig, að þá mundi ekki skorta nemendur, frekar en það reyndist á Akureyri á sínum tíma og eins á Laugarvatni. Þess vegna legg ég mikla áherzlu á það sem þm. Reykjavíkur, að þó að sjálfsagt sé að halda áfram við þær fyrirætlanir um eflingu gamla menntaskólans hér í Reykjavík og byggingu nýs menntaskóla, er ekki síður þörf fyrir að reisa slíka skóla bæði á Vestfjörðum og á Austurlandi.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að víða um lönd er nú aukin hreyfing uppi um það, sem kallað er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og hefur verið vitnað til þess í umr. hér á Alþingi, í þær áætlanir, sem eru uppi í þeim efnum t.d. í Bretlandi, Noregi og viðar. Og það má t.d. rifja það upp í þessu sambandi, að kosningar standa nú fyrir dyrum í Bretlandi á næsta hausti og það er eitt meginatriðið, sem allir flokkarnir leggja áherzlu á í sínum stefnuskrám, að vinna að auknu jafnvægi í byggð landsins, vegna þess, hversu mjög fólkið hefur sótt til Lundúna og svæðanna þar í kring á undanförnum árum og áratugum. En það, sem lögð er ein megináherzlan á í þeim áætlunum til þess að jafna metin í þessum efnum í Bretlandi og annars staðar, er einmitt fólgið í því, sem mætti kalla dreifingu menningarstöðvanna. Bretar ráðgera á næstu árum að fjölga mjög hjá sér menntaskólum og háskólum. Verkamannaflokkurinn þar setti upp mjög rótttæka áætlun um slíkar framkvæmdir á flokksþingi sínu á s.1. hausti, og síðan hefur verið tekið undir það af íhaldsflokknum, sem nú fer með stjórn landsins. En ég held, að ég megi fullyrða, að í þessari áætlun sé gert ráð fyrir því, að svo að segja allar þessar nýju menntastofnanir, nýju háskólar, sem á að reisa, og menntaskólar o.s.frv. verði að langsamlega mestu leyti byggðir utan Lundúna og hinna gömlu háskólabæja, en verði hins vegar reistir á nýjum stöðum. Þetta stafar einfaldlega af því, að það er eitt mikilvægasta atriðið einmitt í því að tryggja jafnvægi í byggð landsins, að menningarskilyrði séu sem jöfnust og dreift sé um landið vissum stórum menningarmiðstöðvum, sem hjálpi til þess að tryggja jafnvægið, og það er t.d. líka alveg vist og getur hver og einn gert sér grein fyrir því, sem hugsar þetta mál, hvaða þýðingu það hefur haft fyrir Akureyri, að menntaskóli hefur verið staðsettur þar á undanförnum árum. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef væri t.d. reistur menntaskóli á Ísafirði eða annars staðar á Vestfjörðum, mundi hann hafa engu minni þýðingu þar, og sama gildir að sjálfsögðu um menntaskóla, sem væri staðsettur á Austurlandi.

Ég held þess vegna, í stuttu máli sagt, að rétta stefnan í þessum efnum sé sú, sem kemur fram einmitt í því frv., sem hér liggur fyrir, að koma upp tveimur menntaskólum hér í Reykjavík og fullnægja þar með þörfum Reykvíkinga fyrir þetta nám, en í stað þess að ætla að fara að byggja heimavistir við þessa skóla eða hér í Reykjavík, eins og hæstv. menntmrh. var að tala um, eigi að koma upp menataskólum á Vestfjörðum og Austurlandi. Það sé langsamlega skynsamlegasta leiðin í þessum málum og það sé í raun og vera líka miklu stærra atriði en það að tryggja öllum aðgang að menntaskólanámi og það sé líka verulegur þáttur í því stóra máli, sem menn tala nú mjög fagurlega um hér í þinginu, þó að þeir byggi kannske misjafnt í þeim efnum, en það er að tryggja aukið jafnvægi í byggð landsins.