17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (2031)

102. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. siðasta ræðumanns, sem ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta strax, en hann lét orð um það falla, að landsprófið svonefnda hefði á sínum tíma verið tekið upp beinlínis til þess að torvelda aðgang unglinga að menntaskólanámi og það væri þröskuldur á leið inni inn í menntaskólana, sem ætti að afnema sem fyrst. Hér gætir mjög mikils misskilnings. Hugsunin á bak við landsprófið, þegar það var tekið upp á sínu m tíma, var þvert á móti að jafna aðstöðu allra þeirra unglinga, sem æsktu að ganga menntaskólabrautina. Áður hafði þessi aðstaða í raun og veru verið mjög ójöfn og það, sem gert var með landsprófinu, var einmitt að gera öllum unglingum, hvar sem er á landinu, sem stunduðu nám í skólum, sem bjuggu undir menntaskólanám, jafnt undir höfði í keppninni um það að leggja út á menntaskólabrautina. Það var því síður en svo, að meiningin með því væri sú, að því væri ætlað að vera þröskuldur, heldur þvert á móti, því var ætlað að skapa jafnrétti unglinganna, og þessa jafnréttisaðstöðu tel ég mjög mikilvægt að varðveita. Það kann vel að vera, að full ástæða sé orðin til þess að endurskoða að meira eða minna leyti efni landsprófsins og jafnvel að einhverju leyti framkvæmd þess. En þá grundvallarhugsun að hafa skilyrði ungmennanna, sem vilja komast í menntaskólana, sem jöfnust, tel ég tvímælalaust, að eigi að varðveita.

Að öðru leyti þótti mér vænt um, að hv. þm. lýsti ánægju sinni yfir þeim ákvörðunum, sem ríkisstj. hefur þegar tekið í byggingarmálum menntaskólanna í Reykjavík og mun að sjálfsögðu framfylgja á næstu árum.