17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (2032)

102. mál, menntaskólar

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Ég vona, að mér leyfist sem einum úr hópi 10 fyrstu nemendanna, sem Menntaskólinn á Laugarvatni brautskráði, að lýsa yfir þakklæti mínu og Laugvetninga yfir þeim ummælum hæstv. menntmrh., að hann telji eðlilegt og sjálfsagt og skynsamlegt að hefja byggingu heimavistarhúsnæðis við Menntaskólann á Laugarvatni, þegar lokið er byggingu Menntaskólans í Reykjavík, sem fyrir dyrum stendur. Ég vildi þó leyfa mér að koma á framfæri þeirri skoðun eða þeirri aths., hvort ekki væri talið æskilegt að gera þetta nokkru fyrr. Á Laugarvatni eru núna 100 nemendur eða svo, en talið er mjög kostnaðarlítið, miðað við þann árangur, sem úr því fengist, að bæta við nemendabústöðum, þannig að skilyrði sköpuðust til að fjölga nemendum um helming eða upp í 200, og mundi þá nást sú stærð menntaskóla, sem ýmsir skólamenn telja eðlilega, til þess að hægt sé að reka slíka stofnun með eðlilegum hætti.

Í júnímánuði n.k. eru liðin rétt 10 ár frá því, að Menntaskólinn á Laugarvatni brautskráði sína fyrstu stúdenta, og hinn 12. apríl s.l. voru 11 ár, síðan skólinn var formlega stofnaður, og á morgun mun skólinn ljúka kennslu eða það mun verða lokið kennslu á þeim hópi, sem í 10. skipti fer frá skólanum. Kennslan hafði hafizt í menntaskólafræðum nokkrum árum áður en 1954 í sambandi við héraðsskólann fyrir ötula forgöngu Bjarna Bjarnasonar, þáv. skólastjóra héraðsskólans á Laugarvatni. Í allmörg ár vann hann ásamt ýmsum öðrum áhugamönnum að því, að skólinn yrði stofnaður, en í 1. gr. l. nr. 58 1946, um menntaskóla, sem enn þá gilda, var kveðið svo á, að stofna skyldi menntaskóla í sveit, þegar fé yrði veitt til þess á fjárl. Á fjárl. ársins 1952 voru veittar 100 þús. kr. til menntaskólakennslu á Laugarvatni, en þáv. menntmrh., Björn Ólafsson, taldi sér ekki fært þrátt fyrir ákvæði l. að fullnægja þeim, og í umr. hér á hv. Alþingi um fjárlfrv. fyrir árið 1953 komst þáv. menntmrh., Björn Ólafsson, þannig að orði hér, að hann vildi benda Alþingi á og hann teldi sér það skylt, hvílík fjárhagsbyrði yrði lögð á landsmenn með þessu skólahaldi, sem hann taldi að hefði verið undirbúið með miklu kappi, en af minni forsjá og án tillits til gildandi laga og gegn fyrirmælum rn., eins og hann komst að orði.

Í Menntaskólanum á Laugarvatni eru, eins og ég sagði, rúmlega 100 nemendur. Kennslan í 1. bekk fer fram í einu lagi, en í þremur efstu bekkjunum eru tviskiptar deildir, þannig að í hvorri deild, stærðfræðideild og máladeild, eru 10–15 nemendur. Algengt er, að í slíkum deildum séu milli 20 og 30 nemendur. Er því augljóst, að þarna mætti fjölga nemendum allverulega, án þess að bæta þurfi við kennurum nema sem 1—2. Þannig telur skólameistarinn á Laugarvatni, að fjölga megi nemendum upp í 200, án þess að bæta við nema 2 kennurum. Hann hefur í samtali við mig komið fram þeirri skoðun, að hann teldi nauðsynlegt, að þetta verði gert sem allra fyrst, ekki eingöngu til þess að taka við auknum nemendafjölda til þess að stunda menntaskólanám, heldur til þess að fá út úr starfinu betri skóla en hann getur verið í núverandi stærð, með því að aukinn nemendafjöldi opnar möguleika á fjölbreyttari kennslu og meira alhliða menningarlegri og betra kennaraliði.

Þegar undirbúin var stofnun Menntaskólans á Laugarvatni; var því mjög haldið á lofti, að það væri brýn nauðsyn til þess að auðvelda unglingum úr strjálbýli menntaskólanám að stofna menntaskóla í sveit. Aldur nemenda á fyrstu skólaárum í menntaskólanámi er um 16 ár, og er það ofur eðlilegt, þó að fólki víðs vegar um land, á Austfjörðum og Vestfjörðum, þyki ófýsilegt að senda unglinga á þessum aldri til Reykjavíkur og vita af þeim þar sem leigjendum í misjafnlegum húsakynnum, þótt ekki sé minnzt á þann kostnað, sem slíkri dvöl fylgir. Eins og samgöngum er nú háttað, liggur Laugarvatn mjög vel við sem skólasetur. Það liggur miðsvæðis í fjölmennasta héraðinu utan Reykjavíkur og Akureyrar. Staðurinn er fjarri borgarlífinu í Reykjavík, en þó svo nærri, að nemendur geta auðveldlega notið þess bezta, sem menningarstofnanir þjóðarinnar í Reykjavík hafa upp á að bjóða á hverjum tíma, með því að ekki er nema klukkustundar akstur þar á milli. Á Laugarvatni er fyrir ýmiss konar aðstaða, sem æskilegt verður að teljast að sé, þar sem menntaskólar hafa aðsetur. Þar er fyrir Íþróttaskóli ríkisins, þar er íþróttahús, sundlaug og fullkomin aðstaða til íþróttaiðkana. Þar er húsmæðraskóli. Þar eru fleiri skólar, þannig að þarna er mjög mikið fjölmenni til þess að njóta alhliða menningarlífs, sem slíkt fjölmenni á einum stað gerir mögulegt. Ég vil þess vegna varpa fram þeirri hugmynd, hvort fjölgun nemenda á Laugarvatni með því að byggja heimavist þar fyrir 100 nemendur geti ekki orðið betri úrlausn fyrir dreifbýlið, Austfirði og Vestfirði, heldur en bygging nýs menntaskóta í Reykjavík og hvort þeir þm., sem í dag eru að verja kröftum sínu m í baráttunni fyrir skólastofnun á Eiðum og Ísafirði, mundu ekkí geta sameinazt um þetta úrræði til bráðabirgða a.m.k., ef það yrði talið óhagkvæmt og óþarft að reisa skóla á þessum stöðum. Ég vildi þess vegna aðeins láta koma fram að lokum, að í Menntaskólanum á Laugarvatni hafa verið nemendur eingöngu úr byggðarlögunum utan Reykjavíkur eða svo til eingöngu. Flestir eru eðlilega af Suðurlandsundirlendi, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum, en einnig mjög margir af Suðurnesjum, frá Vestfjörðum og af Austfjörðum. Þannig eru í vetur við skólann í námi 9 nemendur af Austfjörðum. Aðild að skólanum er ekki takmörkuð, en þegar hann hefur ekki getað tekið við öllum, sem sótt hafa um skólavist, hafa nemendur búsettir utan Reykjavíkur að jafnaði setíð í fyrirrúmi.

Það er erfitt fyrir mig að dæma um það, hver árangur hafi orðið af skólahaldinu á Laugarvatni. Ég hef ekki tölur um það, þó að það hefði verið fróðlegt að skýra hv. Alþ. frá því, úr hvaða byggðarlögum nemendur skólans hafa verið og hvert þeir hafa farið. Svona rétt til gamans mætti kannske hlaupa yfir það, hvaðan fyrstu 10 nemendurnir voru. Þeir voru: í frá Selfossi, 1 úr Vestmannaeyjum, 1 úr uppsveitum Árnessýslu, 1 úr Hveragerði, 1 úr Rangárvallasýslu, 1 úr VesturSkaftafellssýslu, 3 af Suðurnesjum, 1 frá Neskaupstað. Og þessir nemendur hafa allir nema 1 stundað háskólanám. 2 þeirra eru læknar; 1 lögfræðingur, 1 viðskiptafræðingur, 1 verkfræðingur, 2 eru skólastjórar eftir kennaranám, og þannig mætti áfram telja. Og 3 þessara nemenda, þeir sem voru frá Selfossi, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, eru einmitt starfandi núna heima í þessum héruðum.

Ég hef þess vegna ríka tilhneigingu til þess að skilja vel þær hvatir, sem búa að baki þeim vilja Austfirðinga og Vestfirðinga að fá skóla heim í sín héruð. Það er fyrst og fremst hinn ríki héraðsmetnaður og staðsetning skólastofnunar eins og menntaskóla mundi verða lyftistöng í almennu menningarlífi og félagslífi í þessum héruðum. En þó vil ég láta þá skoðun koma fram hér, sem mér hefur ekki fundizt nægilega koma fram í þessum löngu umræðum: Það er ekki nóg, held ég; að stofna menntaskóla í dreifbýlinu, hann verður að hafa sambærileg skilyrði og aðrar slíkar stofnanir, og ef nú á að fara að skipta menntaskólunum, hverri deild hverjum árgangi um sig í 3 deildir eða fleiri í staðinn fyrir 2 núna, stærðfræðideild og máladeild, getur það verið mjög erfitt fyrir slíka skóla fámenna að geta boðið nemendum sínu m upp á sambærilega kennslu og aðrir stærri skólar geta gert. Og það er ekki nóg að stofnsetja skóla í héraði, sem mundi draga til sín beztu nemendur úr gagnfræðaskólunum, eftir að þeir fara í gegnum landspróf, þegar engin starfsaðstaða er til í þessum héruðum fyrir þá menn, sem menntaskólanámi ljúka. Þannig gæti stofnun menntaskóla í héraði eins og Austfjörðum beinlínis stuðlað að því, að beztu nemendurnir úr hópi æskufólks byggðarlaganna færu burt, af því að þeir færu í gegnum menntaskóla, síðan í háskóla og síðan væri engin starfsaðstaða fyrir þessa menn heima í héruðunum, þannig að byggðarlögin misstu blómann af æskufólki sínu í stað þess að halda honum heima í héruðunum. Þess vegna hygg ég, að staðsetning menntaskóla og annarra skólastofnana yrði að vera liður í alhliða skipulagningu og uppbyggingu hinna dreifðu byggða á landinu.

Ég held, að þessu máli sé lítið gagn gert með því að fara höndum um það eins og hv. seinasti ræðumaður, þegar hann brýndi aðra á því að tala fagurlega, en hyggja flátt. Ætli það sé ekki einmitt þannig, að hv. þm. Framsfl. ræða þetta mái og halda því á lofti sem lið í öðrum málum, sem þeir bera fram hér á hæstv. Alþingi, beinlínis til að stuðla að óánægju og togstreitu og kryt á milli fólksins í hinum dreifðu byggðum og fólksins í þéttbýlinu á Suðurlandi.

Ég vildi láta þessi sjónarmið af minni hálfu varðandi Menntaskólann á Laugarvatni koma fram. Það er ekki nóg að hafa menntaskóla, það er litill greiði gerður menntaskólanáminu að vera með hálfkláraða, hálfgerða skóla í mörg ár, eins og t.d. Menntaskólinn á Laugarvatni er núna. Mér er nær að halda, að það væri meira gagn bæði fyrir nemendur austanlands og vestan að fullgera þann skóla, sem núna er á Laugarvatni, gera hann færan um að veita fullkomlega sambærilega menntun og hinir tveir menntaskólarnir gera. Og enn má bæta við einum rökum fyrir stækkun Menntaskólans á Laugarvatni. Á Laugarvatni vantar tilfinnanlega húsnæði fyrir rekstur á sumrum. Þar er orðin miðstöð í ferðamannamótum hér á landi, húsnæði þar er gernýtt yfir allt sumarið vegna móttöku ferðamanna, og þar vantar brýnt húsnæði. Þannig mundi heimavistarhúsnæði fyrir menntaskólann nýtast allt árið um kring sem hótel og yrði sjálfsagt að byggja sem slíkt, og þannig fengi skólinn og ríkið tekjur móti þeim kostnaði, móti þeim útgjöldum, sem húsbyggingunni yrðu samfara.

Þetta voru þau sjónarmið, sem ég vildi láta koma fram, og langar þó aðeins að lokum, áður en ég lýk máli mínu og hverf úr þessari deild, að víkja aðeins nánar að þessari sýndarmennsku framsóknarmanna í tali þeirra um jafnvægi í byggð landsins, sem þessar till. eru óneitanlega hluti af eftir yfirlýsingum tveggja síðustu ræðumanna. Það hafa verið haldnar langar ræður um jafnvægi í byggð landsins, og hér á dagskránni var á seinasta fundi frv. til l. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og fyrir þinginu liggur till. frá Framsfl. um eflingu byggðar í Selvogi. Þetta má telja höfuðtill. framsóknarmanna hér á þessu þingi um jafnvægismálin. Hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) talaði lengi um þá hættu, að útlendingar geri kröfu um að mega nýta örreytisjarðir, ef byggðin dragist saman í dreifbýlinu. Þessi vandi með hugsanlegan áhuga útlendinga á Íslandi held ég að snúi alveg öfugt við. Miklu meiri hætta er á, að útlendingar líti hýru auga á beztu landskosti, sem hér finnast, ef Íslendingar hagnýta þá ekki sjálfir. Ef hins vegar útlendir blámenn úr frumskógum Afríku kunna þá list að reka landbúnað á Vestfjörðum, þar sem vestfirzkir kjarnabændur hafa gefizt upp, væri miklu frekar ástæða til að sækja nokkra slíka galdamenn til að kenna íslenzkum bændum en að amast við þeim, nema hv. þm. hafi hér í þingi verið að tala fyrir kynþáttamisrétti.

Þessi jafnvægisvandamál leysast ekki með neins konar jafnvægisleikfimi né áróðurstali hér á þingi. Þau leysast annars vegar með skipulegu átaki ríkisvaldsins og öflugri samstöðu fólksins í dreifbýlinu. Um þetta efni liggja hér fyrir hv. Alþ. tvær till., önnur um heildarskipulag landshluta, þar sem reiknað er með, að Íslendingar stefni inn á þær brautir, sem allar nágrannaþjóðir hafa gert á seinustu árum, að taka upp vísindalega skipulagningu til langs tíma um uppbyggingu héraða með byggðakjörnum og staðsetningu menningarstofnana. Enginn hv. framsóknarmaður hefur lagt þessari till. lið. Þetta fjallar um frumkvæði ríkisvaldsins að uppbyggingu héraðanna í landinu. Hin till. fjallar um að styrkja fólkið í viðleitni þess heima fyrir til þess að mæta þeim erfiðleikum, sem hafa raskað jafnvægi í byggð landsins. Þessi till. er um stækkun sveitarfélaganna. Ég veit ekki til, að nokkur þm. Framsfl. hafi mælt þessu lið. En þessar till. báðar eru að mínu viti raunhæfustu till. og skynsamlegustu, sem komið hafa fram í þinginu á seinustu árum, til þess að hafizt verði handa að vinna skipulega að allsherjaruppbyggingu atvinnulífsins í landinu.

Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Reykv. (ÞÞ), var að tala um fláttskap í umræðum um jafnvægismál. Mér dettur í hug till., sem hefur slæðzt hérna með til mín, till. ritara Framsfl. , hv. 6. þm. Sunnl. (HB), hans framlag til vandamálsins um jafnvægi í byggð landsins. Till. fjallar um eflingu byggðar í Selvogi. Það var þá helzta framlag hins nýkjörna 6. þm. Sunnl., ritara Framsfl. , til eflingar dreifbýlinu í landinu, og er farið mörgum fögrum orðum um nauðsyn þess að efla byggðarlagið í Selvoginum. Þetta var lesið upp í útvarpinu, og þetta var samþ. hér á hv. þingi umræðulaust um miðnæturskeið í fyrrinótt. Þessi blómlegi búskapur í Selvogi er nú fólginn í eftirfarandi tölum, sem ég vil að lokum leyfa mér að benda á. Í Selvogshreppi voru hinn 1. des. s.l. samkv. bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands 33 íbúar. Þarna var búskapur með þeim hætti, sem hér skal greina: Það voru 7 bændur árið 1962, þá voru 7 bændur. Þeir höfðu bústofn sem hér segir: 7 bændur höfðu 6 kýr til samans og eitt geldneyti, 1027 ær og 5 hross. Þetta er nú búskapurinn, hinn blómlegi búskapur í Selvogi, sem ástæða er til þess að efla. (Gripið fram í.) Og jafnvægismál líka, af því að hv. þm., sem fyrr hafa talað, hafa ótvirætt sagt það skýrum orðum, að stofnun menntaskóla á Austurlandi og á Vesturlandi sé einn liður að þeirra mati í þeirri alhliða uppbyggingu úti á landi til aukins jafnvægis í byggð landsins, svo að ég vona, að mér leyfist að lokum, — ég er alveg að ljúka máli mínu, — að benda á að gefnu tilefni frá hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) í hans tali um fláttskap af hálfu hæstv. menntmrh, og annarra, sem koma fram skynsamlegum athugasemdum og rökum um mái, sem talað hefur verið um meira af tilfinningu, sem ég a.m.k. fyrir mína parta skil mjög vel, heldur en af skynsamlegum rökum, og ég vil spyrja: Er það nú höfuðnauðsyn í íslenzkum þjóðarbúskap að efla byggðina í Selvogi með þeim hætti, sem hér er lagt til? Það er lagt til, að stofnað verði byggðahverfi samkv. l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, l. nr. 75 21. apríl 1962. Og ég vil í því sambandi aðeins benda á í þessari leið til aukins jafnvægis í byggð landsins, að til þess að þar verði byggðahverfi, er alveg nauðsynlegt að reisa alimörg nýbýll. 10 nýbýli er talið mjög æskilegt, t.d. til þess að talið verði fært að leggja þangað rafmagnsleiðslur, sem er auðvitað undirstaða þess, að byggð geti haldizt í Selvogi. Hvað kostar að reisa 10 nýbýli? Að áliti landnámsstjóra kostar það 20 millj. kr. Rafmagnslína í Selvoginn kostar 2 millj. Og fólkið er farið. Fólkið er farið úr Selvogi flestalit, vegna þess að tækniframfarir og alhliða framfarir á landinu kipptu stoðunum undan búsetu í Selvogi í þeim ríka mæli, sem áður var, fólkið farið úr Selvogi, sem áður undi þar vel, miðað við aðra landsmenn og afkomumöguleika þeirra, vegna þess að það var hægt að bjarga sér á útmánuðum á vorin með því að róa til fiskjar á Selvogsbankanum. Þetta fólk er farið til Þorlákshafnar, og þaðan er fiskurinn sóttur og dreginn á land í mjög stórum stíl. Nei, það er, hygg ég fláttskapur að halda því fram, að höfuðnauðsyn beri til að efla búskap í Selvogi umfram það, sem nú er. Hitt er annað mál að viðhalda því, sem þar er fyrir. Það er nefnt, að þar hafi verið höfuðból lengi vel. Hvar eru þessi höfuðból í Selvogi í dag, Nes og Bjarnastaðir? Þau eru bæði í óbyggð og í eigu manna, sem eru búsettir utan Selvogs, t.d. í Reykjavík. — Þetta var aðeins lítið sýnishorn af því, hverjum — ég veit ekki, hvort má segja, hvort það er nógu þinglegt, hverjum farist að tala um fláttskap og hverjum ekki.

Nei, þetta vandamál er mjög brýnt, vandamál um jafnvægi í byggð landsins, og dreifing menningarmiðstöðva er að sjálfsögðu mikilvægur liður í því sambandi. Þess vegna hefði ég kosið að koma á framfæri þeirri skoðun minni, hvort ekki væri ástæða til að hraða svo sem kostur væri uppbyggingu Menntaskólans á Laugarvatni, til þess að allir þeir nemendur úr sveit, að austan og vestan, geti fengið að stunda nám og notíð heimavistarinnar í menntaskóla í sveit, en þurfi ekkí að sækja slíkt nám til Reykjavíkur, enda hygg ég, að það séu að öðru jöfnu meiri möguleikar á, að þeir nemendur, sem þar stunda nám, hafi skilning á því að setjast að í dreifbýlinu og þeim þörfum, sem landsbyggðin kallar á. Hún kallar á menntamenn til starfa í sveitum og við sjó, og það er auðvitað skylda Alþingis og ráðamanna að stuðla að því, að fólkið þar búi við nákvæmlega jafngóð skilyrði og fólkið í þéttbýlinu til þess að njóta náms og þeirrar aðstöðu, sem þarf, og líka að svo verði hagað með skipulagningu, með skipulögðu átaki að efla byggðirnar með raunhæfum hætti um land allt, enda verður þjóðfélag okkar í framtíðinni að byggjast á hagnýtingu vísinda og tækni og verða sannkallað þjóðfélag vísinda og tækni. - Þökk fyrir.