03.02.1964
Neðri deild: 50. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (2042)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Í gildi eru lög um búnaðarmálasjóð, eins og þetta frv. ber með sér. Þau voru sett til þess á þann hátt að afla nokkurs starfsfjár fyrir Stéttarsamband bænda og fyrir búnaðarsambönd landsins. Og á þeim tíma, sem þessi lög hafa gilt, hefur helmingurinn af því fé, sem upphaflega var ákveðið að innheimta í þessu skyni, runnið til búnaðarsambandanna, en annar helmingurinn til Stéttarsambands bænda. Þetta frv., sem ég hef hér leyft mér að bera fram, snertir aðeins þann hluta búnaðarmálasjóðsgjaldsins, sem runnið hefur sem starfsfé til búnaðarsambandanna í landinu. En eins og kunnugt er, hafa þær skiptingarreglur á því fé gilt, að það hefur runnið til búnaðarsambandanna nákvæmlega í því formi, sem það hefur verið innheimt á hverju sambandssvæði. Ég játa, að mér hefur frá upphafi þótt þessar skiptingarreglur nokkuð óeðlilegar í félagsmálastarfi, og það er ekki heldur því að leyna, að þessu hefur fylgt það, að hin öflugri búnaðarsambönd, sem eru mynduð á þeim svæðum, þar sem framleiðslan er mest og búskapurinn í beztu horfi, hjá þeim búnaðarsamböndum hefur getað myndazt mun öflugri starfsemi til leiðbeiningar fyrir bændur heldur en á þeim svæðum, þar sem framleiðslan er minni og geta þá um leið minni. Það skal að vísu játað, að ef skipting í búnaðarsambönd hefði verið með nokkuð öðrum hætti, eða réttara sagt, ef búnaðarsambönd í landinu hefðu ekki verið svo mörg sem þau eru nú, þá hefði orðið meiri jöfnun á milli þeirra, þó að þær skiptingarreglur giltu, sem nú eru í lögum. En staðreyndin er þessi, að búnaðarsamböndin eru allmörg og sum mjög lítil, og afleiðingin af þessari skiptingarreglu er því sú, að. þar sem framleiðslan er minnst og búskapurinn veikastur, er líka minnst getan til þess að veita sæmilega leið beiningaþjónustu, sem er eitt af aðalverkefnum búnaðarsambandanna. Þetta er nokkuð rakið í grg. fyrir þessu frv., og ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta.

Ég hafði hugsað mér að láta fylgja í grg. ofur lítið yfirlit um það, hvaða breyting mundi verða á, ef þessi skipan kæmist á um skiptingu búnaðarmálasjóðsgjaldsins. Ég leitaði eftir því hjá Búnaðarfélagi Íslands að fá upp tölu þeirra meðlima í búnaðarsamböndunum, sem kosningarrétt áttu að hafa til búnaðarþings, en því miður gat ég ekki fengið þetta upp, og heldur en vera með einhverja áætlun, sleppti ég því að láta slíkt fylgja í grg. En ég hef þó gert mér ofur litla hugmynd um þetta, því að það liggja fyrir tölur um meðlimafjölda í hverju búnaðarsambandi, og yfirleitt mun ekki vera um mikinn mismun að ræða á þeirri tölu og tölu þeirra manna, sem kosningarrétt hafa til búnaðarþings. Þó eru nokkur samböndin þannig, einkum þau, sem ná yfir þorp og kaupstaði, að þau munu hafa nokkru, fleiri meðlimi en þá, sem atkvæðisrétt hafa til búnaðarþings, því að það er miðað nokkuð við framleiðslumagn eða hve mikinn búskap viðkomandi rekur. En í höfuðdráttum mundi þetta ekki valda verulegri breytingu hjá allmörgum samböndum.

Þau sambönd, sem miðað við árið 1962 hefðu komið til með að fá nokkru lægri hlut en með núverandi skiptingarreglum, eru Búnaðarsamband Borgfirðinga, Búnaðarsamband Eyfirðinga og Búnaðarsamband Suðurlands. Þetta eru, eins og flestir vita, einna öflugustu samböndin og samböndin, þar sem búskapur er í einna beztu horfi. Ég hef aðeins lítillega athugað þetta líka, hvað snertir Búnaðarsamband Austurlands, og þar mundi hafa orðið nokkru hærri upphæð, sem komið hefði í þess hlut. Ég dreg það ekki í efa, að svo mundi einnig vera með búnaðarsamböndin á Vesturlandi, en ég hygg, að sum samböndin, eins og Húnvetningar, Skagfirðingar og Þingeyingar, — ég hygg, að þessi sambönd mundi það ekki skipta miklu, hvor reglan gilti.

En þó að þetta kunni að virðast ekki þýðingarmikið atriði, finnst mér það þó þess eðlis, að það sé rétt að hreyfa því og m.a. og kannske fyrst og fremst til þess að undirstrika það, að í félagsmálastarfi er grundvaliaratriði að gæta þess, að þeir, þar sem ástæður eru betri, verði til þess að styðja, þar sem ástæður eru erfiðari. Það er að vísu sjálfsagt að heyra álit Búnaðarfélagsins um þetta mál, og ég geri ráð fyrir því, að landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, muni ekki afgreiða það frá sér öðruvísi en að leita álits þess á málinu. Ég skal engan dóm á það leggja, hver sú umsögn kann að verða, en í stuttu máli: ég hef talið málið þess eðlis, að það væri rétt að hreyfa því, og það er mín skoðun, að það eigi að breyta þessum ákvæðum í það horf, sem hér er lagt til. Ég vildi jafnvel segja, að ég teldi mest rök fyrir því, að skiptingarreglan væri aðeins tala bænda í hverju sambandi eða þeirra, sem kosningarrétt hafa til búnaðarþings, en eins og ég vík að í grg., þar sem komin er nokkur hefð á þessa skiptingu og það mundi því e.t.v. valda nokkrum erfiðleikum, þar sem þetta framlag hefur verið hæst hingað til, ef mjög væri söðlað um, þá hef ég ekki lagt til að ganga lengra en þetta yrði leiðrétt, ef svo mætti segja, til hálfs. En ég vil aðeins ítreka það, sem ég einnig vík að í grg., að mér finnst einmitt núna vera nokkuð hagstætt augnablik til þess að gera þessa breytingu, og það er vegna þess, að nú hefur orðið bæði allmikil verðhækkun á búvörunni og auk þess mikil framleiðsluaukning og ekki sízt á þeim svæðum og raunar fyrst og fremst á þeim svæðum, sem mesta hafa haft framleiðsluna fyrir. Þetta mundi þess vegna væntanlega ekki valda þeim samböndum, sem mesta tekjuvonina eiga eftir núgildandi reglum, eins miklum erfiðleikum og ef ekki hefði verið um tekjuaukningu að ræða fram undan.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. landbn.