04.02.1964
Neðri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (2047)

125. mál, barnaheimili og fóstruskóli

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við hv. 10. landsk. höfum leyft okkur að flytja frv. um aðstoð ríkisins við rekstur og byggingu almennra barnaheimila og um fóstruskóla, og skal ég leyfa mér að gera stutta grein fyrir því.

Það hefur gerzt í okkar landi mjög mikil breyting, sem margir vilja kalla byltingu, á öllum okkar atvinnuháttum á þessari síðustu kynslóð, og eitt af því, sem í því sambandi hefur gerzt, er, að konan tekur nú miklu meiri þátt í atvinnulífinu en áður. Alveg sérstaklega hefur orðið hröð breyting á þessu nú á síðasta áratug, þegar atvinna hefur víðast hvar á landinu verið mjög mikil, atvinnulífið kallað á konuna frá heimilinu, og svo hefur hitt bætzt við, að með þeim kröfum, sem menn gera nú til lífsins, og með þeirri dýrtíð , sem menn eiga við að stríða, er sívaxandi þörf fyrir fjölskyldurnar, að ekki aðeins karlmaðurinn vinni fyrir fjölskyldunni, heldur að konan geti unnið úti líka. Og í þriðja lagi kemur það þarna til greina, að konurnar gera eðlilega samkv. því jafnrétti, sem þær eiga að hafa, í sívaxandi mæli kröfu til þess að geta fullnumað sig, geta stundað sitt nám við háskóla og aðra æðri skóla, líka eftir að þær eru giftar, og það þýðir um leið, að til þess að þessi jafnréttisákvæði konunnar verði eitthvað meira en orðið tómt, þarf fjölskyldan að geta komið börnunum fyrir utan heimilis, hvort heldur konan er að vinna eða stunda nám. Þess vegna hefur sú breyting orðið á öllu okkar þjóðlífi, hvort sem mönnum líkar hún betur eða verr, sem ekki þýðir að neita eða berja höfðinu við steininn gagnvart.

Við verðum að laga okkar líf og okkar stofnanir eftir þessari breytingu, sem þarna hefur orðið. Og eitt af því, sem það leiðir fyrst og fremst af sér, er, að eins og þjóðfélagið varð fyrir allmörgum áratugum í sívaxandi mæli að taka að sér barnakennslu, af því að fjölskyldurnar hættu að annast það, sem þær þó höfðu gert öldum saman, eins kemur þjóðfélagið nú til með í æ ríkara mæli að verða að taka að sér svo og svo mikinn hluta af barnauppeldinu. Það þýðir, að þjóðfélagið verður að koma upp stofnunum, þar sem börn geta verið, líka á aldrinum fyrir neðan 7 ára, fyrir neðan skólaskyldualdur, sumpart kannske alveg, en þó í flestum tilfellum aðeins að deginum til eða hálfan daginn. Menn geta verið með mismunandi skoðanir um, hvort þetta sé heppilegt eða ekki, og það eru mismunandi skoðanir um það. En þetta er staðreynd, sem er áriðandi í þjóðfélaginu og þjóðfélagið verður að taka tillit til.

Ég man það, þegar þessi breyting var að byrja, að þá þótti þetta ákaflega fjarri lagi. Ég man, þegar við, sem þá vorum, — það eru nú komin ein 36 ár síðan, — fulltrúar Alþfl. í bæjarstjórn Akureyrar og vorum að leggja til að koma upp dagheimilum fyrir börn og barnaleikvöllum, þá var sagt við okkur af þeim, sem sátu þar með okkur í bæjarstjórninni, sumum, að þarna væru nú bolsarnir aldeilis lifandi komnir, þarna væru þeir að rifa börnin fá mæðrunum. Svona var viðkvæðið, þegar verið var að byrja á þessu. Nú er ástandið þannig, að bæjarstjórn Reykjavíkur, skipuð að meiri hl. af fulltrúum Sjálfstfl., hefur ekki aðeins komið upp allmiklu af barnaheimilum og barnaleikvöllum, heldur gerir meira að segja 5 ára áætlun, sem árið 1928 þótti ein goðgáin að minnast á, — gerir nú 5 ára áætlun um byggingu barnaheimila og rekstur barnaheimila í Reykjavík, þannig að ég geng út frá, að þegar við ræðum þessi mál núna, getum við rætt þau alveg án tillits til allrar flokkaskiptingar í þessum efnum. Vafalaust er kannske meira eða minna innan allra flokkanna einhver ágreiningur í þessum málum eftir því, hvernig menn hugsa, hve gamaldags hugsunarhátturinn er, og það eru ýmsir til í öllum flokkum, sem vilja halda mjög við það gamla á ýmsum sviðum, þó að þeir séu róttækir á öðrum, þannig að það mál, sem hér er um að ræða, er almennt þjóðfélagsmál, sem er alveg óhjákvæmilegt, að við iftum á sem hvert annað þjóðfélagsfyrirbrigði, sem ríkið að sínu leyti verður að hjálpa til við að ráða fram úr. Það hefur, eins og verið hefur með mörg af okkar umbótamálum, verið unnið ákaflega mikið starf á þessu sviði af alls konar samtökum almennings. Má nefna Barnavinafélagið Sumargjöf og Thorvaldsensfélagið, svo að félög hér í Reykjavík séu nefnd, verkakvennafélög ákaflega víða úti um land, verkakvennafélagið Framtíðina í Hafnarfirði, verkakvennafélagið Framsókn hér í Reykjavík, Mæðrafélagið hér í Reykjavík og mæðrastyrksnefndina og Alþjóðasamhjálp verkalýðsins og deild úr því, verkakvennafélögin á Siglufirði, Ísafirði og víðar. Ákaflega víða úti um land hafa fjölmörg samtök, bæði úr verkalýðshreyfingunni og almennt frá þegnum þjóðfélagsins, hjálpazt til við það að reyna að koma upp barnaheimilum og víða átt við mikla erfiðleika að stríða í þessum efnum, jafnt hér í Reykjavík sem Kópavogi og annars staðar, en alltaf orðið samt þó nokkuð ágengt. Og í þessu starfi, sem fram að þessu hefur verið unnið, hefur líka af hálfu fóstranna, sem þar hafa starfað, einnig þeirra, sem að fóstruskólanum hafa staðið, verið lagt fram ákaflega mikið og fórnfúst starf.

Þetta er venjan með allar þær umbætur, sem framkvæmdar eru. Það er vaninn, að svo og svo margir í þjóðfélaginu taki þar að sér að gerast brautryðjendur, áhugasamtök ryðja þarna brautina, en þegar þetta er orðið almennt þjóðfélagsfyrirbrigði, þá verður þjóðfélagið sjálft, þá verður ríkið sjálft líka að láta til sín taka með þetta. Það var líka svo áður fyrr, að það voru einstakir menn, sem ruddu brautina með barnaskóla og lögðu fram sjálfir fé til þess að reyna að koma barnaskólum hér upp. Núna er þetta hins vegar orðið svo almennt fyrirbrigði, þörfin orðin svo knýjandi, að ríkið verður sjálft að koma þarna til, svo fremi sem við eigum ekki að neita fjölda fólks um að uppfylla þær þarfir, sem á þessu sviði eru nauðsynlegar.

Þetta frv. okkar hv. 10. landsk. fer fram á að skipulegg,ja til að byrja með aðstoð ríkisins fjárhagslega við rekstur barnaheimila og við byggingu barnaheimila. Þörfin fyrir þessi barnaheimili er mikil. Ég veit,, að hér í Reykjavík, og geri grein fyrir því í grg., sem ég skal ekki endurtaka hér, mun vera pláss fyrir um 300 börn innan 7 ára á barnaheimilum. Ég hef ætlað það fullhátt í grg., af því að við reiknuðum með dagheimilið Tjarnarborg, sem hins vegar er aðeins leikskóli, en ekki barnaheimili, þar sem börnin fá líka að borða, þannig að það er rúm nú fyrir um 300 börn, og þá eru talin með þar börn, sem eru á vöggustofum og skriðdeild, eins og það er kallað hjá þeim, börn alveg frá fyrsta árí og fram undir sjöunda ár.

Ég hef reynt að spyrja forstöðukonur þessara barnaheimila að því, hvað þær héldu að þörfin væri mikil. Það hefur engin þeirra treyst sér til að áætla það. Í engum af barnaheimilunum er lagt út í það að skrifa þær beiðnir, sem koma um að taka við börnum á þessi barnaheimili. Það mundi verða svo langur biðlisti, að þeim þykir öllum það ekki vera til neins. En ég efast ekki um, að það skipti þúsundum, segjum 2 þús., segjum 3 þús., maður er ekki viss um, hvað það er. En það er engum efa bundið, að það er ekki nema lítið brot af öllum þeim barnahóp, sem fjölskyldurnar þyrftu að geta komið að á barnaheimilum, t.d. hér í Reykjavík, sem nú kemst þar að. Þarna er bæði um það að ræða, að konurnar séu að vinna úti, og í fjölmörgum tilfellum er vitanlegt, að konur hafa orðið að hætta við að vinna úti, vegna þess að þær hafa ekki getað komið börnunum fyrir, enn fremur að konur hafi orðið að hætta við nám, sem þær hafa verið við, af þessum sömu ástæðum. Enn fremur er vitanlegt, að fjölskyldufeður hafa orðið að hætta við vinnu, ef konan hefur orðið veik, vegna þess að það er ekki hægt að koma börnunum fyrir á barnaheimili, þannig að þetta er að öllu leyti orðin ákaflega brýn þörf fyrir fjölskyldurnar, eins og atvinnulífinu nú er háttað.

Það er ekki um biðlista að ræða þarna, það er ekki um biðraðir að ræða þarna, þær eru svo langar, að það tekur því ekki að stilla sér upp í biðraðir hvað barnaheimilin snertir. Svona er ástandið í þessum efnum.

Okkar nágrannaþjóðir hafa þegar gert stóra hluti í þessum efnum. Danir og Svíar hafa komið á mjög góðu kerfi um þetta, sem er að mörgu leyti til fyrirmyndar og við ættum að kynna okkur líka mjög vel og þeir eða þær, sem standa fyrir þessum heimilum, hafa líka kynnt sér mjög rækilega.

Ég skal, um leið og ég geri nú stutta grein fyrir sjálfu frv., geta þess, að það hefur, að því er mér er kunnugt, einu sinni áður verið flutt hér á Alþingi frv. um þetta sama. Það var 1946. Þá flutti Katrín Thoroddsen frv. til laga um dagheimili fyrir börn innan skólaskyldualdurs, þar sem var gert ráð fyrir bæði gæzlustöðvum fyrir börn frá eins mánaðar aldri til þriggja missira og svo leikskólum fyrir þau, sem eldri voru. har var gert ráð fyrir, að ríkissjóður skyldi greiða 2/5 hluta stofnkostnaðar og taka þátt í rekstri dagheimila, greiddi laun hjúkrunarkvenna og leikskólafóstra. Þá var gert ráð fyrir því, að það skyldi byggja tvö dagheimili á ári í Reykjavík, þar til þörfinni væri fullnægt og a.m.k. eitt heimili kæmi á hverjar hundrað íbúðir. Það er engum efa bundið, að svo fremi sem það frv. þá hefði verið samþykkt, og það var samþykkt í nokkuð breyttu formi til 2. umr. og n., sem um það fjallaði, þá mundi líta allmiklu betur út með þessi barnaheimili en nú er. Því miður var það ekki samþ. þá. Sannleikurinn er, að það hefði verið nær fyrir okkur að setja í lög ákveðinn fjölda rúma fyrir börn í slíkum barnaheimilum, ákveða, hve mörg barnaheimili skyldu byggð, t.d. í Reykjavík, heldur en ákveða t.d., hve marga presta og hve marga lögreglumenn skyldi hafa, um leið og í Reykjavík fjölgaði. Hitt hefði leyst úr enn þá brýnni þörf.

Í þessu frv. okkar á þskj. 215 er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi, að ríkið greiði 1/3 af rekstrarkostnaði barnaheimilanna, og þá er gengið út frá því, að bæirnir greiði 1/3, en aðstandendur barnanna greiði 1/3, þó þannig, að þeir greiði ekki jafnt, heldur er ætlazt til, að félmrn. ákveði með reglugerð, hvernig greiðslu aðstandenda sé háttað. Sá háttur er hafður á, veit ég, t.d. á Norðurlöndum, að aðstandendur greiða mjög misjafnt, og er það meira að segja mjög nákvæmlega sundurliðað þar eftir þeirra skatttekjum. Það þyrfti nú kannske ekki hjá okkur að vera svo nákvæmt, en höfuðatriði yrði að vera það, að við skulum segja einhleypar mæður eða ungar ekkjur, sem eru með smábörn, þyrftu ekki að greiða með börnum, þegar þær sjálfar þurfa að vinna fyrir heimill. Hins vegar, þegar t.d. um er að ræða hjón, sem bæði vinna úti og bæði hafa góða atvinnu og hálaunaða atvinnu, þá gætu þau greitt þarna fullt, t.d. 2/3, og þannig mundi jafnast út á meðal aðstandendanna, skulum við segja, að það yrði að meðaltali sem samsvaraði 1/3, sem frá aðstandendum barnanna kæmi. Ég skal geta þess, að hér í Reykjavík mun vera áætlað, að kostnaðurinn á mánuði sé þetta 1600—1800 kr. Það, sem kæmi t.d. í ríkisins hlut með 1/3, væri um 600 kr., og ég býst við, að núna t.d. sé það þannig, að Reykjavíkurbær muni greiða helminginn af þessum kostnaði, en gengið út frá, að aðstandendur greiði helminginn, ef ég man rétt.

Þá er í öðru lagi, að í frv. er gengið út frá því, að þeir aðilar, sem geti rekið slík barnaheimili, séu tvenns konar. Það séu í fyrsta lagi bæirnir eða sveitarfélögin, sem nú gera mest af þessu, þó að það sé að sumu leyti í samvinnu við áhugafélög. Við skulum segja, að t.d. í Reykjavík er það Barnavinafélagið Sumargjöf, sem á að heita að reka þetta, en það er bærinn, sem ber allan kostnaðinn af því og raunverulega stjórnar því. Í öðru lagi er gengið út frá, að svona styrkur geti verið greiddur áhugafélögum. Úti um land viðast hvar eru það og að forminu til hér í Reykjavík áhugafélög eins og Barnavinafélagið Sumargjöf eða ýmis verkakvennafélög eða kvenfélög eða slík, sem hafa haft áhuga fyrir þessu og hafa komið upp svona heimitum til að reka þau. Þá er enn fremur gengið út frá því í þriðja lagi, að opinberar stofnanir, við skulum segja t.d. háskólinn, geti rekið slík barnaheimill. Ef jafnrétti konunnar til menntunar á að vera meira en orðin tóm hvað æðri menntun snertir, þá þarf að koma upp slíku barnaheimili við háskólann, og erlendis, t.d. í Osló, er það alveg til fyrirmyndar, hvernig háskólinn hefur í slíku komið upp beinlínis hjónastúdentagörðum og þá náttúrlega barnaheimilum í sambandi við þá. í fjórða lagi er gengið út frá, að atvinnufyrirtæki geti komið upp svona barnaheimilum. Ef hér væri sæmilega búið að þeim fyrirtækjum og sæmilega skipulagt, sem reka t.d. saltfiskvinnuna, og fjölmörgum öðrum fiskiðnfyrirtækjum, hefði ekkert verið eðlilegra í hraðfrystihúsunum en barnaheimili hefðu verið í sambandi við slík stóratvinnufyrirtæki. Ef hér væri virkilegur stórrekstur skipulagður í þessu, þar sem ynnu hundruð kvenna við slíkt, væri ekkert eðlilegra en þar væri barnaheimili, og við verksmiðjur erlendis, ekki sízt t.d. í sósíalistísku löndunum og líka víða annars staðar, er það í mjög ríkum mæli og víða til fyrirmyndar barnaheimilin í sambandi við verksmiðjurnar, sjúkradeildir og allt annað slíkt, þannig að meira að segja þegar börnin fá sína barnasjúkdóma, geta þau legið áfram eða verið áfram í þessum sjúkradeildum barnaheimilanna, þannig að það þurfi ekki að fara eins og hér er ákaflega oft, að þegar börnin fá sína barnasjúkdóma, verða konurnar, ef þær hafa unnið úti, að hætta að vinna, vegna þess að þá er ekki hægt að sjá um börnin á barnaheimilunum, jafnvel þótt þau hafi verið þar áður, þannig að líka atvinnufyrirtæki einstaklinga og annarra ættu að athuga þetta mjög vel. Bankarnir hér í Reykjavík, sem t.d. nota ákaflega mikið kvenfólk í sína þjónustu, þeir hefðu alvarlega átt að athuga slíkt. Tilraun hefur verið gerð með slíkt uppi á Álafossi, veit ég, af einstökum atvinnurekanda. Og það er auðvitað sjálfsagt, ef svona væri komið upp, að ríkið að sínu leyti styrkti slíkt, en yrði náttúrlega að hafa þar eftirlit með. Félmrn. yrði að hafa sína eftirlitsmenn til þess að líta eftir því, að þarna væri frá heilbrigðislegu, félagslegu sjónarmiði allt nægilega vel útbúið, og setja sína reglugerð um það, því að sums staðar náttúrlega mundi slíkt vera af vanefnum gert og sums staðar, þar sem það hefur veríð reynt, hefur það líka dottið niður aftur.

Þá er gert ráð fyrir í 2. gr. frv., að sveitarfélög aðstoði við að byggja barnaheimili. Það er í fyrsta lagi látíð gilda um sveitarfélög, sem hafa yfir 1000 íbúa. Þó er gert ráð fyrir því í 3. gr., að sveitarfélög, sem hafa undir þeirri íbúatölu, geti notíð þessara sömu réttinda, ef félmrh. þykir það rétt eftir að hafa athugað málið. Í 2. gr. er gengið út frá, að svona barnaheimili, sem sveitarfélag á, fái sama byggingarstyrk og barnaskólar, og það virðist ekki rétt að fara þarna eftir neinu öðru „prinsipi“, hafa neina aðra meginreglu. Þetta eru raunverulega barnaskólar, einhvers konar, það er eins konar uppeldisstofnun fyrir þau börn, sem eru undir skólaskyldualdri. Og það er rétt, þegar þau börn á annað borð þurfa að vera á opinberri uppeldisstofnun, að þá séu þau styrkt og þeir bæir, sem láta hendur standa fram úr ermum um að vinna að þessu, fái sama styrk til þessa og til skólanna.

Þá er í 4. gr. alveg sérstaklega gert ráð fyrir, að ríkið reki fóstruskóla. Fóstruskóli hefur veríð rekinn undanfarið hér í Reykjavík. Hann hefur, eins og gerð er grein fyrir í grg., verið nokkuð á hrakhólum með húsnæði og oft átt erfiðar aðstæður, en hefur verið haldið uppi af miklum dugnaði, en alveg greinilegt, að hann annar ekki því, sem þyrfti. Skólastjóri skólans, Valborg Sigurðardóttir, sagði t.d. í ræðu, sem hún hélt við skólaslit þar í fyrra, að bara til þeirra barnaheimila, sem ætti að byggja í Reykjavík á næstu 5 árum, þyrfti 50—60 sérmenntaðar fóstrur, og reiknar hún þá bara með fóstrum í stöður forstöðukvenna og til deildagæzlu. Og það er langt frá því, að skólinn, eins og hann er nú, anni slíku, þannig að þarna er skortur á þeim fóstrum, sem eru raunverulegir kennarar þessara barna, þannig að ríkið þarf að taka að sér svona fóstruskóla. Hins vegar vildum við ekki vera að setja nákvæm fyrirmæli um þetta í þessa grein, heldur höfðum það svipað og þegar þessi hv. d. afgreiddi tækniskólann í fyrra og heimilaði að miklu leyti rn. að gefa út reglugerð um hans starf, sem væri gerð ýtarlegri siðar, og sett um það lög aðeins til þess að koma þessu af stað. Til þess að vekja meiri eftirtekt á þessu og til þess að vekja eftirtekt þjóðfélagsins á þeim skyldum, sem það hefur við slíka skólastofnun, tókum við þetta sérstaklega með í 4. gr.

Þau barnaheimili, sem undir þetta mundu koma, eru í fyrsta lagi dagheimili fyrir börn 2—6 ára, þ.e. börn, sem eru þarna frá því um morgnana þangað til á kvöldin og boróa á þessum dagheimilum, í öðru lagi vistheimili fyrir þau börn, sem geta ekki dvalizt heima hjá sér. Því meiri sem stórborgarbragurinn verður, sérstaklega hér í Reykjavík, því meira er um það, að þau börn, sem í heiminn fæðast, hafi ekki slíka umönnun frá sínum foreldrum, að þeim sé treystandi fyrir þeim, og hið opinbera hefur orðið í ákaflega mörgum tilfellum að taka sín börn af heimilum og getur þó ekki gert það í eins mörgum tilfellum og það hefði verið nauðsynlegt, og fram að þessu hefur það engan veginn verið gott, hvernig slíkum börnum hefur verið komið fyrir. Það ætti þó í okkar ríka þjóðfélagi sannarlega að vera eitt af því, sem þjóðfélagið ætti að setja sér, að þau börn, sem eiga raunverulega ekki aðra að en þjóðfélagið sem slíkt, ættu að geta átt góða fóstru, þar sem þjóðfélagið væri. Ísland er ekki svo fátækt lengur, að það geti ekki séð fyrir þeim tugum eða hundruðum barna, sem ekki geta treyst á framfæri sinna foreldra, þannig að það er nú verið að byggja slíkt vistheimili í Reykjavík, og veitir ekki af, að þar sé meira að gert. Í þriðja lagi koma undir þetta vöggustofur fyrir börn, sem eru undir tveggja ára, eða eins og það er kallað hjá þeim fóstrunum: vöggustofur, og svo skriðdeild fyrir eins árs. Og í fjórða lagi kæmi undir þetta sumardvalarheimili fyrir börn, sem okkur hefur þótt rétt að taka þarna undir líka.

Við höfum samið allýtarlega grg. og ráðfært okkur þar nokkuð við ýmsar þeirra kvenna, sem mikið hafa haft með þessi mál að gera hér í Reykjavík og Kópavogi. Engu að síður efumst við ekki um, að eitthvað er í þessu, sem laga mætti og gera betur úr garði, og ég vil alvarlega biðja hv. þm. að athuga þetta mál. Þetta er áreiðanlega eitt af þeim málum, sem seinna meir á eftir að verða samþykkt og verða líður í uppeldisstofnunum þjóðarinnar, og það er því ánægjulegra og því betra, því fyrr sem slíkt verður gert.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að þetta mál gangi til 2. umr. að lokinni þessari umr. Ég mun ekki gera till. um nefnd, en ég býst við, ef gerð er till. um nefnd, þá mundi það vera hv. heilbr: og félmn., sem það ætti að fara til. Hins vegar vil ég segja það, um leið og rætt er um nefndarstörfin hér í okkar hv. d. nú, að það er að verða til sífellt meiri vansa fyrir Alþingi, hvernig nefndarstörfin eru rekin. Það kemur varla fyrir, að nefndir skili áliti um mál nema þá stjórnarfrv. og rétt einstaka þmfrv., sem stjórnarmeirihl. ákveður að skuli ganga fram. Þetta er að verða alveg óþolandi. Það er skylda nefnda að taka mál til meðferðar, hvort sem menn eru málunum hlynntir eða ekki, og ég álit það vera alveg nauðsynlegt fyrir okkur að brjóta í blað. Ég er ekki að segja það sérstaklega til þess stjórnarmeirihl., sem nú er. Þetta hefur líka gilt um stjórnarmeirihl., sem áður hafa verið, og þetta fer þó hjá okkur sífellt versnandi, þegar litíð er á áratugina. Það er alveg nauðsynlegt, að við förum að taka upp aftur þann hátt, að n. skili áliti um þau frv., sem til þeirra fara. Það er hægur vandi fyrir stjórnarmeirihl., sem kærir sig ekki um að láta samþykkja frv. að svo stöddu, að leggja til að vísa slíku frv. til ríkisstj., ef hann væri mjög andvigur slíku frv., að leggja til að fella það, en a.m.k. að láta slíkt frv. fá meðferð í nefnd, leita umsagna um slíkt frv., prenta umsagnir með grg. og láta mál koma til 2. umr. og láta þau fá þar sína þinglegu afgreiðslu, hvort sem þau eru samþykkt eða felld eða vísað til ríkisstj. eða umbreytt eða hvað sem gert er. Það er að verða þannig með báðar þingdeildir, þó betra hér í hv. Nd., að það er að verða varla nægilegt af frv. til þess að halda fundi þá 4 daga vikunnar, sem nú er ákveðið, m.a. vegna þess, að 9/10 af öllum frv. koma aldrei aftur úr nefnd. Og þetta er starfsemi, sem ekki getur gengið hjá okkur. N. eru ekki hugsaðar sem kirkjugarðar, heldur sem starfandi nefndir til þess að athuga þau mál, sem fyrir koma, — þetta hefur farið versnandi á þeim tveim áratugum, sem ég hef átt sæti hér, og ég held, að ef þetta fer að versna hjá okkur, þá erum við beinlínis að stofna okkar þingræðisvenjum, okkar þingræði í hættu með þessu móti. Ég er ekki að segja þetta eingöngu út af þessu frv. eða út af því, sem ég eða Alþb. hefur flutt. Þetta gildir yfirleitt, hverjir sem hlut eiga að máli, og hefur gilt, hvaða flokkar sem hlut eiga að máli, á undanförnum áratugum í allt of ríkum mæli. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að við förum þarna að brjóta í blað og afgreiða þessi mál. Ég veit, að það eru til nefndir, sem hafa haft þann síð að afgreiða þessi mái, þær eru til, en aðrar, sem hafa verið því íhaldssamari og sleppt helzt aldrei neinu út úr sínum klóm.

Ég vil svo óska þess, að hv. þm. athugi þetta mál, og treysti á velvilja þeirra um það að fá þetta samþykkt, annaðhvort í þeirri mynd, sem það nú er borið fram, eða með þeim breytingum, sem það kynni að taka hér á Alþingi. En aðalatriðið er, að hér er hreyft við þjóðfélagslegu vandamáli, sem að vísu var hreyft hér við fyrir 18 árum og þá átti miklu minna upp á pallborðið í þjóðfélaginu en nú. Og ég held, að þau bæjarfélög, sem síðan hafa sýnt lofsverðan áhuga í þessum málum, eigi það skilið af ríkisins og þ,jóðfélagsheildarinnar hálfu, að þeim sé veittur stuðningur til þess ekki aðeins að koma þeim málum fram, sem þau eru nú með, heldur til þess að hraða þeirri þróun, sem þessi bæjarfélög hafa gert áætlanir um.