20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (2080)

151. mál, skipströnd og vogrek

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. 24. gr. laga nr. 42 frá 15. ,júní 1926 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú sannar maður ótvírætt heimild sína til vogreks, áður en það er auglýst, og má þá selja það honum í hendur. Annars kostar skal vogrek auglýsa með þeim hætti, er hér skal sagt verða:

Ef ætla má eftir fram komnum upplýsingum, að vogrek nemi ekki yfir 200 kr., þá auglýsir lögreglustjóri það með þeim hætti, er hann telur bezt fallinn til þess að komast fyrir það, hver eigandi sé. Ef telja má vogrek meira virði, þá auglýsir lögreglustjóri það einu sinni í Lögbirtingablaði, enda sendir dómsmrn. fyrirsvarsmönnum annarra ríkja hér á landi eintak af auglýsingunni. Í auglýsingu skal lýsa vogreki eftir föngum og skora á tilkallsmenn að gefa sig fram innan 6 mánaða frá birtingu auglýsingar og sanna lögreglustjóra heimildir sínar, því að annars kostar verði vogrek eða andvirði þess eign ríkissjóðs eða fjörueiganda. Áður en liðnir eru 6 mánuðir, má engum tilkallsmanni selja vogrek í hendur, nema hann setji fulla tryggingu fyrir því, að hann skili vokreki aftur eða andvirði þess, ef annar skyldi koma, áður en frestur sé liðinn, með ríkari gögn fyrir tilkalli sínu.”

Þannig er 24. gr. laganna. Og í 25. gr. sömu laga segir m.a.:

„Nú sannar maður heimildir sinar að vogreki, áður lögmætur frestur sé á enda, og skal þá selja honum það í hendur eða andvirði þess. Annars kostar verður vogrek eða andvirði þess eign ríkissjóðs, ef það eða andvirði þess nemur 500 kr. eða meira, að frádregnum öllum áföllnum kostnaði, og ef um skip eða skipsflak er að ræða, að frádregnum áætluðum kostnaði við brottnám þess úr fjöru, en ella fjörueiganda“.

Í báðum þessum lagagreinum, sem ég hef lesið, eru greindar upphæðir í krónum, sem miðað skal við um meðferð vogreks. Þessi ákvæði laganna hafa staðið óbreytt í 38 ár. En verðgildi peninga hefur hins vegar ekki haldizt óbreytt þennan tíma. Með þessu frv., sem hér er til 1. umr., er lagt til að breyta þessum lagaákvæðum um krónuupphæðina til nokkurs samræmis við breytt verðgildi peninga. Engin önnur breyting á lögunum felst í þessu frv. Hafi þessar fjárhæðir, sem í lögunum greinir, verið hæfilegar fyrir 38 árum, þá er sýnilega þörf á að margfalda þær nú. Í þessu frv. eru þær margfaldaðar með tölunni 30. Að sjálfsögðu er það áætluð tala, og ég geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort þessar upphæðir verða margfaldaðar með nokkru lægri tölu eða hærri tölu en ég legg hér til. Tilgangurinn með frv. er aðeins sá, að ákvæði laganna um fjárhæðir í þessum efnum verði samræmd núverandi verðgildi peninga. Ég ætla, að menn hljóti að verða sammála um, að það er ekki í samræmi við verðgildi peninga nú að hafa þessar fjárhæðir óbreyttar í lögum eftir 38 ár.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta frv., sem er ákaflega einfalt í sniðum og auðskilið, og legg því til, herra forseti, að 1rv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.