27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

153. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Vestf. að flytja hér frv. um breytingar á stjórnarskránni. Nokkuð svipað frv. var flutt á siðasta þingi, þegar m.a. innganga Íslands í Efnahagsbandalagið hafði verið um tíma yfirvofandi, og við flytjum þetta aftur nú, ekki sízt með tilliti til þeirra upplýsinga, sem fram hafa komið um möguleika á því, að erlent fjármagn komi hér inn í landið í allstórum stíl.

Það er svo nú, að í veröldinni hafa undanfarin ár verið að gerast stórfelldar breytingar einmitt í þeim efnum, sem snerta starfsemi erlends fjármagns með þeim þjóðum, sem lengi voru nýlenduþjóðir, en nú eru orðnar frjálsar. Og sérstaklega síðustu 6 árin hefur það verið áberandi, hvernig þær þjóðir, sem höfðu verið kúgaðar af stórveldum áratugum og öldum saman, en fengið nú stjórnfrelsi, hafa nú verið að taka til sín valdið yfir sínum auðlindum, sem erlendir auðhringar áður höfðu haft. Suður í Afríku, jafnvel í Suður-Ameríku og Suður-Asíu, er nú sú tilhneiging ríkust hjá hinum nýfrjálsu þjóðum að þjóðnýta bæði þær auðlindir og þau stóru fyrirtæki, sem erlend auðfélög eiga þar. En það má segja, að stefnan í veröldinni sem stendur hjá þeim þjóðum, sem nýlega hafa öðlazt stjórnfrelsi, sé að verða sjálfum sér ráðandi, ekki aðeins í stjórnmálum, heldur líka í efnahagsog atvinnumálum. Það væri hryggilegt, ef við Íslendingar, sem sjálfir vorum í svipaðri aðstöðu og nýlenduþjóð öldum saman og höfum verið svo heppnir, m.a. fyrir baráttu okkar fyrirrennara og forfeðra, að sleppa við það, að útlend auðfélög ættu hér gífurlegar auðlindir, ættum nú, þegar allar aðrar þjóðir heims eru að losa sig við útlent auðvald, að verða til þess að sleppa hér inn erlendu auðvaldi.

Ég sagði, að við Íslendingar hefðum verið svo heppnir að sleppa við, að þetta útlenda auðvald ætti hér eða hefði tök á okkar náttúruauðæfum, vegna þess að það lá ákaflega nærri, að svo fari, og ég held, að það sé rétt fyrir hv. þm. að minnast þess nokkuð nú, sem gerðist fyrir 40 árum, vegna þess að eftir að og um það leyti sem við vorum að öðlast fullveldi, var háð mjög hörð barátta, sem stóð 5—6 ár hér á Alþingi, einmitt um, hvort erlent fjármagn skyldi hafa veruleg ítök í íslenzku atvinnu- og efnahagslífi. Þá var það komið svo, að fossarnir, sem næst á eftir sjónum, sem við höfum helgað okkur, eru okkar mesta auðlind, voru svo að segja allir í eign erlendra auðfélaga. Og þá var sett af hálfu Alþingis nefnd, sem fjallaði einmitt um, hvort ríkið skyldi eiga þessa fossa, svipta hina svokölluðu eigendur þeirra, sem sumir héldu fram að væru þeir landeigendur, sem áttu lönd að fossunum, eignarréttinum yfir þeim, eða a.m.k. svipta þá réttinum til þess að ráða því, hvað gert yrði við vatnsmagnið í þessum ám. Og það stóð ákaflega tæpt þessi barátta. Það lá við, að erlendu auðfélögin sigruðu í þeirri baráttu. Þau voru búin að kaupa upp alla nýtilega fossa á Íslandi nema Sogið, sem var eign ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Og sú fossanefnd, sem var skipuð af hálfu Alþingis eða ríkisstjórnar, klofnaði og það var meiri hl. í þeirri fossanefnd, sem háði hörðustu baráttuna fyrir því að hindra útlenda auðkýfinga í því að ná tökunum á svo að segja öllum fossum Íslands, og meiri hl. í þessari gömlu fossanefnd var þá Guðmundur Björnsson landlæknir, Bjarni Jónsson frá Vogi og Jón Þorláksson, sem siðar varð fyrsti formaður Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokksins siðar meir. Það voru þessir menn, sem tóku höndum saman um að koma í veg fyrir, að útlend auðfélög næðu tökunum á íslenzkum fossum. Og það vantaði ekki, að þeir yrðu fyrir alls konar aðkasti og það væri unnið á móti þeim og ráðizt á þá í þeim blöðum, sem þá voru gefin út hér í Reykjavík, ekki sízt sökum þess, að það var talið, að þeir vildu með þessu móti koma í veg fyrir, að fossarnir væru hagnýttir. Bjarni Jónsson frá Vogi, — Íslendingar voru nýlega að minnast 100 ára afmælis hans, — segir m.a. í ræðu, sem hann hélt hér á Alþingi, ég held í Nd., þessari hv. d., 18, sept. 1919, þegar hann er að berjast fyrir því, að ríkið ráði fossunum, þá segir hann svo hljóðandi út af því, sem verið er að gagnrýna hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar vífilengjur um, að sérleyfislög eigi ekki að samþykkja nú, eru því til þess eins fram bornar, að fossafélögin geti grætt sem mest á bralli því, sem þau hafa haft hér í frammi, með því að senda hingað leynilega sendimenn til þess að ginna þessa hluti út úr fáfróðum mönnum fyrir smámuni. Það er því til góðs þjónum þessara félaga, sem eiga hér bæði heil blöð og venzlamenn og nú er að sjá að eigi suma þm. líka. Þetta er það, sem orsakar allt hatrið og allar skammirnar, sem dynja á okkur, meiri hl. fossanefndar, í blöðum þessara þjóna erlendra auðkýfinga:”

Svo mælti Bjarni frá Vogi þá. Það er engu líkara en einhver bolsévíki sé að tala núna 40 árum seinna, þegar menn eru að reyna að hindra það, að útlend auðfélög geti náð tökum á okkar atvinnulífi. (Gripið fram í.) Bolsévíkar, já, hérna stendur einn þeirra m.a. Það var heiðursnafnið, sem var gefið í kringum 1920, svo að ég kunni betur við að nota orðið, þó að það sé farið að kalla þá meira komma núna. (Gripið fram í: Eru nokkrir kommúnistar hér núna?) Já, já, það er til fullt af þeim. (Forseti: Ekki samtal.)

Það var annar maður, sem var ekki síður harður í þessum efnum og ekki sízt hv. forustumenn Sjálfstfl. mættu hugsa nokkuð vel til í þessum efnum. Það var Jón Þorláksson. Hann sagði svo í ræðu, sem hann flutti um þessi mát í Nd., í þessari hv. d., 3. maí 1923, einmitt þegar þessi mál voru komin á siðasta stig, þá orðar hann það svo, þegar hann er að flytja deildinni skilaboð frá Guðmundi Björnssyni, sem þá var ekki lengur á þingi, en hafði verið formaður fossanefndarinnar, — hann segir þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú var svo ástatt, að þegar fossanefndin sat að störfum, voru svo að seg,ja öll stærstu og hagkvæmustu fallvötn landsins komin í hendur útlendinga, nema hluti landssjóðs og Reykjavíkurbæjar í vatnsréttindum Sogsins. Ýmist voru vötnin seld eða leigð útlendum félögum til lengri eða skemmri tíma. Af þessum ástæðum tókum við (þ.e. fossanefndin) til athugunar, hvort fara skyldi að eins og Norðmenn 1880 og viðurkenna eignarréttinn og leggja síðan strangar sérleyfishömlur á verzlun þeirra. En okkur þótti of seint að fara þá leið. Við vorum búnir þegar að selja vatnsréttindin í hendur útlendingum: `

Og síðan hélt hann áfram:

„En nú vill hv. meiri hl. fara þessa leið og gefa útlendingunum allan þann framtíðargróða, sem við getum haft af notkun fallvatnanna. Ég er ekki fyrir að nota stór orð, en get þó ekki látíð hjá líða að flytja þessari hv. d. þá orðsendingu frá fyrrv. forseta Ed., fyrrv. meðnefndarmanni mínum, Guðmundi Björnssyni landlækni, eftir heinum tilmælum hans, að hann geti ekki skoðað þetta öðruvísi en föðurlandssvik“

Þessi voru orð Jóns Þorlákssonar um þessa baráttu þá, og þessari baráttu lauk á því þingi, 1923, með því, að það tókst að samþykkja eina litla brtt., sem Jón Þorláksson og Bjarni frá Vogi greiddu atkvæði með, þá till., að það mætti ekki virkja þessi vatnsföll nema af hálfu ríkisins. Og þessi brtt. varð til þess, að útlendu fossafélögin gátu ekki virkjað þessa fossa.

Eins og menn vita, hafa svo síðan helztu fallvötn landsins verið í eigu útlendinga og er að nafninu til fjöldi þeirra enn. Þjórsá var t.d. fyrst keypt 1948, útlendingar áttu hana þangað til, þ.e. Titan. Ríkisstj. keypti Þjórsá 1948 fyrir 3 millj. kr. Lengra er nú ekki síðan við eignuðumst Þjórsá. Svona var þetta komið þá. Og sú barátta, sem þá var háð, frá 1917 til 1923, má verða okkur, sem nú lifum, til nokkurrar fyrirmyndar.

Jón Þorláksson endaði einmitt þá ræðu, sem ég var að vitna hér í áðan, með því að skora á menn að sleppa því heldur að virkja þessa fossa og sleppa þeim gróðavonum, sem kynnu að vera í sambandi við virkjunina, vegna nauðsynja eftirkomendanna. Forsjálni íslenzkrar borgarastéttar undir forustu manna eins og Jóns Þorlákssonar og slíkra var þá svo mikil, að til þess að Íslendingar ættu þetta sjálfir eða a.m.k. réðu þessu sjálfir, vildu þeir heldur fresta því — og það þótt væri um heila kynslóð — að láta virkja og hagnýta þessa fossa. Þá var Titan búinn að búa til áætlun um að virkja Þjórsá á 6 stöðum og koma upp allmiklum fyrirtækjum í sambandi við þá virkjun og hefðu þá vafalaust orðið langsamlega stærstu fyrirtæki, sem til voru á Íslandi, og stærri jafnvel en heilir atvinnuvegir. M.ö.o.: þegar við vorum rétt komnir út úr sjálfstæðisbaráttunni og flokkaskiptingin á Íslandi var rétt að byrja að mótast við stéttabaráttuna, þá var tilfinningin um það, að Íslendingar ættu að eiga þetta einir og ráða þessu einir, svo rík, að einnig þeir, sem vildu beita sér fyrir hvað mestu einkaframtaki og öðru slíku hér á Íslandi, voru ákveðnir í því að sleppa ekki yfirráðum þjóðarinnar og þar með ríkisins yfir þessum auðlindum. Og ég held, að íslenzk borgarastétt nú á tímum ætti að minnast þessarar baráttu, sem sú borgarastétt háði, sem þá var ung og veik hér og rétt svo að segja í upphafi sinnar tilveru og var svo að segja að slita barnsskónum.

Núna vofir sú hætta yfir, að erlend auðfélög nái tökunum á afli því, sem þessir fossar geta skapað, og þar með meira eða minna á íslenzku atvinnulífi. T.d. í sambandi við fossana hefur það einmitt verið upplýst af hæstv. dómsmrh., að erlent alúminíumfélag, erlendur hringur, svissnesk og bandarísk félög sameinuð fara fram á eða eru reiðubúin til að gera samninga við íslenzka ríkið um hagnýtingu vatnsafls til alllangs tíma í sambandi við virkjun, t.d. í Þjórsá við Búrfell eða annars vatnsafls á Íslandi. Og næðu slíkir samningar fram að ganga, þýddi það að endurtaka á öðru stigi einmitt það, sem útlendu auðhringarnir fyrirhuguðu 1917—1923, að ná tökum á okkar fossafli, með öðru móti en þá, en með sömu afleiðingum, — með þeim afleiðingum, að þeirra aðstaða í íslenzku atvinnulífi mundi verða mjög sterk. Hæstv. dómsmrh. upplýsti þá, að svissneskt og bandarískt alúminíumfélag mundi vilja til að byrja með koma upp alúminíumbræðslu, sem bræddi um 30 þús. smálestir af alúminíum. Til þess þarf um 60 þús. kw. rafmagns, og væri lagt í Búrfellsvirkjun í kringum 100 þús. kw., þá mundi verða meiri hluti aflsins, sem þetta útlenda félag fengi. Hæstv. dómsmrh. gat um í sinni skýrslu þá, að þetta væri aðeins miðað við, hvað hið útlenda félag vildi gera í upphafi, enda er vitað, að það þykir ekki nema meðal alúminíumbræðsla, sem bræðir um 100 þús. smálestír, þannig að það væri mjög líklegt, að ef erlent alúminíumfélag gerði samning við Íslendinga um slíka stóriðju, þá mundi það vilja áskilja sér að geta komið upp slíkri stækkun á henni, þótt byrjað væri með 30 þús. smáiestum, að það færi upp í 100 þús. smálestir. Og til þess að vinna það þyrfti um 200 þús. kw., þannig að það er nokkurn veginn gefið, að mjög mikið af þeim virkjunum, sem við legðum í á næstu áratugum, miðaðist alveg sérstaklega við það að fullnægja samningum við slíkan alúminiumhring. Hæstv. dómsmrh. gat þess, að fyrir utan sjálfa virkjunina mundi slík alúminíumbræðsla kosta, ef ég man rétt, um 1100 millj. ísl. kr., 30 þús. tonna bræðsla. Það þýðir, að ef slíkt alúminíumfélag vildi koma slíkri bræðslu upp í þá stærð, sem í Evrópu og suður í Afríku, þar sem nú er verið að reisa stærstu bræðslurnar, þykir meðallag, þá mundi um 140 þús. tonna bræðsla kosta um 3300 millj. kr. eða a.m.k. um 3000 millj, kr. Og við vitum, að það er ekkert smáræði, sem verið er að leggja út í í þessum hlutum. Það er m.a. 400 þús. tonna alúminíumbræðsla, sem nú er verið að reisa, ef ég man rétt, suður í Gíneu, annaðhvort í Ghana eða Gíneu, einhverju af þessum nýju ríkjum í Afríku, þannig að það er stórkostleg fjárfesting, sem þessir stóru alúminíumhringir eru að leggja í nú. Þegar við nú athugum það, að allt íslenzkt fjármagn, í öllum okkar skipastól, öllum okkar hraðfrystihúsum, öllum okkar sjávarútvegi yfirleitt, mun vera í kringum 3000 millj. kr., og er ég þó hræddur um, að allmikið af okkar skipum, ekki sízt togurunum, sé metíð á mun hærra verði en þeir seljast nú, a.m.k. eftir reynslunni, ég miða þarna við mat, sem bankarnir létu framkvæma, — þegar maður athugar, að að öllum líkindum mun allt fjármagn í íslenzkum sjávarútvegi, okkar aðalatvinnugrein, vera kringum 3000 millj. kr., þá sjáum við, hvernig komið væri á Íslandi, ef eitt einasta erlent auðfélag væri búið að koma hér upp fyrirtækjum, sem 3000 millj, kr. stæðu í. Það er þess vegna engum efa bundið, að þegar verið er að ræða slík áform eins og þetta, þá er eðlilegt, að menn vilji stinga við fæti og athuga alvarlega í fyrsta lagi, hvort eigi að fara inn á slíka braut, og hins vegar, hvort ekki þurfi að breyta þannig lögum og stjórnarskrá í okkar landi, að slíkt sé ekki hægt.

Það er annað, sem sömuleiðis hefur komið upp í þessu sambandi og hæstv. dómsmrh. líka hefur skýrt frá, þ.e. hugmynd um, að erlent félag kæmi hér upp, máske í samfélagi við einhverja Íslendinga, olíuhreinsunarstöð. Og það kom í ljós við athugun, að það félag, sem hæstv. dómsmrh. gaf okkur upplýsingar um, er um leið félag, sem rekur einmitt fjármálaviðskipti um alla veröld fyrir þann nafnkunna, ameríska steinolíuhring, Standard Oil Company, þannig að það er greinilegt, að sá aðili, sem stendur á bak við till. um að koma upp olíuhreinsunarstöð á Íslandi, er sjálft Standard Oil. Við höfum fyrr á Alþingi, bæði nýlega og fyrir löngu, átt í nokkru kasti við það félag eða ýmsa anga þess og jafnvel ríkisvaldið sjálft og ekki sízt dómsmrn. komið nokkuð nærri þeim málum upp á siðkastíð . En það var líka svo í gamla daga, meira að segja þegar Standard Oil fór gegnum Kaupmannahöfn til að komast hingað og hét þá Det Danske Petroieum Aktieselskab, eða eins og Íslendingar kölluðu það: „Danskir djöflar pína alþýðuna“, þá var það líka svo, að hér á Alþingi, eins og í kringum 1910, þótti mönnum nauðsynlegt að taka einokunaraðstöðu þess félags til allmikillar umr., eins og gömul þingtíðindi kunna frá að skýra, sem ég skal nú ekki fara frekar út í. En hitt er alveg greinilegt af því, sem fyrir liggur viðvíkjandi spurningunni um olíuhreinsunarstöð, að þar er um að ræða frá hálfu þess aðila, sem hefur verið að beita sér fyrir þessu, till, um að koma upp einokunarfyrirtæki á Íslandi, að koma upp fyrirtæki, sem amerískir menn eða amerískt félag, Standard Oil, eða þess fólk og einhverjir Íslendingar, sem stæðu nærri því, kæmu hér upp og fengi einokunaraðstöðu til innflutnings olíu í landið, þannig að það væri um það að ræða að skapa erlendu auðfélagi einokunaraðstöðu á Íslandi. Við vitum, hvað slíkt mundi þýða. Það mundi þýða í fyrsta lagi að eyðileggja alla samkeppnismöguleika hér heima viðvíkjandi olíu og þar með að eyðileggja meira eða minna þau viðskipti, sem við höfum haft með olíu við Sovétríkin, sem mikið af þeim útflutningi, sem við höfum haft þangað á freðfiski m.a., hefur byggzt á, þannig að það er alveg greinilegt, að það er ekki bara verið að miða við viðskiptin austur á bóginn í þeim efnum, heldur er beinlínis verið að miða að því að granda vissum hluta sjávarútvegsins á Íslandi, og það er ekkert nýtt, að verzlunarauðvaldið á Íslandi sýni sig í slíku tilræði við sjávarútveginn.

M.ö.o.: það liggja fyrir okkur upplýsingar um og er nú þegar rætt um og hefur verið rætt um af stóriðjunefnd ríkisins og hæstv. dómsmrh. gefið okkur mjög nákvæmar skýrslur um það, að tveir stórir og voldugir aðilar, annars vegar alúminíumfélög, hins vegar sjálfur Standard Oil, séu með till. um það að festa fé í íslenzku atvinnulífi beint eða óbeint í stórum stíl og komast hér inn og hafa hér mikil áhrif og fá hér góða aðstöðu, sumpart óbeina einokunaraðstöðu, sumpart raunverulega einokunaraðstöðu, gegnum sitt fjármagn og hafa þannig algera breytingu í för með sér á íslenzku efnahagslífi. Íslenzkt efnahagslíf hefur sem sagt skorið sig úr efnahagslífi allra þeirra landa, sem áður hafa verið rannverulega meira eða minna raunverulegar nýlendur, því að hér hefur svo að segja ekkert útlent auðvald verið í atvinnulífi Íslands. Og það er eitt af því, sem íslenzk atvinnurekendastétt, íslenzkur verkalýður og íslenzkir bændur hafa verið sammála um, það er að reyna að sjá um að halda þessu ástandi, halda því, að Íslendingar sjálfir eigi og ráði sínum atvinnufyrirtækjum. Menn deila um það, í hvaða formi það skuti vera. Menn berjast fyrir því, hvort það skuli vera ríkisfyrirtæki, samvinnufyrirtæki, bæjarfyrirtæki, einkafyrirtæki. Það er annað. Það getum við deilt um. Það getum við deilt jafnvel hart um og barizt um. En hitt höfum við fram að þessu staðið saman um, að þetta skyldu vera íslenzk fyrirtæki. Það, sem nú er þess vegna hætta á, er, að þarna sé breytt um stefnu og þá sé skapaður sá möguleiki, að á íslenzkum auðlindum eða íslenzkri aðstöðu byggist fyrirtæki, sem séu útlend, annaðhvort opinberlega eða meira eða minna leynilega, en raunverulega í öllu falli. Það er þetta, sem þetta frv. vill koma í veg fyrir.

Ég veit, að það eru hér og voru líka fyrir síðasta þingi á ferðinni till. um þál. til þess að athuga þessa hluti. En við fluttum þá frv. einmitt svipað þessu og vonuðumst eftír, að það væri hugsanlegt að fá það samþykkt, þannig að það fengi að fara undir þjóðaratkvgr. í kosningunum, sem ekki varð þó, því að við álitum, að þjóðin eigi að fá að dæma um svona hluti, áður en ráðizt er í að hreyta um alla þá efnahagspólitík, sem verið hefur uppi á Íslandi það sem af er þessari öld. Þegar þau lög, sem nú gilda, þ.e. lögum eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 63 frá 28. nóv. 1919, voru sett og það eru þau lög, sem hamla mjög útlendingum um alla aðstöðu hér og hafa dugað fram að þessu, þá voru þau sett þannig, að það þurfti að sækja til ríkis og ríkisstj., til þess að útlendingar fengju hér nokkra verulega aðstöðu. Þessi lög voru þá sett í því augnamiði af löggjafanum að hindra þar með, að útlendingar fengju slíka aðstöðu, því að þá var hugsunarhátturinn þannig hjá Alþingi öllu, að það þótti nóg, ef það þurfti að sækja til ríkis og ríkisstj. um, að útlendingar fengju slíka aðstöðu hér, þá var það vitað, að því yrði neitað. Núna er öldin önnur. Nú er það vitanlegt, að jafnvel ríkisstj. getur verið þeirrar skoðunar á Íslandi, að það eigi að veita erlendum aðilum aðstöðu til þess að reka hér stóratvinnufyrirtæki og hagnýta verulega íslenzkar auðlindir, og þá er núna hægt að koma slíku í gegn, sumpart með einföldu leyfi, sumpart bara með lagabreytingu á Alþingi. M.ö.o.: það, sem var álitið alveg tryggt 1919, að kæmi í veg fyrir, að útlent auðvald kæmist inn á Íslandi, það er nú ekki tryggt lengur, þannig að það þarf að tryggja það með stjórnarskrárbreytingu, ef það á að vera öruggt, að útlent auðvald geti ekki komizt hér inn, nema það sé í samræmi við vilja þjóðarinnar. Þess vegna leggjum við til, að 68. gr. stjórnarskrárinnar sé breytt, eins og 1. gr. þessa frv. til stjórnarskipunarlaga um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mælir fyrir.

Nú segir í 68. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn útlendingur getur fengið ríkisborgararétt nema með lögum. Um heimild útlendinga til þess að eiga fasteignaréttindi hér á landi skal skipað með lögum.“

Við leggjum til, að þetta viðvíkjandi ríkisborgararéttinum haldist eins og það var, en hitt hreytist og í staðinn komi:

„Fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi skulu Íslendingar einir eiga eða stofnanir, sem Íslendingar eiga einir.“

Það á að vera þetta, sem gengur í gegn sem rauði þráðurinn, sem höfuðatriðið í þessari grein, þannig að það verði nú sett inn í stjórnarskrána ákvæði, sem hindra útlendinga í því að eignast hér fasteignir eða náttúruauðæfi og að taka á leigu atvinnutæki eða íslenzk náttúruauðæfi. Þetta er mjög mikil breyting, mjög stórvægileg breyting, og við hefðum ekki farið að flytja þetta nema vegna þessara miklu umr., sem orðið hafa á vissu skeiði fyrir síðustu kosningar út af fyrirhugaðri hugsanlegri inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið og nú eftir kosningarnar út af þeim miklu umr., sem orðið hafa um það, hvort erlent alúminíumfélag og erlendur olíuhringur skyldu öðlast aðstöðu hér á Íslandi og erlent auðmagn þar með koma inn í íslenzkt atvinnulif í ríkum mæli. Við álítum, að áður en slíkar breytingar yrðu gerðar, eigi að gefa þjóðinni kost á að dæma um þetta, það eigi að gefa henni kost á að skera úr um það í kosningum, sem miðuðust einmitt við slíkt, hvort þannig eigi að breyta til.

Við skulum gá að því, að þegar við erum að gera slíkan hlut eins og að hleypa útlendu auðvaldi inn í landið, þá erum við að gera ráðstafanir, sem ekki snerta aðeins okkur, heldur líka okkar eftirkomendur. Ég vil minna á það, að mörg þau nýfrjálsu ríki, sem nú standa í því að reyna að tryggja sér efnahagsleg yfirráð yfir sínu m eigin auðlindum eða atvinnutækjum síns lands, neyðast jafnvel til þess að fara þá leið að þjóðnýta þetta eða jafnvel taka eignarnámi, jafnvel stundum skaðabótalaust. Oft eru þetta fátækar þjóðir og hins vegar gífurleg verðmæti, sem hinir útlendu auðhringar hafa eignazt þar. Og það er viðsjárvert t.d. fyrir okkar eftirkomendur að eiga að þurfa að standa máske í slíku. Það er við erfiða aðila að fást, þar sem þessir voldugu og ríku erlendu auðhringar eru, sem oft og tíðum hafa ríkisstj. síns lands á bak við sig, þegar um slíkt er að glíma, og ríkisstj. þeirra landa skoða þá sem skyldu sína að taka verulegt tillit til hagsmuna slíkra auðfélaga, þannig að þar með væri verið að koma Íslendingum í framtíð inni máske í erfiða aðstöðu gagnvart voldugu útlendu valdi.

Mér er ekki kunnugt um og hefur ekki verið rætt um það neitt á Alþingi, frá því að hæstv. dómsmrh. gaf sína ýtarlegu skýrslu fyrr á þessu þingi, hvernig samningar stæðu við þessi útlendu félög. En satt að segja væri, einmitt af því að nú fer að líða að þinglokum, eftir því sem a.m.k. flestir búast við, mjög æskilegt að fá nokkra hugmynd um, hvernig þeir samningar standa nú. Mér dettur það sérstaklega í hug út af því, sem ég hef getað fylgzt ofur litíð með um mál, sem er smámál hjá þessum málum, í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna, að það er ákaflega óheppilegt, ef það ætti að hafa sama háttinn á um þau tvö stóru atriði, sem ég hef gert hér að umtalsefni, um alúminíumverksmiðjuna og olíuhreinsunarstöðina, eins og haft hefur verið með kísilgúrverksmiðjuna. Ég tek eftir því af því frv., að þar er að mestu leyti búið að ganga frá málunum og semja um og gera raunverulega þann samning að eins konar lagafrv., sem ríkisstj. vegna sinnar aðstöðu allrar er búin að binda sig við, áður en hann er lagður fyrir Alþingi. Ég álít, að það væri ákaflega óheppilegt, að slíkur háttur væri hafður á um olíuhreinsunarstöðina og alúminíumbræðsluna. Ef hæstv. ríkisstj. væri svo að segja búin að ljúka þeim samningum og legði þá fyrir Alþingi og treysti síðan á sitt flokksfylgi til þess að koma þeim samningum í gegn, gæfist enginn raunverulegur kostur á að laga neitt í þeim samningum lengur. Þá er hæstv. ríkisstj. búin að binda sig og getur ekki sóma síns vegna annað en staðið við slíkt. Ég álit þess vegna, að það væri að öllu leyti heppilegast upp á afgreiðslu þessara mála, ef þessi mál væru einmitt rædd sem ýtarlegast hér, á meðan þau eru á undirbúningsstigi hjá hæstv. Ríkisstj. líka. Segjum, að stjórnarandstöðuflokkarnir séu máske báðir andvígir þessu, og þó munu vera þar nokkuð skiptar skoðanir, en meira að segja þó að sumir í þeim stjórnarandstöðuflokkum væru algerlega andvígir, þá er engum efa bundið, að í virkilegum rökræðum um þessi mál mundi koma margt fram, sem hæstv, ríkisstj. mætti að gagni verða í þeim samningum, sem hún ætti í við sína viðsemjendur í þessum málum. Ég held, að það væri engum efa bundið, að í slíkum samningum mundi hún eiga að mörgu leyti erfiða aðstöðu. Við Íslendingar höfum aldrei staðið í svona samningum áður, enginn Íslendingur, held ég, staðið í slíkum samningum. Og erlendir aðilar, við skulum segja frændur vorir Norðmenn, sem hafa staðið í ýmsum svona samningum og hafa ýmsa reynslu, hafa að mörgu leyti allt öðruvísi aðstöðu um þetta. Við skulum segja t.d., þegar þeir voru að semja við þetta sama svissneska alúminíumfélag, sem við erum að semja við nú, þá var lagt upp úr því af hálfu Norðmanna, að norskum aðilum yrði gefið tækifæri til þess að hafa helminginn af hlutafénu, og það varð stórhneyksli í norska stórþinginu nú síðasta vetur, og ég hef þær umr., að þetta útlenda félag, þetta svissneska félag þótti beita ýmsum brögðum og jafnvel hafa þar með sér að einhverju leyti einhverja af ráðh., það ætti sinn leyniráðh. þar, til að hindra það, að norskir aðilar gætu fengið þann þátt í hlutafénu, sem norska ríkið hafði upphaflega viljað áskilja þeim. Og það varð úr þessu altmikill glundroði í þessum samningum og jafnvel var um tíma, — mér er ekki kunnugt, hvernig farið hefur núna síðustu vikurnar, en var um tíma jafnvel útlit fyrir, að málið stöðvaðist vegna þessa. Hins vegar er vitanlegt, að þegar rætt hefur verið núna við þetta sama alúminíumfélag, að viðbættu amerísku alúminíumfélagi, hefur náttúrlega ekki komið til neinna greina, að íslenzkt kapítal kæmi þarna inn í, því að við eigum ekki auðmagn til þess að setja þarna í, og menn mundu varla vilja hætta því litla, sem þeir ættu, þannig að hér væri algerlega um það að ræða, að eingöngu þessir útlendingar ættu þetta fyrirtæki, sem þarna væri um að ræða, þannig að það er allt annað viðhorf en t.d. hjá Norðmönnum.

Þess vegna er það mjög vafasamt, að hve miklu leyti við gætum byggt á þeirri reynslu, sem aðrar þjóðir hafa í þessum efnum, sakir okkar smæðar, sakir okkar fátæktar hvað fjármagn snertir, sem nokkuð gæti jafnazt á við þessa voldugu erlendu aðila, þannig að við erum þarna að fara inn á alveg nýjar brautir, og þar sem ég vil ekki að neinu leyti draga í efa, að hæstv. ríkisstj. mundi út af fyrir sig vilja, ef hún gerði slíka samninga, — þó að ég sé henni ósammála um það, ég álit, að það eigi ekki að gera þá, en hún álitur máske, að það eigi að gera þá, — þá efast ég ekki um, að hún mundi vilja gera slíka samninga sem bezta frá Íslands hálfu. En til þess að slíkt væri hægt, ef slíkir samningar væru gerðir, yrði að þaulræða svona mál áður. Þess vegna er um að gera fyrir okkur, þegar þannig háttar, að láta ekki slík mál verða, ef ég mætti orða það svo, að svo miklu pólitísku metnaðarmáli, að við getum ekki rætt þau út frá að vísu gagnstæðum skoðunum, en þó þannig, að fleiri hlutir kæmu fram í sambandi við það en ella. Ég vil í því sambandi, af því að ég þykist vita, að það sé eitt af höfuðatriðunum, sem e.t.v. veldur því, að hæstv. ríkisstj. hefur farið inn á þessar umr. við hin erlendu alúminíumfélög, — ég vil minnast á það, að það kunni e.t.v. og mjög líklega að hafa haft þar nokkur áhrif um, að hún vonaðist eftir, að við gætum fengið betri samninga við t.d. Alþjóðabankann um lánsfé í stórum stíl til stórvirkjunar, svo fremi sem við gætum boðið upp á slíka samninga við alúminíumfélag. Ég hef ekki fylgzt með því og veit ekki; hvernig þeir samningar standa eða hvort nokkur svör eru komin frá Alþjóðabankanum. Ég veit, að hann hefur stundum verið nokkuð erfiður áður í slíkum samningum. Ég man eftir því frá tímum vinstri stjórnarinnar, að hann var ekkert fljótur á sér stundum að vilja lána okkur íslendingum. Ég man vel eftir því þá, að hann var miklu fljótari að grípa við sér, þegar hann hafði hugmynd um, að þáv. hæstv. ríkisstj. hefði ella möguleika á að fá slík lán hjá Sovétríkjunum, þá varð hann miklu fljótari til að veita þau lán, sem hann hafði annars lengi dregið við sig.

Það væri a.m.k. í sambandi við umr. um þetta ákaflega fróðlegt að fá það upplýst, hvað gangi lánsútveganir í nýtt, stórt raforkuver á Íslandi. Það er vitanlegt, að eitt af þeim málum, sem þingið raunverulega bíður eftir, er einmitt lagafrv. um nýtt orkuver eða ný orkuver, og ég býst við, að eitt af því, sem hafi tafið þar fyrir hæstv. ríkisstj., sé, að hún viti ekki enn sem komið er, hvaða möguleika hún hefur í því sambandi. En einmitt þessi spurning um lán til nýs orkuvers og samningar um alúminíumbræðslu hafa stundum verið tengd saman.

Ég hef gert þessi mál viðvíkjandi hugsanlegum stóriðjumálum núna á Íslandi að umtalsefni hérna vegna þess, að mér þætti ákaflega vænt um, ef hæstv. dómsmrh., sem áður hefur gefið Alþingi svo ýtarlega skýrslu um þessi mál, skýrði okkur frá því, hvort eitthvað nýtt hefur komið fram í þeim málum eða hvernig þau mál standa nú. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einvörðungu flutt vegna þess, að þessi mál hafa undanfarið svo að segja vofað yfir, og við flm. álítum þau svo mikilvæg, að það ætti að gefa þjóðinni kost á að dæma um þau, áður en farið væri inn á þá braut að veita erlendum aðilum slíka aðstöðu, sem nú hefur verið á minnzt. Að öðru leyti mundi ég, þegar þessari umr. væri lokið, vilja óska þess, að frv. væri vísað til 2. umr, og hv. allshn., en þætti sem sé vænt um, ef Alþingi eða þessi hv. d. gæti fengið nokkuð að vita um, hvernig málin standa í þessum efnum og hvaða breytingar hafa orðið frá því fyrr á þingi, að hæstv. dómsmrh, gaf okkur þá skýrslu.