18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

103. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa frv. er mjög einfalt. Í gildandi lögum um náttúruverndarráð er svo kveðið á, að formaður og varaformaður ráðsins skuli vera embættisgengir lögfræðingar. Í þessu frv. felst sú ein breyting, að krafan um embættisgengan lögfræðing er aðeins látin ná til annaðhvort formanns eða varaformanns. Frá upphafi, þegar náttúruverndarráð var stofnað, var Ásgeir Pétursson, sem þá var deildarstjóri í menntmrn., skipaður formaður náttúruverndarráðs eftir þeim kröfum, sem gerðar voru í l. Nú hefur hann hins vegar sagt af sér formannsstörfum í náttúruverndarráði, vegna þess að hann hefur flutzt burt úr Reykjavík, og ég hef í hyggju að skipa nýjan formann í náttúruverndarráð frá og með 1. jan. n.k. En í raun og veru er ástæðulaust að gera þá kröfu til formanns ráðsins, að hann sé embættisgengur lögfræðingur, ef þeirri kröfu er fullnægt að því er varaformanninn snertir, en varaformaður í náttúruverndarráði er Logi Einarsson yfirsakadómari og fullnægir að sjálfsögðu þeim kröfum.

Frv. hefur verið afgreitt með einróma meðmælum hv. menntmn. í Nd. og samþ. með shlj. atkv. í hv. Nd. við 1. umr. í gær og tvær umr. í dag. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. Ed. taki þessu einfalda máli með sama skilningi og velvilja og hv. Nd.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.