27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í C-deild Alþingistíðinda. (2090)

153. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi út frá þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. dómsmrh. gaf, aðeins leyfa mér að endurtaka, hvort ég hef skilið hann rétt. Það er það atriði, að það sé alveg ákveðin stefna ríkisstj., að hún muni ekki leyfa, ef hér yrði komið upp olíuhreinsunarstöð, að það yrði að neinu leyti einokun í sambandi við hana, en aðrir aðilar fengju alveg óhikað að flytja inn olíur, hverjar sem væru, hingað til landsins. Það er aðeins þetta atriði, að ég hafi tekið rétt eftir því, sem ég vona að ég megi lita á sem fasta yfirlýsingu frá hálfu hæstv. ríkisstj.