25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

155. mál, Vestfjarðaskip

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem frsm. fyrir frv. sagði, hv. 3. þm. Vestf., að það þarf að gerbreyta samgöngum á sjó við Vestfirði, og það hefur staðið til lengi að endurskoða starfsemi Skipaútgerðar ríkisins, en því miður hefur það dregizt allt of lengi, og það. er alveg rétt, sem frsm. sagði, að það eru takmörk fyrir því, hvað þetta mál má dragast lengi. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því, að fleiri slík frv. og þáltill. liggja fyrir þessu þingi um strandferðir á öðrum stöðum. M.a. man ég eftir máti, sem flutt var í haust um sérstakt skip milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og um sérstakt skip fyrir Norðausturlandið, og það er mjög eðlilegt, að þessi mál séu leyst í heild. En það þarf að leysa þau mjög fljótlega, og það verður ekki á móti því mælt, að strandferðir og þýðing þeirra hefur mjög breytzt á síðustu árum á þann veg, að eftir því sem loftferðir og ferðir á landi hafa aukizt við ákveðna landshluta, þá hefur dregið mjög úr flutningum á sjó til þeirra. Vestfirðir og Austfirðir eru þar algerar undantekningar, og það er mikið atriði, að þessir tveir landshlutar fái sérstakt skip, og ég er því mjög hlynntur, að slíkt skip eigi heima í þessum byggðarlögum sjálfum, t.d. á Ísafirði Vestfjarðaskipið og Neskaupstað Austfjarðaskip, og þau skip, sem núna eru, eru vafalaust of stór og dýr í rekstri, sérstaklega hvað snertir flutninga til Vestfjarða, og ég er mjög á þeirri skoðun, að 700 rúml. skip muni henta fyrir Vestfirði í framtíðinni, því að eftir því sem ferðir verða fleiri, er ekki sama þörf á stóru skipi og áður var, og við verðum líka að reikna með því, að flugsamgöngur almennt við Vestfirði batni á næstu árum.

Í sambandi við slík skip verður auðvitað að hugsa mjög ýtarlega fyrir rekstrinum, og skip af þessari stærð eru miklu hentugri upp á allan rekstur að gera, að hann muni ekki verða mjög erfiður og mikill taprekstur. En ef á að fara að byggja skip fyrir hvern landshluta á fætur öðrum, verður auðvitað samhliða að taka ákvörðun um það, hver framtíð Skipaútgerðar ríkisins á að vera. Núna og í mörg undanfarin ár hafa samgöngur með Skipaútgerð ríkisins til Vestfjarða verið yfir veturinn allt of strjálar. Sérstaklega fyrir þá, sem eru á norðurhluta Vestf jarða, eru þessar ferðir gersamlega ófullnægjandi, og líkast til eru þetta einu samgöngur, sem hefur farið verulega aftur frá því fyrir stríð, því að á meðan Sameinaða gufuskipafélagið hafði ferðir út á land, til Akureyrar, voru beinar ferðir milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, sem tóku 15—16 tíma, en með því að fara með strandferðaskipi núna frá Reykjavík til Ísafjarðar og koma við á öllum höfnum á leiðinni tekur það ferðalag aldrei undir 30 tímum og upp í 36 tíma. Allir sjá, að slíkt fyrirkomulag getur ekki gengið til lengdar, og þess vegna er mjög brýn þörf á því, að slíkt skip komi. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkissjóður eigi að leggja fram slíkt skip að mjög verulegu leyti og það eigi ekki að hvíla á því miklar skuldir vegna rekstrarins, því að það mundi íþyngja honum, og þetta skip ætti að vera í eigu þessara landshluta sjálfra, t.d. á hlutafélagsgrundvelli og í eigu bæjar-, sveitar- og sýslufélaganna og jafnvel einstaklinga, sem vildu leggja af mörkum til þess að halda uppi þessari þjónustu. En það má segja, að það sé .ekki höfuðatriðið; enda sýna flm. þessa frv, það, að þeir vilja ekki slá því föstu, hvaða fyrirkomulag skuli vera á því, heldur fela Skipaútgerðinni eða hverjum þeim aðila öðrum, sem treysta má til þess að annast góða flutningaþjónustu á þessari siglingaleið um Vestfirði. Enda er það höfuðatriði þessa máls, að þessi mál verði til lykta leidd og slíkt skip verði byggt. En það er mjög eðlilegt frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, að um leið verði tekin ákvörðun um, hvað gera skuli í sambandi við rekstur Skipaútgerðarinnar.

Ég tek alveg undir það, að mér finnst, að það sé ekki hægt að láta það bíða lengur að taka ákvörðun um það, hvernig skuli haga rekstri Skipaútgerðar ríkisins í framtíðinni, því að eftir því sem þessi mál liggja fyrir hjá þeim mönnum, sem mest og ýtarlegast hafa um þau hugsað, eru þessir tveir landshlutar, eins og ég sagði hér áðan, Vestfirðir og Austfirðir, með algera sérstöðu og því nauðsynlegt fyrir þá að fá sérstök skip. Hitt verður svo annað mát að leysa, hvernig leysa skal málið varðandi Norðurland, en vöruflutningar með skipum til Norðurlands og fólksflutningar þá ekki siður hafa mjög minnkað á síðustu árum.

Ég vildi mjög eindregið mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún gæfi fyrirheit um það, að áætlun um framtíðarrekstur Skipaútgerðar ríkisins verði athuguð í sumar og lögð fyrir þing á komandi hausti, og þá jafnframt að taka endanlega ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag þessara strandferða við þá landshluta, sem enn um langa framtíð þurfa sannarlega á þeim að halda. Fyrirkomulag vöruflutninga um landið er því miður ekki í því ástandi sem æskilegt er, og það þarf meira að hugsa um það að flytja vöruna beint út á landið og hafa umskipunarhafnir í hverjum landsfjórðungi. Með því fyrirkomulagi geta bæði strandferðaskip og flóabátar, sem ríkissjóður hefur styrkt mjög myndarlega á síðustu árum og eru alltaf að bætast við flotann og verða ekki lagðir niður vegna sérstöðu á hverjum stað, þá er hægt með skynsamlegu fyrirkomulagi á þessum flutningum að hafa umskipunarhafnir á helztu stöðum í hverjum landsfjórðungi og auka svo tekjur þessara báta og jafnframt slíkra skipa í framtíðinni, að rekstur þeirra í heild ætti ekki að verða jafndýr þjóðfélaginu og hann hefur verið nú í mörg undanfarin ár. Ég vænti þess, að þegar þetta mál kemur hér fyrir aftur til 2, umr., þá liggi fyrir yfirlýsing frá ríkisstj. um það, hvað hún hyggst fyrir að gera í sambandi við rekstur Skipaútgerðarinnar í framtíðinni.