25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

155. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. il. landsk. þm. Hann leggur áherzlu á það, að samtímis því, sem tekin verði ákvörðun um Vestfjarðaskip, verði endurskoðuð skipan Skipaútgerðar ríkisins. Mér sýnist, að ef þetta tvennt á að binda saman, þá sé það sama sem að leggja til, að þetta frv. fari ekki lengra, því að það vita allir, að endurskoðun á skipulagi Skipaútgerðar ríkisins gerist ekki á yfirstandandi vetri. Ég held það séu allmörg ár liðin, síðan var farið að tala um að endurskoða skipan strandferðanna í landinu, og að einhverjir erlendir sérfræðingar hafi komið hingað til lands í þessu skyni og það oftar en einu sinni, og ég sé ekki bóla á neinum till. í þessum efnum. Ef þetta frv. á að binda því, að slíkri endurskoðun sé lokið, þá bíður það fyrst um sinn.

Ég gat þess áðan og vil endurtaka það, að ég veit ekki til, að nokkur rök mæli gegn því að taka ákvörðun um Vestfjarðaskip, þrátt fyrir það að ekki er lokið heildarendurskoðun samgöngumála í landinu. Og ekki varð hæstv. ríkisstj. nein skotaskuld úr því að taka ákvörðun um Vestmannaeyjaskip fyrir stuttu, þótt engin endurskoðun lægi fyrir. Ég er því mjög andmæltur því, að þetta frv. sé látíð bíða slíks tíma, því að mér sýnist sá tími alls ekki í nánd. Þá er það, að hæstv. ríkisstj. gefi einhver fyrirheit um málið. En við fáum ekkert Vestfjarðaskip, þótt hún gefi einhver fyrirheit. Á s.l. þingi voru gefin fyrirheit um það, að endurskoðun skyldi fara fram á strandferðunum, en ég hef ekki séð neitt meira um það. Ég get ómögulega sætt mig við fyrirheitin ein, Ég vil fá Vestfjarðaskip.