20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í C-deild Alþingistíðinda. (2112)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Frsm. hélt ýtarlega ræðu, og þarf ég því litlu við að bæta og raunar engu, svo langt sem hans ræða náði. Ég vil leggja áherzlu á, að skv. þeirri athugun, sem raffræðingar hafa gert, eru virkjunarskilyrði mjög hagstæð í Svartá. Heitt vatn rennur í ána úr volgum uppsprettum, þannig að hún frýs mjög lítið, og vatnsrennslið er tiltölulega jafnt. Mikil þörf er á auknu rafmagni í okkar kjördæmi, því að mikið af raforkunni er framleitt af dísilstöðvum meira og mínna alla tíma ársins. Við þurfum tvímælalaust miklu meiri iðnað í kauptúnum og kaupstöðum, ef fólkið á eigi að flytja burt og eðlileg mannfjölgun á að geta átt sér stað í heimabyggðum. Til þess að við getum aukið iðnað að mun, þarf meiri raforku.

Það var skrifað um það í Ægi um s.l. áramót af þeim manni, sem mest hefur fengizt við lýsisherzlu, að séð mundi fyrir því, að allt lýsi yrði hert, sem framleitt væri hér á landi. Ég hef átt tal um þetta við Pétur Pétursson, sem er forstjóri fyrir þessu fyrirtæki, hvort þeir mundu ekki fáanlegir til að byggja lýsisherzluverksmiðju á Siglufirði. Hann sagði, að til þess þyrfti mjög mikið rafmagn, og taldi vafasamt, að nægileg raforka væri fyrir hendi á Siglufirði, ef verksmiðjan yrði reist þar. Hann lét þess getíð, að vinna væri ekki mjög mikil við lýsisherzlu, en án efa yrði mikils virði fyrir Siglufjörð, ef hún væri staðsett þar. Vera má, að iðnmrh. eða ríkisstj. í heild gæti ráðið úrslitum um, hvar verksmiðjan yrði staðsett, því að flestir þurfa að fá beina eða óbeina fyrirgreiðslu, ef um stórfyrirtæki er að ræða.

Það er ráðgerð stórvirkjun hér sunnanlands, og talað hefur verið um að leiða rafmagnið norður yfir hálendið til Akureyrar og reisa þar alúmíníumverksmiðju. (Gripið fram í: Eða suður yfir.) Já, ef virkjað er fyrir norðan. En mér hefur skilizt, að frekar mundi verða valin Þjórsárvirkjunin. Ég get ekki séð, að það þyrfti endilega að leiða þennan rafstreng til Akureyrar. Því mætti ekki setja upp alúmíníumverksmiðju á Sauðárkróki? Mikill iðnaður er fyrir á Akureyri, en lítill á Sauðárkróki. Vegalengdin er styttri til Sauðárkróks. Hvers vegna á frekar að auka iðnað þar, sem mikill iðnaður er fyrir, en hjálpa þeim bæjarfélögum, þar sem vöntun er á verkefnum? Satt að segja efa ég, að hagkvæmt sé að leiða rafmagn yfir Kjöl eða Sprengisand, hvor leiðin sem farin er. Það er ekki auðvelt að gera við raflinur á háöræfum að vetri til. Veðráttan er ekki alltaf eins og í vetur. Stórhríð getur verið viku eftir viku, jafnvel mánuð eftir mánuð. Ég skal ekki fullyrða, hvort hægt er að tryggja, að slíkar leiðslur bili ekki. Ég skil a.m.k. ekki, að það verði gert, ef á að leiða það á staurum. Ofviðrin eru mikil á öræfunum. Ástæða er til að ætla, að þó að virkjanir verði reistar hér sunnanlands, liði eigi margir tugir ára, þar til það rafmagn er fullnýtt. Vitanlega er æskilegt að tengja rafkerfið sem mest saman, en bezt er, að hver landsfjórðungur geti treyst sem mest á eigin rafmagnsframleiðslu og vegalengdir og aðstaða öll sé þannig, að gerlegt sé að gera við raflínur, þó að eitthvað bili. Ég vildi benda á þessi atriði. Ég efa ekki, að það kosti mikið að leiða rafmagnið yfir öræfin, og hef litla trú á, að hægt sé að tryggja, að ekki verði bilanir á þeirri leið, og hagkvæmara væri því að framleiða það rafmagn norðanlands, sem sá landshluti þyrfti að nota. Ég er ekki raffræðingur og tek því ekki að mér neina leiðbeiningastarfsemi í því efni, hins vegar vona ég, að nefnd sú, sem hefur með þetta mál að gera, taki þetta mál til rækilegrar íhugunar og geri sér ljóst, að aukinn iðnaður er lífsnauðsyn fyrir framtíð kauptúna og kaupstaða í Norðlendingafjórðungi, en skilyrði til þess, að hann geti aukizt að mun, er mikil og ódýr raforka.