20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem borizt hefur í tal í umr., sem ég vil nú leyfa mér að minnast á. Það hefur verið vikið að virkjunarskilyrðum í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Hæstv. ráðh. vék að því máli og sagði eitthvað á þá leið, að fyrir lægi, að allgóð virkjunarskilyrði væru í Laxá, en hins vegar hefði það ekki verið athugað til fulls, hvort þar gæti verið um landsvirkjun að ræða. En með landsvirkjun í þessu sambandi geri ég ráð fyrir að hann eigi við virkjanir á borð við Jökulsá og Þjórsá. Samkv. athugunum, sem fyrir hafa legið frá verkfræðingum, er talið, að hægt sé að virkja Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu ásamt vötnum, sem nú falla í Skjálfandafljót, en gert er ráð fyrir að veita í Laxá, í orkuveri, sem væri á stærð við Dettifossvirkjun og væri nokkru stærra en sú virkjun, sem nú er gert ráð fyrir við Búrfell.

Þetta er hugsað á þá leið, að þessum vatnsföllum, sem nú falla í Skjálfandafljót; verði veitt til Laxár og síðan virkjuð fallhæðin niður í Laxárdal eða Reykjadal úr Mývatnssveit.

Nú er það trúlega svo, eins og hæstv. ráðh. lét orð falla um hér, að þessir möguleikar séu ekki kannaðir til þeirrar hlítar, að hægt sé að segja um það með neinni vissu. hvort hægt sé að koma þarna upp með hæfilegum kostnaði slíku mannvirki. Og ég vil nú spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh. í tilefni af þessum ummælum, hvort hann geri ráð fyrir, að framhaldsathugun á Laxá og þeim vötnum, sem ég hef nefnt, verði látin fara fram nú á næstunni á vegum ríkisst,j. og áður en fullnaðarákvörðun verður tekin um stórvirkjun.