18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

103. mál, náttúruvernd

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hneykslaðist nokkuð á því, að ég hefði gerzt langorður um of um þetta litla mál. Hann verður nú að virða mér það til vorkunnar, að ég er ekki eins gagnorður og hann og get ekki tjáð mig í jafnstuttu máli. Hann ætlaði að verða stuttorður, en ég tók nú ekki tímann, en mér er nú nær að halda, að það hafi teygzt dálítið úr mínútunum hjá hæstv. menntmrh., og er ég sízt að telja það eftir.

Ég held, að hæstv. menntmrh, hafi ekki alls kostar skilið ummæli mín rétt. Ég sagði, að ég mundi að vísu ekki gera það að neinu kappsmáli, að þeir væru lögfræðingar, sem skipuðu forsæti í þessum nefndum og þessu ráði, en hins vegar held ég, að það hafi komið greinilega fram hjá mér, að ég teldi það heppilegra. Og ég spurði, hvað hefði breytzt frá því 1956, sem gerði það að verkum, að nú væri þess ekki lengur talin þörf. Því gat hæstv. menntmrh. litlu svarað, nema því einu, að það væri skoðun náttúruverndarráðs nú, að það væri ekki þörf á því, að formaður þess væri lögfræðingur. Það eru út af fyrir sig þýðingarmiklar upplýsingar, og það hefði auðvitað ekkert verið sjálfsagðara en að láta þær upplýsingar fylgja í grg. með slíku frv. Það hefði verið alveg sjálfsagt, það er atriði, sem skiptir máli. En það er ekki minnzt á það í grg. Það var ekki heldur minnzt á það af hæstv. menntmrh., þegar hann lagði málið hér fyrir. En hvers vegna ekki að flytja skýringar á þessu, hvers vegna þetta frv. er flutt? Hæstv. ráðh. verður að sætta sig við, að það séu hér þm., sem vilja ekki taka þegjandi við slíkum málum, sem eru flutt, kannske í trausti þess, eins og virtist koma fram hjá honum, að þau gangi umræðulaust í gegnum þingið á tveim dögum með afbrigðum. En það kom fram hjá honum óbeint, að hann heldur átaldi það, að ég hefði verið að eyða dýrmætum tíma í að ræða þetta lítilfjörlega og einfalda mál, sem hæstv. menntmrh. taldi vera. En þá spyr ég: Hvers vegna er hann að leggja þetta ofurkapp á að koma þessu máli í gegn endilega fyrir jól? Er einhver voði á ferðum, ef þetta litla mál er ekki afgreitt fyrir jól? Er einhver ofmetnaður hans í veði, ef þetta þarf að bíða fram yfir jól? Getur hann ekki sætt sig við það, hæstv. menntmrh., að þinginu gefist tóm til þess að athuga mál, sem er að vísu ekki stærra en þetta? Hvað veldur því, að hann þarf að keyra þetta í gegn með þessum hraða?

Hæstv. menntmrh. byrjaði á því að segja að hann væri mér alveg sammála um, að það væri engin þörf á því heldur að hafa varaformanninn lögfræðing. En ég, eins og ég sagði áðan, tel það eðlilegra, að báðir séu lögfræðingar, formaður og varaformaður. En hann sagðist vera til með það, að frv. yrði breytt í það horf, hann hafði ekkert við það að athuga. En svo bara áður en hann lauk máli sinu, þá breytti hann alveg um og sagðist telja heppilegra, að það væri ekki gerð þessi breyting á því, því að þá kostaði það, að það þyrfti að fara aftur til Nd., og þá skildist mér, að málið væri komið í tvísýnu á þessum annatímum þingsins, að komist í gegn fyrir jól. Já, það væri voði, óskaplegt. Landið færi líklega um koll af því. Nei, það er engin ástæða til að sækja þetta með neinu ofurkappi á neina hlið. Þetta er ekkert stórmál. Það er eins og ég hef sagt, þetta er lítilfjörlegt mál í sjálfu sér, en það er bara aðferðin við það, sem er ámælisverð, og hæstv. ráðh. verður að skilja, að það verður ekki tekið alveg þegjandi við, hann verður að sætta sig við það.

Í grg. þessa frv, er engin ástæða færð fram fyrir flutningi þess önnur en sú, að formaður sé fluttur úr bænum og hafi sagt af sér. En úr því að hæstv. menntmrh. skilur lögin eins og ég, að það sé ekkert skilyrði, að hann sé búsettur í Reykjavík, þá ætti það ekki að vera til fyrirstöðu. En formaður hefur sagt af sér, segir hann. Þá hefði ég nú haldið, satt að segja, að það væri ekki hörgull á lögfræðingum hér í Reykjavík, svo að það hefðu ekki verið vandkvæði á því að finna embættisgengan lögfræðing til þess að skipa í staðinn. Og svo er nú varaformaður til. Ætli varaformaður sé ekki svoleiðis settur, að náttúruverndarráð sé starfhæft nú, þó að það dragist fram yfir hátíðar og nýár að ganga frá þessu frv.?

En sem sagt, ég vil skora á þá hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að kynna sér allan þennan lagabálk, sem þetta frv. er til breytingar á, og athuga, hvort slík breyting eins og hér er lögð til sé í samræmi við anda og uppbyggingu þeirra laga.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, en endurtek þó það enn, að mér sýnist alveg sjálfsagt, ef þessu er breytt að því er varðar náttúruverndarráð, sem er æðri stofnun náttúruverndarnefndum og úrskurði náttúruverndarnefnda er skotið til, þá sé skipun náttúruverndarnefnda breytt líka, ef þar er ekki lengur þörf á því að hafa þessa skipun.

Hæstv. ráðh. svaraði nú ekki fyrirspurn minni um það, hver hefði verið starfsemi þessara stofnana á undanförnum árum. Hvað hafa þær t.d. tekið margar ákvarðanir um náttúruvætti, fólkvanga, þjóðvanga og friðlönd o.s.frv.? Hvað hafa þessar stofnanir gert á undanförnum árum? Það er náttúrlega fróðlegt að heyra skýrslu um þetta efni, um leið og fjallað er um breytingu á lögunum.