03.03.1964
Neðri deild: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (2131)

170. mál, menntaskóli Austurlands

Flm. (Eysteinn Jónason):

Herra forseti. Við flytjum þetta frv. 4 þm. fyrir Austurland, en stöndum að því allir 5, en einn getur ekki verið með, af því að hann á sæti í hv. Ed.

Við viljum benda á, að það er eitt af skilyrðum þess, að byggðin í landinu þróist með eðlilegum hætti, að ríkisvaldið styðji sem viðtækasta starfsemi í hverjum landshluta. Við teljum miklu máli skipta, að skólar og aðrar menntastofnanir séu efldar í hverjum landshluta og nýjum stofnunum komið á fót, eftir því sem nauðsyn ber til.

Með skólalöggjöfinni, sem nú er í gildi, var stefnt að því að gera aðstöðu ungmenna til framhaldsnáms hvarvetna af landinu sem jafnasta, þannig að í kaupstöðum og hinum fjölmennari héruðum gætu nemendur í skólum gagnfræðastigsins lokið prófi, sem gilti sem inntökupróf í menntaskóla. Þetta hefur nú orðið. Það hefur orðið nokkuð ágengt í þessu, og þetta hefur greitt götu margra æskumanna á námsbraut, þótt ekki hafi tekizt alls staðar að ná þessu marki. Sést það bezt á því, að orðið hefur sökum þrengsla í héraðsskólunum að synja mjög mörgum um skólavist upp á síðkastið, sem sótt hafa um inntöku í þá, og er það út af fyrir sig stórfellt alvörumál, sem þarf að bæta úr, en um það fjallar að vísu ekki þetta mál.

Skólaárið 1962—1963 voru við nám í Eiðaskóla 126 nemendur, en þurfti þó að vísa mörgum frá, og hefur svo verið nú um nokkur ár. Í gagnfræðaskóla Neskaupstaðar sátu þá 79 nemendur, og í unglingaskólum á ýmsum stöðum á Austurlandi stundaði þá nám 181 nemandi. Í þessum landsfjórðungi voru þá nemendur á gagnfræðastiginu 386, en hefðu þó verið mun fleiri við nám á gagnfræðastiginu, ef hægt hefði verið að veita öllum skólavist á Eiðum, sem þangað sóttu.

En æskufólki á Austurlandi gefst ekki kostur á menntaskólanámi heima fyrir í fjórðungnum. Allir þeir, sem sækja vilja um inntöku í menntaskóla, verða að leita þaðan á burtu og ganga í menntaskóla annars staðar á landinu. Að dómi okkar flm. þessa frv. og allra þm. Austurlands er eðlilegt og réttmætt, að nú verði hafizt handa um að stofna sem fyrst menntaskóla á Austurlandi, og teljum við þá eðlilegt, að hann verði á Eiðum, enda er mjög mikilvægt, eins og ég hef reynt að sýna fram á, að slík menntastofnun verði reist og starfi í landsfjórðungnum.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég held, að mönnum hljóti að vera ljós sú nauðsyn, sem á því er að koma þessum skóla á fót. Það á tvímælalaust að vera stefnan, að menntaskóli verði í hverjum landsfjórðungi.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari 1. umr.