06.04.1964
Neðri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

191. mál, Landsspítali Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrir allmörgum árum, — ég hygg, að það hafi verið 1953, flutti ég frv. til l. um Landsspítala Íslands, mjög svipað að efni og þetta frv., sem nú er til umr. En að þessu sinni eru flm. að frv. ásamt mér þeir Lúðvík Jósefsson, hv. 5. þm. Austf., og Ingvar Gíslason, hv. 5. þm. Norðurl. e.

Þetta frv. felur í sér það nýmæli fyrst og fremst, að Landsspítala Íslands skuli vera skipt í deildir, þannig að auk landsspítalans í Reykjavík, aðalspítalans, eigi einnig að koma á fót landsspítaladeildum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum og einnig í Sunnlendingafjórðungi, ef heilbrigðisyfirvöldin teldu ástæðu til að hafa þar einnig deild af landsspítalanum, með tilliti til þess, að sá landsfjórðungur er miklu betur settur en hinir að því er snertir samgöngur við höfuðborgina og þar með við aðaldeild landsspítalans eða aðalspítalann. Í frv. er einnig tekið fram, að sökum fjölmennis í Norðlendingafjórðungi gæti komið til greina, að 2 landsspítaladeildir væru í Norðlendingafjórðungi. Engu er slegið föstu um það, hvaða nú starfandi sjúkrahús í þessum landsfjórðungum yrðu fyrir valinu sem fjórðungsdeildir landsspítala, en það yrðu heilbrigðisyfirvöldin, sem tækju þær ákvarðanir, og yrði það að gerast með samningum við núv. eigendur sjúkrahúsanna.

Nú er þessum málum, eins og kunnugt er, þannig háttað, að ríkið rekur landsspítala í Reykjavík, en sjúkrahúsin úti um land eru eign sveitarfélaganna. Það má segja, að þau sjúkrahús úti um land, sem aðeins eru eins konar sjúkraskýli eða fyrir legusjúklinga, séu stofnanir, sem ekki séu mjög dýrar í rekstri, enda eru þan í eign og rekstri smárra sveitarfélaga, sem þó eiga fullt í fangi með rekstur þeirra. En hin stærri og vandaðri sjúkrahús, sem sjá um skurðaðgerðir og lyflækningar almennt og eru þannig miklu meira en legusjúkrahús eða hjúkrunarstofnanir, eru dýr í rekstri, og þó að eigendur þeirra, hin stærri bæjarfélög, séu sterkari aðilar til að standa undir rekstri þeirra, þá er það þó svo, að reynslan hefur sýnt, að þessi sjúkrahús eru rekin með miklum halla.

Í löggjöf landsins var fyrir mörgum árum viðurkennt, að ástæða væri til, að ríkið rétti hjálparhönd þeim bæjarfélögum, sem vildu leggja það á sig að efla sjúkrahús og standa undir rekstri sjúkrahúsa, sem tryggðu sér allfullkomna sérfræðilega þekkingu og öfluðu sínum sjúkrahúsum dýrra tækja, og var komið til móts við þau með ákvæðunum í löggjöfinni um fjórðungssjúkrahús. Þegar það fyrst komst í lög, var Akureyrarkaupstaður í þann veginn að byggja nýtt, dýrt og myndarlegt sjúkrahús, og ákvæðið mun hafa verið sett inn fyrst með tilliti til þess að gera Akureyrarkaupstað þetta fært. Þá hafði um skeið verið rekið sjúkrahús á Akureyri, sem naut álits og tók við sjúklingum langt út fyrir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar, og því sáu allir, að það var ekki réttlátt, að Akureyrarkaupstaður bæri einn rekstrarkostnað þessa stóra, nýja, vandaða sjúkrahúss, því að enn mundi hlutfallið raskast þannig, að enn fleiri utanbæjarsjúklingar fengju þjónustu hjá þessari stofnun, og væri þá rétt, að ríkið rétti nokkra hjálparhönd. Ákvæðið um fjórðungssjúkrahús í Norðlendingafjórðungi hefur því gilt alla þá tíð, sem nýja Akureyrarsjúkrahúsið hefur starfað. En aðstoðin, sem ríkið veitir fjórðungssjúkrahúsunum, er eingöngu í því fólgin að veita þeim bæjarfélögum, sem þau reka, nokkru hærri rekstrarstyrk en öðrum sjúkrahúsum.

Þetta ákvæði um fjórðungssjúkrahús var síðan notað síðar, eða heimildin til þess var notuð síðar og Ísafjarðarsjúkrahúsi breytt í fjórðungssjúkrahús fyrir Vestfirði og sjúkrahúsinu í Neskaupstað breytt í fjórðungssjúkrahús fyrir Austfirði, og urðu þá þau bæjarfélög aðnjótandi þeirra styrkja, sem þessari heimild fylgdu. Samt sem áður er það svo, að fjórðungssjúkrahúsin á Akureyri, Ísafirði og Neskaupstað leggja nærri óbærilegar byrðar á þessi bæjarfélög, sem veita heilbrigðisþjónustu langt út fyrir lögsagnarumdæmi viðkomandi kaupstaða. Nú mætti spyrja: Hvers vegna hækka þá ekki stjórnir sjúkrahúsanna eða bæjarstjórnirnar daggjöldin, þannig að þau standi undir öllum rekstrarkostnaði þessara stofnana? Það væri eðlileg aðgerð, þannig að tilkostnaðurinn væri greiddur af þeim aðilum, sem rekstrar sjúkrahússins njóta. En þetta er bæjarfélögunum ekki frjálst. Til þess hafa þau ekki heimildir. Daggjöldin eru ákveðin af heilbrigðisyfirvöldum landsins og þannig fá bæjarfélögin ekki að ákveða daggjöld, þannig að tekjurnar standi undir gjöldum við rekstur slikra sjúkrahúsa, og það gerir auðsætt hverjum manni, að það er ranglátt að leggja þessar byrðar á bæjarfélög undir slíkum kringumstæðum.

Þetta fyrirkomulag, að fjórðungssjúkrahús skuli vera starfandi í öllum landsfjórðungum, er viðurkenning þeirrar staðreyndar, að það sé ástæða til þess að efla eitt tiltölulega fullkomið sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi, og á því byggist þetta frv. sannarlega einnig. En með frv. er til þess hugsað að komast hjá þeim annmörkum, sem þessu fyrirkomulagi fylgja, sem eru þeir, að hallinn af rekstri þessara tiltölulega fullkomnu sjúkrahúsa norðanlands, austan og vestan leggst á bæjarfélög, sem með þessu taka á sig byrðar langt út fyrir sín endimörk. Þarna fá þjónustu miklu fleiri en þeir, sem eru gjaldþegnar viðkomandi bæjarfélaga. Það hafa stundum verið milli 30 og 40% bæjarsjúklinga á sjúkrahúsi Ísafjarðar og milli 50 og 60% utanbæjarsjúklingar. Sum árin munu hafa verið fullkomlega 2/3 sjúklinganna á Akureyrarspítala utanbæjar og aðeins rúmlega þriðji partur innanbæjarsjúklingar, en hallann allan af rekstri stofnunarinnar hefur Akureyrarkaupstaður orðið að bera. Og ekkert fjarri þessu hefur hlutfallið verið að því er snertir sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Hins vegar kostar ríkið að öllu leyti rekstur landsspítalans í Reykjavík og ber þar með ekki aðeins kostnað af þeim sjúklingum utan Reykjavíkurborgar, sem þar njóta læknishjálpar og sjúkrahúsvistar, heldur ber ríkið einnig að fullu uppi kostnað af reykvískum sjúklingum, sem liggja á Landsspítala Íslands. Þannig er allt öðruvísi að staðið í heilbrigðismálaþjónustu af hendi ríkisins við íbúa og skattþegna Reykjavíkur borgar og við Reykjavíkurborg sjálfa heldur en við hin ýmsu bæjarfélög úti á landi, sem standa undir rekstri fjórðungssjúkrahúsanna.

En lítum einnig á aðra hlið þessa máls. Ef þetta frv. væri orðið að lögum, væru fjórðungssjúkrahús á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum deildir úr Landsspítala Íslands. Það væri allt saman ein stofnun. Þá ætti ekki að vera neinum vandkvæðum bundið að flytja hina hæfustu sérfræðinga milli þessara deilda einnar og sömu stofnunar og veita hina beztu sérfræðilega þjónustu, sem til væri í landinu, hvort sem væri hér við aðalsjúkrahúsið eða við fjórðungsdeildir stofnunarinnar. Ég sé a.m.k. ekkert því til fyrirstöðu, að í stað þess að flytja fársjúkt fólk úr einum landsfjórðungi í annan, kæmi allt eins og öllu fremur til greina að flytja heilbrigðan sérfræðing, til þess að hin nauðsynlega aðstoð væri veitt, þegar skilyrði væru fyrir hendi við allfullkomin sjúkrahús í landsfjórðungum. Frv. miðast því einnig við það, ekki aðeins að létta því óréttlæti af, sem núverandi skipulag leiðir af sér, heldur einnig að hagnýta betur þá sérfræðilegu þekkingu, sem auðvitað er bezt búið að nú við Landsspítala Íslands, og gera hana einnig nothæfa í stofnunum ríkisins úti um landið.

Einn er sá annmarki, sem núverandi skipulagi fylgir, þessu fjórðungssjúkrahúsakerfi. Hann er sá, að þegar bæjarfélag hefur til lengdar rekið sjúkrahús með halla og tekið á sig þungar fjárhagslegar byrðar til þess að halda rekstrinum áfram, þá er full hætta á því, að slakað verði á kröfunum eða getuna bresti réttara sagt til þess að afla sjúkrahúsinu hinna færustu sérfræðinga, afla sjúkrahúsinu hinna fullkomnustu tækja, og jafnvel gæti komið til mála, að vanræksla yrði á viðhaldi stofnunarinnar og hún þannig ekki fær um að veita eins fullkomna þjónustu og æskilegt væri. Það mætti ætla, að deildunum úti um landið yrði hins vegar gert nokkuð jafnt undir höfði og sjálfum höfuðspítalanum í Reykjavík, að því er þetta snerti, og þessi hætta vofði því ekki yfir, ef hið nýja skipulag, sem lagt er til í þessu frv., yrði upp tekið.

Ég held, að efni þessa frv. liggi ljóst fyrir, bæði í frv. sjálfu og í grg., og ég þurfi því ekkí að gera miklu nánari grein fyrir því í framsögu. Meginefni þess er sem sé það að sneiða hjá þeim annmörkum, sem núverandi fyrirkomulagi fylgja, og að tryggja fólkinu í öllum landsfjórðungum sem jafnasta aðstöðu í heilbrigðismálum með því, að fullkomnasta sjúkrahús í hverjum landshluta yrði gert að deild úr Landsspítala Íslands, og sú yfirtaka yrði auðvitað að gerast með samningum við viðkomandi bæjarstjórnir, sem væru eigendur þeirra sjúkrahúsa, sem fyrir valinu yrðu af heilbrigðisstjórninni í hverjum landshluta sem deildir úr landsspítalanum.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn., þegar þessari umr. lýkur.