14.04.1964
Neðri deild: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í C-deild Alþingistíðinda. (2154)

202. mál, vinnuvernd

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef lengi verið sannfærður um það, að mikil þörf væri löggjafar um almenna vinnuvernd. Þróun atvinnulífs hér á landi hin síðari ár hefur stuðlað að því að gera þessa þörf enn þá brýnni. En mér hefur einnig verið fullljóst, að hér var um viðkvæmt löggjafarsvið að ræða. Við samningu slíkrar löggjafar yrði að taka tillit til margvíslegrar sérstöðu eða séreinkenna íslenzkra atvinnuhátta og umfram allt mannlegt tillit, því að þessi löggjöf hlyti að verða mannréttindalöggjöf öllu öðru fremur, ef hún ætti að gegna hlutverki sinu. Þessi tillit til beggja handa hef ég reynt að virða, en þó er ég fyllilega við því búinn, að ég verði af sumum sakaður um að leggja í frv. allt of þungar byrðar á atvinnulífið og af öðrum, jafnvel um að vera of vægur í kröfum til verndar konum, börnum og unglingum á vinnumarkaðinum og jafnvel vegna starfsmanna almennt.

Allir viðurkenna það nú, að við innreið stóriðju í íslenzkt atvinnulíf, þ.e.a.s. við tilkomu togaranna, hafi verið rétt og nauðsynlegt að setja vinnuverndarlög, vökulögin. Að öðrum kosti mátti búast við, að böl ofþjökunar og jafnvel úrkynjunar, þegar fram í sækti, riði hér í garð. En það var þó ekki óumdeilt, þegar það var gert. Jafnvel fyrsta skrefið, 6 stunda hvíld á sólarhring, þótti ganga of nærri atvinnulífinu. Beztu menn risu þá upp hér á hv. Alþingi og fullyrtu, að ef 6 stunda hvíld togarasjómanna á sólarhring yrði lögfest, væri búið með alla togaraútgerð hér á landi. Þetta var þeirra sannfæring, það efa ég ekki. En svo skar reynslan úr, 6 stunda hvíld reyndist ekki nóg við slík erfiðisstörf og vökur. Við miklu minni ágreining og átök fékkst ákvæði um 8 stunda hvíld inn í vökulögin og enn síðar um 12 stunda hvíld á sólarhring. Raunar hygg ég, að flestir viðurkenni þörf löggjafar um þessi málefni, ekki hvað sízt vegna þess, hvernig atvinnulífið hefur þróazt síðustu árin. En að hinu geng ég ekki gruflandi, að þegar að því kemur að ákveða, hvernig slík löggjöf eigi að vera í einstökum atriðum, muni skoðanir verða talsvert skiptar. Margir mundu t.d. vafalaust vilja láta banna alla barnavinnu, svo sem víða er gert erlendis, einkum í háþróuðum iðnaðarlöndum. Þetta er þó ekki gert í þessu frv., heldur er leitazt við að ákveða þátttöku barna í atvinnulífinu skynsamleg takmörk. Ég fæst ekki til að loka augum fyrir blessun hæfilegrar vinnu sem þætti í uppeldi barna og unglinga, og enn þá er svo mikið um útivinnu og margvísleg störf við holl og góð skilyrði í íslenzku atvinnulífi, að rangt væri frá mínu sjónarmiði að leggja algert bann við vinnu barna. Það er allt öðru máli að gegna í verksmiðjum og námum, en þar hefur erlendis verið talið sjálfsagt að banna alla barnavinnu. En ég tel, þó að ég hafni algeru banni á þessu sviði, jafnskylt að vernda börn fyrir ofþjökun og ofreynslu og setja skýr og ákveðin lagaákvæði að beztu manna yfirsýn til verndar fyrir þeim voða, sem orðið getur ungmennum til varanlegs tjóns sökum ofreynslu og ofþreytu.

Ég hygg, að það hafi verið snemma á árinu 1962, að Alþingi aflaði sér hinnar dönsku og norsku vinnuverndarlöggjafar, og kom brátt í Ijós við athugun, að svo ólíkt er íslenzkt atvinnulíf atvinnulífi þessara landa, jafnvel Noregs, að þýðing á löggjöf þessara landa gat alls ekki átt hér við í fjölmörgum og veigamiklum atriðum.

Fyrsta tilraun mín í fyrravetur til þess að setja saman frv. til íslenzkrar vinnuverndarlöggjafar misheppnaðist. Ég fékk hana ekki í það form, sem ég vildi fella mig við, og taldi ég ekki rétt að leggja það frv. fram á Alþingi. Í vetur fór ég svo að fást aftur við þetta verkefni, og er þetta frv., sem hér liggur nú fyrir, árangur þeirrar viðleitni. Um það hafa nú fjallað ýmsir fleiri en ég. Samt er mér ljóst, að í þessu frv. getur margt, mjög margt, orkað tvímælis, og ég vil undirstrika það, sem ég segi raunar í grg., að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til samstarfs um sérhverjar þær breytingar á frv., sem til bóta mættu verða á því.

Ég tel nú rétt að gera grein fyrir efni frv. og þá sérstaklega þeim nýmælum, sem í því eru og mestu varða að mínu áliti.

Engin almenn vinnuverndarlöggjöf er til hér á landi. Vökulögin voru, eins og ég vék að áðan, einn fyrsti vísirinn til slíkrar löggjafar, en aðeins varðandi eina stétt eða raunar aðeins brot úr einni stétt manna, varðandi togarasjómennina. Það má segja, að lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum frá 1952 grípi inn á þetta svið nokkuð ýtarlega á því sviði, sem þau ná til, en aðeins þó á þröngu sviði. Og að lokum ber svo að nefna l. um greiðslu verkkaups frá 19. maí 1930. Þau hafa inni að halda nokkuð skýr og ótvíræð ákvæði um greiðslu vinnulauna í peningum og koma því inn á sama efni og V. kafli þessa frv. fjallar um. Að öðru leyti en nú hefur verið getíð, er þetta frv. að mestu leyti frumsmíð í íslenzkri löggjöf.

Frv. er í átta köflum. I. kaflinn fjallar um holl og góð vinnuskilyrði á vinnustað, II. kaflinn um vinnutíma, hvíldartíma og vinnutilhögun, sá III. um sérstöðu konunnar í atvinnulífinu vegna móðurhlutverks hennar og réttindi, sem henni ber að tryggja þess vegna, IV. kaflinn er um vinnuvernd barna og unglinga, sá V. er um greiðslu vinnulauna og VI. kaflinn er um uppsagnarfresti og skaðabótaskyldu atvinnurekenda vegna ólöglegra uppsagna, VII. kaflinn er svo um refsiákvæði vegna brota á l. og lokakaflinn aðeins um gildistöku þeirra.

Í I. kaflanum er ekki að neinu ráði fjallað um öryggisbúnað vinnustaðar, þar sem þeirri hlíð málsins eru gerð allýtarleg skil í I. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. En hér eru ákvæði um hreinlæti á vinnustað, um greiða umferð á vinnustað, lýsingu vinnustaðar, loftrými o.fl. og þess krafizt, að heilbrigðiskröfum sé örugglega fullnægt. Í þessum kafla eru strangar kröfur um, að á sérhverjum vinnustað eða í námunda við hann skuli ávallt vera heilnæmt og gott drykkjarvatn, einnig nægilegt þvottavatn og hæfileg tala salerna. Til löglegs búnaðar vinnustaðar heyrir samkv. þessum kafla vistleg, upphituð kaffistofa eða matstofa af hæfilegri stærð, og þá skal á vinnustað hverjum vera aðstaða til að veita hjálp í viðlögum, þegar slys kann að bera að höndum. Að lokum er starfsmönnum gert að skyldu að gæta í hvívetna góðrar reglu og vandaðs hátternis á vinnustað.

Nú fullnægir vinnustaður ekki skilyrðum laga um hollustuhætti og öryggisbúnað, og er heilbrigðisyfirvöldum og öryggiseftirliti þá heimilt að láta loka vinnustaðnum, fáist ekki úr ágöllunum bætt eða því, sem áfátt er.

Með II. kaflanum er komið að hinum viðkvæmasta og vandasamasta þætti þessa frv. 1. gr. kaflans staðfestir aðeins viðtekna venju stéttarfélagasamninga, nefnilega að almennur vinnutími skuli vera frá kl. 8 árdegis til kl. 17, vinna milli kl. 17 og 20 teljist eftirvinna og vinna milli kl. 20 og kl. 8 árdegis sé næturvinna. Er næturvinna óheimil samkv. frv. nema með leyfi viðkomandi stéttarfélags.

Í þessum kafla segir, að starfsmaður, sem lokið hafi 8 stunda vinnudegi, sé engum skyldum háður um að bæta á sig aukavinnu. Þar segir einnig, að samfelldur hvíldartími verkamanns megi aldrei skemmri vera en 9 stundir á sólarhring. Algert hámark yfirvinnu- og næturvinnutíma er 24 stundir á viku. Strangari ákvæði eru um vinnutímann, þegar um ákvæðisvinnu er að ræða. Við slíka vinnutilhögun, þ.e.a.s. ákvæðisvinnu, má fjöldi yfirvinnu- og næturvinnustunda ekki fara fram úr 2 einstaka daga og ekki fram úr 6 stundum á viku eða 1 stund á dag að meðaltali á viku. Það er skoðun mín, að ef vinnutími í ákvæðisvinnu með því vinnuálagi, sem þeirri vinnutilhögun ,jafnan fylgir, fari yfir 9 stundir á dag að jafnaði, hljóti vinnuafköstin að falla og tilgangi ákvæðisvinnunnar verði þannig ekki nað nema með því, að tryggður sé hóflegur vinnutími. Í þessum kafla er þó tekið tillit til sérstöðu íslenzka fiskiðnaðarins með svo hljóðandi ákvæði:

„Með samþykki viðkomandi stéttarfélags má þó vinna í ákvæðisvinnu allt að 24 klst. í yfir og næturvinnu á viku, ef um er að ræða björgun verðmæta frá skemmdum eða störf, sem almannaheill krefst að unnin séu“.

Þannig væri þá undir slíkum kringumstæðum daglegi vinnutíminn orðinn 12 stundir á dag á viku. í 4. gr. er stéttarfélagi heimilað að semja um framkvæmd vinnu að nóttu til og um vaktaskiptingu, ef nauðsyn krefst, svo og að setja önnur ákvæði um skiptingu vinnutímans í samræmi við eðli starfs og aðrar aðstæður. Um hvíldartíma eru skýr ákvæði í frv. Frá kl. 18 skal vera vinnuhvíld daginn fyrir sunnu- eða helgidag og til kl. 22 daginn fyrir næsta rúmhelgan dag. Nokkru strangari ákvæði eru þó um vinnuhættur fyrir stórhátíðar, þannig skal vinnu hætt kl. 15 á aðfangadag jóla, gamlársdag, taugardaginn fyrir páska og laugardaginn fyrir hvítasunnu.

Svo fremi að því verði við komið, skal vikulegur frídagur vera sunnudagur. Þó má frá þessu víkja vegna bráðnauðsynlegrar vinnu á sunnu og helgidögum, ef um það takast samningar við viðkomandi stéttarfélag. Starfsmaður, sem unnið hefur sunnu- eða helgidagavinnu, skal þó jafnan eiga fri næsta sunnu- eða helgidagssólarhring.

Í 8. gr. frv. segir, að almennur vinnutími starfsmanns megi ekki vera lengri en 8 stundir á sólarhring og ekki lengri en 48 stundir á viku. Með þessu væri 8 stunda vinnudagur lögfestur hér á landi, en hann hefur, svo sem kunnugt er, fyrir löngu hlotið viðurkenningu í samningum stéttarfélaga við atvinnurekendur. Í tveimur ákveðnum tilvikum skal vinnuvikan vera skemmri en 48 stundir, þ.e. í fyrsta lagi, þegar vinna er framkvæmd að nóttu eða á sunnu- og helgidögum, þá skal vinnuvikan ekki vera lengri en 45 stundir. Og í annan stað skal vinnuvikan ekki vera lengri en 40 stundir, þegar unnið er samfellt í námum eða jarðgöngum. Þá eru í þessum kafla ákvæði um styttingu vinnutímans í áföngum á næstu 5 árum án skerðingar heildartekna. Segir þar, að 48 stunda vinnuvika í almennri vinnu skuli styttast um 1 klst. árlega, þannig að við lok 5 ára tímabilsins sé hún ekki lengri en 43 stundir.

Ég vil nú, áður en ég hætti að ræða um efni þessa kafla, mínna á það, sem flestum hv. alþm. er að sjálfsögðu kunnugt, að í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi, Danmörku og Svíþjóð, hefur í nokkur undanfarin ár verið 45 stunda vinnuvika, og það var samróma álit atvinnurekenda og verkalýðssamtaka í þessum löndum, að stytting vinnuvikunnar þar úr 48 stundum í 45 stundir hefði ekki valdið samdrætti í þjóðarbúskapnum eða dregið úr þjóðarframleiðslunni. Þá sé ég í blöðum þessa dagana, að lögþingið í Færeyjum hefur rétt nýlega samþykkt að stytta vinnuvikuna þar úr 48 stundum og í 44 stundir. Þannig er ljóst, að Ísland stendur nú eitt eftir allra Norðurlanda með lengstan vinnutíma, þó að miðað sé einvörðungu við þann vinnutíma, sem samið er um sem dagvinnutíma milli atvinnurekenda og stéttarfélaga hér á landi, og er þess þó ógetíð, að fjöldi þjóða hefur þegar komið á hjá sér 40 stunda vinnuviku í almennri vinnu og jafnvel aðeins 36 stunda vinnuviku við ýmiss konar verksmiðjuvinnu og námavinnu. En vinnutíminn hér á landi er ekki í samræmi við það, sem um er samið sem dagvinnutíma í stéttarfélagasamningunum. Hann er, eins og kunnugt er, miklu lengri. Þar stuðlar tvennt að, brýn þörf atvinnuveganna fyrir meira vinnuafi heldur en býðst á vinnumarkaðinum og hins vegar það, að tekjur af 8 stunda vinnudegi hjá verkafólki nægja ekki til þess að framfleyta meðalfjölskyldu. Þannig er það alkunnugt, að vinnudagur hér á landi hjá hundruðum eða jafnvel þúsundum verkafólks er tímunum saman ekki 8 stundir, ekki 48 stundir á viku, heldur 10, 12, 14 upp í 16, kannske 18 stundir langtímum saman, og stundum er það eitt látið ráða, hvað fólk getur lengi staðið á fótum við sín störf. Þetta segi ég ekki í ásökunarskyni gagnvart einum eða neinum, en gott ástand er þetta ekki, hvorki viðunandi fyrir verkalýð landsins né fyrir atvinnulífið í heild.

Þá kem ég að III. kafla frv., sem felur í sér ýmiss konar ákvæði um vinnu kvenna. Nútímaþjóðfélag byggist í sívaxandi mæli á því, að konan taki þátt í velflestum störfum atvinnulífsins. Þetta er tiltölulega nýtt fyrirbæri í íslenzku þjóðlífi. Konunni var markaður miklu þrengri bás í framleiðslustörfum þjóðfélagsins til skamms tíma. En þessa staðreynd verður að viðurkenna einnig í löggjöf landsins. Þessi kafli frv. hefur inni að halda ýmis sérákvæði varðandi þátttöku kvenna í atvinnulífinu, einkum beinast ákvæði 13.–17. gr. að því að vernda rétt konunnar sem móður. Konu skal vera heimilt að vera fjarverandi frá vinnu fyrstu 6 vikurnar, eftir að hún hefur alið barn. Hún á einnig rétt á því að vera fjarverandi 6 vikur í viðbót vegna barnsburðar, ef ástæður gera það æskilegt eða þörf krefur. Þannig er 12 vikna fjarvera að jafnaði heimil vegna barnsburðar, án þess að starfstími rofni eða launagreiðslur falli niður. Fjarvistina má taka að öllu leyti eða að hluta fyrir eða eftir fæðingu. Það er réttur atvinnurekenda að heimta fullnægjandi sönnur á rétt konunnar með vottorði ljósmóður eða læknis. Nú sannar kona með læknisvottorði, að hún þjáist af sjúkdómi, sem sé afleiðing af þungun eða fæðingu, og getur hún þá krafizt að mega vera frá vinnu allt að 6 vikum í viðbót fyrir eða eftír fæðingu, án þess að vistráðning rofni eða réttur til launagreiðslna falli niður. Ef konan hefur gætt tilkynningarskyldu sinnar samkv. þessum kafla laganna og er fjarverandi frá vinnu af þeim sökum, sem þessi kafli fjallar um, er uppsögn úr starfi óheimil. Samkv. seinasta ákvæði þessa kafla um vinnuvernd kvenna er konu, sem hefur barn á brjósti, heimilt að fá nægan tíma til þess án launafrádráttar, allt að hálftíma tvisvar sinnum á dag. Nokkur stéttarfélög kvenna hér á landi hafa þegar fengið inn í samninga sína ákvæði áþekk þeim, sem lagt er til í þessum kafla frv. að lögfest verði. Og einnig munu konur í þjónustu íslenzka ríkisins og ríkisstofnana almennt eiga rétt á 12 vikna fjarveru vegna þungunar og barnsburðar, án þess að starfsráðning þeirra rofni eða launagreiðslur af hendi ríkisins falli niður. Munurinn er aðeins sá, að hér er lagt til, að þessi réttur verði almennur og lögfestur og nái til allra kvenna, sem leggja fram vinnuafi sitt í þjónustu atvinnulífsins. Það skal að lokum fram tekið, að engin ákvæði þessa kafla ganga á nokkurn hátt lengra en lög ákveða konum til handa í nágrannalöndum okkar.

IV. kafli frv. fjallar um vinnuvernd barna og unglinga. Barn er samkv. skilgreiningu frv. sérhver sá, sem ekki er fullra 14 ára að aldri, unglingur hver sá, sem er á aldrinum 14—15. Eins og ég vék að í upphafi ræðu mínnar, mundu margir ófáanlegir til að sætta sig við nokkuð annað og mínna en að barnavinna væri bönnuð með öllu. Sumir vitna jafnvel til alþjóðasamþykkta, sem Ísland hafi fullgilt og sé aðili að, og sé okkur því óheimilt með öllu að leyfa nokkra þátttöku barna í atvinnulífinu, því að barnavinna sé bönnuð í þessum alþjóðasamþykktunt. En sé svo, hafa slíkar alþjóðlegar skuldbindingar a.m.k. ekki verið teknar allt of hátíðlega til þessa og þannig í reynd ekki haft gildi. Það er sem sé öllum kunnugt, að barnavinna hér á landi á síðari árum er komin langt út fyrir öll síðmenningarleg og skynsamleg takmörk. Þessu munu fáir neita, að ég hygg, enda væri vandalaust að sanna þá staðhæfingu með tugum dæma. Það er ástæðulaust að áfellast atvinnurekendur sérstaklega fyrir þetta. Börn og unglingar eru t.d. kappsfull og ætla sér oft ekki af, vilja jafnvel í lengstu lög halda sig til jafns við fullorðna fólkið, og ógjarnan vilja þau hætta fyrr en það hættir. Og til eru jafnvel svo forsjárlausir foreldrar, að þeir ætlast bókstaflega til þess af börnum sínum, að þau notfæri sér hverja vinnustund, sem fáanleg er, jafnt á nóttu sem degi og helgum degi sem virkum. En hér er um miklu alvarlegra mál að ræða en svo, að þar megi ráða ótakmörkuðum vinnutíma barna og unglinga mikil þörf atvinnurekenda fyrir vinnuafl, blind keppni barna og unglinga innbyrðis eða um það að gefast ekki upp fyrr en þessi eða hinn jafnaldrinn og ekki heldur forsjárlaus keppni barna eða unglinga um vinnuþol til jafns við fullorðið fólk, og sízt af öllu má áfergja óskynsamra foreldra eða forráðamanna barna og unglinga í því efni að hafa upp úr þeim, eins og það er kallað, ráða úrslitum um 12, 14 eða 16 stunda eða jafnvel lengri samfellda vinnu barna og unglinga, eins og dæmi eru til frá seinni árum í íslenzku atvinnulífi.

Þátttaka barna í atvinnulífi okkar með svo óskynsamlegum hætti er háskaleg frá öllum sjónarmiðum og hana verður a.m.k. að banna. Það er alls ekki ofmælt að nefna þetta barnaþrælkun, enda er flestum ljóst, að þetta ástand er Íslendingum orðið til vansæmdar. Alkunna er, að við erum viðkvæmari oft gagnvart útlendingum varðandi ýmíslegt það, sem aflaga eða miður fer hjá okkur í þjóðlífinu, enda hefur það komið fyrir og um það er mér kunnugt, að menn hafa blygðazt sín fyrir að sýna útlendingum jafnvel myndarlegustu hraðfrystihús okkar á sumrin, þegar

heita má, að þau séu að yfirgnæfandi meiri hl. rekin með börnum og unglingum. Slíkur óforsvaranlegur vinnutími barna er líka bannaður með öllu í þessu frv. Við því er lagt bann í 19. gr., að börn innan 12 ára aldurs megi vinna í vinnustofum, verkstæðum og verksmiðjum, en hins vegar er heimilt að ráða 12-14 ára börn til sérhverrar þeirrar vinnu, sem að dómi lækna eða sérfræðinga í uppeldis- og heilbrigðismálum sé örugglega óskaðleg heilsu barna og þroska. Það er yfirleitt lagt undir skólalækni og skólayfirlækni að hafa úrskurðarvald um þess konar mál samkv. frv. Alger hámarksvinnutími barna samkv. frv. er 6—7 stundir á dag, en jafnan skulu tveir vinnuhópar barna annast 8 stunda vinnutímabili til móts við fullorðna, þ.e. 4 stundir hvor vinnuhópur, og 10 stunda vinnutímabil fullorðinna einnig 2 vinnuhópar barna, þ.e. 5 stundir hvor þeirra o.s.frv. Það yrði 6 stunda vinnutími hjá börnum, ef um 12 stunda vinnutímabil væri að ræða hjá fullorðna fólkinu.

Það er bannað með öllu að fela börnum gæzlu gufukatla og véla, sem sérþekkingar eða sérstakrar aðgæzlu og varúðar þarf til þess að umgangast eða stjórna. Þá er það enn fremur óheimilt með öllu að ráða börn til nokkurrar þeirrar vinnu, sem að dómi skólayfirlæknis eða héraðslæknis getur á nokkurn hátt talizt hættuleg heilsu barna eða þroska. Þá segir í frv., að alger hámarksvinnutími unglinga skuli vera 8 klst., og öll vinna barna og unglinga á skólaskyldualdri er bönnuð, frá því að skólaganga hefst og þar til skólagöngu lýkur að vori. En það hefur tíðkazt nokkuð hin síðari ár, að á börn og unglinga hefur verið lögð allyfirgripsmikil og erfið vinna, sem orðið hefur að framkvæma, þannig að gengið hefur á svefntíma þeirra og hvíldartíma, jafnvel meðan þau gengu í skóla. Samkv. þessum kafla frv. er atvinnurekendum skylt að halda sérstaka skrá um tegund vinnu og vinnutíma þeirra barna og unglinga, sem hjá þeim vinna, og þeim er einnig skylt að afhenda viðkomandi stéttarfélagi, svo og heilbrigðis- og skólayfirvöldum, slíka skrá, hvenær sem krafizt er.

Þá er það V. kafli frv. Hann fjallar um greiðslu vinnulauna og ýmislegt það, sem tryggja skal rétt launþega í þeim efnum umfram það, sem gert er í gildandi lögum frá 19. maí 1930, um greiðslu verkkaups. Þar segir, að vinnulaun skuli ávallt greiða í gjaldgengu reiðufé, nema samið hafi verið um greiðslu í þeim efnum umfram það, sem gert er í gildandi lögum. Tékkar eru bannaðir nema með samþykki, og einnig má fara fram gírógreiðsla. Greiðsla vinnulauna skal að sjálfsögðu alltaf fara fram á vinnustað, í vinnutímanum, svo sem fyrir löngu er orðin föst venja samkv. stéttarfélagasamningum. Það er tekið fram í frv., að launagreiðsla, sem greiðist í dagvinnu- eða vikukaupi, skuli fara fram ekki sjaldnar en vikulega. Það er einnig nú í lögum. Launagreiðsla vegna ákvæðisvinnu skal einnig fara fram vikulega, hlutfallslega eftir því, sem verki vindur fram, en annars að verki loknu. Annan uppgjörstíma má þó ákveða vegna ákvæðisvinnu með sérstökum samningi. Greiðslur til manna, sem eru á mánaðarkaupi eða árskaupi, skulu fara fram ekki sjaldnar en tvisvar á mánuði, hálfsmánaðarlega, nema um annað hafi verið samið skriflega. Um það eru allstrengileg ákvæði í þessum kafla frv., að engan launafrádrátt megi framkvæma við launagreiðslur án skriflegs samnings, nema heimilað sé í lögum. Undanþágur frá þessu eru þó félagsgjöld stéttarfélaga, löglegar útsvarsgreiðslur og innborganir í tryggingasjóði og sjúkrasamlög með staðfestri reglugerð. Sérhver launþegi á rétt á greinilegu yfirliti yfir það, hvernig laun hans séu reiknuð og hvers konar launafrádráttur hafi verið inntur af hendi, og skulu fullnægjandi kvittanir fyrir sérhvern launafrádrátt ávallt fylgja uppgjörinu.

Þá er ég kominn að VI. kafla frv. í þeim kafla tel ég vera allmörg nýmæli, sem öll hníga að því að tryggja verkafólki fyllri rétt en nú er í lögum gagnvart uppsögn af hendi atvinnurekenda. Þar segir, að þeir, sem vinna tíma-, dag-, viku- eða ákvæðisvinnu, eigi aldrei skemmri uppsagnarfrest en 14 daga. Lágmarksuppsagnarfrestur starfsmanns, sem tekur mánaðar- eða árskaup, er aldrei skemmri en mánuður, talið frá lokum almanaksmánaðar. Uppsagnarfrestur er að sjálfsögðu gagnkvæmur, og skal uppsögnin jafnan vera skrifleg. Nú er starfsmanni, sem unnið hefur samfleytt í tvö ár eftir 21 árs aldur hjá sama atvinnurekanda, sagt upp starfi, án þess að réttmætar ástæður séu fyrir uppsögn og þær séu tilgreindar, og varðar það skaðabótaskyldu. Þessi skaðabótaskylda verður því ríkari sem maðurinn hefur staðið lengur í þjónustu viðkomandi atvinnurekanda. Hafi starfsmaður látíð af störfum vegna ólöglegrar uppsagnar, getur atvinnurekandinn orðið dæmdur til þess að ráða hann aftur í sömu eða aðra hliðstæða stöðu þeirri, sem hann áður gegndi. Bætur geta einnig komið til álíta fyrir þann tíma, sem starfsmaðurinn var sviptur starfi hjá fyrirtækinu. Slíkar bætur geta numið 6 mánaða launum, ef starfsmaðurinn hefur verið 6 ár í þjónustu fyrirtækis eða atvinnurekanda, árslaunum eftir 10 ára þjónustu og 3 ára launum, ef starfsmaður hefur starfað hjá fyrirtækinu 20 ár eða lengur.

Þá er í þessum kafla frv. ákvæði um það, að ekki megi segja upp vegna slysfara eða sjúkdóms starfsmanni, sem unnið hefur samfleytt tvö ár hjá sama atvinnurekanda, fyrstu þrjá mánuðina eftir að hann varð óvinnufær, og hafi starfsmaður starfað 10 ár hjá sama atvinnurekanda, er uppsögn óheimil, þótt starfsmaður sé óvinnufær allt að einu ári. Og hafi dregið úr starfsgetu starfsmanns vegna slysfara eða sjúkdóms við störfin, er atvinnurekanda skylt að leitast við að finna honum starf hjá fyrirtækinu, sem hentar hæfni hans, jafnvel þótt hann verði til þess að sérþjálfa viðkomandi starfsmann sinn nokkuð. Það skal tekið fram, af því að þessi ákvæði ýmist kunna að þykja nokkuð ströng, að þau ganga í engu atriði lengra en í norsku og dönsku vinnuverndarlöggjöfinni. Og það var einmitt sagt hér í gær af hv. 2. þm. Vestf., að það hafi löngum þótt viðeigandi háttur hjá okkur Íslendingum að gefa því gaum, sem lögfest væri hjá okkar nágrannaþjóðum, og það hefði jafnan vel gefizt, og vænti ég, að svo verði litið á að því er varðar þennan kafla, þó að hann leggi nokkrar auknar byrðar og skyldur á herðar íslenzkum atvinnurekendum gagnvart sínu starfsfólki.

VII. kaflinn er örstuttur. Hann er einungis um refsiákvæði vegna brota á 1., og segir í honum, að brot varði sektum, nema strangari refsingar liggi við samkv. almennum hegningarlögum. Það er tekið fram í 33. gr. frv., að foreldrar og aðstandendur, sem láti börn framkvæma vinnu, sem brjóti í bága við vinnuverndarlögin, skuli vera ábyrg fyrir slíkum verknaði, og skulu þau sæta sektum. Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála. Það er svo tekið fram, að um alla nánari framkvæmd þessara laga skuli félmrh. setja nánari ákvæði í reglugerð, eftir því sem þurfa þykir.

VIII. kaflinn er einungis um gildistöku frv., og segir þar, að gildistakan sé miðuð við 1. jan. 1965 og skuli þá öll núgildandi lagaákvæði, sem brjóti í bága við ákvæði þessara laga og veiti starfsmanni naumari rétt en þau, úr gildi fallin.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir flestum nýmælum þessa frv. og skal hvað af hverju láta máli mínu lokið. Ég tek það fram enn á ný, að hér er um mannréttindalöggjöf að ræða. Hún snertir verkafólk almennt og raunar allt starfandi fólk í landinu. Hún snertir konur, unglinga og börn. Engin löggjöf hefur nað slíkri viðurkenningu né orðið jafnhjartfólgin þeim, sem hennar eiga að njóta, eins og vökulögin. Hún var sett, þegar nýr og stórbrotinn þáttur hófst í atvinnulífi Íslendinga. Hennar var brýn þörf, hún var sett á réttum tíma.

Nú eru einnig nokkur tímamót í íslenzku atvinnulífi. Vinnurannsóknir eru hafnar. Allir eru sammála um að greiða götu hagræðingarmála og taka upp ákvæðisvinnu í einni eða annarri mynd, þar sem hún er talin henta til betri nýtingar fjármagns, véla og vinnuafls, til aukinnar framleiðni og þjóðartekna, og þetta á að geta gerzt, ef rétt og skynsamlega er að unnið, án þess að erfiði og slit og þrældómur erfiðismannsins aukist. En svo mikið er vist, að þetta verður ekki af viti framkvæmt, ef sá viti firrti og ofsalangi vinnutími, sem hér á landi tíðkast nú í mörgum tilfellum, verður ekki styttur og takmarkaður og vinnutímanum sett siðferðileg takmörk að hætti annarra menningarþjóða. Ég held því, að löggjöf um vinnuvernd eigi að setja einmitt nú.

Mér er ljóst, að miklum erfiðleikum er bundið að binda vinnutilhögun við fiskveiðar og fiskiðnað ófrávíkjanlegum og föstum reglum, enda er það ekki gert í þessu frv. Heimilað er að víkja frá settum takmörkum eðlilegs vinnutíma, þegar bjarga þurfi framleiðsluverðmætum. Þetta tekur einkum til fiskiðnaðarins, eins og allir sjálfsagt skilja. En það er einnig sannfæring mín, að með núverandi tækni megi bjarga mjög miklum verðmætum með öðrum úrræðum en óhóflegum samfelldum vinnutíma, sem hlýtur að ofbjóða öllu mannlegu þreki fullorðins fólks, hvað þá barna og unglinga. Löggjöfin mun einmitt knýja til breytinga á þessu og knýja til þess, að annarra úrræða verði leitað heldur en að ofþjaka fólk heila sólarhringa við erfið störf. Og ég geri mér fyllstu vonir um, að það verði ekki til þess, þó að þetta frv. verði lögfest, að skerða þjóðarafköst og þjóðartekjur.

Íslenzkir bændur höfðu um aldir trú á þá vinnutilhögun, sem nú er viðhöfð í fískiðnaðinum, vinnu í 12, 14, jafnvel 16 stundir í einu. En að lokum sannfærðust þeir sjálfir um, að afköstin urðu ekki ýkjamiklu meiri hjá þeim en á hinum bæjunum, þar sem vinnutíminn var miklu styttri og reglubundnari. Þeir breyttu því vinnutilhögun sinni af sjálfsdáðum og þurfa sízt að harma, að þeir gerðu það. Þar var skynsemin látin ráða. Örþreytt og úrvinda fólk er ekki líklegt til mikilla vinnuafreka. Það væri alveg yfirmannlegt. Og þá færist skörin fyrst upp í bekkinn, þegar ekki er hægt að hemja þessa óvizku með því að setja tvöfalt verð á vinnuafköst hins örþreytta manns. Samt er vinnan keypt og eftir henni sótt, og þá er naumast hægt að beita öðru úrræði en banni.

Ég geri mér vonir um, að setning laga sem þessara mæti ekki mjög mikilli mótspyrnu. Hún er skynsamleg af hagkvæmnisástæðum atvinnulífsins, en umfram allt er henni ætlað að þjóna eðlilegum og nauðsynlegum heitbrigðiskröfum og menningarlegum markmiðum. Flestar þjóðir, sem vilja telja sig til menningarþjóða, hafa fyrir alllöngu sett hjá sér slíka löggjöf sem þessa. Hana hefðum við að mínum dómi átt að setja, þótt við hefðum staðið þjóða fremst um hóflegan vinnutíma og góða vinnuaðbúð í hvívetna. En hvað þá, þegar við sannanlega höfum dregizt langt aftur úr flestum öðrum þjóðum og búum nú nokkuð almennt við svo langan og óreglubundinn vinnutíma, að slíks eru varla nokkur dæmi í heiminum? Þegar á þetta er litið , er setning vinnuverndarlöggjafar okkur Íslendingum alveg sjálfsögð og má ekki dragast úr hömlu að mínu viti.

Ég er þess fullviss, að það yrði mikils metið af vinnustéttunum og af verkalýðssamtökunum, ef frv. þetta fengi skjóta og góða afgreiðslu á Alþingi og yrði ekki lagzt á það í nefnd, eins og allt of títt er, heldur krufið til mergjar án tafar, grandskoðað að beztu manna yfirsýn og gert að lögum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og félmn.