14.04.1964
Neðri deild: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

202. mál, vinnuvernd

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja þessar umr. miklu lengur. Ég þakka hv. flm. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf við mínum fsp., og það er ljóst eftir orðum hans, að með flutningi þessa frv. og orðalagi þess á hann ekki við neina eina grein launþega hér á landi, heldur er þetta um starfsmenn annarra almennt. Og ég minnist sérstaklega í því sambandi, að þýðing, sem ég lét gera á norsku vinnuverndarlögunum, bar einmitt heitið „lög um starfsmannavernd“, vegna þess að sá, er þýddi þessi lög, var á því, að það væri of þröngt að tala um verkamenn, „arbeider“ yrði að þýðast sem starfsmaður í þessu tilfelli. Flm: sagði enn fremur, að ákvæði um yfirvinnu í frv. gætu verið of rúm, ef horft væri á heilt ár, og ég vil bæta við þessi orð hans, það má líka segja sem svo, að þau geti líka verið of þröng, ef litið er á skemmri tíma. Og ég veit, að allir okkar þekkja dæmi þess, t.d. úr verstöðvunum, að þeir tímar geta komið, stuttir tímar þó, að það verði að ætlast til þess af fólki, af sérhverri vinnandi hendi, að hún leggi hönd á plóginn til þess að bjarga verðmætum undan skemmdum, og þá jafnvel geti verið varasamt að binda leyfða vinnutímalengd við 12 tíma, eins og í þessu frv. er gert.

Hv. flm. sagði, að hann hefði engri skoðun breytt á tæknimálum, hagræðingarmálum o.þ.h., og það má vel vera. Ég vil aðeins segja, að það getur verið hægt að hafa skoðanir á málum og jafnvel jákvæðar skoðanir á málum, en um leið drepa mál með þessum sömu jákvæðu skoðunum, sem menn í öðru orðinu segja að þeir séu fylgjandi og vilja vinna að því að komist á. Ég er ekki að efa, að hv. 5. þm. Vestf. hafi haft mikinn áhuga á hagræðingarmálum í okkar þjóðfélagi og hafi haft mikinn áhuga á aukinni framleiðni í okkar atvinnugreinum. En við verðum bara að horfa á þá staðreynd, að þetta er forseti stærstu launþegasamtaka á Íslandi, og enn hef ég ekki séð neitt eftir þennan sterka aðila, sem svo gæti verið á þessu sviði, sem er jákvætt. Ég minnist þess, að ég átti sæti á síðasta alþýðusambandsþingi. Þar var með allra samþykki stjórn Alþýðusambandsins gefin heimild til þess að gera svokallaðan rammasamning við atvinnurekendur um vinnurannsóknir og hagræðingarmál. Sá samningur hefur ekki enn séð dagsins ljós, þótt nærri tvö ár séu liðin, síðan þetta þing var haldið, og mér þykir satt að segja mjög furðulegt, ef atvinnurekendur hafa staðið gegn því, að slíkur samningur væri gerður. Hitt skal ég taka undir með hv. 5. þm. Vestf., að það er oft sárgrætilegt að horfa upp á og fylgjast með, hversu margir úr röðum atvinnurekenda á þessu landi eru í öllum sínum hugsanagangi og störfum enn í anda aldamótaáranna, ef ég mætti orða það svo.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að nauðsynlegur grundvöllur þess, að þetta geti tekizt, er samstarf. Það er ekki aðeins nauðsynlegt, heldur er það frumskilyrði. Ég vil rifja upp fyrir hv. þm., að skömmu eftir að ég kom fyrst hér til þings, flutti ég þáltill., mjög sakleysíslega og saklausa í öllu eðli sinu, þess efnis, að ríkisstj. væri falið að aðstoða samtök vinnumarkaðarins í því að koma á samstarfsnefndum innan einstakra fyrirtækja. Þessi hv. þm. var mjög á því, að slíkar nefndir væru nauðsynlegar til þess að auka samstarf milli þessara aðila og bæta sambúðina. Þessar nefndir hafa líka verið kallaðar framleiðslunefndir í öðrum löndum, og þessar nefndir hafa kannske mörgu öðru frekar stuðlað að því, að það hefur tekizt gott samstarf á milli aðilanna um framleiðnimál, um hagræðingarmál, til þess að auka framleiðnina. En þessi sami hv. þm. gaf út sérstakt nál. um það, að hann legði til, að þessi þáltill. mín væri felld, vegna þess að þetta ætti að vera samningsatriði viðkomandi samtaka, sem vel getur verið rétt. En um leið og menn segja, að málið sé áhugamál þeirra, — og kem ég þá aftur að upphafi orða mínna, - um leið og þeir segja, að það sé áhugamál þeirra og þeir vilji allt fyrir það gera, til þess að það nái fram, þá er líka hægt að drepa það með því að gera ekki neitt í því, verandi í þeirri stöðu, sem þessi hv. þm. er.

Einhvern veginn segir mér svo hugur eftir þessar umr., sem hér hafa orðið, að það geti leynzt í þessu frv. fleiri atriði en það, sem ég spurði flm. um varðandi kaffitímann, sem þurfi kannske nánari athugunar við og hv. flm. hafi ekki leitt hugann að nógu alvarlega. Ég bendi á, að á hverjum degi er samningslega hjá flestum verkalýðsfélögum kaffitíminn 40 mínútur, og þegar talað er um að gera stórátak, svo sem að stytta vinnutímann um 6 klst. á viku á 5 árum, þá eru 40 mínútur ekki lítið atriði í vinnudeginum. Ég mundi segja, að jafnvel gæti þetta atriði eða hvernig menn litu á þetta meginatriði bundið skoðanir manna með eða móti þessu frv. Ég er á því, og það hefur komið fram í vinnutímanefnd, að eftirlitið á vinnutímanum verði bezt komið í höndum verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar og þá í höndum trúnaðarmanna hennar á vinnustað. En vegna fsp. hv. 3. þm. Sunnl. vil ég spyrja hv. 5. þm. Vestf. að því, hvort hann telji ekki, að um leið þyrfti að gera breytingar á þeim kafla vinnulöggjafarinnar, sem fjallar um trúnaðarmenn á vinnustöðum, og bendi ég t.d. á þá vinnustaði, þar sem margir trúnaðarmenn eru, þar sem mörg stéttarfélög vinna hjá einum atvinnurekanda á sama vinnustað o.s.frv. Í fljótu bragði virðist mér, að svo sé.