14.04.1964
Neðri deild: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í C-deild Alþingistíðinda. (2161)

202. mál, vinnuvernd

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 5. þm. Vestf., flm. þess frv., sem hér liggur fyrir, vit ég taka fram, að ég minntist hvergi á einhliða endurskoðun vinnulöggjafarinnar, þar sem hallað yrði á annan hvorn aðilann. Mín fsp. var um það eitt, hvort hann mundi ekki telja eðlilegt, að vinnulöggjöfin í heild yrði nú einnig tekin til endurskoðunar og samræmingar við það, sem væri hjá okkar nágrannaþjóðum. Nefndi ég þar Noreg og Danmörk, en mátti að sjálfsögðu einnig nefna Svíþjóð. Ég nefndi þessar tvær næstu þjóðir. Það, sem kannske gaf mér einnig tilefni til að bera þessa fsp. fram, er það, að í grg. þess frv., sem á sínum tíma var flutt og lögfest hér á Alþingi um þessi mál, 1938, segir svo frá þeim aðilum. sem það frv. sömdu, með leyfi hæstv. forseta:

„Engum mun þó ljósara en henni,” þ.e. nefndinni, „að ekki má búast við, að hér sé um neina frambúðarlausn að ræða. Annars staðar hefur hin fyrsta löggjöf af þessu tagi yfirleitt þarfnazt endurskoðunar, lagfæringar og viðbótar eftir skamman tíma, enda þótt lengur og við betri skilyrði hafi verið að henni unnið en hér hefur verið gert“.

Þetta gefur alveg ótvírætt til kynna, að þeir aðilar, sem að vinnulöggjöfinni stóðu og hana sömdu á sínum tíma, hafa reiknað með því, að mjög fljótlega yrði að taka hana til endurskoðunar. Hún hefur nú gilt í 25 ár, og getur það því ekki talizt óeðlilegt, þó að hím yrði nú eftir þennan tíma tekin til endurskoðunar og til samræmingar við það, sem gildandi er hjá okkar nágrannaþjóðum, sem lengur hafa búið við vinnulöggjöf, og án efa hafa þær öðlazt þar meiri reynslu í lengri tíma en við Íslendingar.