21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

212. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Á fundi sínum hinn 30. marz s.l. samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja ályktun um að beita sér fyrir stofnun stýrimannaskóla þar. Er ályktun bæjarstjórnar svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn samþykkir að beita sér fyrir stofnun stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, þar sem kenndar verði sömu námsgreinar og kenndar eru undir fiskimannapróf við stýrimannaskólann í Reykjavík, enda útskrifist nemendur frá skólanum með fiskimannaprófi, hafi þeir uppfyllt skilyrði og staðizt hliðstætt próf og stýrimannaskólinn í Reykjavík krefst við brottskráningu“.

Í framhaldi af þessari samþykkt bæjarstjórnar hef ég leyft mér að flytja hér á þskj. 454 frv. til l. um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Ástæðan fyrir því, að flutt er sérstakt frv. til l. um þennan fyrirhugaða skóla, er sú, að til þess að skólinn geti útskrifað nemendur með fullum réttindum til skipstjórnar á fiskiskipum, verður hann að hljóta staðfestingu löggjafarvaldsins með löggjöf, eins og í gildi er um stýrimannaskótann hér í Reykjavík.

Þetta mál hefur um nokkurt árabil verið til umr. heima í héraði, og að baki samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja nú liggja eðlilegar orsakir. Sú þróun hefur átt sér stað hér á landi hin síðari ár, að flestöll fiskiskip, sem smíðuð hafa verið eða enn eru í smíðum fyrir íslendinga, hvort heldur er hér heima eða erlendis, eru yfir þá stærð, 120 tonn, sem hið svokallaða minni fiskimannapróf veitir rétt til skipstjórnar á. Verður að reikna með, að þessi þróun í byggingu íslenzkra fiskiskipa haldi áfram. Liggur þá alveg í augum uppi, að slíkt útheimtir fleiri sérmenntaða menn með fullgild réttindi til skipstjórnar og sem stýrimenn á skipum yfir 120 tonn að stærð, en slík réttindi geta ekki aðrir veitt hér á landi en þeir skólar, sem hlotið hafa staðfestingu löggjafarvaldsins til útgáfu skírteina, sem þessi réttindi veita. Í dag er það stýrimannaskólinn hér í Reykjavík einn, sem slíka staðfestingu hefur hlotið.

Sú þróun, sem ég minntist á hér áðan, hefur einnig átt sér stað í Vestmannaeyjum og hefur nú leitt til þess, að hugur æ fleiri ungra sjómanna þar stefnir í þá átt að afla sér aukinnar menntunar í starfi sínu og fullra réttinda til skipstjórnar. En það verður að hafa í huga í þessu sambandi, að allir hafa þessir menn stundað sjómennsku um nokkurt árabit. Margir eru þeir komnir á þann aldur og í þá aðstöðu að hafa stofnað heimili og eignazt fjölskyldu. Er alveg augljóst, að þetta gerir mönnum erfiðara fyrir fjárhagslega að afla sér aukinnar menntunar, og ég skil það ákaflega vel, að menn veigri sér við að taka sig upp frá heimili sínu og fjölskyldu til tveggja vetra náms í Reykjavík á sama tíma og þeir missa alla möguleika til tekjuöflunar til að sjá heimilum sínum farborða. Margir sjómenn, bæði í Vestmannaeyjum og annars staðar á landinu, sem orðnir voru fjölskyldufeður, hafa þó í þetta ráðizt. Aðrir hafa því miður ekki treyst sér til þess og því orðið af þeirri menntun, sem þeir óskuðu að afla sér og töldu sér nauðsynlega í sambandi við starf sitt. Aðstaða til náms mundi verða miklu léttari fyrir þessa aðila, ef þeir gætu dvalið á eigin heimilum, meðan á náminu stendur, og er ég alveg sannfærður um, að við í Vestmannaeyjum mundum fá fleiri sérmenntaða menn í þessari grein, ef stýrimannaskóli yrði stofnaður þar og starfræktur.

Vegna þeirrar þróunar, sem ég hef hér áður minnzt á í byggingu fiskiskipa, þar sem flest skip, sem nú eru byggð, eru stærri en svo, að hið mínna fiskimannapróf veiti réttindi til skipstjórnar eða til að vera stýrimenn á þeim, er ekki óeðlilegt að reikna með, að aðsókn aukist verulega að þeim eina stýrimannaskóla, sem nú setur veitt fullkomin réttindi til skipstjórnar á fiskiskipum. Ég tel fullkomlega tímabært og það mjög eðlilega og æskilega þróun, að nú þegar verði stofnað til stýrimannaskóla utan Reykjavíkur. Og þegar til álíta kemur, hvar sá skóli ætti að vera staðsettur, tel ég, að öll rök liggi að því, að hann verði staðsettur í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjar eru, eins og kunnugt er, stærsta verstöð landsins utan Reykjavíkur, og er þar öll aðstaða til stofnunar slíks skóla, auk þess að Vestmanneyingar ráða yfir skipi, sem án efa gæti komið að miklum notum í sambandi við hagnýta kennslu í skólanum. Ég á hér við hinn nýja hafnsögubát, sem er um 100 tonn að stærð og útbúinn er öllum siglingar- og björgunartækjum, sem yfirleitt er að fínna í íslenzkum skipum. Auk þess mundu nemendur skólans, ef hann væri staðsettur þar, komast í beina snertingu við fiskveiðarnar og meðferð aflans til lands og sjávar og lifa sig inn í athafnalífið í einni þróttmestu verstöð landsins. Allt slíkt yrði þeim til aukinnar þekkingar og aukinnar reynslu í sambandi við framtíðarstarf þeirra. Og þegar það kemur til viðbótar, að Vestmanneyingar sjálfir eru reiðubúnir að bera allan kostnað af stofnun skólans og af rekstri hans, eins og fram kemur í 13. gr. frv., leyfi ég mér að vænta þess, að þessu frv. verði vel tekið hér á hv. Alþingi.

Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir ástæðunni fyrir flutningi þessa frv. og þeim rökum, sem fyrir því eru, að ráðizt verði í stofnun stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Tel ég rétt þessu til viðbótar að fara nokkrum orðum um einstaka kafla frv.

I. og II. kafli þess eru um markmið skólans og þá fræðslu, sem honum er ætlað að veita, og einnig um deildaskiptingu. Er af þessum köflum frv. þegar ljóst, að skólanum er aðeins ætlað að veita hið svokallaða fiskimannapróf, sem gefur rétt til skipstjórnar á fiskiskipum af ótiltekinni stærð, en hvorki farmannapróf né önnur frekari réttindi. III. kafli frv. fjallar um kennslugreinar, próf, prófdómendur og prófskírteini. Er hér í öllu farið eftir ákvæðum laga um stýrimannaskólann í Reykjavík, að því er fiskimannapróf varðar. Kennslugreinar eru þær sömu þar og námsgreinar, sem próf er tekið i, einnig þær sömu. Svo er einnig um skipun prófdómenda. Er þetta að sjálfsögðu gert til þess að tryggja það, að nemendur hljóti kennslu í öllum sömu greinum og nú eru kenndar undir fiskimannapróf við stýrimannaskólann í Reykjavík, og einnig, að þeir verði prófaðir í sömu greinum og gert er við burtfararpróf þar og að prófdómendurnir séu skipaðir á sama hátt og við þann skóla, þannig að tryggt sé, að nemendur við fyrirhugaðan stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum hafi hlotið sömu menntun og próf í skólanum verði í engu auðveldari en þau eru við stýrimannaskólann í Reykjavík. Ættu 5. og 6. gr. frv. að tryggja þetta nægjanlega, þannig að óvéfengjanlegt væri.

IV. kafli frv. er um almenn inntökuskilyrði. Er þar í öllu fylgt ákvæðum 11. gr. í l. um stýrimannaskólann í Reykjavík, en ég sé, að í prentun hefur fallið niður 2. töluliður 8. gr. Verður þetta lagfært með því að fá frv. endurprentað og útbýta því leiðréttu í samræmi við handrit þess.

V. og VI. kafli eru um kennslutíma, skólastjóra, tölu kennara, menntun þeirra og ráðningu. Gerir 10. gr. ráð fyrir, að auk skólastjóra skuli vera einn fastur kennari og stundakennarar eftir þörfum. Er gerð sama krafa til menntunar skólastjóra og kennara og krafizt er við stýrimannaskólann í Reykjavík. Gerir 10. gr. frv. einnig ráð fyrir, að kennarar skuli taka laun samkv. kjarasamningum við bæjarstjórn Vestmannaeyja, en verði ekki starfsmenn ríkisins. Er þetta í samræmi við 13. gr. frv., sem síðar mun að vikið.

VII. og síðasti kafli frv. er um stjórn skólans, greiðslu kostnaðar við rekstur hans og ákvæði um, að í reglugerð verði nánar kveðið á um tilhögun kennslunnar, próf, einkunnir, kennslutíma o.fl. í 12. gr. er ákveðið, að yfirstjórn skólans skuli vera í höndum 5 manna skólastjórnar og bæjarstjórn Vestmannaeyja kjósi 4 þeirra, en ráðh. skipi einn, og skal hann vera formaður skólanefndar. Er þetta ákvæði frábrugðið ákvæði gildandi laga um stýrimannaskólann í Reykjavík, þar sem gert er ráð fyrir, að yfirstjórn þess skóla skuli vera í höndum atvmrn. Verður þetta ákvæði að tel,jast eðlilegt, meðan svo er, að bæjarsjóður Vestmannaeyja greiðir allan kostnað af rekstri skólans. Einnig verður það að tel,jast eðlilegt, að formaður skólanefndar sé stjórnskipaður, þar sem ætlazt er til, að prófskírteini frá skólanum veiti sama rétt og frá stýrimannaskólanum hér í Reykjavík, sem eins og áður er sagt er undir yfirstjórn atvmrn.

13. gr. frv. gerir ráð fyrir, að kostnaður við stofnun skólans og rekstur greiðist úr bæjarsjóði Vestmannaeyja. Ég vil geta þess, að fyrir liggur, að bæjarstjórn Vestmannaeyja er reiðubúin að leggja þessi útgjöld á bæjarsjóð, og var þetta ákvæði sett inn í frv. með hennar vitund. Má í þessu sambandi geta þess, að bæjarstjórn mun njóta stuðnings fjársterkra félagasamtaka í Eyjum við stofnun skólans og vonandi einnig við rekstur hans, þegar þar að kemur.

Í 14. gr. er gert ráð fyrir, að í reglugerð verði nánar kveðið á um tilhögun um rekstur skólans. Er grein þessi í samræmi við 16. gr. 1. um stýrimannaskólann í Reykjavík og því eðlilegt, að reglugerð varðandi skólann í Vestmannaeyjum verði í samræmi við reglugerð stýrimannaskólans hér, að því er varðar fiskimannaprófið.

Ég vil að lokum leyfa mér að benda á, að frv. þetta gerir ekki ráð fyrir neinum útgjöldum úr ríkissjóði, en með frv. er aðeins lagt til, að fyrirhugaður stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum öðlist staðfestingu löggjafarvaldsins, þannig að prófskírteini frá honum veiti lögum samkv. full réttindi til skipstjórnar á fiskiskipum jafnt og skírteini þau, sem nú eru gefin út af stýrimannaskólanum hér að loknu fiskimannaprófi. Ég vonast fastlega til, að stofnun skólans, ef af verður, verði hvatning til sjómanna í Vestmannaeyjum, yngri og eldri, að afla sér frekari menntunar í starfi sínu og fullra réttinda til skipstjórnar. Fullyrða má, að af hendi bæjaryfirvaldanna verður vandað til stofnunar skólans og rekstrar hans og að engu minni kröfur verða gerðar til menntunar og hæfni forstöðumanns hans og kennara en gert er við stýrimannaskólann hér í höfuðborg landsins.

Vænti ég þess, að frv. þessu verði vel tekið hér á hv. Alþingi og að það fái skjóta fyrirgreiðslu, og leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.