21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

212. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi lýsa yfir fylgi mínu við þetta frv. í öllum aðalatriðum. Að vísu sýnist mér, að nokkur atriði þess séu þannig, að það komi til mála að breyta þeim. En ég er fylgjandi því máli, sem hér er flutt um það, að komið verði upp stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Það er enginn vafi á því, að það er mikil þörf á því hjá okkur, eins og nú standa sakir, að fjölga skipstjórnarlærðum mönnum, það er verulegur skortur á þeim, sérstaklega á okkar fiskibátaflota. Þar starfa nú fjöldamargir menn með undanþáguréttindi, og virðist þróunin beinlínis vera sú, að undanþágunum fari fremur fjölgandi frá ári til árs. Ég skal ekki fara út í það hér að ræða það, hvernig stendur á því, að þróunin hefur orðið þessi, en ég hygg þó; að það fyrirkomulag, sem gilt hefur hjá okkur um skipstjórnarmenntun, hafi ráðið hér nokkru um. Það er enginn vafi á því, að það er nokkuð þunglamalegt fyrir alla þá menn, sem vilja leggja fyrir sig skipstjórn, að sækja nám sitt allt hingað suður til Reykjavíkur og að vera bundnir hér í 2 vetur við nám, og reynslan hefur líka orðið þessi, að æðimargir þeir hafa helzt þarna úr lestinni við námið á einn eða annan hátt og orðið síðan að búa við undanþáguréttindi.

Áður fyrr var þessu háttað þannig, að þá mátti segja, að hér væru starfandi að staðaldri skólar, sem útskrifuðu þá skipstjórnarmenn, sem þá var mest hér um að ræða á fiskibátaflotanum, þá væru hér starfandi a.m.k. 3 skólar í einu: aðalskólinn hér í Reykjavík, sem veitti aðstöðu til meira náms, en auk þess voru svo föst námskeið ýmist á Akureyri og Vestmannaeyjum eða á Ísafirði og Neskaupstað, þannig að á þeim námskeiðum gátu menn fengið full skipstjórnarréttindi upp í 75 rúml. stærð, en sú stærð var þá þannig, að það mátti seg,ja, að mikill meiri hluti bátaflotans væri þá undir þeirri stærð. En þróunin hefur nú orðið sú, að þessi námskeið hafa svo til alveg verið lögð niður. Það var greinilegt, að það var um andstöðu á þessum námskeiðum að ræða hjá ýmsum af helztu forustumönnum skólans hér í Reykjavík og þeir töldu heppilegra að fá alla nemendur í þessum greinum hingað suður til náms við þau skilyrði, sem þá voru talin vera bezt hér. En afleiðingarnar hafa ábyggilega að nokkru leyti orðið þær, að margir þeir, sem annars hefðu haldið áfram að læra til skipstjórnar, ef þeir hefðu átt jafnhæga aðstöðu með það og hér var lengst af, þeir hafa látið sér nægja hálft nám eða þá kannske lítið sem ekkert nám, en flotið áfram á undanþáguréttindum.

Það er ekkert um það að villast, að Vestmannaeyjar eru stærsta fiskibátaverstöðin hér á landi og þar er þörf á mörgum sjómönnum og til þess staðar leita líka sjómenn starfa víðs vegar að á landinu. Ég teldi því mjög eðlilegt, að um leið og unnið er að því að bæta nokkuð úr námsaðstöðu í þessum efnum og fjölga skólum, þá verði einmitt Vestmannaeyjar fyrsti staðurinn fyrir valinu. Mér sýnist því mjög eðlilegt að stíga það skref nú þegar, að það verði komið upp sjálfstæðum stýrimannaskóla einmitt í Vestmannaeyjum. Slík ákvörðun væri þá einn þáttur í því að reyna að dreifa nokkuð skólastofnunum um landið, að einbeita þeim ekki öllum hér að Reykjavík, eins og því miður hefur orðið í allt of mörgum greinum. Það er engin þörf á því og hreint ekki æskilegt á neinn hátt að safna hér saman svo að segja öllum framhaldsskólum í landinu. Það eru margir aðrir staðir, sem fyllilega hafa aðstöðu til þess, að þar gætu einnig verið reknir myndarlegir og góðir framhaldsskólar, og ég tel, að í þessari grein væru Vestmannaeyjar fyllilega færar um að halda uppi myndarlegum sjómannaskóla. Ég held, að það þyrfti ekki að verða á neinn hátt til þess að slá skugga. á skólann hér í Reykjavík, því að auðvitað mundi mjög fjölmennur hópur manna stunda skólann hér eftir sem áður frá því fjölmenna svæði, sem næst liggur einmitt hér í Reykjavík.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessi skóli verði í rauninni eign Vestmannaeyjakaupstaðar, að það verði Vestmannaeyjakaupstaður, sem byggi skólann upp, leggi honum stofnfé og sjái um rekstur hans í rauninni í öllum greinum, aðeins í samráði við stjórnarvöld landsins til þess að tryggja, að þau próf, sem þarna yrðu þreytt, væru í samræmi við próf almennt til skipstjórnarréttinda. Ég tel fyrir mitt leyti, að þetta ætti ekki að vera svona. Ég álít, að það ætti einmitt að stíga það skref, um leið og ákveðið er að koma þessum skóla upp, að þetta ætti að vera hreinn ríkisskóli, ríkið ætti að sjá um að koma skólanum upp alveg eins og öðrum skólum í landinu í flestöllum greinum og að rekstur þessa skóla ætti líka að kostast af ríkinu, eins og aðrir skólar eru kostaðir, en ekki hin leiðin, að einstakur kaupstaður eigi að standa undir þessum skóla einum allra, það tel ég óeðlilegt og óæskilegt. Ég held því, að það ætti að breyta hér þessu ákvæði, en hins vegar skal ég fyllilega meta þann vilja, sem kemur fram hjá bæjarstjórn Vestmannaeyja í þessum efnum. Ég efast ekkert um það, að heimamenn þar eru tilbúnir að leggja talsvert á sig í þessum efnum. En ég sé enga ástæðu til þess, að þessi framhaldsskóli sé tekinn einn út úr í sambandi við skipstjórn eða sjómennsku og það eigi að kosta hann sérstaklega af sveitarfélagi, á sama tíma sem ríkið kostar hliðstæða skóla annars staðar og skóla í ýmsum öðrum greinum að öllu leyti. Það væri líka að mínum dómi fyllilega þörf á því að láta fara fram, um leið og þetta frv. væri samþ., athugun á því, hvernig betur mætti koma fyrir skipstjórnarnáminu að öðru leyti en því að setja upp þennan nýja skóla.

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun, að það ætti að vera hægt að sjá svo um, að hægt væri á þó nokkrum stöðum á landinu að halda uppi þeirri kennslu í skipstjórnarfræðum, sem samsvarar fyrri vetrar kennslunni hér í stýrimannaskólanum í Reykjavík. En það er enginn vafi á því, að ef ýmsir af hinum stærri útgerðarbæjum í landinu ættu kost á því, að þar væri haldið uppi sjómannaskóla eða námskeiðum í skipstjórnarfræðum, sem veittu þann rétt, að nemendurnir gætu eftir að hafa lokið prófi frá slíkum skólum eða námskeiðum setzt beint inn í 2. bekk stýrimannaskólans hér í Reykjavík, þá efast ég ekkert um, að það mundi greiða fyrir mjög mörgum að halda áfram þessu námi, því að það er alveg rétt, eins og flm. þessa frv. minntist hér á, að auðvitað greiðir það götu margra í sambandi við svona nám að geta stundað námið að sem mestum hluta heima hjá sér eða í námunda við sitt heimili. Sú kennsla, sem fram fer í 1. bekk stýrimannaskólans hér í Reykjavík, er ekki meiri en svo, að það ætti að vera hægt að koma henni vel fyrir í skólum allvíða á landinu. Þetta atriði tel ég að hefði átt að athuga, um leið og horfið væri nú að því ráði að koma upp sérstökum stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum.

Ég skal svo ekki við 1. umr. þessa máls ræða frekar um málið, en lýsi yfir fylgi mínu við þetta frv. Ég tel, að hér sé tekið á þörfu máli. En ég tel, að eðlilegra væri að vísa þessu máli annaðhvort til menntmn. eða sjútvn., fremur en allshn., eins og hér var gerð til l. um.